20. Aðalfundur SSS 31. október 1997
20. aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja föstudaginn 31. október og 1. nóvember 1997, kl. 13.00.
Dagskrá:
Föstudagur 31. október 1997.
Kl. 13.00 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 13.30 2. Fundarsetning
3. Kosning fundarritara og fundarstjóra
4. Skýrsla stjórnar: Drífa Sigfúsdóttir, formaður S.S.S.
5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 1996.
Guðjón Guðmundsson, framkv.stj.
6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
7. Skýrslur starfshópa og nefnda á vegum S.S.S.
8. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Kl. 14.30 9. Ávarp félagsmálaráðherra Páls Péturssonar
Kl. 14.50 10. Ávörp gesta.
Kl. .15.00 11. Kaffihlé.
Kl. 15.30 12. Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaganna.
Páll Pétursson félagsmálaráðherra
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson form. Samb. ísl. sveitarfél.
Hallur Magnússon félagsmálastjóri Hornafjarðarbæjar.
Þór Þórarinsson framkvæmdastjóri Svæðisskrifsofu málefna fatlaðra á Reykjanesi.
Eiríkur Hilmarsson fulltrúi Þroskahjálpar á Suðurnesjum
Kl. 17.00 13. Umræður.
Kl. 17.30 14. Fundi frestað.
Laugardagur 1. nóvember 1997.
Kl. 10.00 15. Grunnskólinn og framtíðin.
Þórólfur Þórlindsson prófessor H.Í.
Eiríkur Hermannsson skólamálastjóri.
Ellert Eiríksson bæjarstjóri, Reykjanesbæ
Pétur Brynjarsson formaður bæjarráðs, Sandg.
Sigurður Jónsson sveitarstjóri, Garði.
Kl. 11.10 Stutt hlé.
Kl. 11.20 16. Pallborðsumræður: Stjórnandi Jón Gunnarsson oddviti
Kl. 12.00 17. Matarhlé.
(Aðalfundur Héraðsnefndar Suðurnesja)
Kl. 13.30 18. Samstarf sveitarfélaga, skóla og atvinnulífs – horft til
framtíðar.
Friðjón Einarsson framkvæmdastjóri MOA.
Ólafur Arnbjörnsson skólameistari FS.
19. Umræður.
Kl. 14.30 20. Félagsþjónusta og framfærslumál sveitarfélaga.
Lög og reglur um framfærslu og skyldur sveitarfélaga.
Hjördís Árnadóttir félagsmálastjóri Reykjanesbæjar.
Samanburður á útgjöldum sveitarfélaga til félagsþjónustu.
Aðalsteinn Sigfússon félagsmálastjóri Kópavogs.
21. Umræður.
Kl. 15.30. 22. Kaffihlé.
Kl. 16.00 23. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
Kl. 16.30 24. Önnur mál.
Kl. 17.00 25. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
26. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
27. Kosnir 4 fulltrúar á ársfund Landsvirkjunar.
Kl. 17.15. 28. Fundarslit.
Kl. 20.00 Kvöldverður í boði S.S.S. fyrir fundarmenn og maka.
Fulltrúafjöldi: Reykjanesbær 12
Grindavíkurbær 8
Sandgerði 6
Gerðahreppur 8
Vatnsleysustr.hr. 6
Gestir fundarins og frummælendur:
Páll Pétursson félagsmálaráðherra, Ólafur G. Einarsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Hjálmar Árnason, Kristín Halldórsdóttir, Kristján Pálsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Ágúst Einarsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson form. Sambandi ísl. sveitarfélaga, Hallur Magnússon, félags-málastjóri, Þór Þórarinsson, framkv.stj., Eiríkur Hilmarsson Þ.S., Þórólfur Þór-lindsson, prófessor H.Í., Eiríkur Hermannsson, Skólaskrifstofu Reykjanesbæjar, Friðjón Einarsson, framkv.stj. MOA., Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari F.S., Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri, Aðalsteinn Sigfússon, félagsmála-stjóri, Guðmundur I. Gunnlaugsson form. SASS, Jóhann Sveinsson HES, Svava Pétursdóttir, Sigríður Daníelsdóttir, Jenný Magnúsdóttir, Ása Kristín Margeirs-dóttir, Sæmundur Pétursson, Smári Guðmundsson, Einar V. Arason, Kristinn Jóhannsson, Kristján A. Jónsson, Jón Ögmundsson, Ingþór Karlsson, Guðjón Þ. Kristjánsson, Jón Ingi Baldvinsson, Guðlaugur Atlason,
1. Skráning fulltrúa og fundarsetning.
2. Formaður S.S.S. Drífa Sigfúsdóttir setti fundinn og bauð fundarmenn og gesti velkomna til fundarins.
3. Kosning fundarstjóra og fundarritara:
Lagði formaður til að Ellert Eiríksson yrði fundarstjóri og Sólveig Þórðardóttir til vara og voru þau sjálfkjörin. Einnig lagði formaður til sem fundarritara Hjört Zakaríasson og Reynir Ólafsson til vara og voru þeir sjálfkjörnir.
4. Drífa Sigfúsdóttir formaður stjórnar S.S.S. flutti skýrslu stjórnar.
Á starfsárinu hélt stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 17 bókaða fundi og á dagskrá voru 176 mál, sem voru misumfangsmikil. Umfjöllun um D-álmu var drjúg sem og umræður um framtíðarskipan öldrunarmála á Suðurnesjum. Fjármál stofnana var betur fylgt eftir en áður m.a. með því að stjórnir ásamt viðkomandi framkvæmdastjórum voru boðaðar á fund til að ræða um fjármálastjórnun. Kjaramál hafa einnig verið ofarlega á baugi.
Samgöngumál
Stjórn SSS hefur ætíð lagt mikla áherslu á samgöngubætur í kjördæminu. Seinni árin hefur stjórn SSS forgangsraðað framkvæmdum til að auðvelda þeim sem skipta fjármagni til vegamála í kjördæminu þ.e. þingmönnum kjördæmisins. Við höfum einnig sent bréf til vegagerðarinnar, samgönguráðherra og rætt við fjárlaganefnd um þetta mikilvæga mál.
Frá síðasta aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, hefur tekist að ná fram tveimur málum af þeim sem við forgangsröðuðum í ályktum okkar um vegamál á Suðurnesjum þ.e. lýsingu Reykjanesbrautar að Flugstöð og lýsingu afleggjara frá Reykjanesbraut að Vogum. Ég vil nota tækifærið til að þakka þingmönnum kjördæmisins fyrir að hafa hlustað á rökstuðning SSS og farið eftir honum við ákvörðunartöku um vegaframkvæmdir i kjördæminu.
Að undanförnu hefur einnig verið unnið við framkvæmdir vegna nýrrar tengingar Reykjanesbrautar við Gerðahrepp og Sandgerðisbæ. Um er að ræða nýja vegi og hringtorg er nú eru tilbúinn.
Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum mun hér eftir sem hingað til leita allra ráða til að vinna að bættum samgöngum á Suðurnesjum.
D-álma.
Í upphafi starfstíma stjórnar á yfirstandandi tímabili, fór mikill tími í vinnu vegna gerð nýs samnings um byggingu D-álmu en sveitarfélögin fjármagna bygginguna. Þeir voru ófáir fundirnir formlegir og óformlegir með heilbrigðisráðherra, formanni fjárlaganefndar, ráðuneytisstjórum heilbrigðis- og fjármálaráðuneytis en einnig voru haldnir fundir með þingmönnum kjördæmisins vegna málsins. Fleiri komu að málinu en ég læt þessa upptalningu lokið. Eldri samningur hljóðaði upp á 129.930.000 krónur en nýr samningur nemur 302.900.000 krónur eða 172.970.000 krónum hagstæðari. Í eldri samningi var gert ráð fyrir tveimur hæðum og kjallara (3x875fm + laufskáli 69 fm) samtals 2.667fm. Nýr samningur um D-álmu hljóðar þriggja hæða hús að flatarmáli 2.940 fm (3x943fm) auk þess verður byggð 111 fm viðbyggingu við heilsugæslu sem ekki var í eldri samningi. Með nýja samningnum fáum við 275 fm fleiri en í þeim gamla. Auk þess sem gert var ráð fyrir niðurgröfnum kjallara í eldra samkomulagi verður enginn kjallari í nýja samningnum og húsnæðið nýtist því að fullu. Í eldri samningi var aðeins ákveðið að steypa upp og ganga frá að utan húsinu en ekkert samkomulag náðist um framtíðarnotkun. Í nýja samningnum er kveðið á um að á annarri hæð verði legudeild og hvenær hefja eigi rekstur hennar en um það voru enginn ákvæði í eldri samningi. Niðurstaðan er því sú að við fengum 172.970.000 krónur meira fé til Suðurnesja með nýjum samningi og 275 fm stærra hús og enginn niðurgrafinn kjallari sem leiðir af sér mun betri nýtingu húsnæðis. Þá fylgdi með í samkomulaginu að við heilsugæsluna bættist einn heilsugæslulæknir sem er mjög mikilvægt. Í samningnum er Sjúkrahús Suðurnesja flokkað með sjúkrahúsunum á Höfuðborgarsvæðinu, Selfossi og á Akranesi. Samninganefnd um D-álmu var þannig skipuð formaður Drífa Sigfúsdóttir, Jón Gunnarsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson. Þá starfaði framkvæmdastjóri SSS Guðjón Guðmundsson með nefndinni. Ég tel að samningurinn hafi verið gæfuspor fyrir okkar svæði
Á fundi með sveitarstjórnarmönnum um D-álmu var óskað eftir því, að ráðherra skipaði nýjan formaður bygginganefndarinnar. Heilbrigðisráðherra sendi síðan bréf þann 8.05 s.l. og tilkynnti að Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri heilbrigðisráðuneytisins hefði verið skipaður formaður bygginganefndar D-álmu í stað Símons Steingrímssonar.
Teikningarnar hafa fengið alla nauðsynlega afgreiðslu hjá skipulagsyfirvöldum í Reykjanesbæ en það reyndist nauðsynlegt að auglýsa breytingu á skipulagi. Þá hefur bygginganefnd einnig samþykkt erindið. Erfiðlega gekk að semja við arkitekt um viðunandi kjör enda ekki góð samningsstaða. Þeirri vinnu er lokið og útboð á heilsugæslu verður væntanlega auglýst um helgina. Því miður hafa framkvæmdir farið seinna af stað en gert var ráð fyrir m.a. vegna skipulagsmála. Ekkert bendir til þess að lok framkvæmdatímans muni ekki standast.
Málefni aldraðra.
Á fundum stjórnar SSS hefur ítrekað verið rætt um framtíðarskipun öldrunarmála á Suðurnesjum. Teknar voru saman upplýsingar um þá þjónustu sem veitt er hjá sveitarfélögunum en ekki náðist samstaða um framhald málsins.
Sameiginlega reknar stofnanir:
Við afgreiðslu fjárhagsáætlana sameiginlega rekinna stofnana frá fjárhagsnefnd þá var halli tveggja stofnana (DS og BS) skilin eftir til afgreiðslu stjórnar SSS. Stjórn SSS ræddi við stjórn og framkvæmdastjóra Dvalarheimila aldraðra Suðurnesjum og Brunavarna Suðurnesja um fjárhagsvandann. Sveitarfélögin leggja þessum stofnunum til 1/3 hallans en fól þeim að glíma við það sem út af stæði. Ákveðið var að þegar 6 mánaða uppgjör lægi fyrir yrði fundað saman að nýju. Á þeim fundi var staðan rædd ítarlega með viðkomandi aðilum.
Húsnæðismál
Stjórn SSS skipaði starfshóp sem skoðað möguleika á því að starfssemi SSS og HES verði flutt í fyrrum skrifstofur Njarðvíkurbæjar. Gerð hefur verið gróf kostnaðaráætlun en næsta skref verður að leggja málið fyrir bygginganefnd til afgreiðslu. Af því loknu verður endanleg kostnaðaráætlun gerð. Stjórn SSS er jákvæð í málinu. Ef ekkert óvænt kemur fram þá verður starfssemin væntanlega flutt á næsta starfsári stjórnar SSS.
Starfshópinn skipa Guðjón Guðmundsson, Jón Gunnarson og Sigurður Jónsson.
Fundir
Kynningafundur sveitarstjórnarmanna um nýjan samning um byggingu D-álmu var haldinn sama dag og niðurstaða náðist í málinu 18.11 1997.
Stjórn SSS mætti á fund með þingmönnum kjördæmisins vegna reksturs Sjúkrahúss Suðurnesja og Heilsugæslu Suðurnesja.
Þann 6. nóvember n.k. verður haldin kynningarfundur um ný skipulags og byggingalög. Fundarboðendur eru Umhverfisráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Samstarf við aðra
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur á síðustu árum átt gott samstarf við Landgræðsluna. Ákveðið var að halda því samstarfi áfram enda er árangur og mikilvægi þess samstarfs augljós.
Stjórn SSS tók undir tillögu bæjarstjórnar Akraness, þann 23. janúar 1996, um að teknar verði upp viðræður við ríkið um að húsaleigubótakerfið verði hluti að almennu bótakerfi ríkisins.
Samtök sveitarfélaga á höfðuðborgarsvæðinu bauð sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum í heimsókn þann 23.05 1997. Ferðin var í alla staði ánægjuleg og gagnleg og vil ég nota tækifærið og þakka SSH fyrir gott skipulag og höfðinglegar móttökur.
SSS tók undir sjónarmið sem SSNV (Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra) kynntu, þ.e. að mikilvægt væri að kjörnir sveitarstjórnarmenn verði tilnefndir í nefndir vegna yfirfærslu á málefndum fatlaðra.
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum
Samþykkt var að Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum yrði stofnaðili. Áður hafði verið ákveðið að styrkja verkefnið um 500.000 krónur.
Landshlutasamtök
Stjórn SSS tók þátt í undirbúningi að ráðstefnu um byggðamál sem haldin var á Akureyri 22.-23. apríl 1997. Stefnt er að því að halda fund um niðurstöður rannsókna sem byggðastofnun lét framkvæma um afstöðu fólks til búsetu á mismunandi landsvæðum. Margt forvitnilegt kom fram á ráðstefnunni sem verðugt væri að vinna betur úr.
Á sumarfundi formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka tók SSS við forystuhlutverki þessa óformlega samstarfs. Næsti fundur verður í tengslum við fjármálaráðstefnu og mun stjórn SSS undirbúa dagskrá fundarins.
Kjaramál
Iðulega hafa orðið miklar umræður um kjaramál einkum um starfsmatskerfið. Það er ljóst að stjórn SSS er ekki sérstakur talsmaður starfsmatskerfisins vegna þeirra ágalla sem komið hafa fram á því. Ég tel að sníða þurfi ýmsa agnúa af núverandi kerfi sem fyrst eða ræða við stéttafélögin um annað fyrirkomulag. Það hefur iðulega tekið langan tíma frá því að viðkomandi sveitarfélag eða stofnun sendir frá sér mál þar til það hefur fengið fullnaðarafgreiðslu. Þessi biðtími er báðum aðilum til ama og langur biðtími skapar óvissu og óþægindi sem best er að vera án. Þá er ekki auðvelt að segja nýjum starfsmanni hver launakjör hans verða. Fyrst fer fram bráðabirgðamat og eftir ákveðin reynslutíma fer fram mat á starfinu. Eftir að erindið hefur farið frá starfsmanni eða yfirmanni til starfskjaranefnd og þaðan til starfsmatsnefndar sem metur það og sendir aftur til starfskjaranefndar sem afgreiðir erindið til viðkomandi stjórnar. Þá loks er hægt að greiða viðkomandi þau laun sem hann á rétt á samkvæmt kerfinu. Þetta er seinlegt kerfi og það er óeðlilegt að geta ekki svarað spurningu nýs starfsmanns hver launakjör hans verða.
Launanefnd SSS
Launanefnd SSS hefur lokið samningsgerð við eftirtalda aðila: Vélstjórafélag Suðurnesja, samningur var undirritaður þann 19.06 1997. Kjarasamningur við Sjúkraliðafélag Íslands var undirritaður þann 22.09. 1997 og samningur við Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur (VSFK) var undirritaður þann 30.10 1997.
Launanefnd er skipuð þannig formaður Drífa Sigfúsdóttir, Jón Gunnarsson og Sigurður Jónsson.
Samskiptatækni
Í framhaldi af umræðum á aðalfundi SSS um samskiptatækni og nýjustu tækni í tölvumálum samþykkti stjórn SSS að fela framkvæmdastjóra að skoða þau mál og leggja fram tillögu fyrir stjórn. Það er ör þróun í tölvumálum og búnaði þeim tengdum og því var talið skynsamlegt að sameinast um tæknibúnað til nota á fundum og ráðstefnum.
Á fundi stjórnar þann 24.10. 1997 var samþykkt að kaupa skjávarpa ásamt búnaði. Þessi búnaður verður til nota fyrir sveitarfélögin og sameiginlega reknar stofnanir. Búnaðurinn verður ekki til útlána fyrir aðra en eigendur. Búnaðurinn verður notaður síðar á fundinum svo fundarmönnum gefist kostur á að kynnast kostum hans.
Móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps á Suðurnesjum.
Stjórn SSS samþykkti að láta kanna mótökuskilyrði útvarps og sjónvarps. Eftir þá athugun er ljóst að skilyrðin yfirhöfuð slök og víða óviðunandi. Víða á Suðurnesjum nást sendingar sjónvarps- og útvarpsstöðvanna mjög illa og mikill og kostnaðarsamur búnaður dugar ekki til að ná þeim lámarks hljóð- og myndgæðum sem tækni nútímans býður upp á. Til að geta t.d. með sæmilegu móti horft á horft á ríkissjónvarpið verða mjög margir íbúar Suðurnesja að fjárfesta í talsverðum búnaði. Þetta er kostnaðarsöm leið og með öllu óviðunandi að neytendur sem greiða afnotagjöld geti ekki með eðlilegum tækjabúnaði notið þess dagskrárefnis sem greitt hefur verið fyrir. Stjórn SSS skorar á sjónvarps- og úrvarpsstöðvar að haga uppsetningu, tíðnisviðum og staðsetningum á endurvörpum þannig að notendur geti komist af með einn einfaldan búnað til að ná sendingum í stað þess að þurfa að hrúga loftnetsbúnaði á hús sín með tilheyrandi sjónmengun og kostnaði. Stjórn SSS hefur samið ályktun vegna málsins og verður henni dreift til fundarmanna hér á eftir.
Tilnefningar í nefndir
Stjórn SSS tilnefndi í eftirfarandi nefndir á tímabilinu:
Jarðanefnd, þann 5.12. 1997.
Aðalmaður: Sigurbjörn Stefánsson
varamaður: Sæmundur Þórðarson.
Svæðisráð um málefni fatlaðra, þann 23.01 1997.
Aðalmaður: Svava Pétursdóttir
varamaður: Einar Guðberg.
Stjórn Sjúkrahúss Suðurnesja og Heilsugæslustöðvar Suðurnesja
Margrét Sanders, aðalmaður í stjórn SHS og HSS lét af störfum og í hennar stað var skipuð Björk Guðjónsdóttir.
Ferðamálasamtök Suðurnesja, þann 4.09 1997.
Aðalmaður: Reynir Sveinsson
varamaður: Steindór Sigurðsson.
Svæðisráð svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja, þann 2.10. 1997.
Aðalmenn: Guðmundur Pétursson
Anna María Sigurðardóttir
varamenn: Ragnheiður Júlíusdóttir
Gunnar Sigfússon.
Samstarfsnefnd lögreglu og sveitarfélaga, þann 31.10. 1997.
Aðalmenn: Guðríður Halldórsdóttir og
Sigurbjörg Eiríksdóttir
Lög og reglur.
Umsagnir um lagafrumvörp
Frumvarp um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, á fundi þann 5.12. 1996.
Frumvarp til laga um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, á fundi þann 5.12. 1996.
Frumvarp til laga um Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins þann 5.12. 1996.
Frumvarp til laga um tryggingasjóð einyrkja, þann 3.02. 1997.
Þingsályktunartillögur
Þingsályktunartillaga um veiðileyfagjald, 5.12 1996.
Þingsályktunartillaga um fjarkennslu til að jafna aðstöðu til náms, 31.10. 1997.
Kattareglugerð
Stjórn SSS fól starfshópi að vinna drög að reglugerð um kattarhald. Gert er ráð fyrir að drög að reglugerð verði tilbúinn fyrir áramót. Starfshópurinn er skipaður Jóni Gunnarsyni og Magnúsi Guðmundssyni
Afmæli /Styrkir
Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum hélt upp á 20 ára afmæli og var af því tilefni færð mynd eftir Ástu Árnadóttur.
Nemendafélagi Fjölbrautaskóla Suðurnesja var veittur 50.000 króna styrkur vegna hátíðarkvöldverðar vinaheimsóknar nemenda Verkmenntaskólans.
Stjórn SSS samþykkti að styrkja Útvarp Bros um krónur 40.000 vegna flutnings annáls ársins.
Stjórn SSS samþykkti að styrkja Sögufélag Suðurnesja um krónur 150.000 vegna útgáfu árbókar.
Þroskahjálp á Suðurnesjum hélt upp á 20 ára afmælis félagsins. Félaginu voru færðar 25.000 króna styrkur.
Að lokum
Þeir punktar sem hér á undan eru taldir upp eru ekki tæmandi listi yfir störf stjórnar SSS. Stjórn SSS hefur látið til sín taka ýmis atvinnumál s.s. málefni Keflavíkurflugvallar, málefni Bláa lónsins, Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja og tekið þátt í ákveðnum þáttum í rekstri Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar svo dæmi séu nefnd.
Eins og fundarmönnum er kunnugt er framkvæmdastjóri SSS í hálfu starfi fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og hálfu starfi hjá Sorpeyðingastöð Suðurnesja. Á þessu ári hefur mikill tími farið í vinnu vegna undirbúnings að nýrri sorpeyingastöð og flokkunarstöð. Samninganefnd á vegum Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja hefur unnið að lausn málsins. Vegna þess hve tímamörk eru orðin knöpp höfum við sett það mál ofar flestum öðrum í forgangsröð. Stefnt er að því að taka nýja sorpeyðingastöð í notkun árið 2000 en Varnarliðið hefur með framkomu sinni stefnt því markmiði í hættu. Samninganefndin hefur leitað aðstoðar hjá Varnarmálaskrifstofu sem reyndust okkur vel. Ég vona að viðunandi lausn á málinu fáist fljótlega.
Ég tel að stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sé mikilvægur vettvangur fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum til að sækja fram sameinuð í baráttumálum okkar og minni í því sambandi á viðbyggingu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, samgöngubætur og samning um byggingu D-álmu við Sjúkrahús Suðurnesja.
Að lokum vil ég færa meðstjórnarmönnum mínum bestu þakkir fyrir ágætt samstarf á liðnu starfsári. Einnig þakka ég framkvæmdastjóra sem og öðru starfsfólki SSS við góð störf og þægilegt viðmót. Þá vil ég óska nýrri stjórn velfarnaðar í starfi á næsta starfsári.
Drífa Sigfúsdóttir
formaður SSS
5. Guðjón Guðmundsson framkvæmdastj. flutti reikninga S.S.S. fyrir árið 1996.
6. Engar umræður urðu um skýrslu stjórnar og ársreikning og var ársreikningurinn samþykktur samhljóða.
7. Engar skýrslur nefnda lágu fyrir fundinum.
8. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Til máls tók Jón Gunnarsson er lagði fram eftirfarandi ályktun, skjal nr. 1.
“Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ,
31. október og 1. nóvember 1997 lýsir furðu sinni á vinnubrögðum ríkisvaldsins við sölu á svokölluðum Aðalverktaka- skipum af svæðinu. Við söluna á skipunum tekur fyrirtæki í eigu ríkisins þátt í að sniðganga lög um forkaupsrétt Reykjanesbæjar, með því að selja skipin til skúffufyrirtækis, sem einungis er stofnað í þeim tilgangi að sniðganga lög. Fundinum þykir rétt að minna á, að upphafleg kaup Aðalverktaka á skipunum og kvóta þeirra komu til í atvinnuátaki sem bæði ríkið og sveitarfélögin á svæðinu stóðu fyrir. Ekki var gerð athugasemd við að ríkið komi með þessum hætti að átakinu og hvarlaði það ekki að heimamönnum að ríkið eða fyrirtæki í þess eigu myndi gera sér þetta átak að féþúfu, þar sem hagsmunum svæðisins yrði algjörlega kastað fyrir borð.
Fudurinn fagnar því að nú hefur annað skipið og hluti aflaheimilda verið selt til fyrirtækis innan svæðisins, en telur þó ríkisvaldið engan vegin hafa staðið undir væntingum heimamanna í málinu.
Bæði Íslenskir aðalverktakar og síðan Landsbanki Íslands hafa hagnast verulega á því, að ríkið gerðist með óbeinum hætti þátttakandi í að efla atvinnulífið á Suðurnesjum. Það er krafa fundarins að sá hagnaður sem af þessu varð, umfram eðlilega rentu af stofnfénu, verði skilað aftur til svæðisins t.d. með því að ríkisvaldið leggi féð í Eignarhaldsfélag Suðurnesja sem gagngert var stofnað í umræddu atvinnuátaki, þannig að féð notist til eflingar atvinnulífsins á Suðurnesjum eins og ætlunin var”.
Til mál tók Pétur Brynjarsson er lagði fram ályktun vegna fákeppni í þjónustu við flug um Keflavíkurflugvöll. Fylgiskj. nr. 2.
“Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ,
31. október og 1. nóvember 1997 telur það löngu tímabært að meira frjálsræði ríki hvað varðar atvinnustarfsemi í tengslum við millilandaflug á Keflavíkurflugvelli, heldur en nú er og skorar á ríkisvaldið að þegar verði aflétt hömlum á atvinnufrelsi fyrirtækja á þessu mikilvæga atvinnusvæði Suðurnesjamanna”.
Greinagerð:
Mikill og góður vöxtur hefur verið í flugi milli Íslands og annarra landa á undanförnum árum. Aðalfundurinn fagnar því, að íslensk flugfélög hafa stöðugt verið að vaxa, á sama tíma og erlend flugfélög hafa aukið komutíðni til landsins. Millilandaflugið um Keflavíkurflugvöll skapar veruleg umsvif og atvinnu á Suðurnesjum. Það skýtur því nokkuð skökku við að ekki skuli heimilað að Íslensk fyrirtæki keppi sín á milli um þau umsvif sem þarna eru og enn skuli vera til staðar hömlur á eðlilegri samkeppni, á þessu ört vaxandi atvinnusvæði.
Það er álit fundarins að eðlileg og sjálfsögð samkeppni eigi að ríkja í þeirri þjónustu sem þarna er veitt og er því skorað á ríkisvaldið að opna þennan markað.
Sigurður Jónsson lagði fram ályktun, fylgiskjal nr. 3. um gjaldskrárhækkun Pósts og síma h.f.
“Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ,
31. október og 1. nóvember 1997 mótmælir harðlega fyrirhuguðum hækkunum Pósts & Síma hf. á gjaldskrá sinni.
Fundurinn lýsir undrun sinni á hvernig staðið er að hækkuninni og bendir á að með henni er verið að takmarka verulega möguleika fólks á að nýta sér veraldarvefinn og svipta marga því tækifæri að vera þátttakendur í upplýsingabyltingunni.
Hækkunin beinist einnig að þeim fjölmörgu sem nýta sér nútímatækni til að stunda fjarnám, sem hlýtur að skerðast verulega í framtíðinni.
Fundurinn skorar á Póst & Síma hf. að draga þegar til baka þessar hækkanir.”
Drífa Sigfúsdóttir flutti ályktun um útvarps og sjónvarpsmál, fundarskjal nr. 4.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ dagana 31. október og 1. nóvember 1997 krefst þess af ljósvakamiðlunum að þeir komi styrk og gæðum útsendinga sinna í það horf að Suðurnesjamenn fái notið þeirra með viðunandi hætti. Víða á Suðurnesjum nást sendingar sjónvarps- og útvarpsstöðvanna mjög illa og mikill og kostnaðarsamur búnaður dugar ekki til að ná þeim lágmarks hljóð- og myndgæðum sem tækni nútímans býður upp á.
Einnig er skorað á sjónvarpsstöðvarnar að haga uppsetningu, tíðnisviðum og staðsetningum á endurvörpum þannig að notendur geti komist af með einn einfaldan búnað til að ná sendingunum í stað þess að hrúga loftnetsbúnaði á hús með tilheyrandi sjónmengun og kostnaði.
Greinargerð:
Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum lét gera mælingar á sjónvarps- og útvarpsmerkjum á Suðurnesjum dagana 16. og 17. október s.l.
Niðurstöður þessara mælinga sýna ótvírætt að víða á Suðurnesjum er styrkur þessara merkja í eða undir lágmarki ( lágmarksstyrkur á VHF og UHF tíðnum er u.þ.b. 54 dB og á FM stereo u.þ.b. 52 dB). Jafnvel þótt styrkur sjónvarpsmerkja sé nægur frá örbylgjuendurvörpum eru myndgæði slæm vegna lélegra sendinga til endurvarpanna. Víðast hvar þarf að nota mörg (ef ná á fleiri rásum) og stór loftnet með mikilli mögnun til að ná merkjunum.
Einnig komu fram að truflanir frá aðflugsradar inná örbylgjurásir í nágrenni flugvallarins og verða íbúar að kaupa dýra filtera til að fá notið efnisins sem út er sent.
Hallgrímur Bogason flutti ályktun, fundarskjal nr. 5 um vegamál á Suðurnesjum.
“Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ,
31. október og 1. nóvember 1997 skorar á yfirvöld vegamála að þegar verði ráðist í tvöföldun Reykjanesbrautar.
Fundurinn telur óþart að minna á öll þau rök sem fram hafa komið um nauðsyn þessarar framkvæmdar.
Jafnframt minnir fundurinn á fyrri ályktanir sambandsins um vegamál á Suðurnesjum.”
9. Páll Pétursson félagsmálaráðherra flutti stutt ávarp og ræddi m.a. um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna.
10. Ávörp gesta.
Ólafur G. Einarsson flutti kveðjur þingmanna kjördæmisins.
Guðmundur Ingi Gunnlaugsson formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi flutti kveðjur frá Landshlutasamtökum sveitarfélaga.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður Sambands ísl. sveitarfélaga bar kveðjur frá stjórn sambandsins og þakkaði gott samstarf á liðnum árum. Einnig bárust kveðjur frá Árna R. Árnasyni alþingismanni og Fjórðungssambandi Vestfirðinga.
11. Kaffihlé.
12. Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga:
Páll Pétursson félagsmálaráðherra ræddi um yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga og sagði sveitarfélögin yrðu að hafa metnað og vilja til að takast á við viðkomandi málaflokk, en gert er ráð fyrir að sveitarfélögin tækju við málaflokknum 1. janúar 1999 og möguleikar væru á að sveitarfélögin taki málaflokkinn í pörtum.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður Sambands ísl. sveitarfélaga taldi að tíminn væri orðinn naumur, en ekkert væri ómögulegt, en taldi ekki rétt að partaskipta verkefnum heldur lagði hann áherslu á að málaflokkurinn kæmi í heilu lagi svo framanlega að sveitarfélögin væru sátt við greiðslur sem kæmu frá ríkinu til að standa undir rekstrinum.
Hallur Magnússon félagsmálastjóri Hornafjarðarbæjar upplýsti fundarmenn að Hornafjarðarbær hefði tekið við málefnum fatlaða af ríkisvaldinu á undan öðrum sveitarfélögum, sem reynslusveitarfélag. Hallur skýrði frá að yfirfærsla málefna fatlaðra hefði gengið vel, en hann hefði kosið að ríkisvaldið hefði haft áfram á sinni könnu ákveðna þætti sem tengjast þjónustu við fatlaða á landsvísu.
Þór Þórarinsson framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi skýrði frá starfsemi svæðisskrifstofunnar.
Eiríkur Hilmarsson fulltrúi Þroskahjálpar á Suðurnesjum taldi að skipting fjár til reksturs málaflokks fatlaðra væru Suðurnesjum mjög óhagstæð samanber m.a. skv. fjárlögum 1996.
13. Umræður:
Fundarstjóri gaf síðan orðið laust, en fyrstur tók til máls Jón Gunnarsson sem taldi að ríkinu væri engin greiði gerður með að sveitarfélögin yfirtækju málaflokkinn, þar sem ríkið geti ekki skilgreint verkefnið eða sinnt því. Jón taldi ekki rétt að sveitarfélögin tækju við málaflokknum um fatlaða fyrr en þau hefðu burði til þess og fjármagni væri réttlega skipt.
Til máls tók Siv Friðleifsdóttir er spurði formann Sambands ísl. sveitarafélaga Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson varðandi fjármagn á yfirfærslu ríkisins vegna grunnskóla. Vilhjálmur svaraði og sagði að deila megi lengi um hvort nægilegt fé hafi komið frá ríkinu svo og er úttektarhópur að afla upplýsinga varðandi ýmsa þætti um málefni fatlaða.
14. Fundarstjóri frestaði fundi til næsta dags.
Aðalfundur S.S.S. – framhald kl. 10.00.
15. Grunnskólinn og framtíðin:
Þórólfur Þórlindsson, prófessor við H.Í flutti erindi um málefni grunnskólans og framtíðarsýn, m.a. taldi Þórólfur að samræmdum prófum ætti að fækka. “Góður rómur var gerður að erindi Þórólfs sem var mjög fróðlegt.”
Eiríkur Hermannsson, skólamálastjóri Reykjanesbæjar ræddi m.a. í sínu erindi um skipulagsmál grunnskólans.
Ellert Eiríksson bæjarstjóri ræddi lítillega um kjaradeilu við kennara.
Pétur Brynjarsson flutti erindi sitt um framtíð grunnskólans, út frá sjónarhóli sveitarstjórnarmanna í Sandgerði og tillögur um stefnumörkun til lengri tíma.
Sigurður Jónsson sveitarstjóri í Garði taldi það í sinni ræðu að það væri fráleit stefna að binda það í lögum að allir skólar verði einsetnir. Hugsum frekar um manngildið og innra starf skólans heldur en fjölda fermetra. Með þeirri hugsun erum við á réttri leið og skólastarfið verður enn betra í framtíðinni.
16. Pallborðsumræður:
Stjórnandi var Jón Gunnarsson oddviti í Vogum.
Þeir sem sátu fyrir svörum voru frummælendur um grunnskólann og framtíðna. Jón Gunnarsson hóf umræðuna og spurði hvort auka mætti valfrelsi í skólum og hvernig Þórólfur sæi þetta fyrir sér.
Þórólfur taldi rétt að hafa meiri sveigjanleika þar sem m.a. að aðstæður nemenda væru mismunandi s.s. vegna lesblindu nemenda o.fl. en aftur á móti hefðu kennarar lítið svigrúm til þessa í dag.
Jóhann Geirdal spurðist fyrir hvort öll börn í Sandgerði hefðu sama möguleika í leik og starfi án aukakostnaðar fyrir foreldra?
Pétur Brynjarsson svaraði því að foreldrar þyrftu ekki að leggja meira að mörkum, en gera þyrfti meiri kröfur til kennara.
Kristján Pálsson alþingismaður spurðist fyrir um hvort rannsóknir á skólastarfi ætti að vera í höndum menntamálaráðuneytisins, hvers vegna strákar þurfi meiri athygli en stúlkur og hvort fjöldi nemenda í bekk hefti árangur?
Drífa Sigfúsdóttir spurði um samspil milli foreldra og skóla?
Þórólfur Þórlindsson taldi bilið milli kynja vera að breikka. Drengir virðast vera í meiri vanda en stúlkur, en erfitt er að finna einfaldar skýringar, en þetta er í skoðun. Stærð bekkja hefur töluverð áhrif á nám vegna m.a. skorts á námsefni.
Stórefla beri rannsóknir, en verða að vera sjálfstæðar sem sveitarfélögin væru þátttakendur í. Undirstaða góðs uppeldis er eftirlit foreldra og að þau eyði meiri tíma með börnunum sem skilar sér í betri námsárangri. Nauðsynlegt sé að opna skólastarfið betur og ber að vinna að því, en tekur tíma.
María Anna Eiríksdóttir taldi að með einsetningu skóla væri hætt á að heimanám legðist niður og benti á að öll börn væru ekki hópverur og dróg í efa hvort einsetning væri mannlegri.
Einar Arason, Garði taldi að við þyrftum að vera skilningsríkari gagnvart nemendum og gefa þeim meiri sveigjanleika í námi og starfi.
Kristín Halldórsdóttir alþingismaður spurði Þórólf hvers vegna við stöndum okkur illa í raungreinum en hvar er það sem við stöndum okkur vel?
Jón Gunnarsson spurði alla á pallborði hverju eina í skólastarfi ætti að breyta. Þórólfur Þórlindsson svaraði fyrirspurn Kristínar að við stæðum okkur vel í móðurmáli og tungumálum.
Þórólfur taldi að starfið yrðir að vera sveigjanlegra með auknu samstarfi kennara, foreldra og íþróttahreyfingarinnar.
Pétur Brynjarsson sagðist trúa því með einsetningu að skólastarf verði meira aðlaðandi og að áhugamál nemenda verði skilgreind betur svo og að bæta laun kennara.
Eiríkur Hermannsson taldi nauðsynlegt að gera störf að uppeldismálum eftirsóknarverðari en hingað til.
Sigurður Jónsson vildi sjá jákvæðari viðhorf til skólanna.
Ellert Eiríksson vildi sjá meiri sveigjanleika og það þurfi að samræma uppeldisstefnu s.s. milli leikskóla og grunnskóla.
17. Matarhlé og Aðalfundur Héraðsnefndar Suðurnesja.
18. Samstarf sveitarfélaga, skóla og atvinnulífs – horft til framtíðar.
Frummælendur Friðjón Einarsson framkvæmdastjóri M.O.A. og Ólafur Arnbjörnsson skólameistari F.S. ræddu um þau viðfangsefni sem stofnanir þeirra hefðu með að gera. Markmiðum atvinnumálaskrifstofu og símenntun.
19. Umræður.
Engar umræður urðu um málefnið.
20. Félagsþjónusta og framfærslumál sveitarfélaga.
Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri flutti erindi um framfærslu, lög og reglur og skyldur sveitarfélaga, m.a. er tryggir borgurum félagslegt öryggi.
Aðalsteinn Sigfússon, félagsmálastjóri Kópavogs var með samanburð á útgjöldum sveitarfélaga til félagsþjónustu, en þar kom m.a. fram að mest færi til fjárhagsaðstoðar í Reykjanesbæ.
21. Umræður.
Sigríður Jóhannesdóttir alþingismaður taldi rétt að setja ákveðnar reglur um félagsþjónustu, þannig að fólk sé ekki að hrekjast milli sveitarfélaga.
Sólveig Þórðardóttir spurðist fyrir hvort rétt væri að breyta um nafn á félagsmálastofnun.
Hjördís Árnadóttir, félagsmálstjóri taldi óþarft að breyta nafni Félagsmálastofnunnar.
Einnig tóku til máls Drífa Sigfúsdóttir, Jón Gunnarsson, Kristján Pálsson alþingismaður og Jóhann Geirdal.
22. Kaffihlé.
23. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
Fundarstjóri gaf orðið laust um fundarskjal 1.
Þorsteinn Erlingsson flutti eftirfarandi breytingartillögu, en þar er lagt til að út falli önnur setningin í ályktunni og í staðin komi eftirfarandi setning: “Það vekur furðu að fyrirtækjum á Suðurnesjum hafi ekki verið gefin kostur á að kaupa skipin og kvóta þeirra, áður en Landsbanki Íslands fékk þeim úthlutað úr fyrirtækinu, þar sem fyrirtæki á Suðurnesjum höfðu lýst vilja sínum til að kaupa þau og hefðu viljað sitja við sama borð og Landsbankinn að öðru jöfnu”.
Jóhann Geirdal og Böðvar Jónsson voru með breytingartillögur við tillögu Þorsteins Erlingssonar sem voru samþ. samhljóða sem viðbót við breytingartillögu Þorsteins. Ályktunin var síðan samþykkt með áorðnum breytingum.
Fyrsti hluti ályktunarinnar hljóðar því þannig: “Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum undrast vinnubrögð ríkisvaldsins við sölu á svokölluðum aðalverktakaskipum af svæðinu. Það vekur furðu að fyrirtækjum á Suðurnesjum hafi ekki verið gefin kostur á að kaupa skipin og kvóta þeirra áður en Landsbanki Íslands fékk þeim úthlutað út úr fyrirtækinu þar sem fyrirtæki á Suðurnesjum höfðu lýst vilja sínum til að kaupa þau og hefðu viljað sitja við sama borð og Landsbankinn að öðru jöfnu. Við söluna á skipunum tekur fyrirtæki í eigu ríkisins þátt í að selja skipin til skúffufyrirtækis sem einungis er stofnað í þeim tilgangi að sniðganga lög”. Að öðru leyti helst ályktunin óbreytt.
Fundarskjal nr. 2 “fákeppni við flug”. Samþykkt samhljóða, án umræðna.
Fundarskjal nr. 3 “Gjaldskrárhækkun”. Flutningsmaður óskaði eftir að draga ályktunina til baka og var það samþykkt með megin þorra atkvæða.
Fundarskjal nr. 4 “Útvarps- og sjónvarpsmál”. Til máls tók Drífa Sigfúsdóttir. Ályktunin samþykkt samhljóða.
Fundarskjal nr. 5 “Vegamál”. Samþykkt samhljóða án umræðu.
24. Önnur mál.
Engar umræður urðu um önnur mál.
25. Fundarstjóri óskaði eftir tilnefningu í stjórn og varastjórn fyrir næsta starfsár.
Tilnefning sveitarfélaganna í stjórn S.S.S. er eftirfarandi:
Reykjanesbær: Aðalmaður: Drífa Sigfúsdóttir
Varamaður: Steindór Sigurðsson
Grindavíkurbær: Aðalmaður: Hallgrímur Bogason
Varamaður: Margrét Gunnarsdóttir
Sandgerðisbær: Aðalmaður Óskar Gunnarsson
Varamaður: Sigurður Valur Ásbjarnarson
Gerðahreppur Aðalmaður: Sigurður Jónsson
Varamaður: Sigurður Ingvarsson
Vatnsleysust.hr.: Aðalmaður: Jón Gunnarsson
Varamaður: Jóhanna Reynisdóttir.
26. Tillaga stjórnar um skoðunarmenn reikninga.
Aðalmenn: Magnús Haraldsson og
Ingimundur Þ. Guðnason
Varamenn: Ingólfur Bárðarson og
Ellert Eiríksson
Samþykkt samhljóða.
27. Tillaga um fulltrúa á aðalfund Landsvirkjunar: Drífa Sigfúsdóttir, Jón Gunnarsson, Sigurður Jónsson og Guðjón Guðmundsson framkv.stj.
Samþykkt samhljóða.
28. Fundarslit.
Fráfarandi formaður Drífa Sigfúsdóttir þakkaði starfsmönnum vel unnin störf og fundarmönnum góðan fund.
Ritari
Hjörtur Zakaríasson (sign.)