fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

27. Aðalfundur SSS 30. október 2004

27. aðalfundur S.S.S. haldinn í Fræðasetrinu í Sandgerði,
laugardaginn 30. október 2004.

Dagskrá:

Kl. 09:30    1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 10:00    2. Fundarsetning: Reynir Sveinsson formaður S.S.S.
     3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
     4. Skýrsla stjórnar:  Reynir Sveinsson, formaður S.S.S.
     5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2003,
    Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri.
  6.      Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
     7. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
       8. Ávörp gesta.
Kl. 11:00    9. Er atvinnuleysi dulbúið?
Ketill Jósefsson forstöðumaður
Fyrirspurnir og umræður.
10. Reykjanes til framtíðar.
Guðmundur Pétursson ráðgjafi
Ríkharður Íbsen framkvst. TURNKEY ehf.
Fyrirspurnir og umræður.
Kl. 12:30   11. Hádegisverðarhlé.
Kl. 13:30   12. Ávarp Félagsmálaráðuneytisins.
    Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri
    13. Ávarp Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður
   14. Átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins.
           Róbert Ragnarsson starfsm. verkefnisstjórnar
    Fyrirspurnir og umræður.
Kl. 15:00  15. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
   16. Önnur mál.
Kl. 16:00  17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
18. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
19.   Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.
Kl. 16:20  20. Áætluð fundarslit.

Kl. 19:30 Kvöldfagnaður í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka í Golfskálanum í Leiru.

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls 37 sveitarstjórnarmenn, frá Garði  7, Reykjanesbæ 11, Grindavíkurbæ 7 , Sandgerðisbæ 8 og Vatnsleysustrandarhreppi 4 .

Gestir  og frummælendur á fundinum voru Margrét Frímannsdóttir, alþingismaður, Drífa Hjartardóttir, alþingismaður, Guðjón Hjörleifsson alþingismaður, Ketill Jósefsson, Svæðisvinnumiðlun Suðurnesja, Róbert Ragnarsson, félagsmálaráðuneyti, Ragnhildur Arnljótsdóttir, félagsmálaráðuneyti, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Guðmundur Pétursson, Turnkey ehf., Ríkharður Ibsen, Turnkey ehf., Sigmundur Eyþórsson, BS, Viðar Oddgeirsson, Sjónvarpinu, Hilmar Bárðarson, Víkurfréttir, Sigurjón R. Vikarsson, Tíðindum, Þórður Ingimarsson, Sveitarstjórnarmálum.

2. Fundarsetning.
Reynir Sveinsson formaður S.S.S. setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um Sigurð Val Ásbjarnarson og Óskar Gunnarsson sem fundarstjóra og voru þeir sjálfkjörnir.
Uppástunga kom um Sigurbjörgu Eiríksdóttur sem 1. fundarritara og Ingþór Karlsson sem 2. fundarritara, vararitarar Ólafur Þór Ólafsson og Ester Grétarsdóttir og voru þau sjálfkjörin.  Lagt var til að Jóhanna M. Einarsdóttir yrði sett sem skrifari fundarins.

Óskar Gunnarsson  þakkaði það traust að fela honum stjórn fundarins.

4. Skýrsla stjórnar.
Reynir Sveinsson  formaður SSS flutti skýrslu stjórnar

“Á síðasta aðalfundi SSS sem haldinn var  þann 25. október 2003 í Fjölbrautaskóla Suðurnesja voru eftirtaldir aðilar kosnir í stjórn sambandsins:
• Sigurður Jónsson  Garði 
• Jón Gunnarsson  Vogum
• Böðvar Jónsson  Reykjanesbæ
• Hörður Guðbrandsson  Grindavík
• og sá er hér talar Reynir Sveinsson Sandgerði sem gegnt hefur formennsku þetta starfsárið.
Stjórnin hefur haldið 17 stjórnarfundi og tekið fyrir 177 mál til afgreiðslu.  Sum málin hafa vegið þungt og önnur ekki.  Ég mun í skýrslu stjórnar greina frá þeim helstu málum sem afgreidd hafa verið, en ég mun ekki tíunda þann fjölda þingsályktunarmála sem stjórnin fær reglulega til umsagnar frá Alþingi.

Á fyrsta fundi stjórnar sambandsins kom erindi frá  félagsmálaráðuneytinu um kynningarfund um sérstakt átak vegna flutnings verkefna frá ríki til sveitarfélaga og sameiningu sveitarfélaga.  Sameiningarmál hafa ekki verið mikið til umræðu í stjórninni, en þó var í janúar á þessu ári haldinn kynningarfundur með sveitarstjórnarmönnum hér í þessum sal.  Fulltrúar frá félagsmálaráðuneytinu kynntu fyrirhugaðar breytingar og þau verkefni sem hugsanlega verða flutt yfir á sveitarfélögin.
Eftir hádegi í dag verður væntanlega útskýrt  fyrir sveitarstjórnarmönnum um stöðu þessa verkefnis.

Á fundi stjórnar 13. maí 2004 voru sameiningarmál á dagskrá.  Í framhaldi af svörum sveitarstjórna var ákveðið að gera ekki sameiginlega tillögu til verkefnisstjórnar.
Á þessu ári komu nýjar reglur um forðagæslumenn og búfjáreftirlitið, þar sem krafist var að viðkomandi búfjáreftirlitsmaður væri menntaður búfræðingur.  Þar sem landbúnaður er nú ekki stundaður af miklu kappi á svæðinu var ákveðið að sameinast um verkefnið og ráða einn búfjáreftirlitsmann.  Bar nú vel í veiði því í stjórn SSS er einn lærður búfræðingur, Hörður Guðbrandsson frá Grindavík sem að sjálfsögðu var fenginn til þess að sinna starfinu fyrir Suðurnesjamenn.
Í byrjun febrúar voru kynntar niðurstöður um “Hagi og líðan ungs fólks á Suðurnesjum” en það eru niðurstöður úr viðamikilli könnun sem Rannsóknir og Greining unnu og taka til nemenda í 1. –10. bekk grunnskólans.  Hafa slíkar kannanir verið gerðar þriðja hvert ár og hefur SSS staðið fyrir þeim í tvígang.  Þarna er könnuð t.d. vímuefnanotkun, viðhorf til skóla, íþróttaiðkun, samband við foreldra svo eitthvað sé talið og á að nýtast í skóla og hjá félagsmálastarfsfólki.
Þá kom SSS að námskeiði um félagsþjónustu sveitarfélaga í mars með félagsmálaráðuneytinu.

Eftir stormasöm ár í málefnum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja má segja að svolítil ró hafi færst yfir stofnunina.  Á síðasta aðalfundi SSS voru sveitarstjórnarmönnum kynnt drög að stefnumótun HSS.  Til að fylgja málinu eftir var boðað til samráðsfundar um málefni Heilbrigðisstofnunarinnar með ráðherra heilbrigðismála Jóni Kristjánssyni.
Þann 1. júní s.l. skrifaði ráðherra ásamt framkvæmdastjóra HSS undir viljayfirlýsingu um áframhaldandi uppbyggingu D-álmu og framtíðarsýn HSS.
Það eru okkur mikil vonbrigði að ekki skuli sjá neinn stað í framlögðu fjárlagafrumvarpi að unnið sé að koma þessari viljayfirlýsingu í framkvæmd.
Það er brýnt að sveitarstjórnarmenn svo og þingmenn okkar haldi áfram að knýja á um fjármagn til Heilbrigðistofnunar Suðurnesja og þessi viljayfirlýsing verði meira en orðin tóm.
Ein er sú atvinnugrein sem á undanförnum árum hefur eflst mjög á Suðurnesjum.  En það er ferðaiðnaður.  Margir hafa komið með hugmyndir sem vert er að skoða.  Sambandið tók þátt í ráðstefnu um ferðaþjónustu á Suðurnesjum sem haldin var í Eldborg.  Mikill fjöldi manns sótti ráðstefnuna og er það til merkis um að hér sé margt áhugavert.
Nú er verið að vinna við sérstakt sögukort af svæðinu sem væntanlega kemur út á næsta ári.  Fyrir nokkrum árum var samþykkt Stefnumótun í Ferðaþjónustu á Reykjanesi.  Á þessu ári hefur verið unnið eftir henni, en það er ljóst að til að koma Reykjanesskaganum á kortið í ferðaþjónustu þarf að setja meira fjármagn til kynninga á svæðinu.
Á þessu ári var nýja sorpeyðingarstöðin Kalka tekin í notkun, er öll umgjörð og umhverfi stöðvarinnar til fyrirmyndar.  Nokkur dráttur hefur þó verið á verklokum við stöðina, það má segja að það sé aðallega tæknilegs eðlis eða venjulegir byrjunarörðugleikar.  Stjórn sambandsins fær reglulega fréttir af gangi mála í Kölku.
Stjórn sambandsins hefur á þessu starfsári í tvígang óskað eftir fundi með utanríkisráðherra vegna þeirrar óvissu sem ríkir um starfsemina á varnarsvæðinu.  Á undanförnum árum hafa verið miklar breytingar á allri starfseminni á varnarsvæðinu, mikið hefur verið um uppsagnir starfsmanna og öll verktakavinna minnkað.  Það hlýtur að vera krafa okkar Suðurnesjamanna að fá að fylgjast með framvindu mála á varnarsvæðinu, svo hægt sé að grípa til sértækra aðgerðra ef fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar í næstu framtíð. 
Síðar á þessum fundi verður fjallað um atvinnumál m.a. á varnarsvæðinu.
Atvinnumál á Suðurnesjum hafa á árinu verið mikið í umræðunni og oft tíundað að hér sé mesta atvinnuleysi á landinu.  Á þessu ári var sett á stofn vinnuhópur sem fékk það verkefni að skilgreina atvinnuleysið og koma með hugmyndir til að fækka atvinnulausum.  Í vinnuhópnum voru fulltrúar frá Sambandinu, Svæðisvinnumiðlun, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Miðstöð símenntunar, IGS og verkalýðsfélögunum.  En ekki er mér kunnugt um að fulltrúi atvinnurekenda hafi mætt á fundi vinnuhópsins.  Niðurstöður af verkefnum vinnuhópsins hafa verið birtar í skýrslu sem Jóhan D. Jónsson starfsmaður vinnuhópsins gerði.
Á liðnu ári hefur atvinnuráðgjafi SSS komið að ýmsum verkefnum fyrir sveitarfélögin og íbúa þess.  Stuðningur, námskeiðahald og handleiðsla fyrir frumkvöðla er þáttur í daglegri sýslu, þá hefur verið unnin skýrsla í stefnumótun í atvinnumálum á svæðinu. 
Ennfremur  unnið  að markaðsátaki í samvinnu við ferðaþjónustuaðila sem beint var til innlendra ferðamanna.  Átaksverkefnið var tvíþætt, annars vegar var gefinn út bæklingur um ferðaþjónustu og afþreyingu á svæðinu sem dreift var á upplýsingamiðstöðvar um landið.  Hins vegar var lagt upp í markaðsátak í útvarpi sem fram fór í mánuðunum júní til ágúst s.l.  Þá var gerð skýrsla sem ber nafnið Ferðaþjónusta á Suðurnesjum.  Könnun var lögð fyrir leiðsögumenn og starfsmenn á ferðaskrifstofum hér á landi. 

Verkefni atvinnuráðgjafa eru af ýmsu tagi nefna má gerð prentaðs kynningarefnis, gerð heimasíðu og markaðssetningu af ýmsu tagi. 
Á tímabilinu frá sept. 2003 til okt. 2004 hafa borist inn á Reykjanes rúmlega 35 milljónir króna í framkvæmdafé með aðstoð atvinnuráðgjafa.  Atvinnuráðgjafi hefur komið að verkefnum sem skapað hafa um það bil 11 stöðugildi á svæðinu, með afleiddum störfum má ætla að stöðugildin séu tæplega 20.
Atvinnuráðgjafi er tengiliður inn í opinbert frumkvöðlaumhverfi eins og við Impru, Byggðastofnun, Ferðamálaráð og aðrar stofnanir er tengjast einstökum viðfangsefnum. 
Það hlýtur að vera áhyggjuefni sveitarstjórnarmanna ef fréttir af viðloðandi atvinnuleysi á Suðurnesjum er sífellt í fjölmiðlum. Ég held að það laði ekki að fólk til búsetu, því hver vill búa þar sem  mikið atvinnuleysi ríkir?  
Síðar á fundinum verður fjallað um atvinnuleysismál á Suðurnesjum.
Nú er að mestu lokið við byggingaframkvæmdir vegna stækkunar á Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  Verkið er unnið af Hjalta Guðmundssyni og sonum, vel hefur tekist til við stækkun skólans.  Allar kostnaðaráætlanir hafa að mestu staðist.  Viðbygging sem er um 3000 fm. kallar á ákveðinn fjölda bílastæða samkvæmt byggingareglugerðum, sem ekki voru inni í áætlunum.  Því hafa sveitarfélögin ákveðið að koma að frágangi bílastæða.  Nemur hlutur þeirra um 20 milljónum króna.
Í ár geta Suðurnesjamenn fagnað merkum áfanga í samgöngumálum, má þar fyrst nefna verklok á fyrsta áfanga tvöföldunar Reykjanesbrautar.  Tvöföldunin hefur verið baráttumál sveitarstjórnarmanna til margra ára og þeirri baráttu er ekki lokið, nú verða þingmenn og aðrir að þrýsta á að klára tvöföldun brautarinnar.
Önnur merk tímamót í sögu samgangna eru á þessu ári, því það eru 100 ár frá því framkvæmdir hófust við lagningu vegar frá Hafnarfirði til Keflavíkur.  Vegalagning hófst 1904 og var framkvæmdum lokið 1912.  Það tók sem sé 8 ár að leggja veginn, og heildarkostnaður var 127 þúsund krónur.  Ég vona að við þurfum ekki að bíða til ársins 2012 eftir að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar.
Með leyfi fundarstjóra langar mig að lesa hér stutta vísu sem kveðin var er fyrsti vegurinn frá höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkur var formlega opnaður 1912.

 

 

Vegagerðin hefur að undanförnu unnið að hönnun að Suðurstrandarvegi og Garðskagavegi um Ósabotna.  Eru þessir vegir báðir komnir inná vegaáætlun og verða framkvæmdir sennilega hafnar á næstunni.  Það er ekki vafamál að þessir vegir eiga eftir að auka fjölda ferðamanna um svæðið.

Formaður fór á aðalfund Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldinn var austur í hreppum.  Það var fróðlegt að sitja þann fund og sjá hve sunnlendingar voru óvenju tillögu glaðir um margvíslegustu málefni. 
Formaður og framkvæmdastjóri sambandsins sóttu fund með umhverfisnefnd Alþingis vegna framkvæmda við Reykjanessvirkjun, en nú eru framkvæmdir hafnar af fullum krafti.
Ennfremur fórum við á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þegar háværar umræður urðu um væntanlegt  sparisjóðsfrumvarp sem ekki varð þó að lögum eins og til stóð.  En enginn veit sína ævi í peninga og bankamálum á landinu í dag.
Nú þegar breytt kjördæmaskipan er komin á, eigum við þingmenn sem eru í stærsta kjördæmi landsins.  Í september síðastliðnum héldu þingmenn árlegan fund með stjórnum SSS og SASS.  Það er mjög mikilvægt að við Suðurnesjamenn séum samstíga í þeim málum sem við þurfum að leita til þingmanna okkar með.  Mér hefur verið tjáð af einum þingmanni okkar að við Suðurnesjamenn séum ósköp lítillátir í óskum um fyrirgreiðslu miðað við aðra hluta kjördæmisins.  Ég vil því hvetja alla sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum að halda góðu sambandi við þingmenn okkar og jafnframt vil ég þakka þingmönnum fyrir samstarfið.
Að lokum vil ég þakka meðstjórnarmönnum fyrir ánægjulegt samstarf á starfsárinu.  Ennfremur vil ég þakka Guðjóni Guðmundssyni framkvæmdastjóra fyrir mjög gott samstarf og öllu starfsfólki sambandsins fyrir vel unnin störf”.

5. Ársreikningar SSS fyrir árið 2003.
Til máls tók Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri er fylgdi ársreikningunum úr hlaði.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning S.S.S. Enginn óskaði eftir því að taka til máls undir þessum lið.  Ársreikningurinn var borinn undir atkvæði og var hann samþykktur samhljóða.

7. Tillögur og ályktanir.
Reynir Sveinsson flutti tillögur stjórnar SSS að  ályktun um atvinnumál, ályktun um heilbrigðismál,  ályktun um  menntamál, ályktun um tekjustofna og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og ályktun um vegamál.

8. Ávörp gesta.
Margrét Frímannsdóttir flutti kveðjur þingmanna. Hún  ræddi meðal annars um hve kjördæmavikan væri  þingmönnum mikilvæg varðandi samband þeirra við sveitarstjórnarmenn.

9. Er atvinnuleysi dulbúið?
Ketill Jósefsson forstöðumaður, Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja  fór yfir málefni vinnumiðlunar, atvinnuleysisskrána og ýmis úrræði til fækkunar á atvinnuleysisskrá.

Til máls tóku Árni Sigfússon, Jón Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir, Hörður Guðbrandsson, Guðbrandur Einarsson, Jóhann Geirdal og Drífa Hjartardóttir.

10.   Reykjanes til framtíðar.
Guðmundur Pétursson ráðgjafi  og Ríkharður Ibsen framkv.stj. Turnkey ehf. kynntu ma. myndina Blái demanturinn og þá framtíðarsýn sem birtist í myndinni. Um er að ræða Víkingaheima í Njarðvík, sjávarlífssafn í Höfnum og móttöku ferðafólks í Reykjanesvirkjun  sem þarf að byggja upp og síðan Bláa lónið sem nú er komið.

Til máls tók Reynir Sveinsson.

11. Hádegisverðarhlé.

Sigurður Valur Ásbjarnarson tók við stjórn fundarins.

12. Ávarp félagsmálaráðuneytis.
Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri, sagði að mikilvægt væri að fram færi opin umræða um sameiningu sveitarfélaga,  einnig  að horfa verði til framtíðar í þeim málum ekki líta bara á stöðuna eins og hún væri  í dag.

13. Ávarp Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður, ræddi m.a. málefni tónlistarskóla, um sameiningu sveitarfélaga og um að sveitarfélögin hafa verið að taka á sig verkefni þar sem ekki hafa nægir fjármunir fylgt.

14. Átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins.
Róbert Ragnarsson starfsmaður verkefnisstjórnar ræddi m.a. um tillögur verkefnisstjórnar  um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem ganga m.a. út á að efla sveitarstjórnarstigið.

Til máls tókur Hörður Guðbrandsson, Árni Sigfússon, Einar Jón Pálsson,  Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Þorsteinn Erlingsson, Jón Gunnarsson,  Böðvar Jónsson, Margrét Frímannsdóttir, Ólafur Þór Ólafsson, Sigurður Jónsson, Jóhann Geirdal, Reynir Sveinsson, Ragnhildur Arnljótsdóttir.

15. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.

Ályktun um atvinnumál

Aðalfundur SSS haldinn í Sandgerði 30. október 2004, lýsir yfir áhyggjum sínum af uppsögnum starfsmanna varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.  Fundurinn telur löngu tímabært að sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum fái nákvæmar upplýsingar um stöðu og framtíð varnarliðsins og fyrirhugaða þróun á næstu árum og hvetur ríkisvaldið til að hafa virkt samráð við sveitarstjórnir á Suðurnesjum vegna málsins.

Aðalfundurinn minnir á kosti svæðisins fyrir stóriðju og hvetur ráðherra iðnaðarmála til að horfa í meira mæli til Reykjaness þegar umræðu um stóriðju ber á góma.  Nauðsynlegt er að Reykjanesið standi jafnfætis öðrum landshlutum þegar staðarvalshugmyndir eru ræddar milli Iðnaðarráðuneytis og fjárfesta.

Mikil gróska hefur verið í störfum tengdri ferðaþjónustu á Suðurnesjum en ferðaiðnaður er sú atvinnugrein sem vaxið hefur mest á undanförnum árum. 
Mikilvægt er að sú uppbygging sem á sér stað á svæðinu s.s. uppbygging starfsemi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sé í góðu samráði við heimamenn þannig að tryggt sé að svæðið njóti afraksturs framkvæmdanna á öllum sviðum.

Aðalfundurinn hvetur hagsmunaaðila í ferðaþjónustu til að efla eins og kostur er kynningar og markaðsstarf fyrir Reykjanes.
Aðalfundurinn telur að með markvissu og fjölbreyttu markaðsstarfi, þar sem kynntir eru kostir landsvæðisins, megi laða að atvinnurekstur sem auki fjölbreytni atvinnulífsins.

Ályktun um atvinnumál samþykkt samhljóða.

Ályktun um heilbrigðismál.

Aðalfundur SSS haldinn í Sandgerði, 30. október 2004 fagnar viljayfirlýsingu sem heilbrigðisráðherra og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja undirituðu þann 1. júní s.l. um uppbyggingu og framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.

Aðalfundur SSS skorar á ráðherra og fjárveitingavaldið að fylgja fast eftir þeirri framtíðarsýn í verki með þeirri fjármögnun sem til þarf, bæði til framkvæmda og rekstrar.

Mjög mikilvægt er að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja geti byggt sig markvisst upp bæði fjárhagslega og faglega eftir þá miklu erfiðleika sem stofnunin hefur gengið í gegnum.

Jafnframt fagnar aðalfundurinn áformum um nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt.  Fundurinn treystir á að framkvæmdir verði í samræmi við undirritaðar yfirlýsingar ráðherra.

Ályktun um heilbrigðismál samþykkt samhljóða.

Ályktun um menntamál.

Aðalfundur SSS haldinn í Sandgerði, 30. október 2004 fagnar þeirri þróun og hugmyndum sem fram hafa komið um uppbyggingu náms á háskólastigi á Suðurnesjum. Aðalfundurinn lýsir yfir fullum stuðningi við uppbyggingu Íþróttaakademíu í Reykjanesbæ og uppbyggingu háskólaseturs í Sandgerði.

Stöðug aukning hefur verið í fjölda nemenda í fjarnámi frá Suðurnesjum og leggur aðalfundurinn áherslu á að ríkisvaldið tryggi fjármagn til að standa undir kostnaði af námi á háskólastigi um allt land.
Jafnframt er mikilvægt að Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum fái sambærileg framlög til rekstrar og uppbyggingar og aðrar símenntunarmiðstöðvar á landinu.

Þá lýsir aðalfundurinn yfir ánægju með stórbætta aðstöðu nemenda og starfsliðs Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem fékkst með viðbyggingu við skólann og leysti úr brýnni þörf sem þar var fyrir.

Öflugur framhaldsskóli, háskólamenntun og símenntun eru lykill að velferð íbúa og góðum búsetuskilyrðum á svæðinu.

Ályktun um menntamál samþykkt samhljóða.

Ályktun um tekjustofna og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Aðalfundur SSS haldinn í Sandgerði, 30. október 2004 telur eðlilegt að tillögur um verkefnatilfærslu frá ríki til sveitarfélaga og breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga verði lagðar fram áður en afstaða er tekin til tillagna um sameiningu sveitarfélaga.

Aðalfundurinn krefst þess að sveitarfélögum verði tryggðar tekjur til að standa undir kostnaði við aukin verkefni sem löggjafinn felur þeim. Fundurinn telur að mörg verkefni hafi bæst á verkefnaskrá sveitarfélaganna á síðustu árum án þess að greiðslur hafi komið á móti. Mikilvægt er að ljúka viðræðum ríkisvaldsins og sveitarfélaganna í landinu um tekjuskiptingu þessara tveggja stjórnsýslustiga og styrkja fjárhag sveitarstjórnastigsins.  

Þá er mikilvægt að öll lagafrumvörp og reglugerðir verði kostnaðarmetnar á undirbúningsstigi með tilliti til kostnaðar sveitarfélaga sem af þeim hlýst.

Samþykkt samhljóða.

Ályktun um vegamál.

Reykjanesbraut
Aðalfundur SSS haldinn í Sandgerði, 30. október 2004 fagnar þeim áfanga á tvöföldun Reykjanesbrautar sem opnaður var nýlega.
Aðalfundurinn skorar á Alþingi að tryggja fjármagn til að ljúka tvöföldun brautarinnar eigi síðar en fyrir árslok 2005 svo það öryggi sem tvöföld braut á að tryggja vegfarendum náist sem fyrst.

Garðskagavegur
Aðalfundurinn leggur áherslu á að hraðað verði útboði og framkvæmdum á  Garðskagavegi þ.e. frá Stafnesi í Hafnir, um Ósabotna. Vegurinn er aðkoma fyrir væntanlegan urðunarstað Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sem er aðkallandi að taka í notkun. Einnig hefur vegurinn mikla þýðingu í ferðaþjónustu og bætir aðgengi slökkviliðs- og björgunaraðila um aðflugssvæði flugumferðar. 

Suðurstrandarvegur :
Þá leggur aðalfundurinn þunga áherslu á að nú þegar verði boðnar út framkvæmdir við Suðurstrandarveg og jafnframt tryggi Alþingi fjármagn til að ljúka þessari mikilvægu vegtengingu innan hins nýja Suðurkjördæmis sem fyrst.

Grindavík – Reykjanes
Þá leggur aðalfundurinn áherslu á að lokið verði við uppbyggingu á veginum milli Grindavíkur og Reykjaness. Nú eru hafnar miklar framkvæmdir á Reykjanesi í tengslum við Reykjanesvirkjun og því mikilvægt að vegakerfið geti tekið við aukinni umferð sem fylgir þeim framkvæmdum.

Lýsing vega
Aðalfundurinn leggur áherslu á nauðsyn þess að ráðist verði sem fyrst í lýsingu vega frá Reykjanesbæ til Hafna, Sandgerðis og Garðs ásamt vegi frá Reykjanesbraut til Grindavíkur.

Til máls tóku Steinþór Jónsson, Hörður Guðbrandsson, Reynir Sveinsson, Jón Gunnarsson, Árni Sigfússon og Hallgrímur Bogason.

Ályktun um vegamál samþykkt samhljóða.

16. Önnur mál.
Engin önnur mál voru til umræðu.

17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær
Aðalmaður: Böðvar Jónsson
Varamaður Björk Guðjónsdóttir

Grindavíkurbær
Aðalmaður Hörður Guðbrandsson
Varamaður Garðar Páll Vignisson

Sandgerðisbær 
Aðalmaður Óskar Gunnarsson
Varamaður Reynir Sveinsson

Garður: 
Aðalmaður Sigurður Jónsson
Varamaður Ingimundur Þ. Guðnason

Vatnsleysustrandahrepppur
Aðalmaður Jón Gunnarsson
Varamaður Birgir Þórarinsson

18. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.

Aðalmenn Jóhanna Reynisdóttir
  Ellert Eiríksson

Varamenn Sigurbjörg Eiriksdóttir
  Jón Þórisson

19. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.

Aðalmenn: Böðvar Jónsson
  Sigurður Valur Ásbjarnarson
  Sigurður Jónsson
  Guðjón Guðmundsson

Til vara: Hörður Guðbrandsson
  Óskar Gunnarsson

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum gott samstarf og fékk formanni S.S.S.  Reyni Sveinssyni orðið sem þakkaði fundarmönnum fundarsetuna.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.25

 

     _____________________________
     Jóhanna M. Einarsdóttir
     fundarskrifari.