fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Vetrarfundur S.S.S. 18.mars 2016

Vetrarfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum
Haldinn 18. mars 2016, í Miðgarði, sal Gerðaskóla í Garði.

Dagskrá:

Kl. 15:00 Skráning og kaffi
Kl. 15:30 Fundarsetning Ráðstefnustjóri
Kl. 15:40 Uppbygging við Keflavíkurflugvöll Björn Óli Hauksson forstjóri ISAVIA
Fyrirspurnir og umræður
Kl. 16:20 Atvinnumál á Suðurnesjum
Stórframkvæmdir á Austurlandi – hvað getum við lært af þeim? Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri
Fyrirspurnir og umræður
Kl. 17:00 Erlendir starfsmenn –réttindi og skyldur
Vala Valtýsdóttir, Lögfræðingur, Deloitte
Fyrirspurnir og umræður
Kl. 17:40 EINN RÉTTUR-EKKERT SVINDL!“ – Erlent launafólk og íslenskur vinnumarkaður Halldór Grönvold
Fyrirspurnir og umræður
Kl: 18:30 Fundarslit
Að loknum fundi verður boðið upp á léttar veitingar í sal á 2 hæð
að Sunnubraut 4, við hlið bæjarskrifstofu Garðs.

1. Mæting sveitarstjórnarmanna eftir sveitarfélögum er þannig:
Reykjanesbær – 11
Sandgerði – 4
Garður – 8
Vogar – 6
Grindavík – 4
Gestir á fundinum voru 13.

Fundarsetning.
Einar Jón Pálsson formaður stjórnar SSS setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna í sveitarfélagið Garð. Hann sagði frá því að leitað hafi verið til sveitarfélaganna varðandi fundarefni og voru það fyrst og fremst atvinnumálin sem óskað var eftir að ræða á þessum fundi. Formaður lagði til Jónínu Magnúsdóttur og Jónínu Hólm sem fundarstjóra var það samþykkt. Formaður lagði til að fundarritarar verði Gísli Heiðarsson og Pálmi S. Guðmundsson og var það samþykkt. Björk Guðjónsdóttir starfsmaður Atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar tók að sér að rita fundargerð. Fundarstjórarnir Jónína Magnúsdóttir og Jónína Hólm tóku við fundarstjórn og skiptu þær verkefninu á milli sín.

1. Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia.
Hann fór yfir hlutverk félagsins og ræddum um framtíðarsýnina og sagði að stefnan væri sú að vera partur af góðu ferðalagi innanlands sem utan. Hann fór yfir framkvæmdir í og við flugstöðina og sagði að það sem horft væri til á einu ári eru 17 þúsund fermetra stækkun. Hann ræddi mikla fjölgun farþega á árinu. Hann sagði frá stækkun Suðurbyggingar sem verður stóra verkefnið næstu tvö árin. Fram kom að  þróunaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll er nú tilbúin. Þær spurningar sem standa uppúr eftir þá vinnu,  eru m.a. hvernig ætla sveitarfélögin að koma að uppbyggingu í nær umhverfi flugvallarins. Það þarf samræður við sveitarfélögin varðandi þá þróun til framtíðar. Hann brá upp sviðsmynd af áætluðum farþegafjölda til næstu ára og mannaflaþörf flugstöðvarinnar. Útgefin aðgangskort að flugstöðinni eru núna rúmlega 3 þúsund og stefnir í mikla fjölgun á næstu árum.  Þessi áskorun sem Keflavíkurflugvöllur stendur frammi fyrir mun verða til þess að sveitarfélögin þurfa að standa þétt saman varðandi nær þjónustuna.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku: Baldur Guðmundsson, Kristinn Jakobsson, Árni Sigfússon, Halldór Grönvold, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Ólafur Þór Ólafsson og Gísli Heiðarsson. Spurningar fundarmanna lutu m.a. að þessum málum: Sameiningu sveitarfélaga vegna skipulagsmála í og við  flugstöðina. Kynningarmálum, en fram kom í svari Björns Óla að Isavia kynnir flugvöllinn sem Keflavíkurflugvöll. Fagleg vinnubrögð ferðaþjónustunnar og verðmyndun í greininni. Hvenær er ástæða til að byggja aðra flugstöð í nágrenninu. Rætt var um nýjan alþjóðaflugvöll í Hvassahrauni og flugvöll fyrir minnstu flugvélarnar, kennslu- og sportflug. Spurt var um stefnu Isavia í útboðsmálum, réttindi starfsmanna og skildur, öryggismál og samráðshópa.

2. Hjalti Jóhannesson sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri.
Hann fjallaði um samfélagsáhrif álvers og virkjunarframkvæmdir á árinu 2004-2010. Skoðaðir voru fjölmargir samfélagsþættir. Hann lýsti því að miklar væntingar voru á Ausurlandi þegar skrifað var undir samningana vegna framkvæmdanna. Aðal rannsóknarsvæðið var í tveggja tíma akstursfjarlægð frá svæðinu. Kannanir voru gerðar þrisvar á rannsóknartímabilinu. Fór hann yfir kannanirnar, spurningar og svör. Fjölþjóðleg stemning ríkti á svæðinu meðan á framkvæmd stóð. Erlendir starfsmenn voru um þriðjungur íbúa  á áhrifasvæðinu á framkvæmdatímanum. Á þessum tíma var slakt utanumhald um erlenda starfmenn, bæði skattamál og starfsleyfisskráning. Hann sagði frá aðskilaði milli starfsmanna og almennins á vinnusvæðinu og taldi að til lengri tíma litið væri það ekki gott skipulag. Hann fjallaði um vinnumenningu og öryggismál á svæðinu. Hann talaði síðan um, hverju þetta breytti  fyrir austurland. Það breyttist ekkert risastórt varðandi íbúafjöldann á svæðinu. Aðeins á miðsvæðinu fjölgaði íbúum. Samsetning mannfjöldans var einnig skoðaður og voru karlar hlutfallslega fleiri en sem gerist og gengur annarsstaðar á landinu. Það jákvæða við framkvæmdirnar voru m.a. jákvæð efnahagsleg áhrif, fjölgun á miðsvæðinu, aukin fjölbreyttni starfa, þjónustan hefur aukist og reynsla af verkefnunum. Það sem var aftur á móti neikvætt við framkvæmdirnar voru m.a. þær að of mikið var byggt af rangri tegund húsnæðis. Það var samkeppni milli sveitarfélaga um íbúa. Það hefur orðið tortryggni milli sveitarfélaganna varðandi tekjurnar af framkvæmdinni. Að lokum bar Hjalti saman framkvæmdirnar á austurlandi við framkvæmdir hér á svæðinu.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku, Árni Sigfússon, Kristinn Þór Jakobsson, Einar Jón Pálsson og Sigrún Árnadóttir. Spurningar fundarmanna lutu m.a. að launum og launaþróun, starfsmannaveltu vegna vaktavinnu. Það var spurt um samfélagsleg áhrif erlendra starfsmanna meðan á framkvæmdum stóð. Að lokum var spurt um sameiningu sveitarfélaga áður en framkvæmdir hófust og hvaða þýðingu það hefði haft fyrir framkvæmdirnar.

3. Vala Valtýsdóttir, lögfræðingur hjá Deloitte.
Hún fjallaði um för starfsmanna milli landa út frá skattlagningu, einnig talaði hún um skattlagningu fyrirtækja milli landa. Hún talaði um tvísköttunarsamninga og undantekningar frá tvísköttunarsamningi. Vala ræddi um mikilvægi þess að fyrirtæki þekktu skattamál viðkomandi landa vel til að semja ekki af sér.  Hún fjallaði um starfsmannaleigur. Hún fór yfir takmarkaða og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Hún fjallaði um meginreglu skattamála. Það koma fram hjá Völu  að EES reglunar kveða á um undir hvaða almannatryggingalöggjöf einstaklingur fellur, ef unnið er í öðru landi. Starfsmenn sem koma til Íslands að vinna og eru utan EES eru ekki tryggðir hér.  Einnig fjallaði hún um dvalar- og starfsleyfi.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku,  Gísli Heiðarsson, Árni Sigfússon, Sigrún Árnadóttir, Kristinn Þór Jakobsson og Einar Jón Pálsson. Spurt var um dvalarleyfi og  hvaða hag íslensk fyrirtæki hafa á því að sveitarfélög geti ekki notið tekna af erlendum starfsmönnum.  Spurt var um 183 daga ákvæðið og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja á svæðinu varðandi skattamál.

4. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri og deildarstjóri félagsmáladeildar ASÍ.
Hann fjallar um erlent launafólk á íslenskum markaði. Á íslandi gildir einn réttur fyrir launafólk óháð öllu. Á Íslandi gilda kjarasamningar sem eru lögbundnir sem lágmarkslaun. Hann talaði um þenslu á vinnumarkaði og hvað er framundan í stækkun vinnumarkaðsins hér. Björt framtíð hefur ákveðnar skuggahliðar, hvernig forðumst við skuggahliðarnar. Á síðustu mánuðum höfum við greint ört vaxandi  undirboð á vinnumarkaði og svartrar atvinnustarfsemi sagði Halldór. Síðan fjallaði hann um nokkra flokka í brotastarfemi, brotastarfsemi gagnvart ungu fólki og útlendingum, laun undir lágmargskjörum, unnið svart, útlendingum haldið markvisst utan stéttarfélaga, ungt fólk fengið til að vinna „prufudaga“. Hér á landi er að sjást mjög alvarleg brotastarfsemi gagnvart útlendingum og fór hann yfir slík dæmi. Einnig fjallaði hann um brotastafsemi gagnvart útlendingum sem starfa hjá innlendum starfsmannaleigum. Hann fjallaði um erlend ungmenni og ungt fólk við „sjálfboðaliðastörf“ og í „starfsþjálfun“ notuð til undirboða á vinnumarkaði. Öflugra aðgerða er þörf, hann segir að vinna verði með öllum ráðum gegn því að brotastarfsemin þrífist og nái fótfestu á íslenskum vinnumarkaði með alvarlegum afleiðingum fyrir launafólk, fyrirtæki og samfélagið allt. Hann benti á að þessi mál varði hagsmuni sveitarfélaga. Til sveitarfélaganna eru gerðar ríkar kröfur um þjónustu við íbúa á  fjölmörgum sviðum,  til þess þurfa tekjur að skila sér í formi útsvars til sveitarfélagana.  Að takast á við þessa brotastarfssemi er á ábyrgð okkar allra samfélagsins alls. Það tapa allir á undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi sagði Halldór að lokum.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku, Árni Sigfússon, Gísli Heiðarsson, Páll Jóhann Pálsson, Sigrún Árnadóttir og Sigþór Skúlason, framkvæmdastjóri Airport Associates. Spurningarnar lutu m.a. að samstarfi á svæðinu, tryggingargjaldi og lágmarkslaunum. Það var talað um verktakasamninga og hlutverk sveitarfélaga gagnvart svartri atvinnustarfsemi, eftirliti og forvörnum auk mannsals. Að lokum var rætt um ábyrgð sveitarfélaga á jákvæðri umræðu um þau fyrirtæki sem væru að skapa störf á svæðinu.

Fundarslit.
Formaðurinn Einar Jón Pálsson tók til máls og þakkaði frummælendum fyrir fróðleg erindi. Einnig þakkaði hann starfsfólki fundarins fyrir þeirra störf og gestum og sveitarstjórnarmönnum fyrir komuna.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19.15.

Björk Guðjónsdóttir, fundarritari.