fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Verulegur fjöldi umsókna barst um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga á árinu 2017

Verulegur fjöldi umsókna barst um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga á árinu 2017. Markmiðið er að laða að erlenda sérfræðinga sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni til starfa hér á landi og með því auðvelda fyrirtækjum að fá til sín slíka aðila svo að ekki þurfi að fara með viðkomandi starfsemi úr landi.

Með lögum nr. 79/2016 var lögfest breyting á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti, þar á meðal frádráttarheimild fyrir erlenda sérfræðinga sem ráðnir eru til starfa hér á landi vegna sérþekkingar sinnar og reynslu. Reglugerð (nr. 1202/2016) sem byggir á ofangreindum lögum um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga var gefin út í lok árs 2016. Heimild til frádráttar frá tekjum í þessu tilfelli, felur í sér að þeir sem uppfylla ákveðin skilyrði geta nýtt heimild í tekjuskattslögunum sem kveður á um að einungis 75% tekna þeirra eru tekjuskattsskyldar, bæði í staðgreiðslu og við endanlega álagningu, fyrstu þrjú árin í starfi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið skipaði nefnd þann 23. desember 2016 til að afgreiða umsóknir í samræmi við lögin og reglugerðina. Hlutverk nefndarinnar er að fara yfir þær umsóknir sem berast í gegnum rafrænt umsóknarkerfi Rannís og meta þær með tilliti til menntunarstigs, sérþekkingar, reynslu og fjárhæðar launa og fl., í samræmi við reglugerð nr. 1202/2016.

Frá 1. janúar 2017 til loka árs 2017 hafa borist 83 umsóknir. Í lok árs hafa 58 umsóknir um skattafrádrátt verið samþykktar eða 70%, 24 umsóknum verið hafnað eða 29%, einn umsækjandi hætti við eða 1,0%. Ef umsóknum er skipt niður eftir vinnustað, þ.e. fyrirtæki, háskólastofnun eða stofnun, kemur í ljós að umsóknir frá starfsmönnum fyrirtækja voru 47 eða 57% umsókna, starfsmenn háskólastofnana lögðu inn 29 umsóknir eða tæp 30% umsókna og starfsmenn stofnana 7 umsóknir eða 8%. Hlutfall samþykktra umsókna er svipað hjá fyrirtækjum og háskólastofnunum eða tæp 70%, en heldur hærra hjá stofnunum.

Yfirlit um umsóknir og afgreiðslu þeirra
Fjöldi umsókna % umsókna Samþ. umsóknir % samþ. Hafnað Annað
Fyrirtæki 47 57 32 55 14 1
Stofnun 7 8 6 10 1 0
Háskóli 29 35 20 34 9 0
Samtals 83 100 58 100 24 1