fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Þróun tekna eftir svæðum

Hlutdeild atvinnutekna í heildartekjum er nokkuð mismunandi milli landshluta. Á Austurlandi voru atvinnutekjur 76% heildartekna einstaklinga en lægsta hlutdeild atvinnutekna var 68% á Suðurnesjum og 69% á Norðurlandi vestra. 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Byggðastofnunar sem byggir á gögnum um tekjur einstaklinga frá 2008 – 2022.

Mest aukning atvinnutekna 2021-2022 var í rekstri gisti- og veitingastaða 37% og í flutningum og geymslu 22%. Þessar greinar eru uppistaðan í ferðaþjónustunni sem tók við sér árið 2022 eftir mögur ár 2020 og 2021. Flutningar og geymsla hefur lang hæstu hlutdeild á Suðurnesjum eða 18% 

Fjármagnstekjur geta verið mjög mismunandi eftir svæðum og árum því að fáir einstaklingar geta hagnast um háar upphæðir á stöku ári, svo sem vegna sölu fyrirtækja. Á Suðurnesjum var hlutfall fjármagnstekna 14% sem var hæsta gildi allra landshluta árið 2022. Árið 2021 var hlutdeild fjármagnstekna hins vegar 5% á Suðurnesjum en 12% á Suðurlandi og 11% á Vesturlandi.

Hlutdeild bóta frá Tryggingastofnun og Sjúkratryggingum af heildartekjum einstaklinga var hæst á Norðurlandi vestra árið 2022 eða 10%. Lægsta hlutdeild bóta var á höfuðborgarsvæðinu 6%. Aðrir tekjuliðir voru með lægri hlutdeild en 2% í öllum landshlutum, að undanskildum atvinnuleysisgreiðslum sem voru 2% af heildartekjum einstaklinga á Suðurnesjum árið 2022.

Lífeyrisgreiðslur voru 11% heildartekna einstaklinga í tveimur landshlutum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra en lægst hlutdeild lífeyrisgreiðslna var á Suðurnesjum eða 7%.

Heildaratvinnutekjur árið 2022 á höfuðborgarsvæðinu voru 1.100 milljarðar króna (66,4%), á Suðurlandi 129 milljarðar (7,8%), á Norðurlandi eystra 128 milljarðar (7,7%), á Suðurnesjum 119 milljarðar (7,2%), á Vesturlandi 71 milljarður (4,3%), á Austurlandi 52 milljarðar (3,1%), á Vestfjörðum 31 milljarður (1,9%) og á Norðurlandi vestra 27 milljarðar (1,6%).

Heildaratvinnutekjur jukust mikið í öllum landshlutum milli 2015 og 2022, mest á Suðurnesjum eða um 59% og þar næst á Suðurlandi eða 45%

Á árinu 2020 drógust heildaratvinnutekjur saman í öllum landshlutum nema á Austurlandi. Langmestur samdráttur í atvinnutekjum milli 2019 og 2020 varð á Suðurnesjum og Suðurlandi vegna áhrifa COVID-19 á ferðaþjónustu þar. Í þessum tveimur landshlutum varð hins vegar mikil viðspyrna árið 2022 þar sem vöxtur atvinnutekna á Suðurnesjum var 16% og á Suðurlandi 9%.

Á árunum 2015 til 2018 jukust atvinnutekjur mikið á flestum svæðum, þó minnst í Vestmannaeyjum þar sem þær drógust saman um 1,3%. Í Reykjanesbæ jukust núvirtar atvinnutekjur um 51,7% frá 2015 til 2018 og í Suðurnesjabæ og Vogum um 40,4%. Á Suðurlandi var vöxtur atvinnutekna víða yfir 30% á sama tímabili.

Hæst hlutfall opinberrar stjórnsýslu, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónustu árið 2022 var á Norðurlandi vestra þar sem greinin stóð fyrir 40% heildaratvinnutekna en næst hæst var hlutdeild greinarinnar á Norðurlandi eystra. Lægsta hlutdeild opinbera geirans var á Suðurnesjum 23%.

Fjármálastarfsemi og sérhæfð þjónusta hefur hæsta hlutdeild á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og flutningar og geymsla hefur lang hæsta hlutdeild á Suðurnesjum eða 18%.

Minnstur kynjamunur hvað varðar atvinnutekjur á launþega var á höfuðborgarsvæðinu eða 22,6% og næst minnstur á Suðunesjum 31,4%.