fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

568. fundur SSS 27. febrúar 2007

 Árið 2007, er fundur haldinn í  stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum þriðjudaginn 27. febrúar kl. 08.15 á Fitjum.

Mætt eru:  Steinþór Jónsson, Óskar Gunnarsson, Oddný Harðardóttir, Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, Birgir Örn Ólafsson, Guðjón Guðmundsson og Jóhanna M. Einarsdóttir
fundarritari.

Dagskrá:

1.     Undirbúningur menningarsamnings við menntamálaráðuneytið.  Sveitarfélögin tilnefni fulltrúa í samstarfshóp, 3 fulltrúar komi frá hverju sveitarfélagi.

2. Bréf dags. 21/02 ´07 frá Samgöngunefnd Alþingis ásamt þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2007 -2018, 575. mál.

Stjórn SSS ítrekar forgangsröðun verkefna skv. áfangaskýrslu samgöngunefndar SSS frá nóvember 2005 sem unnin var sem heildarstefnumótun allra sveitarfélaga á Suðurnesjum m.a. að undirlagi þingmanna kjördæmisins.

1. Suðurstrandarvegur.  Mikilvægt er að tryggja fjármagn á framkvæmdinni alla leið og kalla eftir loforðum Alþingis með tilliti til breyttrar kjördæmaskipunar.
2. Lýsing stofnvega. Hér má fyrst nefna Grindavíkurveg, Garðveg og Sandgerðisveg.
3. Tvövöldun Reykjanesbrautar frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Önnur kostnaðarminni verkefni eru eftirfarandi:
1. Breikkun vegar milli Garðs og Sandgerðis.
2. Bundið slitlag á vegarslóða frá hringvegi á Reykjanesi að Reykjanestá og á Ósabotnaveg.
3. Ferðamerkingar á sérgerðu þjónustusvæði ofan Iðavalla og samræming vegmerkinga á svæðinu öllu.
4. Stækkun hringtorgs á Garðvegi ásamt lagfæringum á aðkomu Helguvíkursvæðisins.
5. Hringtorg á Grindavíkurvegi vegna Suðurstrandarvegar og lagfæringar á stofnvegi.
6. Ráðstafanir verði gerðar vegna hjólreiðafólks á Reykjanesbraut.
7. Umhverfisbætur meðfram Reykjanesbraut í samstarfi við Vegagerðina.
8. Hjóla- og gönguleiðir að og frá FLE á öxlum vega.   Tryggja þarf merkingar þar að lútandi.
9. Undirgöng vegna hestamanna á Garðvegi við Mánagrund.

Ljóst er að engum af þessum verkefnum er lokið og ekki er minnst á mörg hver í Samgönguáætlun, vísum í sameiginlega ályktun stjórna SSS og SASS varðandi Suðurstrandarveg.  Þá leggur stjórn SSS sérstaka áherslu á lýsingu stofnvega, tvöföldun Reykjanesbrautar á fitjum að Flugstöð Eiríkssonar, breikkun vegar milli Sandgerðis og Garðs og bundið slitlag á Ósabotnaveg.
Þá áréttar stjórnin að nafngift Garðskagavegar skv. Samgönguáætlun samræmist ekki götuheitum og málvenjum heimamanna og óskast leiðrétt  samkvæmt því.

Eftirfarandi sameiginlega ályktun stjórna SSS og SASS var samþykkt.

“Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum lýsa  vonbrigðum með tillögu um fjármagn til uppbyggingar Suðurstrandarvegar í nýframkominni tillögu að 12 ára samgönguáætlun.  Samkvæmt tillögunni er ekki gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki fyrr en á 3. tímabili áætlunarinnar, eða á árunum 2015 -2018.   
Eftirfarandi athugasemdir eru gerðar af þessu tilefni:
Fyrirheit um lagningu Suðurstrandarvegar voru gefin í tengslum við kjördæmabreytinguna árið 1999 og jafnframt að fjárframlög til hans hefðu ekki áhrif á fjárveitingar til annarra samgönguframkvæmda í hinu nýja kjördæmi.  Framkvæmdin var talin eðlilegur þáttur í að gera kjördæmið að einni landfræðilegri heild

Ef samgönguáætlunin gengur eftir að þessu leyti þá er ljóst að framkvæmdir við veginn munu taka um 15 ár áður en hægt er að taka hann í notkun.  Jafnframt er ljóst að  þeir kaflar hins nýja vegar sem smám saman munu  verða tilbúnir munu hafa afar takmarkað notkunargildi fyrr en vegarlagningunni er að fullu lokið.  Af þessu má ljóst vera að óeðlilega langur tími líður  þar til að það fjármagn sem lagt verður í veginn fer  að skila þeim samfélagslega arði sem því er ætlað og verður að átelja slíka meðferð opinberra fjármuna.

Lagning Suðurstrandarvegar er brýnt hagsmunamál fyrir Sunnlendinga og Suðurnesjamenn.  Auk þess sem nefnt hefur verið í lið 1,  þá er ljóst að lagning vegarins hefur mikla þýðingu í atvinnulegu tilliti, einkum  fyrir ferðaþjónustu og sjávarútveg sem hafa verulegan hag af hinum nýja vegi.  Þá er vegarlagningin einnig mikilvæg öryggisaðgerð.  Reykjanesskaginn, þ.m.t. höfuðborgarsvæðið er eldvirkt svæði og því mikilvægt að vera ekki háð einni eða fáum samgönguleiðum.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum leggja því þunga áherslu á að lagningu Suðurstrandarvegar verði hraðað og henni lokið á næstu 4 árum án þess að það hafi áhrif á aðrar samgönguframkvæmdir í kjördæminu”.

Stjórn SSS gerir athugasemd við þann stutta frest sem nefndir Alþingis gefa umsagnaraðilum.

3. Bréf dags. 21/02 ´07 frá Iðnaðarnefnd Alþingis ásamt frumvarpi til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu 542. mál. Lagt fram.

4.  Bréf dags. 23/2 ´07 frá Sigrúnu Jónsdóttur Franklín, varðandi menningarmiðlun á Suðurnesjum.  Lagt fram og framkvæmdastjóra falið að afla frekari gagna.

5. Bréf dags. 22/2 ´07 frá Ferðamálasamtökum Suðurnesjum.  Lagt fram og rætt, jafnframt vísað til atvinnuráðs.

6. Sameiginleg mál.
Bréf dags. 22/2 ´07 frá Lykilráðgjöf.  Lagt fram, framkvæmdastjóra falið að ræða við forsvarsmann Lykilráðgjafar og afla frekari gagna.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.00.