fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

29. Aðalfundur SSS 9. september 2006

29. aðalfundur S.S.S. haldinn í Tjarnarsal, Vogum
laugardaginn  9.  september 2006

Dagskrá:
Kl. 09:30 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 10:00 2. Fundarsetning: Jón Gunnarsson formaður SSS.
  3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  4. Skýrsla stjórnar:  Jón Gunnarsson, formaður SSS.
  5. Ársreikningur SSS fyrir árið 2005,
   Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri.
  6.      Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
  7. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
  8. Breyting á samþykktum SSS.
Kl.11:00 9. Ávörp gesta.  
Kl 11:20  10. Kynning á sameiginlegum fyrirtækjum sveitarfélaganna;
    Finnbogi Björnsson DS,
    Guðjón Guðmundsson SSS/SS,       Magnús H. Guðjónsson HES,
    Sigmundur Eyþórsson BS.
  11. Fyrirspurnir og umræður.
Kl. 12:00     Hádegisverðarhlé. 
Kl. 13:00 12.  Keflavíkurflugvöllur á umbreytingartímum;
     Geir H. Haarde forsætisráðherra,
     Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra,
     Vilhjálmur Kristjánsson ráðgjafi,
     Árni Sigfússon bæjarstjóri.
   13. Fyrirspurnir og umræður.
Kl:15:30    Kaffihlé.
Kl.16:00 14. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
  15. Önnur mál.
Kl. 16:50 16. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
  17. Kosning í launanefnd SSS.
18. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
  19. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.
Kl. 17:00 20. Áætluð fundarslit.

Kl. 20:00                    Kvöldverður  í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka í
   Tjarnarsal  í Vogum

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls 38 sveitarstjórnarmenn, frá  Reykjanesbæ 10, Grindavík 7, Sandgerði 5,  Sveitarfélaginu Garði 7, Sveitarfélaginu Vogum 9. 

Gestir  og frummælendur á fundinum  voru Geir H. Haarde, forsætiráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra,  Björgvin G. Sigurðsson Alþingi,  Lúðvik Bergvinsson Alþingi, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Samb. ísl. sveitarfélaga,  Lárus Bollason, félagsmálaráðuneyti, Björn Ingi Knútsson, flugmálastjórn, Jón E. Böðvarsson, flugmálastjórn, Ellisif Tinna Víðisdóttir, Sýslumaðurinn Keflavíkurflugvelli, Magnús H. Guðjónsson, HES, Finnbogi Björnsson, DS, Sigmundur Eyþórsson, BS,  Sigríður Snæbjörnsdóttir, HSS,  Vilhjálmur Kristjánsson, verkefnahópi, Guðmundur Pétursson, verkefnahópi, Guðbjartur Greipsson, verkefnahópi, Þóra Ásgeirsdóttir NFS, Baldur H. Jónsson, NFS, Andri Örn Víðisson, Tíðindi, Hilmar B Bárðarson,Víkurfréttir, Þórður Ingimarsson, Sveitarstjórnarmál.

2. Fundarsetning.
Jón Gunnarsson, formaður S.S.S. setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um  Birgi Örn Ólafsson og Sigurð Kristinsson sem fundarstjóra og voru þeir sjálfkjörnir.
Uppástunga kom um Hörð Harðarson sem 1. fundarritara og  Ingu Sigrúnu Atladóttur sem 2. fundarritara, vararitarar  Inga Bettý Alfreðsdóttir og Anný Helena Bjarnadóttir
og voru þau sjálfkjörin.  Lagt var til að Jóhanna M. Einarsdóttir yrði sett sem skrifari fundarins.

Sigurður Kristinsson þakkaði það traust að fela honum stjórn fundarins.

4. Skýrsla stjórnar.
Jón Gunnarsson,  formaður SSS flutti skýrslu stjórnar

“Á 28. aðalfundi SSS sem haldinn var í Fjölbrautarskóla Suðurnesja, þann 19. nóvember 2005, voru eftirtaldir kosnir í stjórn sambandsins:  Böðvar Jónsson Reykjanesbæ, Hörður Guðbrandsson Grindavík,  Óskar Gunnarsson Sandgerði, Sigurður Jónsson Garði og sá sem hér stendur ( Jón Gunnarsson) fyrir Voga.

Stjórnin hélt 10 bókaða fundi á starfsárinu og á fyrsta fundi stjórnar þann 20. desember 2005 skipti hún með sér verkum þannig að Jón Gunnarsson var kjörinn formaður, Böðvar Jónsson kjörinn varaformaður og Sigurður Jónsson ritari.  Starfsár stjórnar er í styttra lagi þetta starfsárið þar sem aðalfundur er haldinn fyrr á því ári sem sveitarstjórnarkosningar fara fram eins og samþykktir sambandsins gera ráð fyrir. 

Stjórnin hefur fjallað mikið um horfur og stöðu á Keflavíkurflugvelli á því ári sem er að líða í ljósi þeirrar óvissu sem uppi var um framtíðarvarnir og starfsemi á flugvellinum.  Þegar ríkistjórn Íslands fékk síðan einhliða tilkynningu frá Bandaríkjamönnum um að þ. 1. október n.k. hyrfi varnarliðið á brott með alla sína starfsemi, þá að sjálfsögðu lagði stjórnin aukinn kraft í umfjöllun um málið.  Haldinn var sameiginlegur fundur atvinnuráðs SSS sem í sitja allir bæjarstjórar svæðisins og stjórnar SSS þann 20. mars sl, þar sem farið var yfir þá stöðu sem við blasti og rædd viðbrögð sveitarstjórnanna við henni. Á fundinum var samþykkt eftirfarandi ályktun: 

Sameiginlegur fundur stjórnar SSS og Atvinnuráðs Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum lýsir áhyggjum sínum vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna ákvörðunar bandaríkjastjórnar um að fjarlægja flugvélar sínar og björgunarþyrlur af Keflavíkurflugvelli. Fundurinn telur brýnt að bregðast hratt við til þess að unnt verði að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem felast í mannvirkjum og landssvæði sem áður hefur verið nýtt undir starfsemi varnarliðsins og að þau tækifæri nýtist því fólki sem býr á Suðurnesjum.

Það skiptir verulegu máli fyrir Suðurnes hvernig brugðist verður við atburðum síðustu daga og hvaða ákvarðanir verða teknar um framtíðaruppbyggingu atvinnumála á svæðinu.

Til skemmri tíma litið verður þó að láta málefni þeirra sem unnið hafa hjá Varnarliðinu hafa forgang og tryggja að gengið verði frá nýjum störfum og/eða starfslokasamningum þeirra sem missa atvinnu sína og að mannleg reisn verði höfð að leiðarljósi.

Fundurinn fagnar þeirri hugmynd forsætisráðherra að skipuð verði samráðsnefnd ríkisins og sveitarstjórna á Suðurnesjum sem vinni að viðbrögðum við brotthvarfi flugsveita varnarliðsins. Fundurinn leggur til að í nefndina verði skipaðir fyrir hönd sveitarfélaganna á Suðurnesjum, bæjarstjórar Reykjanesbæjar, Sandgerðis og Garðs.

Einnig leggur fundurinn til að skipuð verði sérstök landaskilanefnd sem vinni að yfirtöku/yfirráðum íslendinga á þeim mannvirkjum og landssvæði sem Varnarliðið hefur haft til umráða og í þeirri nefnd verði einn fulltrúi frá hverri sveitarstjórn á Suðurnesjum.

Eins og fram kemur í bókuninni þá lagði stjórnin, eins og hún hefur alltaf gert, mikla áherslu á að vel yrði staðið að málum varðandi starfslok starfsfólks varnarliðsins og einnig að mikilvægt væri að nýta tímann vel varðandi mannvirki og landskil þannig að fyrir lægju hugmyndir um meðferð mála, áður en varnarliðið færi á brott.

Stjórnin hafði reyndar í þrígang áður en tilkynningin um brottför barst, reynt að ná fundi með forsætis – og utanríkisráðherrum um málefni Keflavíkurflugvallar en aldrei haft árangur sem erfiði og skipti þá engu hver gegndi embætti ráðherra á hverjum tíma.  Það er rétt að taka fram að í stjórn var alla tíð gott samkomulag um meðferð þessa máls og allir stjórnarmenn gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess að koma fram sameinaðir í þessu eina stærsta hagsmunamáli Suðurnesja.  Miklar vonir hafa verið bundnar við þá samráðsnefnd sem sett var á laggirnar milli ríkisins og okkar hér á Suðurnesjum, en minna hefur orðið úr starfi hennar enn sem komið er en vonir stóðu til.  Vonandi dregur fljótt til loka samningaviðræðna við bandaríkjamenn þannig að aukinn kraftur færist í störf samráðsnefndarinnar og hlutur sveitarfélaganna verði þar sem mestur.

Meginefni þess aðalfundar sem nú hefur verið settur er umfjöllun um þetta mikilvæga mál og  vonumst við til að fá loks einhver svör frá forsætis- og utanríkisráðherra um stöðuna og næstu skref síðar á fundinum.

Launamál voru nokkuð til umfjöllunar á árinu í tengslum við hækkun launa hjá ófaglærðu starfsfólki á leikskólum Reykjavíkurborgar og í kjölfar launaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem framkvæmdastjóri og formaður sátu fyrir hönd sambandsins.  Aðildarsveitarfélög SSS nýttu öll það svigrúm sem launanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga gaf til hækkunar launa og stjórn SSS taldi eðlilegt að hið sama gilti um starfsmenn sem ynnu hjá sameiginlega reknum stofnunum og samþykkti stjórn á fundi sínum 30. mars að þannig skyldi með farið.  Launakostnaður hefur því aukist bæði hjá sveitarfélögunum sjálfum og einnig samreknum stofnunum á framhaldi af þessu og nauðsynlegt að bregðast við því í vinnslu fjárhagsáætlana. Gerð fjárhagsáætlana fyrir samreknar stofnanir hefur verið fyrr á ferðinni undanfarin á en samþykktir okkar kveða á um og þær þurfa að koma fram snemma til þess að sveitarfélögin geti farið yfir þær og gert athugasemdir ef einhverjar eru ,á sama tím og þær eru að vinna eigin fjárhagsáætlanir.  Því telur stjórnin rétt að dagsetningar í samþykktum verði færðar nær því sem, nú gerist og leggur það til við aðalfundinn.

Á starfsárinu hafa málefni HSS verið talsvert til umræðu þó sveitarfélögin eigi ekki lengur formlega aðkomu að stjórn og stefnumótun stofnunarinnar.  Mikil dráttur hefur orðið á innréttingu 3ju hæðar D-álmu frá því sem ráð var fyrir gert í síðustu stefnumótun fyrir stofnunina og einnig hafa fjárveitingar ekki hrokkið fyrir sólarhringsvöktum á skurðstofu, sem veikir starfsgrundvöll stofnunarinnar verulega og langvarandi hallarekstur mun alltaf hafa slæm áhrif á starf og starfsumhverfi.   Nú nýlega var undirritaður samningur um lok framkvæmda við D-álmuna og er það fagnaðarefni að loks hilli undir fulla starfssemi í því húsnæði sem hefur allt of lengi staðið óinnréttað og ónotað.  Mikil breyting hefur orðið á hlutverki hinnar nýju D-álmu frá því sem upphaflega var lagt upp með, af baráttumönnum fyrir nýrri hjúkrunardeild aldraðra við sjúkrahúsið og því er algjörlega nauðsynlegt að ekkert tefji fyrirhugaða byggingu nýs hjúkrunarheimilis fyrir aldraða í Reykjanesbæ og þar verða  allir að leggjast á eitt til að svo megi verða.   

Þann 7. apríl var skrifað undir nýjan samstarfssamning við Byggðastofnun um atvinnu- og byggðaþróun.  Stjórn SSS hafði farið fram á það við stjórn Byggðastofnunar að gerðar væru breytingar á gildandi samningi milli aðila þar sem stjórn SSS hafði uppi hugmyndir um að gera breytingar á starfssviði atvinnuráðgjafa og í framhaldi af breytingum á starfsmannahaldi á skrifstofunni að gera starf atvinnuráðgjafa meira tengt öðrum störfum ásamt því að fleiri gætu tekið þátt í framkvæmd samningsins frá því sem áður hafði verið kveðið á um.  Nokkuð langan tíma tók að fá stjórn stofnunarinnar til að fallast á þá formbreytingu sem við vildum gera, en að endingu tókst þó samkomulag um breytingarnar og er það skoðun stjórnar að núverandi fyrirkomulag sé mun sveigjanlegra heldur en áður var og bindur stjórn vonir við að það starf sem unnið verður á grundvelli samningsins verði öflugra en áður var. Samningurinn gerir ráð fyrir að árlegt framlag Byggðastofnunar verði um 10 milljónir kr og að heimamenn leggi einnig til þeirra verkefna sem um ræðir.  Það er skoðun stjórnar að nú sé tímabært að skoða gerð vaxtasamnings milli sveitarfélaga á Suðurnesjum og ríkisins en slíkar samningar hafa nokkuð víða verið gerðir síðustu misseri.  Slíkum samningi fylgir aukin fjárframlög frá hinu opinbera um leið og atvinnulífið á svæðinu kemur meira að málum en í núverandi fyrirkomulagi.
Vaxandi umræða hefur verið um málefni Reykjanesfólkvangs og fékk stjórnin til afgreiðslu bréf frá SSH í apríl þar sem fram komu hugmyndir um skipan nefndar sem fara ætti yfir stöðu og skipulag fólksvangsins.  Eftir umræður í stjórn var bókað að stjórnin teldi eðlilegt að litið væri til stærra svæðis en bara til fólkvangsins og taldi að önnur útivistarsvæði í landnámi Ingólfs ættu einnig að vera til umfjöllunar. Það kom fram í umræðum í stjórninni að nauðsynlegt væri að setja af stað markvissa vinnu þar sem farið væri yfir stöðu og skipulag fólkvangsins en segja má að málefnum hans hafi ekki verið gefinn nægjanlegur gaumur af þeim sem að honum standa.  Það er afar mikilvægt fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum að vera leiðandi í vinnu og ákvörðunum um framtíð og skipulag fólkvangsins þar sem hann liggur að mestu innan lögsagnarumdæmis þeirra og miklu skiptir fyrir þau hvaða ákvarðanir verða teknar til framtíðar.  Reykjanesfólkvangur er náttúruperla sem jafnframt býr yfir mikilli orku í iðrum jarðar og mikilvægt að áætlanir um nýtingu jarðvarma og verndun umhverfis fari saman og sátt geti myndast þar sem tillit er tekið til beggja sjónarmiða

Mikil breyting hefur orðið í samgöngumálum milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja með tilkomu tvöfalds kafla á Reykjanesbraut og held ég að allir þeir sem keyra þann kafla geri sér nú fulla grein fyrir mikilvægi þess að Reykjanesbrautin í heild sinni verði tvöfölduð.  Gaman er að sjá hversu vel gengur í framkvæmdum við annan áfanga tvöföldunar og þau mislægu gatnamót sem rísa eiga og horfum við björtum augum til þess að framkvæmdum ljúki.  Mislæg gatnamót við Voga, Grindavík og Reykjanesbæ eiga eftir að margfalda umferðaröryggi fyrir alla vegfarendur og jafnframt munu endurbætur sem gerðar verða á Grindavíkurvegi og Vogaafleggjara næst gatnamótunum breyta miklu.  Aðrar framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru á Suðurnesjum nú í sumar hafa að mestu gengið vel þó auðvitað hefðum við vilja sjá stærri áfanga í framkvæmdum á Suðurstrandarvegi.  Mikilvægt er að klára endurgerð Suðurstrandarvegar sem fyrst og einnig þarf að huga að lýsingu og breikkun vega til Grindavíkur, Sandgerðis og Garðs.  Umferð hjólandi vegfarenda á ekki heima á tvöfaldri hraðbraut og er mikilvægt að hraða gerð hjólreiðastígs frá Reykjanesbæ í gegnum Voga og til Hafnarfjarðar.

Framundan eru ákvarðanir varðandi skólaakstur framhaldsskólanema og stjórnin hefur lagt á það áherslu að áfram verði boðið upp á akstur frá öllum þéttbýlisstöðum á Suðurnesjum í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og bent á að hagsmunir skólaaksturs hafi verið fyrir borð bornir við útboð og veitingu sérleyfis milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. 

Uppi hafa verið deilur milli sameignaraðila að Dýraspítala Watsons í Víðidal sem SSS gerðist aðili að á sínum tíma og borist hefur ósk um að sjálfseignarstofnunin verði lögð niður.  Stjórn SSS hefur tekið undir það og vísað í stofnskrá sjálfseignarfélagsins sem segir fyrir um hvernig að slíku skuli staðið.  Ekki hefur verið kosið í stjórn Dýraspítalans í mörg ár en fyrir okkar hönd hefur setið þar Sigurður Valur Ásbjarnarson og kann stjórn honum hinar bestu þakkir fyrir óeigingjarnt starf við erfiðar aðstæður. 

Hér síðar á fundinum verður farið yfir stöðu mála hjá sameiginlega reknum stofnunum Sveitarfélaganna á Suðurnesjum, en það hefur verið eitt af sérkennum svæðisins frá því að sveitarfélög tóku up samstarf sín á milli hversu mörg verkefni þau leysa í sameiningu.  Miklar breytingar hafa verið hjá flestum samreknu stofnunum og einnig bíða mikilsverð mál eins og bygging nýrrar aðstöðu fyrir slökkvilið ákvörðunar sveitarfélaganna.  Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa átt með sér gott formlegt samstarf í tæp 30 ár og hefur það gengið vel þó stundum hafi komið upp háværar raddir um að nauðsynlegt væri að endurskoða það frá grunni eða jafnvel hætta því.  Nokkrum sinnum hafa verið gerðar breytingar á þeim reglum sem gilda í samstarfinu enda er það afar nauðsynlegt að samstarf eins og sveitarfélögin hafa með sér þróist og taki mið af þeim raunveruleika sem við blasir hverju sinni.  Samstarf er af hinu góða svo lengi sem allir aðilar sem þátt í því taka njóta þess í einhverju að um samstarf er að ræða og meðan svo er þá hlýtur það að verða til í einhverri mynd á komandi árum.

Stjórnin hefur á starfsárinu fengið fjölda lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna til umsagnar  og haldið þeirri vinnureglu að gefa einungis umsagnir í málum sem snerta sambandið eða sveitarfélögin beint.  Í þeim tilfellum sem sveitarfélögin sjálf eða samreknar stofnanir hafa verið beðin um umsagnir þá hefur stjórn oft á tíðum látið nægja að umsagnir berist frá þeim aðilum eða tekið undir atriði sem fram koma í þeim.

Eins og ég sagði fyrr í skýrslu minni þá urðu breytingar á starfsliði SSS á árinu en við höfum verið svo heppin að litlar breytingar hafa orðið á starfsliðinu mörg undanfarin ár þannig að allir sem að verki koma þrautþekkja sitt starf og hafa mikla reynslu á sínu sviði.  Skrifstofustjóri SSS Pálína Gísladóttir lét af störfum um sl áramót eftir 25 ára starf fyrir sambandið og færum við henni okkar bestu þakkir fyrir afar góð störf og gott samstarf alla tíð.  Guðbjörg Jóhannsdóttir sagði einnig lausu starfi sínu sem atvinnuráðgjafi um svipað leiti og lét af störfum stuttu síðar.  Stjórnin færir Guðbjörgu þakkir fyrir  vel unnin störf og óskar bæði henni og Pálínu velfarnaðar í framtíðinni.  Þegar fyrir lá að Pálína léti af störfum og að breytingar yrðu á starfi atvinnuráðgjafa var ákveðið að setja aukinn kraft í að skoða hugmyndir um skipulagsbreytingu á skrifstofunni.  Ákveðið var að ráða í nýja stöðu fjármálastjóra sem að hluta myndi einnig gegna störfum atvinnuráðgjafa og eftir að samningur tókst við Byggðastofnun um nýjan samning um atvinnu og Byggðaþróun  var starfið auglýst.   28 umsóknir bárust og eftir skoðun á umsóknum og viðtöl við hluta umsækjenda var ákveðið að ráða Berglindi Kristinsdóttur sem nýjan fjármálastjóra og munu sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum einnig verða hennar varir í tengslum við atvinnuþróunarverkefni.  Við starfi Pálínu sem skrifstofustjóri tók Ásdís Júlíusdóttir, sem er sveitarstjórnarmönnum vel kunn eftir áralangt starf á skrifstofu sambandsins.  Bjóðum við þær báðar velkomnar í störf sín.

Miklar breytingar munu verða á stjórn SSS nú að loknum aðalfundi og einungis einn stjórnarmaður af  fimm halda áfram á þeim vettvangi.  Jafnframt hafa orðið talsverðar breytingar í hópi sveitarstjórnarmanna á svæðinu.   Ég vil nota þetta tækifæri og færa þeim sem nú hætta stjórnarsetu  mínar bestu þakkir fyrir samstarfið og einnig  bjóða nýja stjórnarmenn velkomna til starfa svo og  hina fjölmörgu nýju sveitarstjórnarmenn sem nú sitja sinn fyrsta aðalfund eða koma aftur eftir fjarveru af þessum vettvangi

Framkvæmdastjóra Guðjóni Guðmundssyni þakka ég góð störf og afar gott samstarf á árinu svo og öllum starfsmönnum sambandsins”. 

 

5. Ársreikningar SSS fyrir árið 2005.
Til máls tók Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri er fylgdi ársreikningunum úr hlaði.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning S.S.S. Enginn óskaði eftir því að taka til máls undir þessum lið.  Ársreikningurinn var borinn undir atkvæði og var hann samþykktur samhljóða.

7. Tillögur og ályktanir.
Jón Gunnarsson flutti tillögur stjórnar að ályktunum um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, ályktun um Reykjanesfólkvang, ályktun um menningar-og vaxtarsamning, ályktun um menntamál, ályktun um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og öldrunarmál, ályktun vegna brotthvarfs Varnarliðsins, ályktun um byggingu álvers í Helguvík, ályktun um samgöngumál.

8. Breytingar á samþykktum SSS.
Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri SSS kynnti tillögu stjórnar SSS að  breytingum á samþykktum SSS. Með breytingunum hljóða þær þannig: 
1. gr.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum, , Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og  Sveitarfélagið Vogar eiga með sér samband undir nafninu Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, skammstafað S.S.S.
Heimili og varnarþing þess skal vera það sama og formanns hverju sinni.
2. gr.
Tilgangur sambandsins er að vinna að hagsmunamálum sveitarfélaganna og efla og styrkja samstarf þeirra. Í sameiginlegum málum komi það fram fyrir hönd sveitarfélaganna gagnvart ríkisvaldinu og öðrum. Kostnaður við rekstur sambandsins skal greiddur miðað við höfðatölu 1. des. ár hvert.

3. gr.
Sambandsfundir skulu haldnir  þegar stjórn þykir þurfa, eða ein eða fleiri sveitarstjórn eða 7 eða fleiri sveitarstjórnarmenn krefjast þess skriflega, enda sé þá greint frá hvert fundarefni skuli vera. Aðalfundur skal að jafnaði haldinn í októbermánuði ár hvert nema á kosningaári, þá eigi síðar en 15. september. Til fundar skal boða með dagskrá með minnst einnar viku fyrirvara. Allir kjörnir sveitarstjórnarmenn á svæðinu eiga rétt til setu á fundum sambandsins. Ennfremur eiga bæjarstjórar rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti og sama gildir um framkvæmdastjóra S.S.S.

4. gr.
Sambandsfundur er ályktunarbær ef 2/3 hlutar fulltrúa eru mættir, en afl atkvæða ræður á fundi, sjá nánar í fundarsköpum fyrir S.S.S. Ályktanir um fjárhagsmál eru þó ætíð háðar samþykki hverrar sveitarstjórnar. Þó er stjórn S.S.S. heimilt að samþykkja tilfærslu innan samþykktrar fjárhagsáætlunar samstarfsins enda hafi viðkomandi stjórn lagt það til.

5. gr.
Stjórn sambandsins, sem annast málefni þess á milli funda, skal skipuð 5 mönnum og 5 til vara, sem tilnefndir eru af sveitarstjórnunum, einn frá hverri, og skulu tilnefningar liggja fyrir á aðalfundi. Stjórnin skiptir með sér verkum.
Samþykktir stjórnar skulu því aðeins ná fram að ganga að þær séu studdar af aðilum sem bera meirihluta kosnaðar við rekstur sambandsins og hafa meirihluta í stjórn þess.

6. gr.
Stjórn sambandsins ræður framkvæmdastjóra. Hann sér um daglegan rekstur sambandsins og ræður starfsfólk þess.

7. gr.
Sambandið skal annast samræmingu á fjárhags- og framkvæmdaáætlunum sameiginlega rekinna fyrirtækja og stofnana.
Fyrir lok  októbermánaðar ár hvert skulu stjórnir sameiginlega rekinna fyrirtækja senda stjórn S.S.S. frumvörp að fjárhags- og framkvæmdaáætlunum sínum fyrir næsta ár.
Fjárhagsnefnd, skipuð öllum bæjarstjórum á svæðinu, skal yfirfara frumvörpin og gera tillögu um afgreiðslu þeirra til stjórnar S.S.S. í síðasta lagi fyrir 15. nóvember. Fyrir  1. desember skal stjórnin síðan afgreiða frumvörpin til sveitarstjórnanna og stjórna stofnananna.
Heimilt er stjórnum sameiginlega rekinna fyrirtækja og stofnana að leita til fjárhagsnefndarinnar um ráðgjöf í sambandi við undirbúning fjárhags- og framkvæmdaáætlana.

8. gr.
Sambandið skal annast samræmingu á röðun í launaflokka og framkvæmd starfsmats hjá sveitarfélögunum og sameiginlega reknum fyrirtækjum og stofnunum. Það skal aðstoða við gerð kjarasamninga, eða annast gerð þeirra að hluta eða öllu leyti, eftir því sem sveitarstjórnirnar ákveða hverju sinni.
Stjórn SSS annast launamálin samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
Allir kjarasamningar og aðrar ákvarðanir í launamálum starfsmanna sveitarfélaganna eru ávallt háðir samþykki viðkomandi sveitarstjórnar.
Kjarasamningar og launaákvarðanir varðandi starfsmenn fyrirtækja og stofnana þarfnast samþykkis stjórnar S.S.S.

9. gr.
Á aðalfundi skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og tveir til vara. Endurskoðaðir reikningar skulu lagðir fyrir aðalfund.

10. gr.
Samþykktum þessum verður eingöngu breytt á aðalfundi, enda hljóti tillaga þar um samþykki minnst 3/4 hluta atkvæða. Tillögur til breytinga skulu hafa borist stjórn sambandsins eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund.
Breytingarnar. samþykktar samhljóða.

9. Ávörp gesta.
Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, flutti ávarp fyrir hönd þingmanna í Suðurkjördæmi og þakkaði sveitastjórnarmönnum samstarfið við alþingismenn.  Hann   óskaði  íbúum svæðisins til  hamingju  með þann áfanga sem orðið hefur í vegamálum.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson form Sambands ísl. sveitarfélaga  óskaði ma. nýjum sveitarstjórnarmönnum til hamingju með kjörið í sveitastjórn og tilkynnti að hann hygðist ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku í stjórn sambands ísl. sveitarfélaga. 

10. Kynning á sameiginlegum fyrirtækjum sveitarfélaganna.
Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri SSS og SS fór m.a. yfir sögu samstarfsverkefna og samstarfs SSS, einnig fór hann yfir starfssemi  Kölku.

Finnbogi Björnsson framkvæmdastjóri DS  fór  m.a. yfir sögu DS og fyrirhugaða byggingu við Nesvelli.

Magnús H Guðjónsson framkvæmastjóri HES fór yfir þau verkefni sem tilheyra Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja.

Sigmundur Eyþórsson slökkvistjóri BS fór yfir verkefni Brunavarna Suðurnesja sem rekur ma. slökkvistöð, eldvarnareftirlit, sjúkraflutninga og öryggiseftirlit.

11.  Fyrirspurnir og umræður.
Til máls tók Sveindís Valdimarsdóttir.

Hádegisverðarhlé.

Birgir Örn Ólafsson tók við stjórn fundarins.

12. Keflavíkurflugvöllur á umbreytingartímum.
Geir H. Haarde forstæisráðherra ræddi  m.a. um þau helstu málefni sem rætt verður við  Bandaríkjamenn í næstu viku þ.e. pólitíska hlið málsins, með hvaða hætti við tökum við rekstri flugvallarins,  hvað verður um eignirnar sem skildar verða eftir og umhverfismál

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, ræddi m.a. um framtíðarsýn á varnarsvæðinu og nýjar áskoranir.

Vilhjálmur Kristjánsson ráðgjafi  ræddi m.a um að það væru miklir möguleikar í stöðunni í dag einnig að það væri mjög mikilvægt að sveitarfélögin stæðu saman.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri, ræddi m.a. um  aðstoð við starfaleit, nútímavæðingu varna, og tíma nýrra tækifæra.

13. Fyrirspurnir  og umræður.
Til máls tóku Hörður Guðbrandsson, Sveindís Valdimarsdóttir, Vilhjálmur Kristjánsson, Jón Gunnarsson, Sigmar Eðvarðsson, Ólafur Þór Ólafsson, Geir H. Haarde, Árni Sigfússon, Valgerður Sverrisdótttir og Oddný Þ. Harðardóttir

Kaffihlé

14. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.

Ályktun um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Aðalfundur SSS, haldinn í Vogum 9. september 2006, skorar á ríkisvaldið að hefja nú þegar heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga með það að markmiði að fjölga skattstofnum þannig að sveitarfélög beri ekki skarðan hlut frá borði m.v. breytta uppsprettu tekna í þjóðfélaginu.  Stóraukinn fjöldi einkahlutafélaga og einstaklinga sem einungis hafa fjármagnstekjur hefur leitt það af sér að fjöldi einstaklinga sem áður greiddi skatt bæði til ríkis og sveitarfélaga greiða nú í litlum mæli skatt til sveitarfélaga.  Sveitarfélögin hafa þó eftir sem áður lögbundnar skyldur um að veita öllum íbúum sínum þjónustu og því óeðlilegt að breytingar á skattumhverfi og skattareglum leiði það af sér að skattar, sem undir þeirri þjónustu eiga að standa, hverfi eða rýrni verulega fyrir einhliða ákvarðanir ríkisvaldsins

Til máls tóku Róbert Ragnarsson og  Sveindís Valdimarsdóttir.

Ályktun um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga samþykkt samhljóða.
Ályktun um Reykjanesfólkvang.

Aðalfundur SSS, haldinn í Vogum 9. september  2006, telur mikilvægt að þegar verði sett á laggirnar vinnuhópur um málefni Reykjanesfólkvangs. Það er skoðun fundarins að nauðsynlegt sé að fram fari öflugt samráð og stefnumótun um málefni fólkvangsins s.s. stærð,  framtíð, stjórnun og hlutverk.  Nauðsynlegt er að skoða málefni fólkvangsins í samhengi við önnur útivistarsvæði í nágrenninu og kanna á hvaða hátt megi efla umsjón og starfsemi með samvinnu eða samruna slíkra svæða.  Fundurinn leggur til að í vinnuhópnum sitji fulltrúar frá SSS, SSH, sveitarfélögum sem lögsögu hafa yfir því landi sem innan fólkvangsins fellur og frá stjórn fólkvangsins. Hópurinn getur síðan kallað til samráðs fjölmarga aðila sem aðkomu hafa að málinu þannig að sem flest sjónarmið liggi til grundvallar þeim tillögum sem út úr starfinu koma.  Nauðsynlegt er að niðurstöður starfsins liggi fyrir áður en til næsta aðalfundar SSS kemur.

Ályktun um Reykjanesfólkvang samþykkt samhljóða.

Ályktun um menningar- og vaxtarsamning.
Aðalfundur SSS, haldinn í Vogum 9. september 2006, telur mikilvægt að ráðist verði annarsvegar í gerð menningarsamnings og hinsvegar gerð vaxtasamnings milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum og ríkisvaldsins. Slíkir samningar hafa í auknum mæli verið gerðir við aðra landshluta og hefur reynsla af þeim verið góð.  Hefur gerð þeirra haft í för með sér stóraukna áherslu á eflingu menningarstarfs og nýsköpunar. Samningarnir hafa  tryggt fjárhagslegan grundvöll þess starfs sem þeir kveða á um og sett því starfsramma.  Fundurinn leggur áherslu á að stjórn SSS hefji þegar viðræður við þau ráðuneyti sem að málinu koma og vonar að gerð samninga taki skamman tíma þar sem jafnræði um gerð samninga hlýtur að ríkja milli landshluta og slíkir samningar standa þeim öllum til boða.

Til máls tók Björk Guðjónsdóttir.

Ályktun um menningar-og vaxtasamning samþykkt samhljóða.

.

Ályktun um menntamál.

Aðalfundur SSS, haldinn í Vogum 9. september 2006, skorar á ríkisvaldið að tryggja fjármagn til að standa undir kostnaði af námi á háskólastigi um allt land. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur um langt skeið staðið fyrir fjarnámi á háskólastigi í samvinnu við Háskólann á Akureyri og fleiri án þess að ríkisvaldið komi á sama hátt að fjármögnun þess og dæmi eru um bæði frá Austfjörðum og Vestfjörðum. Sveitarfélög, samtök launþega og atvinnurekenda á Suðurnesjum hafa árlega þurft að greiða umtalsverðan kostnað við húsnæði miðstöðvarinnar ásamt nauðsynlegum búnaði til rekstursins þar sem fjárframlögum ríkisins til símenntunarmiðstöðva er misskipt milli landsvæða. Suðurnes eru eitt fárra landsvæða þar sem ríkið leggur einungis til grunnframlag til símenntunarmiðstöðvar og telur aðalfundurinn brýnt að ríkið viðurkenni nú þegar skyldu sína til greiðslu fyrir þá þjónustu sem Símenntunarmiðstöð Suðurnesja veitir á háskólastigi til jafns við það sem gerist annarsstaðar. Þá er mikilvægt að Háskólasetur Suðurnesja í Sandgerði, sem er starfrækt af Háskóla Íslands, verði eflt.
Það hlýtur að vera eðlileg krafa að allir landshlutar sitji við sama borð þegar kemur að fjárframlögum til símenntunarmiðstöðva vegna fjarnáms á háskólastigi.  

Til máls tók Ólafur Þ Ólafsson

Ályktun um menntamál samþykkt með áorðnum breytingum.
Ályktun um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og öldrunarmál
Aðalfundur SSS, haldinn í Vogum 9. september 2006, lýsir ánægju með að loks skuli hilla undir lok framkvæmda við 3ju hæð D-álmu við HSS.  Endurnýjun skurðstofa og aukið rými mun án efa gefa HSS aukin sóknarfæri og auka þjónustu við íbúa Suðurnesja frá því sem verið hefur.  Mikilvægt er að tryggja að framlög á fjárlögum sem standi undir aukinni starfsemi og tryggi fulla þjónustu á skurðstofum allan sólarhringinn allt árið.  Hlutverk D-álmu hefur breyst frá því að vera hjúkrunardeild fyrir aldraða við sjúkrahúsið, í það að efla almenna sjúkrahúsþjónustu við íbúana og því er mikilvægt að nú þegar verði gefið framkvæmda og rekstrarleyfi fyrir byggingu og rekstri nýs hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ.   Jafnframt verði rekstur Víðihlíðar og annarra hjúkrunarheimila á Suðurnesjum tryggður.  Framboð hjúkrunarrýma er í algjöru lágmarki Suðurnesjum í samanburði við önnur svæði.

Mikilvægt er að samkomulag sem sveitarstjórnir á Suðurnesjum gerðu við fyrrverandi heilbrigðisráðherra sé í fullu gildi þrátt fyrir að nýir einstaklingar taki við starfi ráðherra heilbrigðismála.

Um nokkuð skeið hafa verið í gildi samningar milli ríkisins og reynslusveitarfélaga um rekstur heilsugæslu s.s. á Höfn í Hornarfirði og á Akureyri.  Telur aðalfundurinn að nú liggi fyrir nægjanleg reynsla til þess að heimila öðrum sveitarfélögum, sem þess óska, að yfirtaka rekstur heilsugæslu með samningi milli ríkisins og viðkomandi sveitarfélags.  Skorar fundurinn á ríkisvaldið að verða við slíkum óskum.
Til máls tóku Sigmar Eðvarðsson, Jón Gunnarsson, Sveindís Valdimarsdóttir og Árni Sigfússon.
Ályktun um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og öldrunarmál samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum
Ályktun vegna brotthvarfs Varnarliðsins

Aðalfundur SSS haldinn í Vogum 9. september 2006,  telur afar brýnt að í framhaldi af niðurstöðu viðræðna Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál á Miðnesheiði, sé haft fullt samráð við heimamenn um ráðstöfun húsnæðis og þróun atvinnumála á svæðinu.

Minnt er á að fyrir aðeins 5 mánuðum stóðu 900 starfsmenn frammi fyrir tilkynningu um uppsagnir starfa hjá Varnarliðinu og stærstur hluti þeirra voru fjölskyldufólk af Suðurnesjum.

Sveitarfélögin hafa lagt sig fram um gott samráð við ríkisstjórnina til að leysa erfið atvinnumál þessa stóra hóps og þótt enn sé því verkefni ekki lokið, er ljóst að stærsti hluti starfsmanna hefur þegar gengið til annarra starfa hér a svæðinu.

Aðalfundurinn lýsir  yfir stuðningi við framkomnar kröfur, um að leitað verði allra leiða til þess að koma til móts við þá starfsmenn varnarliðsins sem eru að nálgast eftirlaunaaldurinn og eiga erfitt með að komast inn á almennan vinnumarkað.

Næstu skref snúa að tilhögun á nýtingu mannvirkja sem eftir kunna að standa, hreinsun mengaðra svæða, ráðstöfun lands og sköpun nýrra atvinnutækifæra.
Mikilvægt er að í því breytingarferli sem framundan er verði allir þættir flugvallarstarfseminnar skoðaðir í samhengi og litið á svæðið sem eina heild.

Það er grundvallaratriði að sveitarfélögin séu áhrifavaldar um þá framtíð sem hér er mótuð.
Til máls tóku Sigurður Valur Ásbjarnarson, Eysteinn Jónsson, Jón Gunnarsson
Ályktun vegan brotthvarfs Varnarliðsins samþykkt samhljóða.

Ályktun um byggingu álvers í Helguvík

Aðalfundur SSS haldinn í Vogum 9. september 2006 lýsir fullum stuðningi við fyrirhuguð áform um byggingu álvers í Helguvík. Í kjölfar stærstu hópuppsagna í sögu þjóðarinnar, með ákvörðun Bandaríkjamanna um brotthvarf varnarliðsins, er brýnt að fleiri sterkar stoðir séu settar undir atvinnulíf á svæðinu.
Uppbygging álvers er einstakt tækifæri sem nú býðst til að auka framboð vel launaðra starfa á svæðinu, sem gætu hentað sem framtíðarstörf fyrir fjölmarga sem nú hverfa úr störfum á vegum Varnarliðsins.

Staðsetning í Helguvík þykir einstaklega hentug og orkufyrirtæki telja sig geta lagt til umhverfisvæna orku sem þarf til að knýja álverið. Að því gefnu að öllum ytri skilyrðum sé fullnægt hljóta afskipti stjórnvalda fyrst og fremst að miða að því að liðka til fyrir framvindu þessa verkefnis.  Fundurinn ítrekar að allra umhverfissjónarmiða sé gætt við tilhögun verkefnisins og að álverið verði til fyrirmyndar á heimsvísu í slíku tilliti.

Ályktun um byggingu álvers í Helguvík samþykkt með 27 atkvæðum og 1 á móti.

Ályktun um samgöngumál.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum  haldinn laugardaginn 9. september í Vogum ítrekar við Alþingi að lokið verði við gerð Suðurstandavegar sem allra fyrst. Vegurinn er mikilvæg vegtenging innan hins nýja Suðurkjördæmis og nauðsynleg tenging á milli atvinnusvæða.
Aðalfundurinn telur mikilvægt að ljúka gerð Ósabotnavegar þegar á næsta ári með bundnu slitlagi.
Aðalfundurinn skorar á Alþingi að lýsa upp og breikka stofnvegi á Reykjanesi s.s. Grindavíkurveg, Sandgerðisveg, Garðskagaveg og Garðveg. Mikil aukning umferðar á þessum vegum kallar á lausn hið fyrsta.
Fundurinn leggur áherslu á samræmingu vegmerkja á Suðurnesjum.
Þá leggur aðalfundurinn áherslu á tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar og frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fundurinn telur brýnt að mislæg gatnamót verð byggð samhliða framkvæmdum nú við væntanlegt Hæðahverfi í Reykjanesbæ og ráðstafanir gerðar vegna reiðvega og umferðar hjólreiðafólks.
Fundurinn skorar á yfirvöld að tryggja almenningssamgöngur á milli bæja á Suðurnesjum og til höfuðborgarsvæðisins sérstaklega í ljósi breytinga á reglugerð hvað varðar leigubílaakstur sem þegar hefur komið niður á þjónustu við íbúa svæðisins.
Aðalfundurinn minnir ráðherra, þingmenn og Vegagerðina á að kynna sér forgangsröð verkefna í samgöngumálum á Reykjanesi sem kynnt er í áfangaskýrslu Samgöngunefndar SSS og lögð er fram sem sameiginleg niðurstaða sveitarstjórna á Suðurnesjum á síðast ári.
Aðalfundurinn fagnar árangri í samgöngumálum á Reykjanesi. Sérstaklega er ástæða til að fagna fækkun slysa á Reykjanesbrautinni eftir að fyrsti hluti hennar var tvöfaldaður en mikilvægt er að framkvæmdir tengdar umferðaröryggismálum hafi forgang í hverju kjördæmi fyrir sig.
Til máls tóku Eysteinn Jónsson, Einar Jón Pálsson og Hörður Guðbrandsson.
Ályktun um samgöngumál samþykkt með áorðnum breytingum.

15. Önnur mál.
Til máls tók Hörður Guðbrandsson og  þakkaði sveitastjórnarmönnum samstarfið en hann er nú að hverfa af þessum starfsvettvangi.

16. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær
Aðalmaður: Steinþór Jónsson
Varamaður: Guðný Ester Aðalsteinsdóttir

Grindavíkurbær
Aðalmaður: Jóna Kristín Þorvaldsdóttir
Varamaður: Garðar Páll Vignisson

Sandgerðisbær 
Aðalmaður: Óskar Gunnarsson
Varamaður: Sigurður Valur Ásbjarnarson

Sveitarfélagið Garður 
Aðalmaður: Oddný Harðardóttir 
Varamaður: Arnar Sigurjónsson

Sveitarfélagið Vogar:
Aðalmaður: Birgir Örn Ólafsson
Varamaður: Róbert Ragnarsson

17. Kosning í launanefnd SSS.
Þessi liður fellur niður sbr. breytingar á samþykktum SSS í 8. lið fundarins.

18. Kosnir 2 skoðunarmenn reiknga og 2 til vara.

Aðalmenn Hjörtur Zakaríasson
  Dóróthea Jónsdóttir

Varamenn Sigurbjörg Eiríksdóttir
  Brynja Kristjánsdóttir

19. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.

Aðalmenn: Steinþór Jónsson
  Óskar Gunnarsson
  Jóna Kristín Þorvaldsdóttir
  Guðjón Guðmundsson

Til vara: Birgir Örn Ólafsson
  Oddný Harðardóttir

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum gott samstarf og fékk formanni S.S.S.  Jóni Gunnarssyni orðið sem þakkaði starfsfólki fundarins og fundarmönnum fundarsetuna.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.30

     _____________________________
     Jóhanna M. Einarsdóttir
     fundarskrifari.