fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

754. stjórnarfundur SSS 17. mars 2020

Árið 2020, er fundur haldinn í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum miðvikudaginn 17. mars, kl. 8:00 á skrifstofu S.S.S., Skógarbraut 945, Reykjanesbæ.

Mætt eru: Einar Jón Pálsson, Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Hjálmar Hallgrímsson, Ingþór Guðmundsson og Berglind Kristinsdóttir sem jafnframt ritaði fundargerð.

Einar Jón Pálsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

 1. Bréf dags. 21.02.2020 frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu v. tilnefning í starfshóp vegna rannsókna á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.
  Stjórn S.S.S. tilnefnir þau Birgi Örn Ólafsson frá Sveitarfélaginu Vogum og Kolbrúnu Jónu Pétursdóttur frá Reykjanesbæ sem fulltrúa í starfshópinn.
 2. Tölvupóstur dags. 27.02.2020 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga v. sameiningarnámsferðar til Bergen.
  Lagt fram.
 3. Tölvupóstur dags. 10.03.2020 frá nefndarsviði Alþingis v. umsagnar um tillögu til þingsályktunar um könnuna á hagkvæmni strandflutninga, 367.mál. https://www.althingi.is/altext/150/s/0450.html
  Lagt fram.
 4. Tölvupóstur dags. 28.02.2020 frá nefndarsviði Alþingis v. umsagnar um frumvarp til laga um opinber fjármál, 145.mál. https://www.althingi.is/altext/150/s/0145.html
  Lagt fram.
 5. Tölvupóstur dags. 27.02.2020 frá nefndarsviði Alþingis v. umsagnar um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, 311.mál. https://www.althingi.is/altext/150/s/0352.html
  Lagt fram.
 6. Fundargerð byggingarnefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja nr. 7, dags. 20.02.2020.
  Þann 24. apríl 2019 undirrituðu sveitarfélögin á Suðurnesjum og Mennta- og menningarálaráðuneytið samning um viðbyggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Áætlaður stofnkostnaður var 123,2 m.kr. en ríkissjóður greiðir að 60% eða að hámarki 74 m.kr. Hlutur sveitarfélaganna er því 49,2 m.kr. Í fundargerð byggingarnefndar F.S. kemur fram að núverandi kostnaðarmat geri ráð fyrir hærri byggingarkostnaði og ljóst er að það er yfir núgildandi fjárheimildum. Stjórn S.S.S. veitir byggingarnefnd F.S. heimild til þess að halda áfram með viðbygginguna miðað við uppreiknaðan kostnað og að bjóða út verkefnið en staðfesting aðildarsveitarfélaga S.S.S liggur fyrir.
 7. Áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurnesja.
  a) Hreinsun standlengjunnar.
  b) Sjálfbæri og samvinna sveitarfélaganna á Suðurnesjum,
  c) Vöruþróun og markaðssetning fyrir skemmtiferðaskip og skiptifarþega á Reykjanesi.
  d) Myndabanki fyrir Reykjanesið.
  e) Ímynd Suðurnesja.
  f) Reykjanes Unesco Global Geopark.
  g) Tindar Reykjaness – Okkar Reykjanes.
  h) Heilsueflandi samfélag á Suðurnesjum.
  Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum samþykkir verkefnin og felur framkvæmdastjóra að senda þau áfram til umsagnar hjá stýrihópi Stjórnarráðsins.
 8. Tölvupóstur dags. 21.02.2020 frá forstjóra HSS.
  Á fundi stjórnar S.S.S. nr. 753 var óskað eftir upplýsingum um fjölda íbúa á Suðurnesjum sem skráðir eru á heilsugæslustöðvar á Suðurnesjum sem og hvernig hægt væri að fjölga skráningum á heilsugæslustöðvum á Suðurnesjum.
  Fram kemur í tölvupósti frá Þorgils Jónssyni sérfræðingi í upplýsingadeild HSS að á svæði heilsugæslustöðvarinnar í Reykjanesbæ (Reykjanesbær og Suðurnesjabær) eru 23.020 íbúar og 20.157 skráðir á stöðina, sem jafngildir 88%. Í Grindavík eru 3.520 íbúar og 3.108 skráðir eða 88% og í Sveitarfélaginu Vogum eru 1.310 íbúar og 773 skráðir á selið þar eða 59%. Alls eru 24.038 af 27.850 íbúum Suðurnesja skráir á heilsugæslustöðvar/-sel HSS eða 86%. Fram kemur í tölvupósti frá forstjóra HSS að sett hefur verið stefna á að efla þjónustuna og telur HSS að það sé eina rétta leiðin til að fá fólk til að skrá sig á HSS.
 9. Fundargerð stjórnar Reykjanes Geopark nr. 54, dags. 17.02.2020.
  Stjórn S.S.S. fagnar því að Reykjanes Unesco Geopark sé búið að fá staðfestingu á áframhaldandi vottun til ársins 2023.
 10. Tilnefningar í stjórnir.
  Ólafur Þór Ólafsson sveitarstjórnarmaður Suðurnesjabæjar fer til annarra starfa þann 1.apríl n.k. því þarf að skipa í hans stað í eftirfarandi nefndir.
  a) Samráðsvettvangur Landsskipulagsstefnu.
  Stjórn S.S.S. tilnefnir Áshildi Linnet.
  b) Starfsmenntasjóður Starfsmannafélags Suðurnesja.
  Stjórn S.S.S. tilnefnir Einar Jón Pálsson.
  c) Vinnumarkaðsráð Suðurnesja, tilnefning varafulltrúa.
  Stjórn S.S.S. tilnefnir Hjálmar Hallgrímsson.
  d) Skólanefnd Fjölbrautaskóla Suðurnesja, tilnefning varafulltrúa.
  Stjórn S.S.S. tilnefnir Einar Jón Pálsson.
  Stjórn S.S.S. þakkar Ólafi Þ. Ólafssyni fyrir gott samstarf og óskar honum velfarnaðar í nýju starfi sem sveitarstjóra á Tálknafirði.
 11. Önnur mál . Stjórn S.S.S. hefur ákveðið að fella niður Vetrarfund S.S.S. sem átti að halda þann 20. mars n.k., er það gert í ljósi þeirra aðstæðna sem hafa skiptast vegna Covid-19 veirunnar. Reglubundnir fundir stjórnar S.S.S. eru áætlaðir skv. fundaráætlun en í samþykktum S.S.S., 6.gr. segir að fundi stjórnar má halda í rafrænu fundarkerfi þegar það á við að mati formanns stjórnar og framkvæmdarstjóra. Komi því til veikinda eða sóttkvíar er hægt að halda stjórnarfundi í gegnum fjarfundabúnað. Öllum stórum fundum eða viðburðum á vegum S.S.S. hefur verið frestað og starfsfólk hvatt til að sitja fundi í gegnum fjarfundabúnað verði því við komið. Umgangur gesta á skrifstofu S.S.S. hefur verið takmarkaður. Starfsmönnum hefur verið skipt upp í tvo hópa sem mæta til vinnu annan hvorn dag. Starfsmenn S.S.S./Heklunnar/MR/RGP vinna heiman frá sér þá dag sem þeir eru ekki á skrifstofunni. Erindi barst frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga i lok vinnudags þann 12.mars þar sem ríkisvaldið óskaði eftir samantekt um verkefni sem ríki og sveitarfélög gætu farið í á Suðurnesjum til að stemma stigum við áhrifum í efnahagslífi vegna Covid-19. Framkvæmdastjóri S.S.S. tók saman tillögur og sendi frá sér sunnudaginn 15.mars. Markaðsstofa Reykjaness sendi út könnun s.l. föstudag til fyrirtækja í ferðaþjónustu á svæðinu til að kanna aðstæður. Einnig hefur verið fundað með ferðamálafulltrúum sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Í framhaldi voru teknar saman upplýsingar og settar inn á í heimasíðu Markaðsstofu Reykjaness fyrir fyrirtækin. Stjórn S.S.S. hefur miklar áhyggjur af atvinnuleysi á Suðurnesjum. Síðustu tölur frá Vinnumálastofnun eru frá janúar 2020 en þá var atvinnuleysið á Suðurnesjum er nálægt 10%. Verslun, þjónusta, veitingar, samgöngur, fjarskipti og leiga eru 43% atvinnugreina á Suðurnesjum meðan landsmeðaltalið er 26%. Á árunum 2012-2017 skýrðu fyrrnefndar atvinnugreinar 45% af 71% hagvexti á Suðurnesjum. Það er því ljóst að breytt landslag í flugi mun hafa mikil áhrif á svæðið. Stjórn S.S.S. skorar á ríkisvaldið að taka tillit til þessara forsendna þegar litið er til aðgerða á svæðinu. Einnig hvetur stjórn S.S.S. aðildarsveitarfélög sín til þess að standa við framkvæmdaáætlanir sínar. Framkvæmdastjóra falið að senda meðfylgjandi bókun til sveitarstjórnarmanna og þingmanna svæðisins sem og til ráðuneyta.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 9:50.