625. fundur SSS 27. apríl 2011
Árið 2011, er fundur haldinn í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 27. apríl kl. 17.00 að Iðavöllum 12, Reykjanesbæ.
Mætt eru: Gunnar Þórarinsson, Bryndís Gunnlaugsdóttir, Ólafur Þór Ólafsson, Einar Jón Pálsson, Inga Sigrún Atladóttir og Berglind Kristinsdóttir sem jafnframt ritaði fundargerð.
Dagskrá:
1. Málefni Landhelgisgæslunnar.
Á samráðsvettvangi sveitarfélaga á Suðurnesjum og stjórnvalda í dag var lagt fram minnisblað um hagkvæmnisathugun vegna flutnings starfsemi Landhelgisgæslu Íslands til Suðurnesja. Minnisblaðið er gott innlegg í umræðu um flutning Landhelgisgæslunnar en í minnisblaðinu er aðeins lagt mat á kostnað við verkefnið, þ.e.a.s. einskiptiskostnað og árlega hækkun rekstrarkostnaðar. Ljóst er að mikilvægt er að halda áfram hagkvæmisgreiningu á flutningi Landhelgisgæslunnar þar sem farið er yfir hver sé framtíð Landhelgisgæslunnar og hagkvæmni flutnings fyrir bæði gæsluna og Suðurnes enda tekur minnisblaðið ekki á þeim framtíðarkostnaði er Landhelgisgæslan mun verða fyrir ef hún er áfram á þeim stað sem hún er í dag. Líkt og kemur fram í umræddu minnisblaði þá getur Landhelgisgæslan ekki vaxið þar sem hún er og húsnæði hennar er ófullnægjandi. Stjórn SSS óskar því eftir því að myndaður verði samstarfshópur stjórnvalda og sveitarfélaga á Suðurnesjum til að halda áfram þessari hagkvæmnisgreiningu svo allar hliðar málsins liggi ljósar fyrir áður en ákvörðun verður tekin.
2. Skipan í stjórn Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja.
Á lokafundi samráðsvettvangs sveitarfélaga á Suðurnesjum og stjórnvalda í dag skrifaði S.S.S. og Byggðastofnun, f.h. stjórnvalda undir samning um stofnun atvinnuþróunarfélags. Stjórn S.S.S. fagnar þessum samningi og telur að með stofnun atvinnuþróunarfélags sveitarfélaga á Suðurnesjum sé stigið mikið framfaraskref í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Mikið verkefni bíður félagsins á næstu vikum og mánuðum og vonandi mun atvinnuþróunarfélagið styðja við og flýta fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Atvinnuþróunarfélagið mun vinna áfram í góðu samstarfi við iðnaðarráðuneytið er hvatti til stofnun félagsins.
Stjórn Atvinnuþróunarfélagsins verður fyrst um sinn skipuð 7 fulltrúum, þar af 5 frá sveitarfélögunum, einn frá S.A.R og einn frá Kadeco. Framkvæmdastjóra falið að óska eftir tilnefningum fyrir hönd stjórnar og útbúa erindisbréf fyrir nýja stjórn. Jafnframt að leita tilboða hjá ráðningastofum vegna ráðninga á nýjum starfsmönnum.
3. Vinna við IPA/Taiex umsóknir.
Framkvæmdastjóra falið að ræða við Önnu Margréti og leggja samningsdrög fyrir stjórn á næsta stjórnarfundi.
4. Önnur mál.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl.18:16.