fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

25. Aðalfundur SSS 13. september 2002

25. aðalfundur S.S.S. haldinn í Félagsheimilinu Festi Grindavík,
föstudaginn 13. og laugardaginn 14. september 2002.

 

Dagskrá:

Föstudagur 13. september 2002.

Kl. 13:00    1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 13:30    2. Fundarsetning.
     3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
     4. Skýrsla stjórnar:  Hallgrímur Bogason, formaður S.S.S.
     5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2001,
    Guðjón Guðmundsson, framkv.stj.
  6.      Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
  7. Ávörp gesta.  
Kl. 14:50    8. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Kl. 15:00    9. Kaffihlé.
Kl. 15:30  10. Ávarp félagsmálaráðherra Páls Péturssonar
11. Af vettvangi  Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tillögur að breyttum samþykktum fyrir Sambandið og launanefnd sveitarfélaga,
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður.
Umræður 
Kl. 16:45  12. Skoðunarferð um Grindavík m.a. skoða Saltfisksetrið.

Kl. 18:00   Áætluð lok ferðar. 
    Fundi frestað.

 


Laugardagur 14. september 2002.

Kl.    9:40           –  Morgunkaffi  –
 
Kl. 10:00  13. Sveitarfélögin og íþróttirnar.
    Ellert B. Schram,  forseti ÍSÍ
    Stefán Konráðsson,  framkvæmdarstjóri ÍSÍ
Hrannar Hólm,  ÍRB    
    
Umræður    

Kl.  11:30   14. Nýjungar og breytt tilhögun  sorphirðu í Reykjavík
Sigríður Ólafsdóttir rekstrarstjóri
Umhverfis og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.

Umræður
Kl.  12:15    –  Hádegishlé –

Kl. 13:15  15. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
Kl. 14:00  16. Önnur mál.
Kl. 14:10  17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
   18. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
   19. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.
Kl. 14:20  20. Áætluð fundarslit.
  
  
Kl.  19:30   Kvöldverður í boði S.S.S. fyrir fundarmenn, maka og 
    gesti í Félagsheimilinu Festi, Grindavík.

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls 41 sveitastjórnarmaður, frá Gerðahreppi 8,  Reykjanesbæ 10, Grindavíkurbæ 7, Sandgerðisbæ 10 og Vatnsleysustrandarhreppi 6.

Gestir og frummælendur á fundinum voru Páll Pétursson  félagsmálaráðherra, Drífa Hjartardóttir alþingismaður, Margrét Frímannsdóttir alþingismaður, Rannveig Guðmundsdóttir alþingismaður, Árni Ragnar Árnason alþingismaður, Hjálmar Árnason alþingismaður, Sigríður Jóhannesdóttir alþingismaður, Lúðvík Bergvinsson alþingismaður, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Sambandi ísl. Sveitarfélaga, Þorvarður Hjaltason, SASS, Valtýr Valtýsson, SASS, Ólafur Kjartansson, MOA, Ólafur Jón Arnbjörnsson, FS, Magnús H. Guðjónsson, HES, Finnbogi Björnsson, DS,  Eiríkur Hermannsson, Skólaskrifstofu Reykjanesbæjar, Ellert B. Schram, ÍSÍ, Stefán Konráðsson, ÍSÍ, Hrannar Hólm, ÍRB,  Sigríður Ólafsdóttir,  Reykjavíkurborg,  Sigmundur Eyþórsson, BS, Viðar Oddgeirsson, Sjónvarpinu, Helgi Bjarnason, Morgunblaðinu, Hilmar B. Bárðarson, Víkurfréttir, Arnar Fells, Víkurfréttir.

2. Fundarsetning.
Hallgrímur Bogason formaður S.S.S. setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um Hörð Guðbrandsson og Ómar Jónsson sem fundarstjóra og voru þeir sjálfkjörnir.
Uppástunga kom um Sigmar Edvardsson sem 1. fundarritara og Ingibjörgu Reynisdóttur sem 2. fundarritara, vararitarar Garðar Vignisson og Dagbjartur Willardsson og voru þau sjálfskjörin.  Lagt var til að Jóhanna M. Einarsdóttir yrði sett sem skrifari fundarins.

Hörður Guðbrandsson þakkaði það traust að fela honum stjórn fundarins. Fundarstjóri bað um leyfi fundarins til breytinga á dagskrá og næst á dagskrá yrði ávarp félagsmálaráðherra.

4. Ávarp félagsmálaráðherra Páls Péturssonar.
Páll Pétursson félagsmálaráðherra ræddi m.a. um það helsta sem væri um að vera í félagsmálaráðuneytinu, nýtt skipurit o.fl.  Einnig ræddi hann um félagslega aðstoð í húsnæðiskerfinu  og skort á leiguíbúðum en ráðgert er átak í byggingu leiguíbúða.

Til máls tóku Jón Gunnarsson, Hallgrímur Bogason og Skúli Skúlason.

5. Skýrsla stjórnar.
Hallgrímur Bogason formaður SSS flutti skýrslu stjórnar
“Fyrsti fundur stjórnar sambandsins á þessu starfsári var 15. nóvember 2001.  Þar skipti stjórnin með sér verkum þannig:

Hallgrímur Bogason, formaður
Skúli Þ Skúlason, varaformaður
Óskar Gunnarsson, ritari
Sigurður Jónsson
Þóra Bragadóttir.

Á starfsári hafa störf sambandsins verið með hefðbundnum hætti.  Tekin hafa verið til umræðu öll þau málefni sem varðað hafa og hugsanlega gætu komið sveitarfélögunum til góða með samstarfi eða samstarfsvettvangi af einhverju tagi.  Bókaðir fundir stjórnar voru 11 og málefnin 148.

Ótrúlegur fjöldi frumvarpa til laga barst til umsagnar frá hinum ýmsu nefndarsviðum alþingis ásamt tillögum til þingsályktana.  En þau voru:

 Frumvarp til laga um tekjuskatt, eignarskatt o.fl.
 Frumvarp til laga um fjarskipti, jöfnunargjald, heimtaugar
 Frumvarp til iðnaðarlaga, iðnráð.
 Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, úthlutun aflahlutdeilda o.fl.
 Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, krókabátar.
 Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, krókaaflamarksbátar
 Tillaga til þingsályktunar um átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni.
 Frumvarp til laga um leigubifreiðar.
 Frumvarp til laga um póstþjónustu.
 Frumvarp til laga um skipan opinberra framkvæmda.
 Frumvarpi til laga um vátryggingasamninga og Viðlagatryggingu Íslands, tjón á húseignum, endurstofnsverð o.fl.
 Frumvarp til laga um brunatryggingar, afskrift brunabótamats.
 Frumvarp til vatnalaga, vatnaflutningar.
 Frumvarp til laga um húsnæðismál, matsverð fasteigna.
 Frumvarp til laga um umgengni um nytjastofna sjávar, brottkast afla.
 Tillaga til þingsályktunar um rekstur Ríkisútvarpsins.
 Frumvarp til útvarpslaga, stofnun hlutafélags um rekstur Ríkisútvarpsins o.fl.
 Frumvarp til laga um vatnsveitur sveitarfélaga.
 Frumvörp til laga um samgönguáætlun og lagaákvæði er varða samgönguáætlun.
 Frumvarp til laga um geislavarnir, heildarlög.
 Tillaga til þingsályktunar um rannsóknir á þorskeldi.
 Frumvarp til laga um eldi nytjastofna sjávar.
 Tillaga til þingsályktunar um áfallahjálp innan sveitarfélaga.
 Frumvarp til hafnalaga, heildarlög.
 Tillaga til þingsályktunar um samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni.
 Tillaga til þingsályktunar um flutning verkefna frá stjórnsýslustofnunum til sýslumannsembætta á landsbyggðinni.
 Tillaga til þingsályktunar um aukaþing Alþingis um byggðamál.
 Frumvarp til umferðarlaga, hægri beygja á móti rauðu ljósi.
 Frumvarp til laga um fjárreiður ríkisins, og fjáraukalög og fjáraukalög 2001.
 Tillaga til þingsályktunar um flutning jarðefnaeldsneytis eftir Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi.
 Frumvarp til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, gjaldtökuheimildir og náttúrustofur.
 Tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum 2002-2005.
 Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða.
 Tillaga til þingsályktunar um sjóðandi lághitasvæði.
 Tillaga til þingsályktunar og frumvörp um landgræðsluáætlun 2003-2014, landgræðslu (heildarlög), afréttarmálefni, fjallskil o.fl.
 Tillaga til þingsályktunar um ferðaþjónustu á norðausturhorni Íslands.
 Frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga, grunnskólabyggingar.
 Frumvarp til laga um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar.
 Frumvarp til laga um hvalveiðar.
 Tillaga til þingsályktunar um neysluvatn.
 Tillaga til þingsályktunar um gagnsemi raflýsingar á þjóðvegum milli þéttbýlisstaða.
 Tillaga til þingsályktunar um strandsiglingar.
 Frumvarp til laga um meðhöndlun úrgangs, EES-reglur.
 Tillaga til þingsályktunar um þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum.

Hluti þessara frumvarpa hafa þegar orðið að lögum, önnur bíða síns tíma og sum lenda í stóru tunnunni.  Samvinna stjórnarmanna er mjög góð og minnist ég ekki annars en að án undantekninga hafi náðst samkomulag um umsögn.

Væntingar voru um að ná samkomulagi við menntamálaráðuneytið og menntamálaráðherra um viðbyggingu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja um sem næmi hátt á þriðja þúsund fermetra stækkun.  Vonast er til að undirritun samkomulags um framkvæmdir sé á næstu grösum en menntamálaráðherra hefur tilkynnt um komu sína og boðað hefur verið til fundar í Fjölbrautaskólanum 30. september n.k.

Í samræmi við ályktun sem samþykkt var á síðasta aðalfundi tók stjórnin til umræðu fyrirkomulag aðalfunda sambandsins.  Með tilliti til þess hefur tími aðalfundarins verið styttur og við hann tengdur aðalfundur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf.  Málefni dagskrár fundarins ber örlítinn keim af því að þar megi einnig finna blæ af verkefnum sorpeyðingarstöðvarinnar.  Þar sem þetta er kosningaár þykir stjórninni eðlilegt að ákvörðun um frekari hugmyndir um breytt skipulag bíði þeirrar stjórnar sem nú tekur við.

Í samstarfi við MOA boðaði stjórnin til sambandsfundar í Eldborg.  Þar kynntu Bjarnheiður Hallsdóttir og Sigríður Þrúður Stefánsdóttir skýrslu sína og greiningu á ferðaþjónustu á Reykjanesi í nútíð og framtíð.

Í aldanna rás hefur sjósókn verið aðalsmerki þeirra sem Reykjanesið búa.  Hér hefur löngum verið öflug útgerð og fiskvinnsla og svo er enn.  Miklar þjóðfélagsbreytingar hafa átt sér stað síðustu áratugi og er nú svo komið að ferðaþjónustan er komin í 2. sæti í gjaldeyrissköpun þjóðarinnar.  Það er af sem áður var.
Fyrir um 25 árum síðan, en þá starfaði ég sem bankastarfsmaður, kom fyrir að inn í bankann í Grindavík læddist einn og einn ferðamaður til að skipta gjaldeyri og eitt sinn stoppaði þar rúta með ferðamönnum í sama tilgangi.  Þetta var merkisatburður.  Hér var nefnilega ekki svæði sem var fyrir ferðamenn.  Og þegar ég sá dag einn út um gluggann tvo ferðamenn með bakpoka sem voru að skoða kort, þá var ég að hugsa um að fara út og vísa þeim til vegar.  Þeir hlutu að vera að villast.  Ferðamenn áttu að vera í Mývatnssveitinni eða að skoða Gullfoss og Geysi.
Það var brennt í hugskot manns að við byggjum á ljótasta bletti landsins þar sem bara væri hraun, ljótustu sveitarfélögin og oftast rok og rigning.  Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar að ég uppgötvaði að þetta var allt rangt.  Þetta væri landsvæði með gullfallegt landslag, sem einnig hafði mosavaxið hraun sem væri mjög fátítt á jörðinni.  Veðráttan væri ekkert verri en gengur og gerist á Íslandi og umhirða sveitarfélaga með því betra á landinu.  Þessi uppgötvun hefur greinilega haft á mig djúp áhrif því árum saman hef ég nú haft lifibrauð af því að þjónusta ferðamenn.

Okkur finnst við oft eftirbátar annarra í uppbyggingu fyrir ferðamenn en hún hefur verið hröð og örugg mörg hin síðari ár.
Umræða sem þessi á sér oft stað á stjórnarfundum sambandsins.  Uppbygging í sveitarfélögunum hefur verið mikil og aðkoma sveitarstjórnarmanna sýnt skilning þeirra á mikilvægi þess að byggja upp nýja atvinnugrein á okkar svæði.  En í þessum málaflokki sem og svo mörgum öðrum er samvinna sveitarfélaganna nauðsynleg ætlum við að ná hámarks árangri.  Það er nefnilega ákjósanlegra að skipta með sér verkum en margir séu að vinna að því sama.  T.a.m. stórhuga uppbyggingar í safnamálum og fyrirliggjandi hugmyndir þar um gefa bjarta von um rétta leið þar sem sveitarfélögin eru öll á sitt hvoru sviðinu.  Með áframhaldandi samvinnu og öflugu átaki verður Reykjanesið orðið stórveldi í þjónustu við ferðamenn innan ekki svo margra ára.

Með forgöngu Bjarkar Guðjónsdóttur og Valgerðar Guðmundsdóttur voru skoðaðir möguleikar þess að sveitarfélögin gerðu sameiginlega samstarfssamning við ríkið um aðkomu þess að menningarmálum svo sem m.a. hefur verið gert fyrir Austurland.  Sveitarfélögin hafa öll skipað fulltrúa í nefnd til að fara yfir stöðu mála í dag og hvort finna megi á því sameiginlegan vettvang að gera slíkan samning.

Sökum kosningaárs er þetta stutt starfstímabil stjórnar.  Hér hef ég þó aðeins dreypt á stóru með þau málefni sem stjórn Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur komið að.  Hef ég t.d. ekkert minnst á samstarf við önnur landshlutasamtök.  Aukið samstarf við nágranna okkar í Sambandi Sveitarfélaga á Suðurlandi er í farvatninu en auk þeirra deilum við nú kjördæmi með Hornfirðingum og Vestmannaeyingum.  Ekkert hef ég rætt um fjármál, aðkomu að símenntun o.fl. o.fl.

Að lokum vil ég segja.  Samstarfsvettvangur sem þessi er okkur nauðsynlegur.  Innan stjórnar er að sjálfsögðu oft skoðanaágreiningur en ávallt málefnaleg umræða og gagnkvæm virðing.  Stjórnarmönnum vil ég þakka ánægjulegt samstarf og fyrir hönd stjórnarinnar þakka ég starfsfólki sambandsins og framkvæmdastjóra góð störf og frábært samstarf.

Sameinaðir stöndum vér!”

6. Ársreikningar SSS fyrir árið 2001.
Til máls tók Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri er fylgdi ársreikningunum úr hlaði.

7. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning S.S.S. Til máls tóku Sigurður Jónsson, Guðbrandur Einarsson og Guðjón Guðmundsson. Ársreikningurinn var borinn undir atkvæði og var hann samþykktur samhljóða.

8. Ávörp gesta.
Rannveig Guðmundsdóttir flutti kveðjur þingmanna í Reykjaneskjördæmi og talaði m.a. um hve mikilvægt samstarf sveitastjórna og þingmanna væri.
Drífa Hjartardóttir flutti kveðjur þingmanna í Suðurlandskjördæmi og ræddi m.a. um mikilvægi Suðurstrandarvegar.
Valtýr Valtýsson formaður SASS flutti kveðjur sveitarfélaganna á Suðurlandi og ræddi um að auka þyrfti samstarf sveitarfélaganna í hinu nýja Suðurkjördæmi. 

9.  Kaffihlé.

10. Tillögur og ályktanir. 
Skúli Skúlason, f.h. stjórnar SSS, flutti ályktun um rekstrarvanda hjúkrunar- og dvalarheimila og um stefnumótun í þjónustu við sjúka aldraða. Sigurður Jónsson, f.h. stjórnar SSS, flutti ályktun um viðbyggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja og um miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Óskar Gunnarsson, f.h. stjórnar SSS, flutti ályktun um veg frá Stafnesi að Ósabotnum og um Suðurstrandarveg. Þóra Bragadóttir, f.h. stjórnar SSS, flutti ályktun um skattalagabreytingar og ályktun um verkaskiptingu ríkis og sveitrafélaga. Jóhann Geirdal flutti ályktun um lækkun á kostnaði heimilanna vegna skulda þeirra og ályktun um hækkun skattleysismarka.

11. Af vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tillögur að breyttum samþykktum fyrir Sambandið og launanefnd sveitarfélaga.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður, talaði um m.a.um breytingar á skipuriti sambandsins og tillögur  að breyttum samþykktum fyrir sambandið og launanefnd.
Einnig ræddi hann um landsþing sambandsins sem haldið verður seinna í mánuðinum á Akureyri.

Fyrirspurnir voru leyfðar og tók enginn til máls.

12. Skoðunarferð um Grindavík m.a. skoðað Saltfisksetrið.

Fundarstjóri frestaði fundi til morguns.

Aðalfundur S.S.S. – framhald, laugardaginn 14. september 2002 kl. 10.

13. Sveitarfélögin  og íþróttirnar.

Ellert B. Schram forseti ÍSÍ  um íþróttir og íþróttastarf. Hann sagði m.a. að íþróttir væru fyrir alla og færu ekki í manngreinarálit.

Stefán Konráðsson framkvæmdastjóri ÍSÍ ræddi m.a. um rekstur íþróttahreyfingarinnar og sagði að boð á þennan fund bæri vott um þá virðingu sem sveitarfélögin bæru fyrir starfi íþróttahreyfingarinnar.

Hrannar Hólm ÍRB sagði að íþróttafélögin sinntu forvörnum og æskulýðsstarfi og taldi að sveitarfélögin muni koma meira inn í rekstur íþróttafélaganna.

Fyrirspurnir voru leyfðar og til máls tóku Skúli Skúlason, Ólafur Þór Ólafsson, Hjálmar Árnason og Jóhann Geirdal.

14. Nýjungar og breytt tilhögun sorphirðu í Reykjavík.
Sigríður Ólafsdóttir rekstrarstjóri sorphirðu, umhverfis og heilbrigðisstofu Reykjavíkur ræddi um breytt fyrirkomulag umhverfismála í Reykjavík og nýtt sorphirðukerfi.

Fyrirspurnir voru leyfðar og til máls tóku Kjartan Már Kjartansson, Jóhann Geirdal, Guðjón Guðmundsson, Sveindís Valdimarsdóttir, Björk Guðjónsdóttir og Magnús H. Guðjónsson

 

15. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.

Ályktun um viðbyggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Aðalfundur SSS haldinn í Grindavík 13. og 14. september 2002 leggur þunga áherslu á að framkvæmdir geti hafist sem fyrst við stækkun Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Fyrir liggja drög að samningi við Menntamálaráðuneyti um stækkun F.S.
Aðalfundurinn ítrekar stuðning sveitastjórna á Suðurnesjum við fyrirhugaða framkvæmd um stækkun  F.S og skorar á menntamálaráðherra og fjármálaráðherra að ljúka málinu, þegar í stað.

Til máls tók Hjálmar Árnason.

Ályktun um viðbyggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um rekstrarvanda Hjúkrunar- og dvalarheimila

Aðalfundur SSS haldinn í Grindavík 13. og 14. september 2002  vekur athygli á þeim rekstrarvanda sem hjúkrunar- og dvalarheimili standa frammi fyrir.  Stefnir í stórfelldan halla á rekstrinum sem rekja má til launahækkana, hækkana á lyfjum og fleiri þátta sem ekki er tekið nægjanlegt tillit til í daggjöldum. Launahækkanir eru þó í fullu samræmi við samninga sem ríkið gerði við heilbrigðisstéttir. Skorað er á stjórnvöld að flýta endurskoðun daggjalda fyrir  Hlévang og Garðvang í samræmi við álit starfsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga svo tryggja megi hallalausan rekstur heimilanna.

Ályktun um rekstrarvanda hjúkrunar og dvalarheimila samþykkt samhljóða.

Ályktun um stefnumótun í þjónustu við sjúka aldraða.

Aðalfundur SSS í Grindavík 13. og 14. september 2002  áréttar mikilvægi þess að gott samstarf sé milli ríkis og sveitarfélaga varðandi stefnumótun í þjónustu við sjúka  aldraða.  Þar sem bæði félagsþjónustur sveitarfélaga og heilbrigðisstofnanir ríkisins sinna þjónustu við sjúka aldraða er nauðsynlegt að verkaskipting sé skýr til þess að allir sem á þjónustunni þurfa að halda fái hana.  Má nefna sem dæmi málefni heilabilaðra (Alzheimer). Sveitarfélögin á Suðurnesjum einsetja sér að skilgreina  þjónustu við aldraða þannig að hún megi vera skilvirk og markviss og nái til allra. Aðalfundurinn leitar eftir samstarfi við heilbrigðis- og fjármálaráðherra um slíka stefnumótun með það að markmiði að henni ljúki  fyrir  árslok 2002.
Heilbrigðis- og fjármálaráðherra eru hvattir til þess að bregðast skjótt við þessari málaleitan.

Til máls tóku Guðbrandur Einarsson og Jóhann Geirdal

Ályktun um stefnumótun í þjónustu við sjúka aldraða samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Aðalfundur SSS í Grindavík 13. og 14. september 2002 hvetur til þess að sem fyrst verði hrint í framkvæmd nýrri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, m.a. varðandi stofnkostnað og meiri háttar viðhaldskostnað í framhaldsskólum og heilbrigðisstofnunum samanber yfirlýsingu ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því í des í fyrra.  

Ályktun um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um áhrif skattalagabreytinga.
Aðalfundur SSS í Grindavík 13. og 14. september 2002 beinir því til Sambands íslenskra sveitarfélaga að kannað verði til hlýtar hve mikið breytingar á lögum um einkahlutafélög skerða tekjur sveitarfélaga og teknar upp viðræður við ríkisvaldið um að sveitarfélögum verði bættur upp tekjumissirinn.
Til máls tók Guðbrandur Einarsson.
Ályktun um áhrif skattalagabreytinga samþykkt með áorðnum breytingum.
Ályktun um Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum
Aðalfundur SSS í Grindavík 13. og 14. september 2002 beinir því til stofnaðila Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum (sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og aðilar vinnumarkaðarins) að mörkuð verði stefna til nokkurra ára um framtíð og hlutverk stofnunarinnar.  Jafnframt verði óskað eftir viðræðum við menntamálaráðherra um framtíð og skipulag kennslu á háskólastigi á Suðurnesjum.
Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Böðvar Jónsson og Einar Jón Pálsson.
Ályktun um Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um veg frá Stafnesi í Hafnir um Ósabotna.

Aðalfundur SSS haldinn í Grindavík 13. og 14. september 2002 skorar á Alþingi að koma  umræddri framkvæmd á vegaáætlun og tryggja fjármagn til  framkvæmda  á næsta ári.

Greinargerð:

Mikil áhersla er lögð á framangreinda framkvæmd þar sem leyfi hefur loksins fengist til að fara um varnarsvæðið.

Vegurinn hefur mikla þýðingu fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum.
Má hér nefna neðanritað í þessu sambandi:

1. Hringtenging verður um Rosmhvalanes.
2. Vegurinn mun styrkja menningartengda ferðaþjónustu á svæðinu.
3. Vegurinn mun efla atvinnumöguleika og jafna búsetuskilyrði á svæðinu.
4. Merkar sögulegar minjar eru við ströndina og mun tilkoma vegarins bæta aðkomu að þeim.
5. Vegurinn mun auka öryggi þar sem hann bætir aðgengi slökkviliðs- og björgunaraðila um aðflugssvæði flugumferðar.

Til máls tóku Guðbrandur Einarsson,  Birgir Þórarinsson, Jón Gunnarsson, Reynir Sveinsson, Hjálmar Árnason, Sigurbjörg Eiríksdóttir.

Ályktun um veg frá Stafnesi í Hafnir um Ósabotna samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um Suðurstrandarveg.
Aðalfundur SSS í Grindavík 13. og 14. september 2002 tekur undir ályktun aðalfundar SASS frá 30.-31.ágúst s.l. um að hvergi verði hvikað frá áformum um lagningu Suðurstrandarvegar.  Skorað er á Alþingi að tryggja fjármagn til þess að framkvæmdir geti hafist strax á næsta ári.  Vegtenging innan hins nýja Suðurkjördæmis styrkir allt atvinnu- og mannlíf í kjördæminu.
Til máls tóku Garðar Vignisson, Ingþór Karlsson, Jón Gunnarsson.
Ályktun um Suðurstrandarveg samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um lækkun á kostnaði heimilanna vegna skulda þeirra.

Aðalfundur SSS haldinn í Festi, Grindavík, 13. -14. september 2002 hvetur til meiri lækkunar vaxta.  Vextir geta numið allt að 12% á verðtryggðum lánum til almennings.  Slíkir vextir eru verulega íþyngjandi fyrir skuldsett heimili.  Það eru ótvíræðir hagsmunir íbúa þessa svæðis að allra leiða verði leitað til að lækka þennan kostnað og skorar aðalfundur SSS því á Seðlabankann að beita sér fyrir frekari lækkun vaxta.

Til máls tóku Garðar Vignisson og Ingimundur Þ. Guðnason.

Ályktun um lækkun á kostnaði heimilanna vegna skulda þeirra  samþykkt með áorðnum breytingum.

 

Ályktun um hækkun skattleysismarka

Aðalfundur SSS haldinn í Festi, Grindavík 13.-14. september 2002 samþykkir að skora á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir réttlátari álagningu tekjuskatts með því að frítekjumark hækki verulega og að opinber elli- og örorkulífeyrir fylgi launaþróun.

Greinargerð:
Á undanförnum árum hefur skattabyrði þeirra sem hafa lág laun aukist m.a. vegna þess að raungildi skattleysismarka hefur ekki fylgt verðlagsþróun eftir að ríkisstjórnin ákvað árið 1996 að afnema vísitölubindingar skattleysismarka. 

Til máls tóku Garðar Vignisson, Ingþór Karlsson.
Böðvar Jónsson lagði til að ályktun um hækkun skattleysismarka yrði vísað frá. Tillaga Böðvars felld með 6 atkvæðum gegn 17.

Ályktun um hækkun skattleysismarka samþykkt með áorðnum breytingum.

16. Önnur mál.
Enginn kvaddi sér hljóðs undir þessum lið.

17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær:
  Aðalmaður: Böðvar Jónsson
  Varamaður: Björk Guðjónsdóttir

Grindavíkurbær:
  Aðalmaður: Hörður Guðbrandsson
  Varamaður: Garðar Páll Vignisson

Sandgerðisbær:
  Aðalmaður: Óskar Gunnarsson
  Varamaður: Reynir Sveinsson

Gerðahreppur:
  Aðalmaður: Sigurður Jónsson
  Varamaður: Ingimundur Þ. Guðnason

Vatnsleysustrandarhreppur:
  Aðalmaður: Jón Gunnarsson
  Varamaður: Jóhanna Reynisdóttir.

18. Kosnir 2 skoðunarmenn reikningar og 2 til vara.

  Aðalmenn: Ingimundur Þ. Guðnason
    Ellert Eiríksson

  Varamenn: Jóhanna Reynisdóttir
    Jón Þórisson.

19. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.

    Böðvar Jónsson
    Hörður Guðbrandsson 
    Óskar Gunnarsson
    Guðjón Guðmundsson

Hallgrímur Bogason óskaði eftir að fundarstjóri leitaði eftir heimild fundarmanna til kosningar í launanefnd samkvæmt samþykktum sambandsins.  Að nýkjörin stjórn yrði kosin í launanefnd en hún skipti síðan sjálf með sér verkum en samkvæmt samþykktum eru 3 aðalmenn og 2 til vara.

Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt.

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum gott samstarf og fékk formanni S.S.S. Hallgrími Bogasyni orðið sem þakkaði fundarmönnum fundarsetuna og starfsmönnum fundarins vel unnin störf.

Fleira ekki gert og fundi slitið.

      ________________________
      Jóhanna M. Einarsdóttir
      fundarskrifari.