763. stjórnarfundur SSS 18. nóvember 2020
Árið 2020, er fundur haldinn í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum miðvikudaginn 18. nóvember, kl. 8:00 í fundarkerfinu Teams.
Mætt eru: Jóhann Friðrik Friðriksson, Laufey Erlendsdóttir, Hjálmar Hallgrímsson, Ingþór Guðmundsson og Berglind Kristinsdóttir sem jafnframt ritaði fundargerð.
Jóhann Friðrik Friðriksson setti fund og bauð fundarmenn velkomna á fundinn.
Dagskrá:
- Kynning frá leigufélaginu Bríet – Gestir Soffía Guðmundsdóttir, Elmar Ellertsson og Kristján Gestsson. Stjórn S.S.S. þakkar Soffíu og Kristján góða og athyglisverða kynningu.
- Dómsmál SSS gegn íslenska ríkinu – minnisblað. Lagt er fram minnisblað frá LMB Mandat en Ari Karlsson lögmaður vann það vegna dóms í máli E3411/2015. Stjórn S.S.S. samþykkir að áfrýja málinu til Landsréttar. Framkvæmdastjóra falið að fylgja málinu eftir í samræmi við umræður fundarins.
- Fjárhagsáætlun S.S.S. 2021. Stjórn S.S.S. samþykkir fjárhagsáætlun S.S.S. og vísar henni áfram til fjárhagsnefndar S.S.S.
- Beiðni um þjónustusamning – Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, dags. 12.11.2020. Stjórn S.S.S. þakkar fyrir erindið en getur ekki orðið við því að svo stöddu.
- Tölvupóstur frá nefndarsviði Alþingis, dags. 11.11.2020, beiðni um umsögn um tillögu til þingsályktun um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar, 42.mál. https://www.althingi.is/altext/151/s/0042.html Lagt fram.
- Tölvupóstur frá nefndarsviði Alþingis, dags. 11.11.2020, beiðni um umsögn um tillögu til laga um frumvarp til laga um búvörulög og búnaðarlög, 229. mál. https://www.althingi.is/altext/151/s/0232.html Lagt fram.
- Tölvupóstur frá nefndarsviði Alþingis, dags. 11.11.2020, beiðni um umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir í þágu sveitarfélag vegna heimsfaraldurs kórínuveiru, 43.mál. http://althingi.is/altext/151/s/0043.html Lagt fram.
- Erindi frá Ferðamálastofu dags. 3. nóvember 2020, v. stofnun áfangastaðastofa í öllum landshlutum. Þuríður H. Aradóttir Braun var gestur undir þessum lið.
a)Samstarfssamningur um stofnun áfangastaðastofu á starfssvæði Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þann 3. nóvember s.l. barst erindi frá Atvinnu og nýsköpunarráðuneytinu þess efnis að stofna ætti áfangastofur í öllum landshlutum. Í erindinu var einnig að finna drög að samningi á milli ráðuneytisins og landshlutasamtaka sveitarfélaga en stefnt er að því að gera samninga við öll landshlutasamtök á landinu.
Fram kemur í samningsdrögunum að hlutverk áfangastaðastofanna hefur verið skilgreint af Stjórnstöð ferðamála og Ferðamannastofu en þar segir:
„a. Gerð og framkvæmd áfangastaðaáætlana og viðskiptaáætlana fyrir ferðaþjónustu, ásamt tengingu við aðrar opinberar stefnur og áætlanir.
b. Aðkoma að gerð stefnumótunar og áætlana á landsvísu sem snertir ferðaþjónustu.
c. Þátttaka í rannsóknum og mælingum og öflun svæðisbundinna áreiðanlegra gagna.
d. Álagsmat og þolmörk (Jafnvægisás ferðamála) efnahags, samfélags og náttúru gagnvart fjölda ferðamanna.
e. Vöruþróun og nýsköpun.
f. Stuðningur við stafræna þróun ferðaþjónustunnar.
g. Uppbygging á hæfni og gæðum í ferðaþjónustu.
h. Öryggi ferðamanna.
i. Kynning og markaðssetning svæðanna.
j. Upplýsingamiðlun til ferðamanna og annarra hagaðila.
k. Liðsinni við einstök sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga innan svæðis vegna ferðaþjónustu. Tengsl við hagaðila utan svæðis, s.s. ráðuneyti, Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Byggðastofnun, Samtök ferðaþjónustunnar, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar o.fl. aðila.“
Í samningsdrögunum er tiltekið að fjármögnun af ríkisins hálfu verði gegnum þjónustusamning Ferðamálastofu og áfangastaðastofa en engar upphæðir eru tilgreindar. Síðastliðinn föstudag fundaði Ferðamálastofa með fulltrúum Markaðsstofanna og þar voru ræddar upphæðir í þjónustusamningi við óstofnaðar áfangastaðastofur. Augljóst hlýtur að vera að umræður um upphæðir sem tengdar eru samningnum skulu vera milli samningsaðila. Á fundinum komu fram drög að skiptingu fjármuna til landshlutasamtakanna og er gert ráð fyrir umtalsverði lækkun til Suðurnesjanna frá því sem nú er.
Stjórn S.S.S. telur erindið áhugavert en telur jafnframt að þeir fjármunir sem renna eigi til Suðurnesjanna vegna samningsins sé í engu samræmi við verkefnin sem inna eigi að hendi né heldur séu verkefnin nægjanlega skilgreind. Athyglisvert er að allir landshlutar eigi að vinna sömu verkefnin en fá mismunandi greiðslur fyrir það grunnstarf.
Stjórn S.S.S. leggur til að samningurinn tryggi:
- Að hlutverkum/verkefnum sé tryggð nægileg fjármögnun, sérstaklega þar sem um ný hlutverk/verkefni er að ræða. Meta þarf hlutverkalista og fjármagn saman. Lagt er til að litið sé til tillagna landshlutanna sem send var ráðuneyti í minnisblaði í haust.
- Að gerður sé einn samningur um bæði grunnfjármagn og verkefnabundið fjármagn sem nær yfir gildistíma áfangastaðaáætlunar svæðisins.
- Að við úthlutun verkefnabundins fjármagns verður tekið tillit til svæðisbundinna áskoranna. Verkefni og áherslur svæðis eru tilgreindar í áfangastaðaáætlun hvers svæðis og forgangsraðað af stjórn hvers svæðis milli ára. Verkefni áfangastaðaáætlana grundvallast ávallt á því að fanga tækifæri og mæta áskorunum hvers svæðis. Lagt er til að byggt verði á sambærilegri umgjörð/hugmyndafræði og landshlutasamtök vinna eftir er í samningum sínum við Byggðastofnun og áhersluverkefni tengd þeim en Ferðamálastofa myndi samþykkja áhersluverkefnin.
9. Aðgengi að Heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Formaður fylgdi erindinu úr hlaði og sagði frá skýrslu Sjúkratrygginga varðandi heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu frá 2018. í skýrslunni kemur fram að 11.700 manns séu að meðaltali skráðir á hverja heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu. Á Suðurnesjum búa rúmlega 28.000 manns sem hafa aðgengi að einni heilsugæslustöð en ættu að hafa aðgengi að 2-3 heilsugæslustöðvum sé miðað við aðgengi íbúa á höfuðborgarsvæðinu að þjónustu. Þá er ekki tekið tillit til þess að alþjóðaflugvöllur er staðsettur á Suðurnesjum.
Stjórn SSS hvetur heilbrigðisráðuneytið til þess að leita leiða svo flýta megi uppbyggingu á nýrri heilsugæslustöð HSS á Suðurnesjum.
Stjórn S.S.S. leggur áherslu á að tryggja gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu með fjölgun heilsugæslustöðva en einnig með því að taka upp nýtt greiðsluþátttökukerfi sem fyrst sem m.a. styttir biðtíma eftir þjónustu og opnar á að einkaaðilar hafi áhuga á því að reka heilsugæslustöðvar á svæðinu.
Stjórn S.S.S. hvetur ráðuneyti heilbrigðismála til þess að veita heimild fyrir einkarekinni heilsugæslu á svæðinu til þess að mæta þörf.
Allir landsmenn eiga rétt á góðri heilbrigðisþjónustu. Lýðheilsuvísar Embættis landlæknis gefa vísbendingu um að heilsa íbúa á Suðurnesjum sé lakari en í öðrum landshlutum sem aftur hefur íþyngjandi áhrif á velferðarþjónustu sveitarfélaga og samfélagið allt. Sameiginlegt átak allra hagsmunaaðila til úrbóta mun stuðla að betra aðgengi, bættri þjónustu og um leið auknum lífsgæðum íbúa á Suðurnesjum.
10. Aukið samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum, m.a. Suðurnesjavettvangur. Stjórn S.S.S. ræddi hvernig hægt væri að auka og þétta samstarfið á milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Í ljósi aðstæðnanna hefur aldrei verið mikilvægara en nú að finna samstarfsfleti og vinna að sameiginlegum málum. Stjórn S.S.S. bendir á mikilvægi þess að sveitarfélög á Suðurnesjum skoði með opnum huga frekara samstarf sín á milli s.s. varðandi fræðslu, velferðar, og atvinnumál á Suðurnesjum.
Stjórn ræddi fund Suðurnesjavettvangs sem fram fór í síðustu viku og var sammála um að skoða hvort hægt væri að vinna sameiginlegum verkefnum sem kæmu sem afrakstur af þeim fundi undir hatti Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
11. Önnur mál.
Stjórnarmenn sammála um að taka liðinn önnur mál út af dagskrá hér eftir en vilji stjórnarmenn koma málum á dagskrá stjórnar þarf erindi þess efnis að berast formanni og framkvæmdastjóra fimm dögum fyrir stjórnarfund.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 9:55.