fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Vetrarfundur S.S.S 27.mars 2015

Vetrarfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum
haldinn 27. mars 2015  á Icelandair hótelinu, Reykjanesbæ.

Dagskrá fundar:

1. Fundarsetning.

2. Atvinnumál á Suðurnesjum
• Kynning á Atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja – Heklunni. Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS.
• Markaðsstofa Reykjaness. Þuríður H. Aradóttir, verkefnastjóri
• Reykjanes Jarðvangur. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri og formaður stjórnar Jarðvangs.
• Kynning á verkefnum Kadeco Sigurgestur Guðlaugsson, verkefnastjóri.
• Kynning frá Vinnumálastofnun Íris Guðmundsdóttir.
• Fyrirspurnin og umræður.

3. Sóknaráætlun Suðurnesja
• Hólmfríður Sveinsdóttir – Byggðastofnun
• Fyrirspurnir og umræður.

4. Málefni aldraðra
• Kristín Björnsdóttir, prófessor HÍ
• Margrét Blöndal, deildarstjóri HSS
• Fyrirspurnir og umræður.

5. Fundarslit.

1. Gunnar Þórarinsson, formaður stjórnar sambandsins setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna.
Gunnar sagði að þetta væri í fjórða skipti sem sambandið heldur vetrarfund. Lögð hefur verið áhersla á að hafa eitt mál á dagskrá vetrarfundar, þ.e. málefni sem brenna á sveitarfélögunum. En að þessu sinnu eru þó tvö miklvæg mál á dagskrá, atvinnumál og málefni aldraðra. Hann talaði um gagnsemi vetrarfundanna þar sem markmiðið er að  bæjarfulltrúar fái betri innsýn í einstaka málaflokka. Hann stakk upp á Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur sem ráðstefnustjóra.
Guðný Birna tók við fundarstjórn.

2. Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri SSS og atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar kynnti starfsemina. Hún sagði frá verkefnum félagsins og eins fjallaði hún um þá þjónustu sem í boði er hjá atvinnuþróunarfélaginu. Hún ræddi um samstarf sem atvinnuþróunarfélagið Heklan á við aðrar stofnanir. Hún sagði frá námskeiðahaldi, kynningarfundum, hádegisfyrirlestrum  auk þess sem hún benti á að í boði er handleiðsla fyrir sprotafyrirtæki á svæðinu. Að lokum sagði hún frá því að 40 fyrirtæki hafa verið í Eldey frá upphafi og 14 af þeim eru útskrifuð og farin annað.

   b) Þuríður Halldóra Aradóttir sagði frá starfsemi og helstu verkefnum Markaðsstofu Reykjaness. Megin verkefni stofunnar er að vera samræmingaraðili fyrir ferðaþjónustuna á Reykjanesskaganum og að vera rödd svæðisins útávið. Hún fjallaði m.a. um markaðssetningu innanlands og erlendis, útgáfu bæklinga og móttöku erlendra blaðamanna.  Hún kynnti  nýja heimasíðu sem er sameiginlegt verkefni allra Markaðsstofa á landinu og er útlit síðunnar samræmt.  Jafnframt kynnti hún samstarfsverkefni og fjármögnun Markaðsstofu Reykjaness. Að lokum sagði  hún frá nýju verkefni í samstarfi við Íslandsstofu sem heitir ASK Guðmundur. Fram kom hjá Þuríði að aukning á nýtingu á gistinóttum 2013-14 er 21% á Suðurnesjum.

   c) Róbert Ragnarsson, formaður stjórnar Jarðvangs byrjaði á að segja frá fundi með  framkvæmdastjórn ferðamannastaða þar sem fram kom að af Suðurnesjum kæmu fáar umsóknir um styrki og benti á að bæta þarf úr því. Hann fjallaði um hugmyndafræðina á bak við jarðvangsverkefnið og síðan stofnun Reykjanes Jarðvangs. Hann sagði frá alþjóðlegu samstarfi Jarðvanga og að vonir standi til að vottun fyrir Jarðvanginn fáist í haust. Hann lýsti verkefnum Jarðvangsins og möguleikum tengdum þeim fyrir svæðið. Róbert  sagði frá umhverfisumbótum sem Jarðvangurinn stendur fyrir og samræmdum skiltum sem sveitarfélögin hafa komið sér saman um.  Að lokum greindi Róbert frá  skilgreindum stöðum  sem  Jarðvangurinn leggur áherslu á sem áhugaverða staði til að skoða.

   d) Sigurgestur Guðlaugsson, verkefnastjóri sagði frá stofnun Atvinnuþróunarfélagsins Kadeco og hugmyndafræðina að baki verkefninu.  Áherslan í þróun var í upphafi lögð á þrjá klasa sem eru Heilsa, Tækni og Flug. Fyrsta þróunarverkefnið var stofnun Keilis, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs. Hann ræddi skipulagsmál á flugvallarsvæðinu og  greindi fá áherslum á flutninga vegna nálægðar við flugvöllinn og tækifærum sem tengjast alþjóðaflugvelli. Kadeco hefur sótt sér fyrirmyndir erlendis sem Sigurgestur sagði frá og sagði hann að mörg erlend verkefni væru í pípunum. Að lokum sagði hann að 650 störf hafa orðið til á Ásbrú í 115 fyrirtækjum og litið til næstu þriggja ára er gert ráð fyrir 1200 störfum á svæðinu.

   e) Íris Guðmundsdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum. Hún sagði frá starfsemi stofnunarinnar og lýsti áherslum þeirra á þessu ári.  Hún sagði frá kynningarátaki sem stofnunin er í sem miðar að því að gera stofnunina sýnilegri.  Hún sagði frá hefðbundnum aðgerðum Vinnumálastofnunnar og námsúrræðum auk þess sem hún fjallaði um þau góðu áhrif sem sérstækar aðgerðir stofnunarinnar á síðustu árum leiddu til.  Ennþá er lang hæsta atvinnuleysi á landinu á Suðurnesjum sagði Íris, en árangur hefur verið verulegur að ná atvinnuleysinu niður. Fram kom að 65% atvinnuleitenda á Suðurnesjum hafa eingöngu lokið grunnnámi og 8% háskólanámi. Hún sagði frá könnun sem gerð var fyrir Vinnumálastofnun 2-22 desemeber 2014 þar sem fram koma að þeir sem nýttu sér fjárhagsaðstoð sveitarfélaga á Suðurnesjum eftir að bótarétti lauk voru 41,3% meðan að landsmeðaltalið var 27.1%.

Ráðstefnustjóri gaf orðið laust. Til máls tók Kristinn Jakobsson, Guðmundur Pálsson, Róbert Ragnarsson, Kjartan Már Kjartansson, Guðbrandur Einarsson, Ólfur Þór Ólafsson, Anna Lóa Guðmundsdóttir, Einar Jón Pálsson og Sigurgestur Guðlaugsson, þau ræddu málefni Vinnumálastofnunnar, atvinnumál og samvinnu um þennan málaflokk á Suðurnesjum.

3. Sóknaráætlun Suðurnesja, Hólmfríður Sveinsdóttir byrjaði á að fara yfir forsögu Sóknaráætlunar. Í febrúar sl. voru undirritaðir samningar til fimm ára. Áhersla er lögð á áætlanagerðina. Samningnum var skipt upp í fjóra kafla þ.e. menningarmál, nýsköpun og atvinnuþróun, uppbyggingu mannauðs, lýðfræðileg þróun svæðisins og  aðra málaflokka sem landshlutinn ákveður. Til SSS koma rúmar 75,8 m.kr. á ári. Hólmfríður ræddi næstu skref og fór m.a. yfir samráðsvettvang og aðkomu hans að gerð sóknaráætlunar sem þarf að vera lokið í júní nk.

Ráðstefnustjóri gaf orðið laust. Til máls tóku Guðmundur Pálsson, Kristinn Jakobsson og Bryndís Gunnlaugsdóttir.

4. Kristín Björnsdóttir, hún talaði um fyrirsjáanlega fjölgun eldri borgara og velti upp spurningum m.a. varðandi það hvernig  þjónustan þróast, þurfum við að byggja fleiri hjúkrunarheimili o.s.frv.  Hún ræddi hvernig stjórnvöld hafa brugðist við mikilli fjölgun eldri borgara og sagði að hvatt hafi verið til sjálfsumönnunar og  áhersla lögð á að fólk haldi áfram að búa á eigin heimili.  Hún telur mikilvægt að læra af reynslu annarra þjóða.

    b) Margrét Blöndal – Suðurnes eru þeirra starfssvæði í heimahjúkrun. Hún sagði að sjö hjúkrunarfræðingar og 10 sjúkraliðar starfa við deildina. Þjónustan er veitt frá 8-21 alla daga vikunnar. Hún fór yfir umfang heimahjúkrunar sem hefur aukist og öldruðum hefur fjölgað.  Að meðaltali er verið að fara í 80 vitjanir á dag allan ársins hring. Samstarf er við legudeild HSS, félagsþjónustuna, dagsvöl, geðteymi, lækna og stoðdeildir HSS.  Hún sagði frá nýlegri þjónustu sem er hvíldar- og endurhæfingardeild með 8 rúmum sem er mjög þörf fyrir starfsemina sagði Margrét að lokum.

   c) Rósa Víkingsdóttir tók við og fjallaði um færni- og heilsumat. Rósa er formaður færni- og heilsumatsnefndar. Nefndin leggur mat á umsóknir varðandi hvíldarinnlagnir og á hjúkrunarheimili. Fram kom að biðlisti eftir hjúkrunarrýmum eru 56 einstaklingar.

Ráðstefnustjóri gaf orðið laust. Til máls tók Fríða Stefánsdóttir, Kristinn Jakobsson, Eysteinn Eyjólfsson, Ingþór Guðmundsson, Böðvar Jónsson, Margrét Blöndal og Guðmundur Pálsson, og ræddu málefni aldraðra frá ýmsum hliðum. Þá gaf ráðstefnustjóri Gunnari Þórarinssyni orðið og las hann ályktun Öldungaráðs Suðurnesja sem nýlega hafði verið samþykkt á fundi Öldrunarráðsins og hafði stjórnin leitast eftir því við Gunnar að hann kæmi ályktuninni á framfæri við sveitarstjórnarmenn. Formaðurinn sagði að ályktunin verði tekin fyrir á fundi stjórnar SSS.

Ráðstefnustjóri þakkaði frummælendum fyrir þeirra framlag til fundarins og fundarmönnum fyrir komuna og sleit fundi kl. 19.15.

Á fundinn mættu 31 sveitarstjórnarmaður og 11 gestir.

Björk Guðjónsdóttir, fundarritari. Guðný Birna Guðmundsdóttir, ráðstefnustjóri.