fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Heimskaffi á Suðurnesjum

Heimskaffi á Suðurnesjum – hver er framtíðarsýnin í velferðarmálum?Þann 4. desember síðastliðinn fór fram heimskaffi í sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Umræðuefnið var velferðarmál á Suðurnesjum en markmiðið með heimskaffinu var að fá þátttakendur til þess að velta fyrir sér og ræða saman um hver ætti að vera framtíðarsýnin í velferðarmálum á Suðurnesjum. Niðurstöðurnar voru þær að mikilvægast væri að leggja áherslu á atvinnu-, mennta- og heilbrigðismál sem og málefni fjölskyldunnar og einstaklingsins.Meðal annars kom fram að mikilvægt sé að:• leggja áherslu á atvinnu með tilliti til meiri fjölbreytileika og nýsköpunar,• ljúka þeim atvinnuskapandi verkefnum sem eru komin á legg,• draga úr brottfalli í framhaldsskóla,• auka menntun í takt við þau störf sem eru og verða í boði á svæðinu í framtíðinni,• efla heilsugæsluna og vinda ofan af þeim niðurskurði sem þar hefur átt sér stað,• efla grunnþjónustu í heilsugæslu með því að opna göngudeildarþjónustu þar sem einstaklingar gætu fengið þjónustu án þess að þurfa að leggjast inn á sjúkrahús,• leggja áherslu á að efla forvarnir og styrkja þátttöku ungmenna í ýmiss konar starfi sem og að styrkja fjölskylduna sem uppeldisstofnun þar sem grunnurinn liggur hjá fjölskyldunum• vinna markvisst að því að bæta ímynd svæðisins.Þátttakendur voru hátt í 40 talsins og komu frá öllum sveitarfélögum á svæðinu en þar á meðal var starfsfólk frá öllum félagsþjónustum, heilbrigðisstofnun, Vinnumálastofnun, menntastofnunum, þjóðkirkjunni, almannaheillasamtökum, fulltrúum virkni- og starfsendurhæfingarúrræða og fleiri. Fyrirkomulagið var á þann veg að þátttakendum var skipt á nokkur borð og fengu tvær spurningar sem svarað var í tveimur umferðum. Í lokin voru svo helstu niðurstöður dregnar saman og þátttakendur beðnir um að forgangsraða því sem þeir töldu að væri mikilvægast að leggja áherslu á. Þátttakendur og skipuleggjendur voru almennt ánægðir með heimskaffið sem skilaði athyglisverðum niðurstöðum sem komið verður á framfæri við stjórnendur sveitarfélaganna á Suðurnesjum, þingmenn kjördæmisins og aðra sem láta sig hagsmuni svæðisins og velferðarmál varða.Heimskaffið var eins konar framhald af starfsdegi fyrir starfsfólk í velferðarþjónustu sem haldinn var haustið 2011 í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju en þann dag komu saman yfir 120 manns og fengu kynningu á öllum þeim úrræðum sem eru í boði á Suðurnesjum á sviði velferðarmála. Fyrir heimskaffið var þessi hópur kallaður til á ný og umræðan tekin yfir á næsta stig með fyrrgreindum niðurstöðum.Að heimskaffinu stóðu verkefnisstjórar frá Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum, forstöðumaður Þekkingarseturs Suðurnesja og verkefnisstjóri Suðurnesjavaktarinnar sem starfar á vegum velferðarvaktar velferðarráðuneytisins.