fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

41. Aðalfundur SSS 29. – 30. september 2017

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2017

41. aðalfundur S.S.S. haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Reykjanesbæ, föstudaginn 29. september og laugardaginn 30. september 2017.

Dagskrá:

Föstudagurinn 29. september 2017

Kl. 14:30 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna

Kl. 15:00 

2. Fundarsetning. – Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

4. Skýrsla stjórnar: Kolbrún Jóna Pétursdóttir formaður S.S.S.

5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2016 – Íslenskir endurskoðendur.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.

7. Umræður um skýrslur.

 Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja-Heklan

Markaðsstofa Reykjaness

8. Tillögur og ályktanir lagðar fram.

Kl. 15:50 9. Suðurnes 2040 – kynning á sviðsmyndavinnu fyrir Suðurnes – Stefán Þór Helgason KPMG.

Kl. 16:40 10. Tækifærin á Keflavíkurflugvelli – staðan í dag og horfur til framtíðar. –  Fulltrúi ISAVIA. 

Kl. 17:30 Fundi frestað.

Laugardagur 30. september 2017.

Kl.  9:30 Morgunkaffi.

Kl. 10:00 

11. Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Ávörp gesta.

• Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands ísl. sveitarfélaga.

• Ávarp frá þingmanni Suðurkjördæmis.

Kl. 10:50 12. Suðurnes í sókn – Magnús Árni Skúlason, framkvæmdastjóri Reykjavik Economics. 

Kl. 11:30 13. Innviðagreining á Suðurnesjum – Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóri Heklunnar. 

Kl. 12:00 Matarhlé

Kl. 13:00 Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Kl. 13:15 14. Hvað eru Leiguheimili? – Sigrún Ásta Magnúsdóttir, Íbúðalánasjóður.

Kl. 14:00 15. Húsnæðisáætlun Sandgerðis – Sverrir Bollason, Umhverfisverkfr.,  VSÓ.

Kl. 14:40 16. Rekstur Fasteigna Reykjanesbæjar ehf. og samspil við Almennar íbúðir – Pálmar Guðmundsson framkst. Fasteigna Reykjanesbæjar og Ásbjörn Jónsson, yfirmaður stjórnsýslusvið Reykjanesbæjar.

Kl. 15:20 Kaffihlé.

Kl. 15:40 17. Ályktanir og umræður.

Kl. 16:50 18. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Kl. 17:00 19. Kosning endurskoðendafyrirtækis.

20. Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.

Kl. 17:10 21. Ávarp Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra – Jón Gunnarsson 

Kl. 17:30 Áætluð fundarslit.

Kl. 20:00 Kvöldverður í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka í Sal Oddfellow, Grófinni 6, Reykjanesbæ 

 

1. Mál Skráning fulltrúa og afhending gagna.

Fundinn sóttu alls 35 sveitarstjórnarmenn aðal- og varamenn.

Reykjanesbær 12 fulltrúar
Sandgerðir 7 fulltrúar
Vogar 6 fulltrúar
Grindavík 5 fulltrúar
Garður 5 fulltrúar

Gestir og frummælendur á fundinum voru:

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæ, Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri Sandgerði, Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Garði, Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavík og Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Vogum.

Jón Gunnarsson, ráðherra, Ásmundur Friðriksson, Alþingi, Unnur Brá Konráðsdóttir, Alþingi,  Silja Dögg Gunnarsdóttir, Alþingi, Oddný G. Harðardóttir, Alþingi, Guðni Þ. Gunnarsson, Íslenskir endurskoðendur, Stefán Þór Helgason, KPMG, Guðný M. Jóhannsdóttir, ISAVIA, Jón Guðlaugsson, Brunavarnir Suðurnesja, Ásbjörn Jónsson, Stjórnsýslusvið Reykjanesbæjar, Guðjón Bragason, Samband íslenskra sveitarfélaga, Magnús Árni Skúlason, Reykjavík Economics, Guðlaugur Sigurjónsson, Umhverfissvið Reykjanesbæjar, Pálmar Guðmundsson, Fasteignir Reykjanesbæjar, Sigrún Ásta Magnúsdóttir, Íbúðalánasjóður, Sverrir Bollason, VSÓ Ráðgjöf, Páll Ketilsson, Víkurfréttir.

2. Mál Fundarsetning – Tónlistaratriði frá Tónlistaskóla Reykjanesbæjar.

Kolbrún Jón Pétursdóttir formaður stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til Reykjanesbæjar.
 

3. Mál Kosning fundarstjóra og fundarritara.

Formaður gerði tillögu að fundarstjórum, þeim Friðjóni Einarssyni og Kristni Jakobssyni. Voru þeir samþykktir. Formaður gerði tillögu að fundarriturum þeim Elínu Rós Bjarnadóttur, Gunnari Þórarinssyni og Guðbrandi Einarssyni. Voru þau samþykkt.

Kristinn Jakobsson tók við stjórn fundarins.
 

4. Mál Skýrsla stjórnar.

Kolbrún Jóna Pétursdóttir formaður S.S.S. flytur skýrsluna.

Kæru fundarmenn og gestir.

Mig langar að bjóða ykkur velkomin til Reykjanesbæjar á þennan 41. aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Við erum svo heppin að geta fundað hér á sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem er ein af þeim stofnunum á Suðurnesjum sem sameinar okkur Suðurnesjamenn.

Stjórnin hélt 12 reglulega stjórnarfundi á starfsárinu. Vetrarfundur sambandsins var haldinn í lok mars í Bergi Hljómahöll og var áhersla fundarins á ferðamál og ferðaþjónustu sem er í örum vexti á Suðurnesjum.

Þrátt fyrir miklar umræður á síðustu tveimur aðalfundum, um sameiningarmál og tilgang Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur samstarfið gengið vel eins og áður, svo vel, að nú fer að koma að því að kosið verði um hvort af sameiningu Garðs og Sandgerðis verði. Það er ekki laust við að niðurstaðan úr þeirri kosningu sé meira spennandi en úr komandi alþingiskosningum.

Stjórnin fundaði með Öldungaráði Suðurnesja og lagði öldungaráðið áherslu m.a á að stytta biðlista eftir hjúkrunarrýmum, og formlegri samþættingu á heimahjúkrun og félagslegri þjónustu.  Öldungaráð ræddi einnig læknaskort á Suðurnesjum og þjónustustig Heilsugæslu Suðurnesja.  

Málefni Heilsugæslustöðvar Suðurnesja hafa verið ofarlega í umræðunni hér á svæðinu, undanfarin ár. Í vor gaf Landlæknisembættið út skýrslu um mat á gæðum og þjónustu heilsugæslustöðvarinnar og var niðurstaðan sú að ýmislegt mætti betur fara í starfseminni. Í kjölfarið fundaði stjórnin með fyrrverandi heilbrigðisráðherra þar sem farið var yfir málin. Við ræddum m.a. aukið álag á HSS, vegna aldurssamsetningu íbúa svæðisins og fjölda ferðamanna, en ekki er gert ráð fyrir þeim í fjárframlögum til stofnunarinnar  Alls er gert ráð fyrir 17,1 stöðugildi lækna á HSS en einungis 12 þeirra eru mönnuð í dag. Stjórnin vakti einnig athygli á því húsakostur HSS uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru til stofnunnar af þessu tagi og ástand tækjabúnaðar væri ekki gott. Ráðherra upplýsti okkur um þá vinnu sem ráðuneytið stýrir til að auka þjónustu og hagkvæmni í rekstri heilsugæslustöðva.

Samningur um Sóknaráætlun á Suðurnesjum er í gildi til ársins 2019. SSS gerði þann samning  við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Í honum felst að nú er menningar-, atvinnu- og nýsköpun á Suðurnesjum styrkt úr Uppbyggingarsjóði. Á árinu 2017 voru 28 verkefni styrkt um samtals 43.6 milljónir. Úthlutunarferlið er faglegt og eru starfsmenn Sóknaráætlunar/Uppbyggingarsjóðs að skila afar góðri vinnu.

Í gær tók Kjartan Már Kjartansson bæjarstóri Reykjanesbæjar og formaður stjórnar Reykjanes UNESCO Global Geopark við viðurkenningu fyrir hönd Reykjanes Geopark. Reykjanesskaginn hefur verið valinn sem einn af 100 sjálfbærustu áfangastöðum í heimi af alþjóðlegu samtökunum Grein Destinations. Markmið samtakanna með útnefningu þessara 100 staða er að vekja athygli á árangursríkum aðferðum við stjórnun áfangastaða. Nú er að skila sér sú mikla vinna sem aðilar á einu fallegasta svæði á landinu hafa lagt í stefnumótun og uppbyggingu. Reykjanes er komið á kortið!

Það hefur verið ánægjulegt að sitja í formannsstóli SSS s.l. ár. Landshlutasamtökin funda reglulega og á þeim vettvangi hef ég fengið að kynnast fleirum í mínum sporum, ásamt því að fá að sitja fundi í sveitarstjórnarvettvangi EES/EFTA. Sveitarstjórnarvettvangurinn fundaði í Brussel í nóvember sl. og í Noregi í júní. Á þeim fundum var ályktað um nýja áætlun ESB sem hefur það að markmiði að auka færni og efla mannauðinn í Evrópu en um 70 milljónir Evrópubúa eru til að mynda, illa læsir og skrifandi og enn fleiri skortir færni á sviði upplýsingatækni og tölulæsi.  Þar sem sveitarfélögin gegna lykilhlutverki þegar kemur að menntakerfinu telur sveitarstjórnarvettvangur EES ástæðu til að árétta mikilvægi þess að efla færni allra, einnig innflytjenda frá löndum utan Evrópu. Á báðum fundunum var umræða um Brexit og áhrif þess á sveitarfélög í Bretlandi. Um 400 ákvarðanir og reglugerðir hafa áhrif á sveitarfélög og hafa ensk sveitarfélög áhyggjur af framhaldinu þegar Evrópustyrkja nýtur ekki lengur við. Á fundinum í Noregi var helst rætt um deilihagkerfið, en deilihagkerfið hefur í raun umbylt hefðbundnum viðskiptaaðferðum sérstaklega í ferðaþjónustu. Snertir það marga fleti og tengist verulega sveitarfélögunum þar sem ýmis leyfi og eftirlit eru á forræði þeirra.

Áhrif ESB eru líklega miklu meiri á sveitarstjórnarmál á Íslandi en menn gerðu ráð fyrir þegar sveitarstjórnarvettvangurinn var stofnaður fyrir innan við tíu árum síðan. Ég vona að þessu samstarfi verði haldið áfram og jafnvel tekið á næsta stig svo við getum tengst EES samstarfinu enn betur og með formlegri hætti en nú er.

Mig langar að þakka strákunum í stjórninni  og varamönnum fyrir ánægjulegt samstarf á liðnu ári, starfsmönnum samanrekinna stofnanna SSS, starfsmönnum SSS en þó sérstaklega framkvæmdastjóra fyrir gott og ljúft samstarf.

Fólksfjölgun er hvergi hraðari en á Suðurnesjum og á morgun munum fá áhugaverð erindi um húsnæðismál og greiningu á innviðum á Suðurnesjum, mál sem brenna á okkur Suðurnesjabúum í slíku árferði. Það er magnað að fylgjast með mannlífinu lifna við hér. Það eru hinsvegar fjárframlög ríkisins sem valda okkur heilabrotum. Það virðist hvorki duga Suðurnesjamönnum að vera á toppnum eða á botninum í efnislegri velmegun þegar kemur að fjárframlögum ríkisins til Suðurnesja. Í fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram á nýloknu þingi er sama hvar borið er niður, í öllum ráðuneytum eru framlög til okkar margfalt lægri á íbúa en í öllum öðrum kjördæmum. Svona hefur þetta verið um árabil og engin skýring fæst á. Þessu verðum við að fá breytt.  Takk fyrir mig

5. Mál Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2016

Guðni Þ. Gunnarsson fór yfir ársreikning Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir árið 2016.

6. Mál Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning. Enginn óskaði eftir að taka til máls.

Fundarstjóri bar upp ársreikning S.S.S. og var hann samþykktur samhljóða.

7. Umræður um skýrslur

 • Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja – Heklan
 • Markaðsstofa Reykjaness

Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslurnar. Enginn óskaði eftir að taka til máls.

8. Mál Tillögur og ályktanir lagðar fram.

Fundarstjórar lögðu fram þrjár ályktanir stjórnar og ályktun bæjarfulltrúa.

Fram kom tillaga um breytingu á ályktun um samgöngumál sem Ingþór Guðmundsson lagði fram. Fram kom tillaga um breytingu á ályktun um heilbrigðismál sem Guðbrandur Einarsson lagði fram. Umræður um ályktanir fara fram á morgun.  

9. Mál Suðurnes 2040 – kynning á sviðsmyndavinnu fyrir Suðurnes – Stefán Þór Helgason KPMG.

Hvernig verður dagurinn á morgun og hvernig verður næsta vika. Þannig hóf Stefán kynningu sína, á spurningum um framtíðina. Það er margt sem getur breyst á stuttum tíma en hvernig verður árið 2040. Hvernig mun sjávarútvegurinn þróast á þessum tíma. Hvernig erum við búin undir stórgos. Hvað með rafmagn, hvað ef eitthvað kemur uppá.  Sviðsmyndir er gagnlegt tæki.  Þannig verða sviðsmyndirnar til og aðgerðaráætlunum um hverja sviðsmynd. Að lokum lýsti Stefán verkefninu sem hófst með viðtölum, síðan er gert ráð fyrir netkönnun, fundum, sviðsmyndaverkstæði, samantekt og kynning, þannig lýsti hann verkferlinum.

10. Mál Tækifærin á Keflavíkurflugvelli – staðan í dag og horfur til framtíðar. Guðný María Jóhannsdóttir, ISAVIA.

Hún fór yfir stöðuna í dag í fluginu og þau gífurleg tækifæri sem felast í þeim flugtengingum sem til staðar eru. Einnig ræddi hún um flugfraktina, þar sem klárlega liggja tækifæri. Hún sýndi myndir af flugi innan dagsins í sumaráætlun og þróun heilsárs flugfélaga. Hún ræddi um efnahagslegan ábata m.a. af öðrum þáttum en fluginu. Hún talaði um samfélagslega ábyrgð á flugvellinum í umhverfismálum, samfélagsmálum og að rík áhersla væri lögð á umhverfismál í flugstöðinni. Hún vék síðan að framtíðinni og ræddi byggingaframkvæmdir, skipulag og farþegaspá til 2040. Hún talaði um Airport city og sýndi myndband um þá framtíðarsýn sem er í takt við master planið sem hefur verið kynnt. Útfrá master planinu fór hún yfir framtíðarbyggingar, flugstæði og flugbrautir framtíðar. Hún talaði um verðmæti starfa sem skapast á Keflavíkurflugvelli og sagði að bein störf á Keflavíkurflugvelli árið 2016 hefðu verið um 6.300.

Að lokum talaði Guðný María um samstarf sveitarfélaga og atvinnulífsins og taldi að það þyrfti að vinna þéttar saman.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tók Silja Dögg Gunnarsdóttir, Elín Rós Bjarnadóttir, Gunnar Þórarinsson, Kjartan Már Kjartansson og Kristinn Þór Jakobsson.

Fundi frestað kl. 17.40.

_______

Laugardagur 30. september.

Friðjón Einarsson tók við fundarstjórn.

Tónlistaratriði frá Tónlistaskóla Reykjanesbæjar.

11. Mál Ávörp gesta

Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hann talaði um samskipti sambandsins við nýja þingmenn. Hann fór yfir árangur í hagsmunagæslu hvað varðar halla sveitarfélaga og málefni aldraðra. Hann benti á að afkoma sveitarfélaga á síðasta ári hefur batnað og eru sveitarfélög komin á góðan stað. Hann fjallaði um nýjar kröfur um persónuvernd. Ný löggjöf hefur enn ekki verið innleidd á Íslandi en felur í sér miklar breytingar og getur haft kostnaðaráhrif þegar hún verður innleidd.

Annað mál sem hann telur að sveitarfélögin þurfa að vinna betur í eru innkaupmál. Einnig talaði Guðjón um kjaramál m.a. kennara,  greiningu á framkvæmd breytinga á vinnuumhverfi grunnskólakennara. Einnig kom fram að starfsmatskerfið vex og dafnar, eftir breytingar sem gerðar voru.

Hann vék að Grábók sem varðar velferðarmál. Hann vék að ferðaþjónustunni og aðkomu sveitarfélaganna að þeim málaflokki. Hvatti til að sótt væri í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.  Breytingar hafa verið gerðar á lögum  sem heimila gjaldtöku á bílastæðum utan þéttbýlis. Hann talaði um húsnæðismálin, húsnæðisskort um allt land. Verkefnin eru mikil á þessu sviði sagði Guðjón og vonar að sveitarfélögin séu komin vel af stað í gerð húsnæðisáætlunar. Byggðamál og sóknaráætlanir, unnið er að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir 2017-2023. Það þarf að efla Sóknaráætlanir, reynslan af þeim hefur verið góð. Að lokum talaði hann um eflingu sveitarstjórnarstigsins, niðurstöðu nefndar og tillögur sem nefndin lagði fram m.a. að það þurfi að markað stefnu í þeim málum til næstu 20 ára. Að lokum ræddi hann um sveitarstjórnarkosningar og kjörsókn. Kosningarþátttaka hefur lækkað að undanförnu, sérstaklega í yngri kjósendahópum.

Ávarp þingmanns Suðurkjördæmis Ásundar Friðrikssonar.

Hann skilaði kveðjum frá þingmönnum sem eru uppteknir við störf annars staðar og gátu því ekki verið á fundinum.  Hann talaði um stöðu Suðurnesja gagnvart ríkinu og sagði að lítið  hafi gerst að bæta stöðu Suðurnesja gagnvart öðrum sveitarfélögum. Hann taldi mjög erfitt að breyta þessu misræmi en þingmenn og sveitarstjórnamenn þurfa að taka höndum saman um það mál. Hann telur að hér sé verið að gera marga góða hluti og talaði um nauðsyn þess að standa saman um öll mál. Ef sveitarfélög hér á Suðurnesjum forgangsröðuðu málefnum væri það auðveldara fyrir þingmenn að vinna fyrir svæðið og greiða fyrir því að hrinda málum í framkvæmd, sagði Ásmundur. Hann fagnaði umræðu um sameiningu sveitarfélaga og fyrirhugaðri sameiningarkosningu á Suðurnesjum. Hann vék  að vegamálum og þeim fjármunum sem vantar í samgöngukerfið á Íslandi. Hann ræddi einnig gjaldtöku og hvernig ætti að haga fjármögnun til framtíðar.  Að lokum talaði hann um tækifæri á Suðurnesjum í atvinnusköpun til framtíðar.

12. Mál Suðurnes í sókn – Magnús Árni Skúlason, framkvæmdastjóri Reykjavík Economics.

Hann talaði um endurreisn íbúðarmarkaðarins á Suðurnesjum, fólksfjölgun og aðflutning fólks sem skapar náttúrlega eftirspurn eftir húsnæði. Í dag er staðan sú að fleiri flytja til landsins en frá því. Hann talaði um stóran hóp ungs fólks sem er á leið inn á markaðinn á Suðurnesjum og telur það áskorun fyrir svæðið að skoða þarfir þessa hóps. Hann fór yfir hækkun á húsnæðisverði á fyrsta ársfjórðungi 2016 til fjóra ársfjórðungs 2017 á Suðurnesjum. Að lokum fór hann yfir leiguverð – fermetraverð í Reykjanesbæ og annars staðar á landinu. Skýrslan er í heild sinni á vef Íslandsbanka.

https://www.islandsbanki.is/library/Skrar/Greining/Skyrslur/Skyrslan_ISB_Sudurnes_2017.pdf

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku Oddný Harðardóttir, alþingismaður og Friðjón Einarsson.

13. Mál Innviðagreining á Suðurnesjum – Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóri Heklunnar.

Innviðagreining er eitt að verkefnum Sóknaráætlunar Suðurnesja og er unnin af Heklunni. Ætlunin er að uppfæra innviðagreininguna einu sinni á ári og er hægt að nálgast hana á vef Heklunnar. http://heklan.is/verkefni/atvinnuthroun/rannsoknir-og-greining/

Fundarstjóri bað bæjarstjóra sveitarfélaganna á Suðurnesjum að koma upp á svið. Kjartan Már Kjartansson sagði frá ferð sinni til Portúgals þar sem hann tók við viðkenningu sem hann var með,  en Reykjanesskaginn hefur verið valinn einn af hundrað sjálfbærustu áfangastöðum heims af Green Destinations. 

Matarhlé

Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

14. Mál Hvað er Leiguheimili – Sigrún Ásta Magnúsdóttir, Íbúðalánasjóður.

Hennar verkefni hjá Íbúðalánasjóði er að úthluta stofnframlögum til uppbyggingar á leiguheimilum. Leiguheimili er nýtt kerfi byggt á norrænni fyrirmynd. Þau tryggja húsnæðisöryggi fólks með lágar- og meðaltekjur. Leiguheimilin munu eingöngu vera byggð af félögum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Gerð var könnun fyrr á þessu ári og þá kom í ljós að hlutfall íbúa á leigumarkaði er að aukast. Sveitarfélög og þeir sem uppfylla skilyrði Íbúðar-lánasjóðs geta sótt um stofnstyrki til byggingar Leiguheimila. Einnig þurfa húsnæðisáætlanir sveitarfélaga að liggja til grundvallar. Húsnæðissjálfseignastofnanir hafa það að markmiði að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetur leigjenda og ekki rekið í hagnaðarskyni. Búið er að gefa út að áætlað er að byggja 3.200 Leiguheimili á næstu fimm árum. Gert er ráð fyrir að 80-90 milljarðar fara í framkvæmdina á sama tíma. Leiguheimili skipta gríðarlega miklu fyrir þá hópa sem upplifa sig ekki í öruggu leiguhúsnæði. Þessi leið á að tryggja viðkvæmum hópum aðgang að öruggu leiguhúsnæði.

Fundarstjóri gaf orðið laust.  Til máls tók Guðmundur Pálsson, Ásgeir Eiríksson, Fríða Stefánsdóttir, Kjartan Már Kjartansson, Guðbrandur Einarsson, Kristín María Birgisdóttir, Sigrún Árnadóttir og Áshildur Linnet.

15. Mál Húsnæðisáætlun Sandgerðis – Sverrir Bollason, skipulagsverkfræðingur, VSÓ.

Húsnæðisáætlun á að endurspegla aðalskipulagið og öfugt. Húsnæðisáætlun á að segja til um húsnæðisþörf til framtíðar. Húsnæðisáætlun á að greina framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörfinni til skemmri og lengri tíma. Hann talaði um líkan sem unnið er eftir til að meta húsnæðisþörf og fór yfir þá þætti sem skoða þarf þegar húsnæðisþörf er metinn. Gerðar er áætlanir sem gilda til fjögurra og átta ára.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tók Guðbrandur Einarsson, Kjartan Már Kjartansson og Kristín María Birgisdóttir.

16. Mál Rekstur fasteigna Reykjanesbæjar ehf. og samspil við Almennar íbúðir. Pálmar Guðmundsson framkvæmdastjóri Fasteigna og Ásbjörn Jónsson yfirmaður stjórnsýslusviðs Reykjanesbæjar

Pálmar sagði m.a. að fasteignir Reykjanesbæjar ehf. væri alfarið í eigu Reykjanesbæjar sem á og rekur 240 íbúðir, þar af búseturéttaríbúðir alls 39. Biðlistinn eftir íbúðum sýnir að mesta eftirspurn er eftir einstaklingsíbúðum. Meðalleiga á árinu 2016 var kr. 1.070 á fermetra. Hann sagði frá breyttum áherslum í rekstri og hækkun á leigugjaldi og það samræmt, tekið í tveimur  þrepum. Hann kom síðan að markmiðum félagins, sem eru til þess gerð að bæta húsnæðiskerfið og stuðlað að húsnæðisöryggi.

Ásbjörn fór yfir lögin varðandi húsnæðismálin og ný lög um Almennar íbúðir. Hann sagði frá því að Húsnæðissjálfseignastofnun Almennar íbúðir, hafi verið stofnað af sveitarfélaginu í lok síðasta árs, jafnframt voru settar reglur um stofnframlög.

Fundarstjóri gaf orðið laust, enginn óskaði eftir að taka til máls.

17. Mál Ályktanir og umræður

Ályktanir um tekjustofna sveitarfélaga.

Lögð fram á 41. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 29.-30. september 2017 skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofunum sveitarfélaganna til að tryggja að þeir séu í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögum er falin og þeim ber að uppfylla samkvæmt lögum.  Útgjöld sveitarfélaganna hafa vaxið og verkefnum þeirra fjölgað án þess að tekjuliðir hafi fylgt þeirri þróun.  Afar mikilvægt er að sveitarfélögin fái aukna hlutdeild í heildarskatttekjum.  Ferðaþjónustan hefur skapað tekjur í heimabyggð en einnig kallað á aukin útgjöld, bæði við ferðamannastaði sem og við ýmsa innviði samfélagsins.  Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir árin 2014-2018 kemur fram að sveitarfélögum skuli tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar í samræmi við þau verkefni sem þeim eru falin. Þeir skulu vera nægjanlega fjölþættir og sveigjanlegir í eðli sínu svo þeir geti staðið undir þeirri fjölbreyttu þjónustu sem íbúar þeirra kalla eftir.

Auka þarf einnig framlög til Markaðsstofa landshlutanna svo þær geti brugðist við fjölgun verkefna.  Eins og staðan er í dag dugir styrkur Ferðamálastofu ekki nema fyrir 25-50% af rekstri landshlutamiðstöðvanna. 

Fundarstjóri gaf orðið laust, enginn óskaði eftir að taka til máls. Fundarstjóri bar ályktunina upp og var hún samþykkt.

Ályktun um menntamál

Lögð fram á 41. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 29.-30. september 2017 harmar viðvarandi skekkju á fjárframlögum til ríkisstofnanna á Suðurnesjum. Þetta birtist ekki síst í stofnanir. Þannig eru framlög til Fjölbrautaskóla Suðunesja 1.436 þúsund krónur á hvern nemanda í fjárlagafrumvarpi ársins 2018 á meðan sambærilegir framhaldsskólar annars staðar á landsbyggðinni fá að jafnaði um 1.761 þúsund á hvern nemanda. Þetta er óásættanleg mismunun sem er erfitt að skilja.

Þá er áhyggjuefni að framlög til þekkingarsetra og símenntunar eru langlægst á Suðurnesjum auk þess sem áætluð fjárframlög til Keilis setja rekstur skólans enn einu sinni í uppnám þrátt fyrir fyrirheit af hálfu ríkisins um annað.

Fjölgun íbúa á Suðurnesjum er meiri heldur en á öðrum landsvæðum og honum fylgja mörg krefjandi verkefni sem kalla á að menntastofnanir geti sinnt hlutverki sínu. Því skorar aðalfundurinn á ríkisvaldið og þingmenn Suðurkjördæmis að tryggja að menntastofnanir á Suðurnesjum sitji við sama borð og stofnanir á öðrum landsvæðum þegar kemur að framlögum úr ríkissjóði.

Böðvar Jónsson

Kristín María Birgisdóttir

Ólafur Þór Ólafsson
 

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku Fríða Stefánsdóttir, Kjartan Már Kjartansson og Ólafur Þór Ólafsson

Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða.

Ályktun um heilbrigðismál

Lögð fram á 41. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 29.-30. september 2017 skorar á Heilbrigðisráðherra að auka fjármuni til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, sérstaklega til heilsugæslusviðs.  Biðtími eftir tíma hjá lækni getur verið allt að tvær vikur sem getur ekki talist ásættanlegt.  Fram kemur í úttekt á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunnar Suðurnesja sem gerð var af Embætti Landlæknis í maí s.l. að mönnun lækna og hjúkrunarfræðinga sé ónóg og lítið megi bera út af svo að öryggi sé hugsanlega ógnað vegna ófullnægjandi mönnunar.  Auk þess að heilsugæslan sé augljóslega undirmönnuð af fagfólki, sérstaklega sé ástandið slæmt í geðteymi og meðferðarteymi barna.

Jafnframt kemur fram að húsnæði Heilsugæslunnar í Reykjanesbæ sé barn síns tíma og uppfylli ekki nútímakröfur sem gerðar eru til húsnæðis heilsugæslustöðva.  Mikilvægt er að húsnæðið verði lagað og uppfylli kröfur sem gerðar eru til þess.  Þá hlýtur það að teljast einsdæmi á landsvísu að engin heilsugæsla sé í Garði og Sandgerði sem samtals telja á fjórða þúsund íbúa.  Þessu þarf að breyta sem fyrst. 

Fundurinn gerir kröfu um uppbyggingu hjúkrunarrýma á Suðurnesjum.

Það er í hæsta máta óeðlilegt að Suðurnesin sem greitt hafa 1,2 milljarða í Framkvæmdasjóð aldraðra frá árinu 2008 skuli einungis hafa fengið 379,9 milljónir úr sjóðnum eða sem nemur 31% af inngreiðslum í sjóðinn.

Sé gengið út frá forsendum miðspár Hagstofu Íslands um fjölgun aldraðra til ársins 2025 má búast við að öldruðum íbúum á Suðurnesjum fjölgi um 857 á næstu 10 árum og 1708 á næstu 20 árum.  Sé stuðst við reiknireglu ráðuneytisins þyrftu að vera 182 hjúkrunarrými á Suðurnesjum árið 2025 og 267 rými árið 2035.  Í dag eru aðeins 118 skilgreind hjúkrunarrými á Suðurnesjum.

Þessi staða er með öllu óásættanleg fyrir íbúa Suðurnesja og gerir aðalfundurinn því þá kröfu til stjórnvalda að þau standi með sveitarfélögunum á Suðurnesjum í þeirri viðleitni að byggja upp hjúkrunarþjónustu við aldraða sem uppfyllir þörf, mæti nútíma- og framtíðarþörfum í málaflokknum og standist samanburð við önnur heilbrigðisumdæmi landsins.  Fundurinn skorar því á Velferðarráðherra að beita sér fyrir bragarbót í öldrunarþjónustu á Suðurnesjum þar sem ríki og sveitarfélögin verði leiðandi í nýrri nálgun í heildrænni þjónustu við aldraða.

Breytingartillögur komu frá Guðbrandi Einarssyni og Ólafi Þór Ólafssyni.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku, Ólafur Þór Ólafsson, Einar Jón Pálsson og Böðvar Jónsson.

Fundarstjóri bar upp tillöguna svo breytta og var hún samþykkt.

Ályktun um samgöngumál.

Lögð fram á 41. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 29.-30. september 2017 leggur áherslu á að ráðist verði í nauðsynlegar samgönguframkvæmdir á Suðurnesjum og felur stjórn Sambandsins að funda með nýjum ráðherra samgöngumála við fyrsta mögulega tækifæri til að fara yfir áhersluatriði Suðurnesjamanna í samgöngumálum. Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum er sammála um að leggja áherslu á eftirfarandi verkefni:

 • Ljúka þarf tvöföldun vestanverðrar Reykjanesbrautar að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og huga að öryggi vegtenginga að nærliggjandi bæjarfélögum.
 • Tryggja þarf öryggi á Grindavíkurvegi með því að hefja undirbúning sem fyrst að lagningu „2+1“ vegar frá Reykjanesbraut að þéttbýlinu í Grindavík.
 • Nauðsynlegt er að ráðast í löngu tímabærar viðhaldsframkvæmdir á þjóðvegunum bæði að Garði og Sandgerði auk þess sem breikka þarf veginn á milli bæjanna.
 •  Sveitarfélögin, Vegagerðin og ISAVIA þurfa að vinna saman að því að auka möguleika fólks til að ferðast fótgangandi og á hjólum á Suðurnesjum með uppbyggingu stígakerfis bæði á milli byggðarkjarna og að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
 • Halda þarf áfram að vinna markvisst að sjóvörnum með strönd sveitarfélaganna á Suðurnesjum til að verjast landbroti af völdum ágangs sjávar.
 • Tryggja þarf að stuðningur ríkisins til uppbyggingar hafna sé í samræmi við samþykkt Svæðisskipulag Suðurnesja þannig að hægt sé að halda áfram með uppbyggingu stórskipahafnar í Helguvík og tryggja stöðu Grindavíkurhafnar og Sandgerðishafnar sem fiskihafna.
 • Auka þarf framlög til vetrarþjónustu á þjóðvegum á Suðurnesjum þannig að hún sé í samræmi við verklagsreglur Vegagerðarinnar um aukna umferð.
 • Mikilvægt er að landshlutasamtök fái nægt fjármagn til að hægt sé að reka almenningssamgöngur án halla enda eru þær grundvöllur fyrir því að Suðurnesin geti talist eitt atvinnusvæði og fólk komist til og frá vinnu á stærstu vinnustöðum svæðisins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og í Bláa lóninu.
 • Stærsta og mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar er alþjóðlegur flugvöllur á Miðnesheiði og tryggja þarf að starfsemi og nauðsynleg uppbygging þar geti verið í samræmi við þarfir íslensks samfélags.
 • Hugmyndir um nýjan innanlandsflugvöll í Hvassahrauni hafa verið settar fram án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við sveitarfélög eða aðra aðila á Suðurnesjum.  Þau vinnubrögð eru harðlega gagnrýnd og er gerð krafa um að Suðurnesjamenn fái aðkomu að vinnu við að skoða framtíð flugsamgangna á SV-horninu.
 • Þá er einnig mikilvægt að samfélagslegir hagsmunir sem og umhverfishagsmunir séu skoðaðir og metnir og málið sé skoðað frá öllum hliðum áður en ákvörðun um framtíðarstæði nýs flugvallar verði tekin ef til þess kemur.
   

Breytingartillaga lögð fram frá bæjarfulltrúum Sveitarfélagsins Voga. 

Fundurinn leggst alfarið gegn hugmyndum um vegtolla til að fjármagna vegaframkvæmdir og mismuna þannig íbúum landsins með sérstakri skattheimtu eftir búsetu.

Fundurinn leggur til að kostir og gallar flugvallar í Hvassahrauni verði skoðaðir til hlítar. Mikilvægt er að tryggja að annar flugvöllur sé í nánd við Keflavíkurflugvöll, þ.e. á suðvestur- horninu ef Reykjavíkurflugvöllur verður ekki framtíðarkostur. Slíkur flugvöllur mundi þjóna margþættum tilgangi, s.s. innanlandsflugi, æfinga- og kennsluflugi, sjúkraflugi o.fl. Einnig að mikilvægi slíks flugvallar sé skoðað út frá hlutverki varaflugvallar enda sýna tölur að spara  má mikla fjármuni sem og takmarka umhverfisáhrif með staðsetningu slíks flugvallar í nær umhverfinu líkt og Reykjavíkurflugvöllur þjónar í dag. Einnig að samfélagslegir hagsmunir sem og umhverfishagsmunir séu skoðaðir og metnir. Mikilvægt sé að málið sé skoðað frá öllum hliðum áður en ákvörðun um framtíðarstæði nýs flugvallar verður tekinn ef til þess kemur.

Breytingartillaga lögð fram frá Einari Jóni Pálssyni.

Hugmyndir um nýjan innanlandsflugvöll í Hvassahrauni hafa verið settar fram án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við sveitarfélög eða aðra aðila á Suðurnesjum.  Þau vinnubrögð eru harðlega gagnrýnd og er gerð krafa um að Suðurnesjamenn fái aðkomu að vinnu við að skoða framtíð flugsamgangna á SV-horninu.

Þá er einnig mikilvægt að samfélagslegir hagsmunir sem og umhverfishagsmunir séu skoðaðir og metnir og málið sé skoðað frá öllum hliðum áður en ákvörðun um framtíðarstæði nýs flugvallar verði tekin ef til þess kemur.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku, Áshildur Linnet, Guðbrandur Einarsson, Guðmundur Pálsson, Einar Jón Pálsson, Kristín María Birgisdóttir, Böðvar Jónsson og Ísak Kristinsson.

Fundarstjóri bar upp breytingartillögu Einars Jóns Pálssonar. Var hún samþykkt. Þar með var tillaga sveitarfélagins Voga um nýjan innanlandsflugvöll fallin.

Fundarstjóri bar upp breytingartillögu sveitarfélagsins Voga um vegatolla. Hún var felld.

Fundarstjóri bar upp ályktunina með áorðnum breytingum og var hún samþykkt.
 

18.  Mál Ávarp samgöngu og sveitarstjórnarráðherra.

Jón Gunnarsson.

Hann sagði að það væri mikill kraftur og bjartsýni um allt land og alls staðar væri komið að því að byggja nýtt húsnæði. Enda uppbygging víða og og skortur á húsnæði.  Til að skapa ný tækifæri þarf að byggja upp innviði í fjarskiptamálum, samgöngumálum og raforkumálum. Náðst hefur ótrúlega góður árangur í uppbyggingu samgöngumála fyrir fámenna þjóð. Samkvæmt Fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 er heildarframlag til samgöngumála 34,3 ma.kr.  Um 4,5 ma.kr. hækkun frá árinu áður.  Það eru vissulega talsverðir fjármunir sagði ráðherra,  en það þarf að ráðast í stórátak því verkefnið er risavaxið. Tæplega 60 ma.kr. Þarf til að klára tillögu starfshóps um vegaframkvæmdir. Tillagan er að framkvæmdatími sé 8 ár og framkvæmdakostnaður greiddur á 20 árum. Verkefni af þessari stærðargráðu verður ekki unnið án sérstakrar fjármögnunar.

Ráðherrann sagði að á Suðurnesjum er vinna við endurbætur á Grindavíkurvegi hjá Vegagerðinni og að tvöföldun Reykjanesbrautar, lokaáfangi væri í hönnun.

Þá ræddi hann innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli og hugmyndir um að flytja Reykjavíkurflugvöll. Skýrsla sem ráðuneytið lét gera sýnir að það þurfa að vera tveir flugvellir á suðvesturhorninu, sem kemur til m.a. vegna öryggismála.

Síðan ræddi hann raforkumál sem þurfa að vera í lagi svo þau standi ekki í vegi fyrir þróun í atvinnumálum. Ótrygg raforka og dreifing hamlar uppbyggingu um allt land. Hann ræddi um byggðamál, um hækkaðar fjárveitingar til byggðamála og um áherslu á að styrkja hlut sóknaráætlana landshluta. Einnig er unnið að stefnumótandi byggðaáætlun 2018 til 2024.   Það eru áhugaverðir tíma í sveitarstjórnarmálum og í ráðuneytinu er áhugi fyrir frekari sameiningum, sagði ráðherra.  Það þarf að greiða fyrir því að kerfið verði ekki þröskuldur fyrir frekari sameiningar og stöðvi framþróun í málaflokknum. Í öllum landshlutum eru menn að tala saman um sameiningar.

Að lokum þakkaði ráðherra fyrir tækifærið til að ávarpa fundinn.

19.   Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær:

Aðalmaður: Kolbrún Jóna Pétursdóttir
Varamaður: Guðbrandur Einarsson

Grindavíkurbær:

Aðalmaður: Guðmundur Pálsson
Varamaður: Hjálmar Hallgrímsson

Sandgerðisbær:

Aðalmaður: Ólafur Þór Ólafsson
Varamaður: Hólmfríður Skarphéðinsdóttir

Sveitarfélagið Garður:

Aðalmaður: Einar Jón Pálsson
Varamaður: Jónína Magnúsdóttir

Sveitarfélagið Vogar:

Aðalmaður: Ingþór Guðmundsson
Varamaður: Birgir Örn Ólafsson

20. Mál Kosning endurskoðendafyrirtækis.

Samkvæmt útboði sem gert var árið 2015 var endurskoðun bókhalds Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum boðin út til 5 ára..
Lægstbjóðandi var Íslenskir endurskoðendur og er því lagt til að Íslenskir endurskoðendur verði kjörið endurskoðunarfyrirtæki Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Samþykkt samhljóða.
 

21. Mál Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.

Lagt er til að þóknun til stjórnarmanna S.S.S. verði sem hér segir;

Formaður stjórnar 4,5% af þingfarakaupi eða Kr. 49.554,- fyrir hvern fund.

Aðrir stjórnarmenn 3% af þingfarakaupi eða kr. 33.036,- fyrir hvern fund.

Samþykkt samhljóða

Formaður stjórnar S.S.S. Kolbrún Jóna Pétursdóttir,  þakkaði fundarmönnum og gestum fyrir góðan fund og sleit fundi kl. 17.50.

Björk Guðjónsdóttir, fundarritari.