Skortir á framlög til menntastofnana
Á 43. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem haldinn var 13. – 14. september sl. var samþykkt eftirfarandi ályktun um framlög til menntamála.lyktun um menntamála.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 13.-14. september 2019 harmar viðvarandi skekkju á fjárframlögum til ríkisstofnanna á Suðurnesjum. Þetta birtist ekki síst í framlögum til menntastofnanna á svæðinu sem mega sætta sig við mun lægri framlög en sambærilegar stofnanir.
Í Grænbók, um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi kemur fram að Ísland eigi að vera í fararbroddi þegar kemur að menntun og þjálfun á sviði flugs. Eigi það takmark að nást er nauðsynlegt að tryggja þeim kennslustofnunum er sjá um menntun og kennslu á sviði flugs, sömu nemendaígildi og þeim sem mennta skipstjórnarfólk.
Fundurinn telur það einnig áhyggjuefni að framlög til þekkingarsetra og símenntunar eru langlægst á Suðurnesjum.
Fram kemur í fjárlagaáætlun 2020-2024 að framtíðarsýn stjórnvalda sé að sjávarútvegur og fiskeldisafurðir séu í fremstu röð á alþjóðlegum mörkuðum. Því ber að fagna en fundurinn bendir á að hvergi kemur fram í fjárlagaáætlun 2020-2024, að stutt verði við eina fisktækniskólann sem starfandi er á Íslandi, Fisktækniskóla Íslands í Grindavík. Skólinn gegnir lykilhlutverki í því að mennta hæft starfsfólk til starfa í þessari mikilvægu atvinnugrein okkar Íslendinga.
Fundurinn fagnar stefnu stjórnvalda um að efla menntun í landinu og þá sérstaklega með því að fjölga útskrifuðum úr starfs- og tækninámi. Ríkisvaldið hefur ákveðið að styðja við nám til stúdentsprófs í tölvuleikjagerð sem þróunarverkefni. Mikilvægt er að skoða einnig aðrar starfs- og tækninámsgreinar út frá sömu forsendum. Þ.e.a.s. hvort nemendur geti lokið þeim greinum einnig með stúdentsprófi.
Fjölgun íbúa á Suðurnesjum er meiri en á öðrum landsvæðum og er samsetning íbúa fjölbreyttari m.t.t. fjölda þjóðerna en á öðrum landssvæðum. Mikilvægt er að tryggja að nemendur af erlendum uppruna hverfi ekki frá námi úr framhaldsskólum. Það skiptir íbúa á Suðurnesjum miklu máli að vel sé staðið að menntun íbúa af erlendum uppruna þar sem 25% íbúa á Suðurnesjum eru af erlendu uppruna. Það felur í sér krefjandi verkefni sem kalla á að menntastofnanir geti sinnt hlutverki sínu.
Aðalfundurinn skorar á ríkisvaldið og þingmenn Suðurkjördæmis að tryggja að menntastofnanir á Suðurnesjum sitji við sama borð og stofnanir á öðrum landsvæðum þegar kemur að framlögum úr ríkissjóði.