fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

780. stjórnarfundur SSS 15. ágúst 2022

Árið 2022, er fundur haldinn í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum mánudaginn 15. ágúst, kl. 8:00 í fundarsal Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Skógarbraut 945, 262 Reykjanesbæ.

Mætt eru: Laufey Erlendsdóttir, Hjálmar Hallgrímsson, Ingþór Guðmundsson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Berglind Kristinsdóttir sem jafnframt ritaði fundargerð.

Ingþór Guðmundsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna á fundinn.

Dagskrá:

1.Bréf dags. 01.07.2022 frá Vegagerðinni, v. erindi S.S.S. vegna uppsafnaðs halla af rekstri almenningssamgangna á Suðurnesjum. Stjórn felur framkvæmdastjóra að taka saman greinargerð um málið og óska eftir fundi með ráðherra Innviða vegna málsins.

2.Tölvupóstur dagsettur 11.07.2022 frá Angantý Einarssyni f.h. Vestmannaeyja, v. mönnunar heilbrigðisstarfsfólks á landsbyggðinni. 2a)Afrit af bókun bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Í bókun bæjarstjórnar Vestmannaeyja segir „Bæjarstjórn Vestmannaeyja lagði svo fram sameiginlega bókun Bæjarstjórn Vestmannaeyja áréttar að jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu á að vera grundvallaratriði í samfélagsuppbyggingunni. Sú er hins vegar ekki raunin fyrir fólk á landsbyggðinni í dag. Heilsugæslan á landsbyggðinni er undir mönnuð og aðgengi íbúa að grunnheilbrigðisþjónustu er skert. Það þarf að búa þannig um hnútana að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni geti mannað stöður heilbrigðisstarfsfólks þannig að þær geti veitt þá grunnheilbrigðisþjónustu sem þeim er ætlað. Þá liggur fyrir að flestar flóknar aðgerðir eru í dag einungis framkvæmanlegar á Landspítalanum. Það þarf að auka öryggi sjúklinga á landsbyggðinni með því að styrkja og breyta fyrirkomulagi sjúkraflugs m.a. með tilkomu sérhæfðrar sjúkraþyrlu og ákveða þarf staðsetningu flugvallar í Vatnsmýrinni til framtíðar. Þannig tryggjum við að allir landsmenn geti notið þjónustu Landspítalans með fullnægjandi hætti“. Stjórn S.S.S. tekur undir bókun bæjarstjórnar Vestmannaeyja og áréttar mikilvægi  þess að halda upp nauðsynlegri grunnheilbrigðisþjónustu um allt land og sem og mikilvægi þess að geta mannað stöður lækna og annars heilbrigðisfólks allan sólarhringinn.

3. Erindi frá Keili miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs, dags. 22.06.2022 vegna beiðni um fjárhagslega aðkomu SSS vegna fagháskólanáms í leikskólafræðum – stuðningur fyrir nemendur búsetta á Reykjanesi. Stjórn S.S.S. tekur vel í erindið og felur framkvæmdastjóra að skoða hvort verkefnið geti orðið að veruleika sem samstarfsverkefni Sóknaráætlunar Suðurnesja og sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

4. Umsögn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036, 563.mál. Í aðgerðaráætluninni fyrir Byggðaáætlun eru tilgreind 43 verkefni.  Landshlutasamtök sveitarfélaganna eru framkvæmdaaðilar í 5 af þeim verkefnum og samstarfsaðilar í 22 þeirra. Landshlutasamtök sveitarfélaganna hafa sýnt það í gegnum tíðina að þau eru traustsins verð þegar kemur að því að vinna verkefni á starfssvæðum sínum en það hafa þau m.a.  gert í gegnum Sóknaráætlun, samninga um brothættar byggðir, vaxtarsvæði og Covid verkefni svo dæmi séu tekin. Samkvæmt framlagði áætlun er gert ráð fyrir því að framlag til sóknaráætlana lækki úr 569 milljónir króna niður í 451 milljón króna á árunum 2022-2026. Má því gera ráð fyrir því að öll viðbótarframlög falli niður og að grunnframlögin taki ekki mið að verðlagsþróun. Einnig kemur fram að skerða eigi framlög til atvinnuráðgjafa um 6 milljónir á þessu tímabili. Í byggðáætlun er einnig lagt til að hægt verði að sækja um í verkefnapotta til að vinna verkefni og hafandi sagt það þá hafa landshlutasamtökin mikla og þungar áhyggjur af því hvernig þau eigi að taka á sér fleiri verkefni, sem þau sannarlega treysta sér vel til að gera og hafa sýnt það, á sama tíma og dregið eru úr fjárframlögum til þeirra. Það er mikilvægt að fjármögnum byggðaáætlunar sé tryggð en stjórn S.S.S. telur það sé jafn mikilvægt að fjármunir til atvinnuráðgjafar og sóknaráætlunar séu einnig tryggðir en ekki skornir niður, þar sem ekki verði séð að aðgerðaráætlunin þ.e.a.s. þessi 43 verkefni nái að vera að veruleika án aðkomu landshlutasamtakanna. Stjórn Sambands sveitarfélaga fagnar framkominni byggðaáætlun 2022-2036 en lýsir yfir áhyggjum af lækkandi framlögum til atvinnuráðgjafa og til Sóknaráætlana landshluta. Í framlagði byggðaáætlun er lagt til að landshlutasamtök sveitarfélaganna taki að sér stærri hlutverk en áður. Því ber að fagna en á sama tíma er ekki hægt að leggja til að dregið verði úr fjárframlögum til fyrrnefndra aðila um leið og gerð er ríkari krafa um verkefnaábyrgða.

5. Tölvupóstur dags. 17.06.2022 tilkynning um Erasmus styrk. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum f.h. Heklunnar sótti um styrk til Erasmus+. Verkefnið ber yfirskriftina: „Developing the Entrepreneurial Capabilities of Young Women“ (DECOY) og lýtur að valdeflingu kvenna af erlendum uppruna á sviði frumkvöðlafærni við að koma eigin viðskiptahugmyndum í framkvæmd til að skapa sér atvinnu og lífsviðurværis. Umsóknin hlaut heildarstyrk að upphæð 120.000 EUR (16,6 milljónum ISK á núvirði – þar af nemur styrkur til Íslands 27.000 EUR) og mun S.S.S. stýra verkefninu. Verkefnið hefst þann 1.nóvember 2022 og er til 17 mánaða. Önnur þátttökulönd eru : Lamia í Grikklandi, Antalya í Tyrklandi, París í Frakklandi og Foggia á Ítalíu.

6. Ársskýrsla Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2021. Lagt fram.

7. Fundargerð 10. ársfundar Þekkingarseturs Suðurnesja. Lagt fram.

8. Fjárhagsáætlun Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2023 – undirbúningur. Stjórnin ræddi fjárhagsáætlun næsta árs og fól framkvæmdastjóra að setja upp beinagrind í samræmi við umræður fundarins.

9. Aðalfundur S.S.S. 2022. Stjórn S.S.S. setti niður drög að dagskrá og fól framkvæmdastjóra að vinna málið áfram.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn föstudaginn 2. september kl. 8:00.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 9:00.