fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Þörungaframleiðsla fær styrk úr nýjum matvælasjóði

Alls hlutu fimm verkefni af Suðurnesjum styrki úr nýjum Matvælasjóði Íslands sem tilkynnti um styrkhafa í dag.

Alls bárust 266 umsóknir í sjóðinn og voru 229 þeirra styrkhæfar eða 86%. Sjóðurinn styrkir 62 verkefni að upphæð 480 m.kr en alls var sótt um styrki fyrir 2,8 ma.kr.

Veittir voru styrkir í fjórum styrkjaflokkum: Báru, Kelda, Afurð og fjársjóður. Flestir styrkirnir voru í flokknum Bára sem styrkir verkefni á hugmyndastigi og var hámarksstyrkupphæð 3 m.kr. Kelda styrkir rannsóknarverkefni sem miða að því að skapa nýja þekkingu sem stuðlar að nýsköpun. Afurð styrkir verkefni sem komin eru af hugmyndastigi en ekki tilbúin til markaðssetningar og Fjársjóður styrkir markaðsátak og uppbyggingu innviða sem tengjast sókn á markað.

Þau verkefni á Suðurnesjum sem hlutu styrk snéru flest að vinnslu þörunga. Þau sem hlutu styrk úr Báru eru Urta Islandica sem sótti um styrk fyrir Kerfilmjólk, Algó hlaut styrk fyrir Sæmeti sem unnið er úr þörungum og Eydís Marý Jónsdóttir, Karl Petersson og Hinrik Carl Ellertsson hlutu styrk fyrir Sjávarmál sem unnið er úr þörungum. Allir styrkirnir hljóðuðu upp á 3 m.kr.

Verkefnið Greining á hringormum í flökum hlaut styrk úr Keldu kr. 3. m.kr en að baki honum standa sjávarútvegsfyrirtækið Vísir í Grindavík ásamt Háskóla Íslands, SFS og Marel.

Kom fram á fundinum að skoða þurfi nánar hvað teljist hliðarafurðir og á það m.a. við um framleiðslu á vörum úr kísil en á því sviði starfar stórt nýsköpunarfyrirtæki á Suðurnesjum og þar liggja mörg tækifæri.

Áætlað er að Matvælasjóður muni hafa 628 milljónir til umráða á árinu 2021 og er stefnt á að opnað verði fyrir umsóknir í mars og að önnur úthlutun sjóðsins verði í maí 2021.

Við hvetjum Suðurnesjamenn í matvælaframleiðslu til þess að kynna sér sjóðinn og sækja um að vori og bendum um leið á að hægt er að fá ráðgjöf við styrkumsóknir og viðskiptaþróun hjá ráðgjöfum Heklunnar.

Hægt er að fylgjast með starfsemi sjóðsins á heimasíðunni www.matvælasjóður.is