fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

17. aðalfundur

AÐALFUNDUR SAMBANDS SVEITARFÉLAGA Á SUÐURNESJUM 1994

17. aðalfundur S.S.S. haldinn föstudaginn 16. og laugardaginn 17. september 1994 í fundarsal Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Dagskrá:

Föstudagurinn 16. september 1994.

Kl. 13.00 

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
2. Fundarsetning.
3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
4. Ávarp félagsmálaráðherra Guðmundar Árna Stefánssonar.
5. Ávörp gesta.
6. Skýrsla stjórnar: Drífa Sigfúsdóttir, form. S.S.S.
7. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 1993.Guðjón Guðmundsson, framkv.stj.
8. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
9. Breytingar á samþykktum S.S.S.
10. Skýrslur nefnda á vegum S.S.S.
11. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
12. Atvinnumál.
a) Jón Ásbergsson framkv.stj. Útflutningsráðs
b) Gunnlaugur Sigmundsson framkv.stj. Kögunar.
13. Umræður.
14. Nefndarstörf.

Fundi frestað.

Laugardagur 17. september 1994.

kl. 10.00
15. Samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum í ljósi sameiningar sveitarfélaga.
a) Anna Margrét Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi.
b) Jón Gunnarsson oddviti.
c) Jónína Sanders formaður bæjarráðs.
d) Margrét Gunnarsdóttir forseti bæjarstjórnar.
16. Umræður.
17. Ályktanir – umræður – afgreiðsla
18. Ávarp: Össur Skarphéðinsson umhverfisráðherra
19. Fyrirspurnir.
20. Ályktanir – framhald
21. Önnur mál.
22. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
23. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
24. Kosnir 3 fulltrúar í launanefnd S.S.S. og 3 til vara.
25. Kosnir 4 fulltrúar á ársfund Landsvirkjunar.
26. Fundarslit.

Fulltrúafjöldi:
Keflavík-Njarðvík-Hafnir 11 fulltr.
Grindavík 8 fulltr.
Sandgerði 8 fulltr.
Gerðahreppur 8 fulltr.
Vatnsleysustrhr. 6 fulltr.

Gestir fundarins:

Guðmundur Árni Stefánsson ráðherrra. Alþingismenn Árni M. Mathiesen, Árni R. Árnason, Petrína Baldursdóttir, Jóhann Einvarðsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Þórður Skúlason framkv.stj. Samb. ísl. sveitarfélaga, Jónas Egilsson framkv.stj. Samt. sveitarf. á höfuðborgarsv., Össur Skarphéðinsson ráðh. Jón Ásbergsson framkv.stj. Útflutningsráðs, Gunnlaugur Sigmundsson framkv.stj. Kögunar h.f., Magnús Haraldsson endursk. S.S.S., Magnús H. Guðjónsson, framkv.stj. Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.

Frá fjölmiðlum mættu Ragnar Örn Pétursson R.Ú.V., Emil Páll Bezta-blaðið, Friðrik Jónsson Brosið, Björn Blöndal Morgunblaðið, Viðar Oddgeirsson R.Ú.V. og Einar Bragi Víkurfréttum.

Fundarsetning: Formaður S.S.S. Drífa Sigfúsdóttir setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna svo og gesti, þingmenn kjördæmisins og Guðmund Árna Stefánsson félagsmálaráðherra.

Kosning fundarstjóra og fundarritara:

Formaður Drífa Sigfúsdóttir lagði til að fundarstjórar yrðu Ellert Eiríksson og Sólveig Þórðardóttir og var það samþ. samhljóða. Formaður lagði til að Hjörtur Zakaríasson, Kristbjörn Albertsson og Kristján Gunnarsson yrðu kosnir ritarar fundarins og var það samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri Ellert Eiríksson tók við fundarstjórn og óskaði eftir því að Útvarp Bros fengi að hljóðrita fundinn og samþykktu fundarmenn það samhljóða. Einnig lagði fundarstjóri til breytingar á dagskrá um að kaffihlé yrði gefið kl. 16.30. Þannig að umræður um atvinnumál færðust framar. Ástæðan er opnun sýningar barna og unglinga í Bókasafni Keflavíkur-Njarðvíkur-Hafna á vegum menntamálaráðuneytisins en menntamálaráðherra Ólafur Einarsson mun opna sýninguna og býður sveitarstjórnarmönnum að vera við opnunina og þiggja veitingar. Fundurinn samþykkti samhljóða tillögu fundarstjóra um breytingar á dagskrá.

4. Ávarp félagsmálaráðherra:

Fundarstjóri gaf Guðmundi Árna Stefánssyni félagsmálaráðherra orðið.
Félagsmálaráðherra þakkaði fyrir að fá tækifæri til að ávarpa sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum.
Ráðherra ræddi um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga og fjármagnsflutning. Tregðu valdhafa um flutning og skoraði jafnframt á sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum að vera jákvæðir í þessum málum. Ráðherra telur að ekkert standi í vegi fyrir flutningi grunnskóla til sveitarfélaga, en það þurfi að ganga frá samningum við kennara. Einnig ræddi ráðherra um ný lög um húsaleigubætur svo og lög sem voru í undirbúningi um fjármálalega ráðgjöf til handa heimilum, um endurskoðun á reglum um jöfnunarsjóð og er það von ráðherra að það mál fái farsæla lendingu. Atvinnumál, en þar hvetur hann til samstöðu sveitarfélaganna. Ráðherra ræddi að lokum um félagslega íbúðakerfið, málefni aldraðra, fatlaðra og heilsugæslu.

5. Ávörp gesta:

Fundarstjóri gaf orðið laust og tók fyrst til máls Þórður Skúlason framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga er flutti kveðjur formanns og stjórnar sambandsins. Þórður rakti ályktanir og framtíðastefnu Landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga sem nú er nýafstaðið, samskipti ríkis og sveitarfélaga s.s. samstarfi við Atvinnuleysistryggingasjóð um svokölluð átaksverkefni fyrir atvinnulausa, en Þórður telur eðlilegt að sveitarfélögin ákveði út frá eigin forsendum og án afskipta ríkisins, fjárframlög til aðgerða til að draga úr atvinnuleysi. Einnig ræddi Þórður um samstarf sveitarfélaga á svæðinu í ljósi sameiningar sveitarfélaga, en að mati Þórðar er mikilvægt að gæta að tvennu:
– Hið fyrra er lýðræðisþátturinn; -að tekið sé eðlilegt tillit til stjórnunaráhrifa sveitarfélaga, sem bera samtökin uppi að íbúafjölda og kostnaðarþátttöku.
– Hið síðara er, -að finna hinn gullna meðalveg þannig að stærri sveitarfélögin beri hin minni ekki ofurliði og gagnkvæmt, jafnframt því, sem hin minni finni styrk af samstarfi við hin stærri.

Árni Mathiesen flutti kveðjur þingmanna kjördæmisins.

Jónas Egilsson flutti kveðjur frá Samtökum sveitarf. á höfuðborgar-svæðinu. einnig bárust kveðjur frá Sambandi sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Austurlandskjör-dæmi og frá Samtökum Sunnlenskra sveitarfélaga sem hljóðar svo:

„Senda skal á Suðurnes
svohljóðandi skeyti:
Heilla bænir hópnum les
og heppni að öllu leyti“

6. Skýrsla stjórnar:

Fundarstjóri Ellert Eiríksson óskaði eftir að vita hve margir fulltrúar sem hefðu atkvæðarétt væru í salnum. Voru mætir 33 fulltrúar eða 2/3 af heildaratkvæðum.

Formaður S.S.S. Drífa Sigfúsdóttir flutti skýrslu stjórnar, en stjórnin hélt 19 fundi á starfsárinu. Umræður um atvinnumál tóku mestan tíma og hefur nokkuð áunnist í þeim efnum. Nokkur önnur stór mál eru í vinnslu s.s. frísvæði og D-álma, en þar hefur stjórn S.S.S. samþykkt að beita sér fyrir að sveitarfélögin fjármagni byggingu D-álmu við S.H.S. Stjórn S.S.S. og menntamálaráðuneytið verða með ráðstefnu um æskulýðsmál 7. og 8. október n.k.
Að lokum óskaði formaður eftir því að fundurinn verði árangursríkur.

7. Ársreikningar S.S.S. 1993.

Guðjón Guðmundsson framkv.stj. gerði grein fyrir rekstri S.S.S. á síðastliðnu ári. Reksturinn var með hefðbundnum hætti að undanskyldu því að sambandið gaf út skuldabréf að nafnverði 101,1 millj kr. Tilgangur útgáfunnar var að endurlána sveitar- félögunum til atvinnuuppbyggingar.

8. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning:

Engar umræður urðu um skýrslu stjórnar og ársreikning sem samþ. var samhljóða.

9.Breytingar á samþykktum S.S.S.

Jón Gunnarsson flutti breytingartillögur að samþykktum S.S.S., en á fundi stjórnar S.S.S. 11. ágúst s.l. var samþykkt að leggja fram tillögu að breytingum á aðalfundi S.S.S. 16. og 17. september 1994. Lagt er til að 1. gr. hljóði svo: „Sveitarfélögin á Suðurnesjum, Gerðahreppur, Grindavík, Sandgerði, Vatnsleysustrandar-hreppur og nýtt sameinað sveitarfélag Keflavík-Njarðvík-Hafnir, eiga með sér samband undir nafninu Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum skammstafað S.S.S. Heimili þess og varnarþing skal vera það sama og formanns hverju sinni.“
Og að 5. gr. hljóði þannig: „Stjórn sambandsins, sem annast málefni þess á milli funda, skal skipuð 7 mönnum og 7 til vara, sem tilnefndir eru af sveitarstjórnum, 3 frá hinu nýja sameinaða sveitarfélagi Keflavík-Njarðvík-Höfnum og einn frá hverju hinna, og skulu tilnefningar liggja fyrir á aðalfundi. Stjórnin skiptir með sér verkum.“

Ofangreindar breytingartillögur eiga að gilda til næsta aðalfundar. Orðið var síðan gefið laust um tillögurnar.

Til máls tók Sigurður Bjarnason er fjallaði um gildistíma.

Fundarstjóri bar síðan upp breytingartillögu við 1. grein og var hún samþykkt með 24 atkvæðum og engin á móti.

Fundarstjóri frestaði umræðum um 10. og 11. lið í dagskránni, en tók fyrir 12 lið „Atvinnumál.“
Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri Útflutningsráðs, útskýrði störf og markmið ráðsins, en skv. lögum hefur það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um utanríkisviðskipti. Aðstoða fyrirtæki með m.a. markaðsráðgjöf, kennslu, kynna Ísland sem fjárfestingakost. Útflutningsráð rekur tvær markaðsskrifstofur erlendis og er verið að útvíkka störf eða aðgreina hlutverk ráðsins.

Gunnlaugur Sigmundsson framkvæmdastjóri Kögunar ræddi um þær breytingar í þjóðlífinu sem eru meiri nú en hefur verið um langan tíma og við ættum fullt í fangi að aðlaga okkur að nýrri tækni og nýjum háttum. Hið sama á við um atvinnulífið sem gengið hefur í gegn um verulega uppstokkun á undanförnum fimm árum. Gunnlaugur færði síðan góð rök fyrir máli sínu og að lokum taldi hann að sveitarstjórnir eigi og geti, að hafa mikið að segja í uppbyggingu kröftugs atvinnulífs. Í ljósi þess sem Gunnlaugur hefur sagt hér áður að bein þátttaka í rekstri henti ekki sveitarfélögunum heldur beri þeim að einbeita sér að því að skapa umhverfi sem virkar örvandi á vilja einstaklinga og fyrirtækja til að ráðast í nýframkvæmdir. Sveitarstjórnir geta haft mikil og góð áhrif á atvinnuþróun með því að vinna saman með sparnað og eða stækkun í huga.

Þegar hér var komið gaf fundarstjóri fundarhlé og bauð fundar-mönnum og gestum að vera við opnun á sýningu á myndlist barna- og unglinga á vegum Menntamálaráðuneytisins í bókasafninu við Hafnargötu, en menntamálaráðherra Ólafur G. Einarsson mun opna sýninguna.

Kl. 17.00 var fundi framhaldið og tók Sólveig Þórðardóttir við fundarstjórn og gaf orðið laust um 13. lið á dagskránni.

13. Umræður um atvinnumál.

Til máls tók Jón Gunnarsson er spurði Jón Ásbergsson vegna ummæla hans um að framleiðandi þyrfti að komast nær neytandanum, hvers vegna lítið hafi þokast í þessum málum, er það vegna ofríkis stóru sölusamtakanna?

Kristján Pálsson rakti í stuttu máli för fríiðnaðarnefndar til Shannon á Írlandi og spurði jafnframt frummælendur hvort Íslendingum væri nauðsyn að ganga í Evrópusambandið?

Jón Ásbergsson svaraði fyrirspurn Jóns Gunnarssonar að það væri ekki mörg ár síðan að miðstýring í sjávarútvegi hefði verið algjör og allt hefði verið njörvað niður, en allt er þetta að breytast og í dag ræður hugarástand okkar fyrst og fremst hvernig til tekst.
Varðandi inngöngu í Evrópusambandið verður það að gerast í áföngum. Inngangan veitir okkur ekkert forskot, en jafnar stöðu okkar og er það því ljóst að við höfum ekki aðra kosti en að ganga í Evrópusambandið.

Gunnlaugur Sigmundsson sagðist ekki vera á móti fríiðnaðar-svæði, en það mætti ekki loka slíkt svæði innan veggjamúra.

Næst var tekið á dagskrá 10. liður skv. dagskránni.

10. og 11. liður: Skýrslur nefnda og tillögur og ályktanir lagðar fram.

Sigurður Jónsson sveitarstjóri í Garði skýrði frá störfum nefndar um æskulýðsmál, en í samvinnu við menntamálaráðuneytið er ákveðið að boða til ráðstefnu um æskulýðsmál 7. og 8. október sem ber yfirskriftina „Ungt fólk í leit að framtíð.“

Kristján Pálsson flutti skýrslu um frísvæði á Suðurnesjum, en Kristján telur að skapa verði þá aðstöðu að hingað vilji erlend fyrirtæki koma með starfsemi sína, s.s. með skattfríðendum.

Drífa Sigfúsdóttir formaður S.S.S. flutti skýrslu D-álmunefndar sem miðar nokkuð seint, en miklir erfiðleikar eru að fá fund með heilbrigðisráðherra.

Sigurður Jónsson lagði fram og ræddi punkta um atvinnumál, sem lagt er hér fram sem umræðugrundvöll um ályktun aðalfundar.

Drífa Sigfúsdóttir lagði fram ályktanir um:

a) Heilbrigðismál.
b) Grunnskóla.
c) Frárennslismál

Guðjón Guðmundsson framkv.stj. lagði fram tillögu um endur-greiðslu virðisaukaskatts vegna sorpeyðingar.

Kristján Pálsson lagði fram tillögu vegna Reykjanesbrautar.

14. Nefndarstörf:

Fundarstjóri lagði til að starfshópar mundu hefja störf og skipaði 3 starfshópa.

1. hópur „Atvinnumál“
Hópstjóri Sigurður Jónsson
Ritari Kristján Gunnarsson.

2. hópur „Grunnskólamál“
Hópstjóri Jóhann Geirdal
Ritari Valdís Kristinsdóttir

3. hópur „Alsherjarnefnd“
Hópstjóri Björk Guðjónsdóttir.
Ritari Þóra Bragadóttir.

Fundi frestað til kl. 10.00 næsta dag.

Aðalfundur S.S.S. – Framhald laugaraginn 17. september 1994
kl. 10.00.

15. Samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum í ljósi sameiningar sveitarfélaga.

Anna M. Guðmundsdóttir var fyrst á mælendaskrá en í erindinu sem hún flutti taldi hún að stjórnarkerfi S.S.S. væri þungt og svifaseint. Breyta þyrfti vægi atkvæða og formi sameiginlegra fyrirtækja s.s. með stofnun hlutafélags um rekstur þeirra.

Jón Gunnarsson lagði áherslu á hve samstarf sveitarfélaganna hefði gengið með ágætum þann tíma sem liðinn er, en útilokar ekki að ekki verði hægt að ná samkomulagi um einhverjar breytingar sem kæmu að einhverju leyti á móts við óskir stærsta sveitarfélagsins.

Jónína Sanders lagði fram í upphafi síns máls nokkrar spurningar:

1. Hver er framtíð Sambands sveitarfélaganna á Suðurnesjum?
2. Eigum við að halda áfram í óbreyttri mynd?
3. Eigum við að leggja S.S.S. niður?
4. Hvað viljum við?

Jónína ræddi síðan um aðildarhlutdeild er breyttist við sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna og taldi óhjákvæmilegt að breytingar yrðu að verða á S.S.S.
Að lokum lagði Jónína fram hugmyndir um skipan mála í nánustu framtíð.

– Að stjórnir sameiginlegra stofnana verði skipaðar fimm fulltrúum.
Skiptingin verði þannig að sameinað sveitarfélag Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna eigi þrjá, en hin sveitarfélögin fjögur skipti á milli sín tveimur fulltrúum. Formaðurinn verði alltaf stærsta sveitarfélagsins.

– Að stjórnir sameiginlegra stofnana verði skipaðar fimm fulltrúum, skiptingin verði eins og í síðustu upptalningu þ.e. þrír frá okkur og tveir frá hinum, en hin sveitarfélögin fái formanninn annað hvert kjörtímabil.

– Að stjórnir sameiginlegra stofnana verði skipaðar fimm fulltrúum. Skiptingin verði sú að hvert sveitarfélag fær einn fulltrúa, en að hægt verði að fara fram á hlufallskosningu komi til ágreinings um afgreiðslu einstakra mála. Í stjórnum þar sem sveitarfélögin eiga ekki öll fulltrúa þá verði það tryggt að nýja sveitarfélagið fái alltaf fulltrúa.

Margrét Gunnarsdóttir forseti bæjarstjórnar Grindavíkur lagði áherslu á að samstarf sveitarfélaganna hefði verið með ágætum undanfarin ár og útilokar ekki að einhverjar breytingar mundu eiga sér stað.

16-17. Umræður og ályktanir.

Fundarstjóri gaf síðan orðið laust og tók fyrstur til máls Sigurður Bjarnason, Sandgerði er taldi að ekki hefði verið farið eftir tillögum oddvitanefndar í eini eða neinu.
Sigurður gerði að umtalsefni samanburð á skatttekjum og að engin sameiginlega rekin fyrirtæki væru í Sandgerði þrátt fyrir loforð í þeim efnum.
Sigurður taldi að lokum að Jónína hefði kastað eld inn á fundinn sem leiddi ekki til árangurs.

Jón Gunnarsson furðaði sig á litlum umræðum um samstarfið og hvatti menn til að koma upp í pontu og ræða framtíðina í sam-starfinu. Jón spurði hvort bæjarfulltrúar í nýja sveitarfélaginu hafi mótaðar tillögur um samstarfið og hvort þær væru í takt við hugmyndir Jónínu A. Sanders

Drífa Sigfúsdóttir sagði að hugmyndir Jónínu A. Sanders væru hennar eigin hugmyndir, en bæjarstjórn Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna hefðu ekki rætt þessi mál.

Sigurður Ingvarsson, Garði lýsti því fyrir hönd sveitarstjórnar Gerðahrepps að þeir höfnuðu algjörlega þeim tillögum sem fram hefðu komið.

Björgvin Lúthersson fyrrverandi oddviti Hafnahrepps taldi að erfiðleikar sem væri nú uppi í samstarfinu væri vegna þess hve margir nýliðar hafi komið við síðustu kosningar.

Jónína A. Sanders lagði áherslu á að hún hafi lagt fram hugmyndir en ekki tillögur að breyttu fyrirkomulagi innan S.S.S.

Hinrik Bergsson, Grindavík taldi óánægju fulltrúa nýja sveitar-félagsins endurspegla það hversu sameiningin hafði í raun verið lítil.

Jóhann Geirdal, Keflavík, Njarðvík, Höfnum sagði að samstarfið væri ekkert annað en tæki sem hefði þann tilgang að ná sem bestum árangri fyrir fólkið og ef við náum betri árangri með einhverju öðru samstarfi þá er það vel.

Kristján Gunnarsson bæjarfulltrúi tók undir tillögur eða hug-myndir Önnu Margrétar og Jónínu og taldi að nýja sveitarfélagið ætti að fá frekari völd.

Ólafur Gunnlaugsson, Sandgerði lýsti ánægju sinni yfir sam-einingu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna sem væri nokkurs konar prófsteinn á framtíð sveitarfélaganna hér á Suðurnesjum og taldi óhjákvæmilegt að einhverjar breytingar yrðu á vægi milli sveitar-félaganna innan S.S.S.

Anna M. Guðmundsdóttir taldi nauðsynlegt að samstarfið væri í stöðugri endurskoðun og það fari fram heiðarlegar umræður um skipan mála í framtíðinni.

Ólafur Ragnar Grímsson, alþingismaður sagði að sér kæmi á óvart að þreyta væri komin í samstarfið því margt hefði áunnist s.s. viðbygging F.S., öldrunarmál o.fl. á undanförnum árum.

Óskar Gunnarsson, Sandgerði sagði að styrkur samstarfsins væri gagnkvæmt traust og virðing.

Kristján Pálsson rakti nokkrar hugmyndir um að gera stofnanir innan samstarfsins sjálfstæðari s.s. væri möguleiki að gera Sorpeyðingarstöðina að sér hlutafélagi. Brunavarnir gætu verið sérstök deild innan nýja sveitarfélagsins og fleira tíndi Kristján til sem innlegg í komandi umræður.

Björn Eiríksson, Vogum óttast upplausn í samstarfinu og telur hugmyndir Jónínu A. Sanders ekki vera til umræðu, en hugmyndir Kristjáns Pálssonar vert skoðunar. Björn lagði til að fulltrúafjöldi innan S.S.S. ætti að fara eftir stærð lands.

Sigurður Bjarnason, Sandgerði vonaðist til að menn nái saman, þrátt fyrir allt, því hagsmunir fólksins ættu að vera í fyrirrúmi.

Hinrik Bergsson, Grindavík taldi að það mætti skoða vægi hins nýja sveitarfélags, en jafnframt taldi hann að við yrðum ekkert betur sett með breytingum sem skertu völd hinna sveitarfélaganna.

Sigurður Jónsson Garði ræddi um samstarfið og spurði Jónínu A. Sanders hvað í samstarfinu væri svo slæmt? Sigurður taldi að sú þreyta sem komi nú fram væri vegna vandræðagangs fullrúa hins nýja sveitarfélags.

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri taldi sig knúinn til að fara yfir skipulag S.S.S. og minnti menn á að S.S.S. væri eitt og stofnanir annað og menn ættu ekki að rugla þessu saman.

Jón Gunnarsson, Vogum fór fram á það við fulltrúa hins nýja sveitarfélags að nafnið „Suðurnes“ verði ekki notað sem bæjarnafn.

Jónína Sanders taldi að það yrðu breytingar á samstarfinu, en það mundi engin valta yfir neinn.

Drífa Sigfúsdóttir vísar ummælum Sigurðar Jónssonar um vandræðagang til föðurhúsanna. Taldi ekki rétt að nýja sveitar-félagið kæmi með fullmótaðar tillögur um breytingar á samstarfinu, heldur ættu fulltrúar sveitarfélaganna að ræða þetta á sameiginlegum grundvelli s.s. hér innan vébanda S.S.S.

Matarhlé var gefið kl. 12.00 og hófust umræður aftur kl. 13.00 með ávarpi Össurar Skarphéðinssonar umhverfisráðherra.

18. Umhverfisráðherra ræddi málefni ráðuneytisins, hlutverk þess og þær reglugerðir sem voru í endurskoðun. Ráðherra ræddi m.a. um mikilvægi mengunarvarna og að sveitarstjórnir yrðu að taka sér tak í frárennslismálum, en stefna ríkisstjórnarinnar væri að koma þessum málum í lag á næstu 10 árum. Einnig ræddi ráðherra um eyðingu spilliefna, sorphirðu o.fl. Að lokum taldi ráðherra að ekki næðist árangur í umhverfismálum nema með góðu samstarfi við sveitarfélögin

19. Fyrirspurnir.

Guðjón Guðmundsson spurði ráðherra ef sveitarfélögin hér færu í fullkomna brennslulínu, hvort ráðuneytið muni aðstoða við þá uppbyggingu.

Jóhann Geirdal ræddi um að ekki væri nóg að hreinsa vatnsból vegna mengunar, það þyrfti einnig að hreinsa svæðin.

Óskar Gunnarsson þakkaði ráðherra fyrir gott ávarp, en óskaði eftir nánari útfærslu á frárennslismálum frá ráðuneytinu.

Björn Eiríksson spurði ráðherra um freonefni, hvort eitthvað annað komi í staðinn og hvort ekki sé hægt að nýta sorp betur en gert er.

Ellert Eiríksson spurði ráðherra hver færi með frárennslismál við flugstöð Leifs Eiríkssonar, hvert sé vald umhverfisráðuneytisins
vegna hreinsunar á varnarsvæðum s.s. vegna olíuleka o.fl. Hvort ráðuneytið muni koma að samningum um fráveitumál við herinn.

Jón Gunnarsson ræddi um þá flutninga á olíu sem færi um Reykjanesbraut, m.a. vegna hættu á mengun vatnsbóla. Jón spurðist fyrir hvort ráðherra gæti beitt sér í málinu.

Ráðherra Össur Skarphéðinsson svaraði fyrirspurnum Guðjóns um að ráðuneytið kæmi ekki inn í með fjármagn ef Sorpeyðingar-stöðin verði stækkuð, en ljóst sé að árið 2000 verði að vera búið að bæta stöðina.

Vegna fyrirspurnar Óskars Gunnarssonar telur ráðherra að það sé forgangsverkefni sveitarfélaga að gera úrbætur í frárennslismálum og að tillaga liggi fyrir um hugsanlega endurgreiðslur á virðisauka-skatti vegna málsins.

Vegna fyrirspurnar Björns Eiríkssonar taldi ráðherra að Freonefni yrðu áfram á markaðnum, þar sem önnur efni skaðlaus væru mjög dýr. Ráðherra ræddi einnig um endurvinnslu á lífrænum úrgangi sem færi nú í vöxt.

Vegna fyrirspurnar Ellerts upplýsti ráðherra að málefni varnarliðsins og flugstöðvar Leifs Eiríkssonar væri í höndum utanríkisráðuneytisins.
Ráðherra upplýsti einnig að ekki væri hægt að setja lög um akstur olíu á Reykjanesbraut.

20. Ályktanir – framhald.

Sigurður Jónsson hópstjóri atvinnumálanefndar las upp ályktun um atvinnumál „Þingskjal 1“

“ Aðalfundur S.S.S.haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 16. og 17. september 1994 leggur fram eftirfarandi ályktun um atvinnumál.

Aðalfundur telur það grundvallaratriði að hægt verði á markvissan hátt að útrýma atvinnuleysi á Suðurnesjum. Margt bendir til þess að langvarandi samdráttarskeiði sé nú að ljúka og möguleikar á framþróun og uppgangi séu að skapast.

Nauðsynlegt er að vinna að nýsköpun og atvinnuþróun, þannig að nýr hugsunarháttur skapi þeim ungmennum sem eru á leið út á vinnumarkaðinn störf.
Sjávarútvegur er megin atvinnugrein Suðurnesja og mun verða í náinni framtíð.
Aðalfundur S.S.S. lýsir áhyggjum sínum yfir erfiðri rekstrarstöðu vertíðarflotans.
Þorskkvótinn er orðinn það lítill að útgerð vertíðarflotans er vonlítil og fyrirsjáanlegt að margir bátar geti ekki hafið veiðar á vetrarvertíð vegna kvótaleysis. Þetta mun leiða til minnkandi tekna og minni atvinnu á svæðinu. Það er umhugsunarefni fyrir stjórnvöld að eftir 10 ára uppbyggingu þorskstofnsins skuli ástand hans vera jafn slæmt og raun ber vitni og áframhaldandi skerðing verði næstu ár.
Fundurinn leggur áherslu á að Byggðastofnun ríkisins mismuni ekki landshlutum í fyrirgreiðslu sinni.
Fundurinn leggur á það áherslu að sveitarstjórnirnar á Suðurnesjum hafi með sér náið samstarf um að tryggja að skip og afli haldist á svæðinu.
Fundurinn krefst þess af ríkisvaldinu að niðurstaða fáist varðandi frísvæði á Suðurnesjum, hvort hér sé um vænlegan kost til atvinnuuppbyggingar að ræða. Reynist niðurstaðan jákvæð hvetur aðalfundurinn til stofnunar hlutafélags um rekstur frísvæðis á Suðurnesjum.
Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein á Suðurnesjum.
Fundurinn telur nauðsynlegt að gerð verði áætlun um hvernig enn betur verði hægt að stuðla að aukningu.
Fundurinn telur nauðsynlegt að endurskoða núverandi atvinnu-leysistryggingakerfi með það í huga að hluti þeirra fjármuna sem í það er varið verði frekar varið til uppbyggingar atvinnu til lengri tíma frekar en greiðslu bóta fyrir atvinnuleysi.
Fundurinn telur að ekki verði unað við áframhaldandi greiðslu-þátttöku sveitarfélaga í Atvinnuleysistryggingasjóð.
Fundurinn telur að áframhaldandi samstarf sveitarfélaga á Suður-nesjum í atvinnumálum sé farsælasta lausnin með tilliti til að um eitt atvinnusvæði er að ræða.
Fundurinn leggur á það áherslu að eignaraðilar efli enn frekar Eignarhaldsfélagið h.f. þannig að það geti betur sinnt sínu hlutverki til eflingar atvinnulífs á Suðurnesjum.“

Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktun um atvinnumál og tók Ellert Eiríksson til máls og gerði að umtalsefni greiðslur sveitarfélaga í atvinnuleysistryggingasjóð og taldi að í raun leggði ríkið ekkert fram í sjóðinn, þar sem þeir tækju til baka það sem þeir legðu til sjóðsins í gegnum virðisaukaskattinn.

Jóhann Geirdal tók undir það sem fram hefur komið varðandi atvinnuleysistryggingasjóð, en taldi að við ættum ekki að leggja til að hætta að greiða atvinnuleysisbætur.

Sigurður Jónsson taldi að þær athugasemdir sem fram hefðu komið varðandi ályktunina eiga fullan rétt á sér, og var því samþykkt samhljóða að fresta atkvæðagreiðslu um ályktunina.

Jóhann Geirdal hópstjóri grunnskólans las upp ályktun nefnd-arinnar, um yfirtöku sveitarfélaganna á rekstri grunnskólans
„Þingskjal nr. 2“

„Sveitarfélögin hafa víða um land gengist fyrir því, langt umfram lagalegar skyldur sínar, að tryggja skólastarf með margskonar hætti auk þess sem mörg þeirra hafa beitt sér fyrir nýmælum og fram-þróun í skólastarfi. Samstarfsverkefnum ríkis og sveitarfélaga hefur fækkað á undanförnum árum. Yfirfærsla á öllum grunn-skólakostnaði frá ríki til sveitarfélaga er rökrétt framhald á þeirri viðleitni, jafnframt því sem hún eflir sveitarstjórnarstigið og eykur ábyrgð þess. Meginmarkmiðið með tilfærslunni er að bæta menntun íslenskra grunnskólabarna.
17. aðalfulndur S.S.S. telur því rétt að sveitarfélögin á Suðurnesjum taki að fullu við rekstri grunnskóla.
Aðalfundurinn tekur þó undir þá þrjá fyrirvara sem XV. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga setti, en þeir eru:

1. Að fullt samkomulag náist milli ríkis og sveitarfélaga varðandi flutning verkefna og tekjustofna til sveitarfélaganna, til að standa undir öllum þeim aukna kostnaði er yfirtökunni fylgir þannig, að grunnskólanám allra barna í landinu verði tryggt.

2. Vanda sveitarfélaga sem yfirtaka hlutfallslega háan grunnskólakostnað miðað við tekjur verði mætt með jöfnunaraðgerðum.

3. Að fullt samkomulag náist milli ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga kennara um kjara- og réttindamál kennara þ.m.t. meðferð lífeyrisréttinda.

Fundurinn leggur áherslu á að niðurstaða þarf að hafa náðst í þessum málum fyrir áramót svo yfirtaka sveitarfélaga geti átt sér stað á næsta ári.

Auk þess telur aðalfundurinn rétt að kannað verði hvort og hvernig sveitarfélögin á Suðurnesjum geti yfirtekið þau verkefni sem fræðsluskrifstofur eiga að sinna nú samkvæmt lögum.“

Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunina frá hópnum.

Til máls tók Jón Gunnarsson er kom með smá ábendingu varðandi ályktunina.

Ellert Eiríksson taldi yfirtaka sveitarfélaganna á grunnskólanum vera stærsta verkefnið sem sveitarfélögin tækju að sér og menn þyrftu að vanda til verksins.

Sigríður Þórðardóttir alþingismaður lýsti ánægju sinni með þær umræður og ályktanir sem lægju hér fyrir fundinum og taldi að sveitarfélögin væru best til þess fallin að annast þessi mál.

Jóhann Geirdal hópstjóri lagði fram ályktun um fund um yfirtöku sveitarfélaganna á rekstri grunnskólans „Þingskjal 3.“

„Aðalfundur S.S.S., haldinn í húsnæði F.S. 16. og 17. september 1994, samþykkir að stjórn S.S.S. boði til fundar fyrir nóvemberlok, um yfirtöku sveitarfélaganna á rekstri grunnskólans. Sveitarstjórn-armenn, fulltrúar í skólanefndum, kennarar og skólastjórar grunnskólanna á Suðurnesjum verða sérstaklega hvattir til að taka þátt í umræðum um málefni grunnskólans.“

Fundarstjóri Sólveig Þórðardóttir bar síðan upp þingskjöl 2 og 3 og voru þau samþykkt samhljóða.

Tekið var aftur fyrir ályktun Atvinnumálanefndar „þingskjal 1“ til afgreiðslu og samþykkt samhljóða.

Hópstjóri Alsherjarnefndar Björk Guðjónsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögur og ályktanir nefndarinnar.

Tillaga um heilbrigðismál „Þingskjal 4.“

17. aðalfundur S.S.S. samþykkir að skora á heilbrigðisráðherra Sighvat Björgvinsson, að ljúka nú þegar samningum við sveitar-félögin á Suðurnesjum um byggingu D-álmu við Sjúkrahús Suðurnesja. Með byggingu D-álmu við Sjúkrahúsið fæst langþráð og nauðsynleg aðstaða til endurhæfingar, bætt aðstaða heilsugæslu auk legurýmis. Aðalfundur S.S.S. hvetur til þess að lokið verði sem fyrst við bygginu D-álmu við Sjúkrahús Suðurnesja, sem er eitt brýnasta hagsmuna- og velferðarmál svæðisins.

Tillaga að ályktun um endurgreiðslu virðisaukaskatts „Þingskjal nr. 5.“

„Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 16. og 17. september 1994 mótmælir harðlega hinni þröngu skilgreiningu ríkisskattstjóra á hugtakinu sorpi í reglugerð nr. 248/1990. Þess er krafist að endurgreiðsla virðisaukaskatts taki til alls kostnaðar við förgun sorps sem sveitarfélögin bera ábyrgð á, þar með talin fjárfesting, öll söfnun, flutningur og förgun brotamálma sem og spilliefna.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum skorar á fjármálaráðherra að hann beiti sér fyrir breytingum á reglugerðinni þannig að skilgreiningar og túlkanir á lögunum séu skýrar þannig að framkvæmd þeirra mismuni ekki aðilum.

Þá er minnt á að í sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 er sorphreinsun og sorpeyðing talin eitt af verkefnum sveitarfélaga.“

Ályktun um frárennslismál „þingskjal nr. 6“

„17. aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja samþykkir að beina því til Sambands ísl. sveitarfélaga að það beiti sér fyrir viðræðum við ríkisvaldið um hvernig fjármagna skuli framkvæmdir á sviði frárennslismála.“

Tillaga um samgöngumál „þingskjal nr. 7“

„17. aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja beinir þeim eindregnu tilmælum til þingmanna Reykjaneskjördæmis, Alþingis Íslendinga og ríkisstjórnar Íslands, að við endurskoðun vegaáætlunar verði á langtímaáætlun gert ráð fyrir tvöföldun og lýsingu Reykjanesbrautar og lagningu vegna með bundnu slitlagi frá Grindvík til Þorláks-hafnar.“

Til máls tóku vegna þingskjals 4 þeir Ellert Eiríksson, Jón Gunnarsson og Guðjón Guðmundsson og var þingskjal 4 síðan borið upp og samþykkt samhljóða.

Þingskjal 5 og 6 borið upp og samþykkt samhljóða án umræðu.

Nokkrar umræður urðu um þingskjal 7.

Viggó Benediktsson, Garði gerði að tillögu að inn í þingskjal 7 komi til viðbótar að lagður yrði vegur frá Sandgerði til Hafna. Tillaga Viggós felld með 7 atkv. gegn 6.

Jón Gunnarsson lagði til innskot í þingskjal 7 í 2. línu „þingmanna Reykjaneskjördæmis“ og var sú tillaga samþykkt samhljóða.
Tillaga Jóns Gunnarssonar samþykkt samhljóða.

Kristján Pálsson ræddi um kosti tvöföldun Reykjanesbrautar m.a. vegna frísvæðis og að höfuðborgarsvæðið og Suðurnes yrðu eitt vinnusvæði.

Þingskjal 7 samþykkt samhljóða við áorðnum breytingum.

21. Önnur mál.

Engar umræður urðu um önnur mál.

22. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Fundarstjóri ó