fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

22. Aðalfundur SSS 15. október 1999

22. aðalfundur S.S.S. haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Reykjanesbæ
föstudaginn 15 og laugardaginn 16. október 1999.

Dagskrá:

Föstudagur 15. október 1999.

Kl.  13:00 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 13:30 2. Fundarsetning.
  3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  4. Skýrsla stjórnar:  Skúli Þ. Skúlason, formaður S.S.S.
  5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 1998,
Guðjón Guðmundsson framkv.stjóri.
  6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
  7. Ávarp Páls Péturssonar félagsmálaráðherra.
  8. Ávörp gesta.
  9. Skýrslur starfshópa og/eða nefnda sem S.S.S. tekur þátt í.
Kl. 14:50 10. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Kl. 15:30 11. Skoðunarferð um Reykjanesbæ,  Heiðarskóli skoðaður.
Kl. 17:00  Áætluð lok ferðar
   Fundi frestað

Laugardagur 16. október 1999.

Kl. 10:00 12. Árangur í skólastarfi.
   Margrét Harðardóttir deildarstjóri menntamálaráðuneytis:
    Hlutverk ráðuneytis í að tryggja gæði skólans.
   Amalía Björnsdóttir lektor við KÍ:
    Staða skóla á Suðurnesjum.
   Eiríkur Hermannsson skólamálastjóri Reykjanesbæjar:
    Af hverju skólastefna ?
   Jónína Bjartmarz formaður landsamtakanna heimili og skóli:
    Samstarf foreldra og skóla.
  13. Umræður.

Kl. 12:30  – Hádegishlé –

   (Aðalfundur Héraðsnefndar Suðurnesja)

Kl. 13:30 14. Fjármál sveitarfélaga
   Ingimundur Sigurpálsson bæjarstjóri
   Ellert Eiríksson bæjarstjóri
  15. Umræður.
Kl. 14:30 16. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
Kl. 15:00 17.  Önnur mál.
Kl. 15:30 18. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
  19. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
  20. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.
Kl. 15:35 21. Áætluð fundarslit.

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.

2. Fundarsetning.
Skúli Þ. Skúlason formaður S.S.S. setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um Kjartan Má Kjartansson sem fundarstjóra og Kristmund Ásmundsson til vara og voru þeir sjálfkjörnir.
Uppástunga kom um Jónínu A. Sanders sem 1. fundarritara og Ólaf Thordersen sem 2. fundarritara.  1. vararitari Jóhann Geirdal og 2. vararitari Þorsteinn Erlingsson og voru þau  sjálfkjörin.
Lagt var til að Hjörtur Zakaríasson yrði settur sem skrifari fundarins.

Kjartan Már Kjartansson þakkaði það traust með að fela honum stjórn fundarins.
Fundarstjóri gaf síðan Skúla Þ. Skúlasyni formanni SSS orðið er flutti skýrslu stjórnar.

4. Skýrsla stjórnar.
   
Ágætu aðalfundarfulltrúar og gestir.

Stjórn SSS hélt 16 bókaða stjórnarfundi og tók til umræðu 174 mál á síðasta starfsári. Málefni sambandsins voru mis umfangsmikil eins og eðlilegt er og  nokkur þeirra eru enn í vinnslu stjórnarinnar. Markmið var að fundir stjórnar yrðu mánaðarlega en aukafundi hélt stjórnin í kringum fjárhagsáætlunargerð sambandsins og sameiginlega reknar stofnanir. Auk þess sóttu framkvæmdastjóri, formaður og aðrir stjórnarmenn ýmsa fundi, innan og utan svæðisins til þess að gæta hagsmuna svæðisins. Má þar nefna árlega heimsókn til fjárlaganefndar alþingis. Ég mun hér á eftir gera í stuttu máli grein fyrir þeim málefnum sem efst hafa verið á baugi á síðastliðnu starfsári.

Fyrsti stjórnarfundur núverandi stjórnar var haldinn þann 16. september 1998, þar sem stjórn, samkvæmt samþykktum sambandsins, skipti með sér verkum. Skúli Þ. Skúlason Reykjanesbæ var kosinn formaður, Sigurður Jónsson Garði kosinn varaformaður og Þóra Bragadóttir Vogum var kosinn ritari. Aðrir stjórnarmenn voru þeir Hallgrímur Bogason Grindavík og Óskar Gunnarsson Sandgerði.

Rekstur sambandsins var með hefðbundnu sniði og mun framkvæmdastjóri gera grein fyrir fjármálunum hér á eftir. Stjórnin hefur haft að leiðarljósi að gæta fyllsta hagræðis hvað útgjöld varðar.

Á haustdögum 1998 fékk sambandið til umsagnar frumvarp til stjórnskipunarlaga nr. 254, þar sem kjördæmamálið svokallaða er tekið fyrir. Talsverðar umræður urðu um frumvarpið enda róttækar breytingar á kjördæmaskipaninni boðaðar. Stjórnin ákvað að boða til sambandsfundar um málið. Þar mættu sem frummælendur Páll Pétursson félagsmálaráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir alþingismaður og Skúli Þ. Skúlason formaður SSS. Ljóst var að tiltölulega lítil umræða hafði verið um málið og almennt virtust sveitarstjórnarmenn fagna umræðunni. Frumvarpið hefur nú verið samþykkt í þinginu og í næstu alþingiskosningum verður kosið eftir þeim. Þá verðum við Suðurnesjamenn hluti af Suðurkjördæmi sem nær frá Gerðahrepp til Skaftárhrepps. Kjósendur verða ríflega 25.000.- og þar af um 11.000 – 12.000.- suðurfrá sem er um 43 % , en í landsbyggðarhluta kjördæmisins verða um 14.000 kjósendur eða um 57 % kjósenda. Það er ljóst að sveitarstjórnarmanna bíður talsvert verkefni að aðlagast nýju kjördæmi. Stjórn SSS hefur lagt grunn að því að samstarf hefjist milli SSS annars vegar og SASS hins vegar og verið er að undirbúa sameiginlegan fund stjórnanna beggja. 

Auk ofangreinds sambandsfundar var boðað til fundar sveitarstjórnarmanna þann 15. október um málefni Keflavíkurflugvallar . Á fundinn mætti Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Það er hvergi á landinu sem aðild Íslands að Atlandshafabandalaginu og varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna hefur jafnmikil áhrif á þjóðlífið sem og er hér á Suðurnesjum. Utanríkisráðherra kom víða við í máli sínu, rætt var um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, frelsi í flugafgreiðslu, málefni verktakanna, ýmis samningsmál við varnarliðið svo sem um fráveitumál, sorpmál, skil á neðra nikkel svæði, starfsmannamál og stöðu varnarsamningsins, svo fátt eitt sé nefnt.
Sveitarstjórnarmenn voru jafnframt boðaðir til sameiginlegs fundar þann 29. apríl síðastliðinn vegna samkomulags sem samninganefnd Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja hafði náð við varnarliðið um þátttöku í kostnaði við uppbyggingu nýrrar flokkunarstöðvar og sorpbrennslu og um kaup varnarliðsins á þjónustu frá nýrri stöð. Varnarliðið mun samkvæmt því samkomulagi greiða 41 % heildarstofnkostnaðar við framkvæmdina, en heildarkostnaðurinn er áætlaður 440 – 480 milljónir . Gert er ráð fyrir að nýja stöðin geti hafið starfsemi fyrir árslok 2001. Samkvæmt þeim undirbúningi sem verið hefur er gert ráð fyrir nýrri móttökustöð, stóraukinni flokkun og endurvinnslu og brennslu sorps samkvæmt ýtrustu mengunarkröfum. Ætlunin er að beita bestu fáanlegu tækni og verða Suðurnesin í farbroddi umhverfisvænnar sorpeyðingar í landinu. Tæknilegur frágangur við varnarliðið stendur nú yfir, en ég vil við þetta tækifæri þakka þeim sem fyrir hönd sveitarfélaganna hafa komið að samningum við varnarliðið fyrir þeirra framlag til lausnar málsins.

Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu árið 1999 ári aldraðra undir yfirskriftinni “ Þjóðfélag fyrir fólk á öllum aldri”. Í samráði við framkvæmdastjórn vegna samþykktarinnar og í samstarfi með stéttarfélögum á Suðurnesjum stóð SSS fyrir ráðstefnu í Stapa þann 12.mars um málefnið. Frummælendur voru Ingibjörg Pálmadóttir Heilbrigðisráðherra,  Benedikt Davíðsson  formaður Landssambands eldri borgara, Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur og  Höskuldur Goði Karlsson íþróttakennari. Til fundarins mættu um 300 manns. Málefni aldraðra verða án efa í brennidepli á næstu misserum. Bygging D- álmunnar er nú í gangi samkvæmt samningi þar um og þurfa sveitarstjórnir áfram að standa fast sameiginlega um það mál. Húsnæðismál, félagsmál, tómstundamál og fleiri áherslufletir eru þó mikilvægir þegar við lítum okkur nær í sveitarstjórnunum og vil ég hvetja tilheyrendur að huga gaumgæfilega að hagsmunum eldri borgara hver í sínu sveitarfélagi.
        
Eins og sveitarstjórnarmönnum er kunnugt var á síðasta ári undirritaður samstarfssamningur milli SSS og Charent Maritime héraðsins í Frakklandi. Meginmarkmið samningsins er að efla víðtækt samstarf milli stofnana, félagasamtaka, rannsóknarstofa skóla og fyrirtækja og er um 3ja ára samstarfsverkefni að ræða. Dominique Pleyel Jónsson viðskiptafulltrúi franska sendiráðsins og þeir Guðjón Guðmundsson og Ólafur Kjartansson framkvæmdastjóri MOA hafa verið tengiliðir vegna samningsins. Tvennt stendur uppúr á árinu, annars vegar heimsókn fulltrúa Lyonnaise Des Eaux en samsteypan starfar á sviðum orku, vatnsveitu- og vatnshreinsunar, sorp- og endurvinnslu og í fjarskiptamálum. Hugmynd þeirra er að koma inn í verkefni á svæðinu með fjármögnun, rekstur eða tæknilega ráðgjöf. Skúli Skúlason, Ólafur Kjartansson hjá Moa, Guðjón Guðmundsson og Albert Albertsson frá Hitaveitu Suðurnesja tóku á móti hópnum í lok ágúst. Þá fóru ungir siglingaáhugamenn í heimsókn til héraðsins og hingað kom hópur franskra unglinga í tengslum við Siglingasamband Íslands.

Umhverfisráðuneytið hafði auglýst eftir sveitarfélögum í Reykjaneskjördæmi sem óskuðu eftir því að Náttúrustofa yrði staðsett í þeirra sveitarfélagi. Kópavogur, Hafnarfjörður, Grindavík, Reykjanesbær og Sandgerðisbær höfðu öll sent inn umsókn. Að áliti ráðuneytisins var aðeins í Sandgerði og Kópavogi rekin starfsemi sem gat komið að notum við uppbyggingu náttúrustofu sem fræðistofnunnar, og eftir að Sandgerðisbær og Grindavíkurbær lýstu yfir að sveitarfélögin myndu standa sameiginlega að starfsrækslu náttúrustofu, ákvað ráðuneytið að náttúrustofa í Reykjaneskjördæmi yrði með aðalaðsetur í Sandgerði í tengslum við fræðasetrið. Undirbúningur stendur nú yfir og fyrirhugað er að starfsemin hefjist á næsta ári.

Vargfugl hefur valdið sveitarfélögunum áhyggjum og verið íbúum til óþæginda. Sílamávurinn hóf að verpa við Faxaflóann í kringum 1950 og eftir talningar sem Náttúrufræðistofnun gerði 1990 -1992 á fjölda para, á svæðinu frá Grindavík, vesturfyrir og að Akranesi er áætlað að stofninn sé um 80.000 – 110.000 fuglar.  Stofninn mun þó aldrei vera allur hér á landi í einu. Ekki er vitað hvort stofninn er enn að stækka eða hvort hann hefur náð jafnvægi. Tilraunir sveitarfélaganna til að fækka fugli hefur eingöngu leitt til þess að stofninn færir sig til innan svæðisins. Til þess að ná árangri í að halda  stofninum niðri þyrfti líklega að fella 22.000 fugla á ári og er kostnaður við það ekki undir 12 milljónum. 

Í undirbúningi er á vegum Kjalarnesprófastsdæmis hátíðarhöld vegna Kristnitökuafmælisins á árinu 2000. Undirbúningsnefnd er starfandi og komin beinagrind af dagskrá. Fyrir liggur hjá SSS beiðni um styrk vegna verkefnisins. SSS hefur ítrekað ályktað um slakan útsendingarstyrk ljósvakamiðla á Suðurnesjum. Í apríl tilkynnti Útvarpsstjóri að nýr 100 w sjónvarpssendir yrði settur upp í Keflavík á árinu. Málefni fatlaðra sem talsvert voru til umræðu í kringum síðasta  aðalfund sambandsins hafa ekki verið mikið til umfjöllunar á árinu. Nefnd sú sem sett var á laggirnar hér í Reykjaneskjördæmi vegna yfirfærslunnar hefur lítið starfað á þessu ári, sú mikla vinna sem sveitarfélögin standa nú frammi fyrir við einsetningu grunnskólanna , umræðan um tekjustofna sveitarfélaganna og staða málaflokksins í kjördæminu á sinn þátt í því. Samningur M.O.A., SSS og Byggðastofnunar um atvinnuþróun á Suðurnesjum rann út í sumar. Ólafur Kjartansson og Guðjón Guðmundsson hafa verið að undirbúa nýjan samning. Á vegum MOA er nú unnið að verkefninu “ Reykjanes 2003”, þar er verið að skoða hvaða breytur hafa áhrif á búsetu fólks á Íslandi, kanna ímynd Suðurnesja bæði innan og utan svæðisins. Jafnframt hugsar Moa sér að  koma með tillögur til sveitarstjórna og fá tillögur frá sveitarstjórnum um hvernig hægt sé að bæta okkar umhverfi til að gera það meira aðlaðandi fyrir þá sem hér alast upp og þá sem vildu flytjast hingað.   

Samgöngumálin hafa alltaf verið mikið til umfjöllunar á sameiginlegum vettvangi. Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar er það forgangsverkefni sem lagt hefur verið hvað mest áhersla á . Við gerð langtímaáætlunar í vegagerð var gert ráð fyrir að tvöföldunin myndi kosta gróflega 2.5 milljarð. Áætlað er að verkið verði unnið á árunum 2001 – 2010, þó aðallega frá 2007-2010. Umferð um Reykjanesbraut er sívaxandi,  1997 fóru 5870 bifreiðar um brautina á sólarhring við Straumsvík en 1998 6330 bílar á sólarhring, þannig að aukningin er um 8 % milli ára. Slysatíðni hefur verið að meðaltali 40 slys á ári milli áranna 1992-1996. Þó er ljóst að lýsing Reykjanesbrautar hefur verið þarft verk og aukið öryggi vegfarenda. Skipulag byggðar við Reykjanesbraut í Hafnarfirði þrengir líka svigrúm brautarinnar og eykur slysahættu eins og dæmin sanna. Það er því fullgild rök að flýta framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar.      

Nokkur umræða hefur verið um hlutverk launanefndar SSS og starfsmatið. Mikil óánægja er með þróun starfsmatsins sem virðist vera kerfi sem gengið er sér til húðar. Á sama hátt er æskilegt að sveitarfélögin endurmeti hlutverk launanefndarinnar. Stjórn SSS hefur í sumar verið með í undirbúningi sambandsfund um kjaramál en honum hefur verið frestað þar sem launanefnd sveitarfélaga er í stefnumótunarvinnu og fyrirhugað var að þeir fulltrúar funduðu með sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum um nýjar leiðir.

Ágætu fundarmenn,

Þar sem ég hef gengt stöðu formanns Sambandsins undangengið starfsár,  langar mig, að við þetta tækifæri að þakka fráfarandi stjórnarmönnum samstarfið. Það er samt ljóst að undir niðri er togstreita og skoðanamunur um samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum, þetta vita allir sveitarstjórnarmenn. Stjórnarfundir SSS hafa samt sem áður ávallt verið málefnalegir og gagnkvæm virðing fyrir mismunandi sjónarmiðum.
Þá vil ég jafnframt þakka framkvæmdastjóra Guðjóni Guðmundssyni og starfsfólki hans vel unnin störf á liðnu starfsári.

5.      Ársreikningar S.S.S. fyrir árið 1998.
Til máls tók Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri er fylgdi ársreikningunum úr hlaði.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf síðan orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikninga S.S.S. Til máls tók Hörður Guðbrandsson er vildi koma á framfæri nauðsyn þess að “Suðurstrandarvegi” verði flýtt m.a. vegna breytinga á kjördæmisskipan, eða allavega að hann komist inná Vegaáætlun.
Fundarstjóri bar síðan upp ársreikninga sambandsins og voru þeir samþykktir samhljóða.

7. Ávarp Páls Péturssonar félagsmálaráðherra.
Fundarstjóri tilkynnti að ávarp félagsmálaráðherra verði frestað til morguns.

8. Ávörp gesta.
Til máls tóku Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra er flutti kveðjur þingmanna Reykjaneskjördæmis, Vilhjálmur Vilhjálmsson formaður Sambands ísl. sveitarfélaga er flutti kveðjur sambandsins og kom inná fjármál sveitarfélaga í ávarpi sínu, en þau verða rædd á morgun undir dagskrálið 14.

9. Skýrslur starfshópa og/eða nefnda sem SSS tekur þátt í.
Til máls tók Ólafur Kjartansson framkvæmdastjóri Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar er upplýsti fundarmenn um starfssemi MOA.
Engar frekari umræður urðu um skýrslur starfshópa eða nefnda.

10. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Skúli Þ. Skúlason lagði fram eftirfarandi ályktanir:
Ályktun um forvarnir:  ,,Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja dagana 15.-16.október 1999 leggur áherslu á að halda áfram og auka enn samstarf á svið forvarna með því að fá fjárveitingar til eftirfarandi:
a. 100% stöðugildi fíkniefnalögreglumanns við Sýslumannsembættið í Keflavík ásamt fjármagni til úrvinnslu.
b. 50% stöðugildi tollvarðar hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli.

Ályktun um flutning innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar:  Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja dagana 15.-16.október 1999 hvetur stjórnvöld til þess að láta fara fram hagkvæmnisúttekt á að flytja miðstöð innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum bjóða jafnframt fram krafta sína til samstarfs við ríki og Reykjavíkurborg um framtíðarlausn um staðsetningu innanlandsflugs, kennsluflugs og ferjuflugs.

Ályktun um vegamál:  Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja dagana 15.-16.október 1999 krefst þess að tvöföldun Reykjanesbrautar verði flýtt frá því sem nú er gert ráð fyrir í vegamálum.
Jafnframt verði hafinn undirbúningur að Suðurstrandarvegi frá Þorlákshöfn um Grindavík meðfram Reykjanesvita og að Höfnum.
Greinagerð:
Umferð um Reykjanesbraut jókst um 8% milli áranna 1997 og 1998, samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins.  Umferð um brautina við Straumsvík á árinu 1997 alls 5870 bifreiðar á sólarhring en 6330 á árinu 1998. Fyrirhuguð stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og stóraukin umsvif þar vegna vaxandi farþega-og fragtflugs, auka enn á umferð á álagstímum brautarinnar.
Slys á kaflanum frá Krísuvíkurvegi til Keflavíkur hafa verið að meðaltali 40 á árunum 1992-1996.
Með nýrri kjördæmaskipan er brýnt að tengja saman væntanlegt Suðurkjördæmi með Suðurstrandarvegi sem og til að þjóna atvinnulífinu.

Sigurður Jónsson lagði fram eftirfarandi ályktun:
Ályktun um tekjustofna sveitarfélaga: Aðalfundur SSS haldinn dagana 15. og 16.október 1999 í Fjölbrautaskóla Suðurnesja beinir þeim eindregnum tilmælum til Alþingis og tekjustofnanefndar, sem félagsmálaráðherra hefur skipað, að við endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga verði sveitarfélögum tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar til að sinna þeim verkefnum, sem þeim eru falin samkvæmt lögum og reglugerðum.
Aðalfundur SSS legur áherslu á að efla beri forræði sveitarfélaga til þess að ákvarða gjöld og ráðstöfun tekna þeirra.
Aðalfundur SSS telur nauðsynlegt að Alþingi og tekjustofnanefnd taki til sérstakrar skoðunar það tekjutap og aukin útgjöld, sem sveitarfélög hafa orðið fyrir vegna lagasetninga umfram það sem gert var ráð fyrir.
Aðalfundur SSS krefst þess að Alþingi sjái til þess að sveitarfélögin fái bætur fyrir tekjutap og aukin útgjöld.
Aðalfundur SSS vekur athygli á því, að samkvæmt skýrslu nefndar um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga 1990 – 1997 kemur í ljós að aðgerðir ríkisvaldsins hafa skert fjárhag sveitarfélaganna um 14 til 15 milljarða á tímabilinu.

Hallgrímur Bogason lagði fram eftirfarandi ályktun:
Ályktun um heilbrigðismál:  Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Reykjanesbæ, dagana 15. og 16.október 1999 lýsir áhyggjum sínum yfir því að verulega vantar á að rekstrarfjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á fjárlögum dugi til að standa undir núverandi þjónustustigi, sem hefur verið óbreytt í mörg ár og er að mati heimamanna lágmarksþjónusta.
Fjölmargar úttektir á rekstrinum hafa leitt í ljós að ekki verður um frekari sparnað að ræða nema lokun deilda, sem er óásættanlegt enda flyttist þá sú þjónusta til Reykjavíkur með þeim kostnaði og óþægindum, sem því fylgir.
Fundurinn hvetur til þess að framtíðarhlutverk stofnunarinnar verði skilgreint með þjónustusamningi og að fjárveitingar á komandi fjárlögum verði í samræmi við þau verkefni sem stofnunin á að vinna

11.     Skoðunarferð um Reykjanesbæ/Heiðarskóli skoðaður:

Fundarstjóri Kjartan Már Kjartansson frestaði síðan fundi til morguns.

Aðalfundur S.S.S.- framhald, laugardaginn 16. október 1999 kl. 10:00.

Varafundarstjóri Kristmundur Ásmundsson tók við fundarstjórn og gaf orðið laust um næsta dagskrárlið.

12. Árangur í skólastarfi:
Sigrún Jónsdóttir deildarsérfræðingur menntamálaráðuneytisins ræddi hlutverk ráðuneytis í að tryggja gæði skólans.
Amalía Björnsdóttir lektor við KÍ ræddi um stöðu skóla á Suðurnesjum, og samræmd próf grunnskólanema.
Eiríkur Hermannsson skólamálastjóri Reykjanesbæjar ræddi um skólastefnu, framtíðarsýn, lagaramma ofl.
Jónína Bjartmarz formaður landsamtakanna heimili og skóli ræddi um samstarf foreldra og skóla.

13. Umræður:   Fundarstjóri Kristmundur Ásmundsson gaf síðan orðið laust um þau erindi sem flutt voru hér á undan um árangur í skólastarfi.
Til máls tók Hjálmar Árnason er ræddi m.a. um agamál í gunnskólum. Ellert Eiríksson ræddi um niðurstöðu samræmdra prófa. Jóhann Geirdal ræddi um fólksflutninga milli landshluta og hvaða áhrif það hefði á árangur nemenda. Böðvar Jónsson ræddi um eftirlitsþátt ráðuneytisins og varaði við of miklum afskiptum ríkisins á starfi skólanna, þar sem þessi málaflokkur væri í höndum sveitarfélaga.
Til máls tóku einnig Kristján Pálsson, Skúli Skúlason, Kjartan Már Kjartansson svo og frummælendur er svöruðu spurningum.

14. Fjármál sveitarfélaga:
Ellert Eiríksson bæjarstjóri Reykjanesbæjar ræddi um fortíðarvanda  og framtíðargerð tekjustofna sveitarfélaga.
Ingimundur Sigurpálsson bæjarstjóri Garðabæjar var m.a. með samanburð á skattalegu umhverfi milli landa.

15. Umræður:
Jónína A. Sanders spyr hvort ekki væri rétt að skilgreina betur tekjustofna.
Ellert Eiríksson telur að tekjur sveitarfélaga séu til frjálsar ákvörðunar, einnig að staðbundnir skattar ættu rétt á sér.
Skúli Þ. Skúlason spurði hvort sveitarfélögunum verði bættur sá mismunur sem sveitarfélögin telja sig hafa orðið af.
Ingimundur Sigurpálsson telur rétt að fortíðarvandinn verði skoðaður
Guðmundur Árni Stefánsson spurði hvort ekki væri eðlilegt samhengi að taka inní þá vinnu um tekjustofna sveitarfélaga, verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga með frekari afskipti sveitarfélaga.
Ingimundur Sigurpálsson tók undir orð Guðmundar Árna að verkaskipting verði skoðuð um leið og endurskoðun á tekjuskattstofnum fer fram.

Ávarp Páls Péturssonar félagsmálaráðherra er ræddi samskipti sveitarfélaga við ráðuneytið.
Fundarstjóri gaf orðið laust og lögðu þau Jónína A. Sanders ,Jóhann Geirdal
Ellert Eiríksson, Kristmundur Ásmundsson fyrirspurnir til ráðherra varðandi erotíska
skemmtistaði.  Ráðherra svaraði því til að málið væri til skoðunar.
Einnig tók til máls Reynir Sveinsson.

Ingunn Guðmundsdóttir  formaður Sambands sunnlenskra Sveitarfélaga flutti kveðjur sambandsins.

16.      Ályktanir – umræður afgreiðslur:
Ályktun um forvarnir. Til máls tóku Björk Guðjónsdóttir, Sigurður Valur Ásbjarnarson Skúli Þ. Skúlason , Ólafur Thordersen og Jóhann Geirdal.
Ályktun um forvarnir samþykkt samhljóða.

Ályktun um flutning innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar.
Hafsteinn Snæland flutti frávísunartillögu.
Til máls tók Sigurður Valur er lagði fram eftirfarandi breytingatillögu að fyrir framan innanlandsflugs komi “kennsluflugs,ferjuflugs”. Til máls tóku Kristján Gunnarsson og Skúli Þ. Skúlason sem lýsti sig samþykktan breytingatillögu Sigurðar, en leggur jafnframt til að út falli orðin á eftir framtíðarlausn um “staðsetningu osfrv.” en komi í þess stað orðin “þessara mála”.
Ályktunin með áorðnum breytingum er þannig orðuð.” Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautarskóla Suðurnesja dagana 15.-16.október 1999 hvetur stjórnvöld til þess að láta fara fram hagkvæmnisúttekt á að flytja miðstöð kennsluflugs, ferjuflugs og innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar”.

Fundarstjóri frestaði síðan 16. lið á dagskránni.

17.     Önnur mál:
Reynir Sveinsson gagnrýndi sveitarstjórnarmenn fyrir að yfirgefa fundinn, þar sem atkvæðagreiðsla ætti eftir að fara fram. Jóhann Geirdal, Guðjón Guðmundsson ræddi um breytingar á fyrirkomulagi aðalfundar
Sigurður Valur vildi þakka fyrir þá kynningu sem Reykjanesbær hélt, og ætti það að
vera öðrum til eftirbreytni.

Tekið var aftur til afgreiðslu liður 16 á dagskránni.

Tillaga Hafsteins Snæland felld með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.
Ályktun um flutning kennsluflugs, ferjuflugs og innanlandsflugs til Keflavíkur með áorðnum breytingum samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn atkvæði Hafsteins Snælands.

Ályktun um vegamál. Til máls tóku Óskar Gunnarsson og Reynir sem leggja til að
ásamt Skúla Þ. Skúlasyni flutningsmanni breytingar við fyrri tillögu og hljóðar ályktunin því þannig með áorðnum breytingum: “Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja dagana 15.-16.október 1999 krefst þess að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar verði flýtt frá því sem nú er gert ráð fyrir í vegaáætlun.
Jafnframt verði hafinn undirbúningur að Suðurstrandarvegi frá Þorlákshöfn um Grindavík, Reykjanesvita, Hafnir og Ósabotna að Stafnesi”
Greinagerð: Umferð um Reykjanesbraut jókst um 8% milli áranna 1997 og 1998, samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins. Umferð um brautina við Straumsvík á árinu 1997 alls 5870 bifreiðar á sólarhring en 6330 á árinu 1998. Fyrirhuguð stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og stóraukin umsvif þar vegna vaxandi farþega- og fraktflugs, auka enn á umferð á álagstímum brautarinnar. Slys á kaflanum frá Krísuvíkurvegi til Keflavíkur hafa verið að meðaltali 40 á ári á árunum 1992 – 1996.
Með nýrri kjördæmaskipan er brýnt að tengja saman væntanlegt Suðurkjördæmi með Suðurstrandarvegi sem og til að þjóna atvinnulífinu.“  Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ályktun um heilbrigðismál.  Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, án umræðu.

Ályktun um tekjustofna sveitarfélaga. Sigurður Jónsson flutningsmaður ályktunarinnar  lagði fram nýja ályktun í stað þeirra fyrri sem er eftirfarandi:
Ályktun um tekjustofna sveitarfélaga. “Aðalfundur SSS haldinn dagana 15. og 16.október 1999 í Fjölbrautaskóla Suðurnesja beinir þeim eindregnu tilmælum til Alþingis og tekjustofanefndar, sem félagsmálaráðherra hefur skipað, að við endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga verði sveitarfélögum tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar til að sinna þeim verkefnum, sem þeim er falin samkvæmt lögum og reglugerðum.
Aðalfundur SSS telur nauðsynlegt að Alþingi og tekjustofnanefnd taki til sérstakrar skoðunar þá tekjuskerðingu og aukin útgjöld sem sveitarfélög hafa orðið fyrir vegna breytinga á skattalögum. Lögð er áhersla á að sveitarfélögunum verði nú þegar bætt umrædd skerðing.
Aðalfundur SSS vekur athygli á því, að samkvæmt skýrslu nefndar um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga 1990 – 1997 kemur í ljós að aðgerðir ríkisvaldsins hafa skert fjárhag sveitarfélaganna um 14 til 15 milljarða á tímabilinu. Fundurinn tekur undir efni skýrslunnar og ítrekar að bæta verður sveitarfélögunum þessa fjármuni“.  Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ályktun Jóhönnu Norðfjörð:  Ályktun um löggæslu: Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Reykjanesbæ, dagana 15. og 16. október 1999 lýsir áhyggjum sínum yfir því að verulega vantar á almenna löggæslu á Suðurnesjum og leggur áherslu á að fá aukna fjárveitingu til Sýslumannsembættisins í Keflavík til þess að það geti sinnt hlutverki sínu hér á svæðinu.

Jóhanna S. Norðfjörð

Ályktun um löggæslu samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

18. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Tilnefningar sveitarfélaganna í stjórn S.S.S. 1999.

Reykjanesbær:
  Aðalmaður: Skúli Þ. Skúlason
  Varamaður: Björk Guðjónsdóttir
Grindavíkurbær:
  Aðalmaður: Hallgrímur Bogason
  Varamaður: Sverrir Vilbergsson
Sandgerðisbær:
  Aðalmaður: Óskar Gunnarsson
  Varamaður: Sigurður V. Ásbjarnarson

Gerðahreppur:
  Aðalmaður: Sigurður Jónsson
  Varamaður: Sigurður Ingvarsson

Vatnsleysustrandarhreppur:
  Aðalmaður: Þóra Bragadóttir
  Varamaður: Jóhanna Reynisdóttir

19.  Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.

Aðalmenn: Magnús Haraldsson
  Ingimundur Þ. Guðnason
Varamenn: Ellert Eiríksson
  Ingólfur Bárðarson   

20       Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar:

Sigurður Jónsson
Skúli Þ. Skúlason
Þóra Bragadóttir
Guðjón Guðmundsson.

Fundarstjóri Kristmundur Ásmundsson þakkaði fundarmönnum gott samstarf
og gaf formanni SSS Skúla Þ.Skúlasyni orðið er þakkaði fundarmönnum fundarsetuna og starfsmönnum fundarins fyrir vel unnin störf.

Fleira ekki gert og fundi slitið
   

   

      Fundargerð er tölvufærð.
Hjörtur Zakaríasson (sign.)