fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

30. Aðalfundur SSS 10. nóvember 2007

30. aðalfundur S.S.S. haldinn í hátíðarsal Keilis á Keflavíkurflugvelli (Vallarheiði)
laugardaginn  10.  nóvember 2007

Dagskrá:
Kl. 09:30 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 10:00 2. Fundarsetning: Steinþór Jónsson formaður SSS.
  3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Kl. 10:10 4. Skýrsla stjórnar: Steinþór Jónsson , formaður SSS.
  5. Ársreikningur SSS fyrir árið 2006,
   Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri.
  6.      Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Kl. 10:40 7. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Kl 11:00 8. Ávörp gesta.
  9. Menningarsamningur SSS og ríkisins  
10.  Kynningu á stöðu sveitarfélaga gagnvart EES-samningum
Guðjón Bragason lögfr. Sambands ísl. sveitarfélaga 
  11. Fyrirspurnir og umræður.
Kl. 12:00     Hádegisverðarhlé.
    Stutt skoðunarferð um svæðið 
Kl. 13:30 12.  Keflavíkurflugvöllur – spennandi tækifæri.
     Skólasamfélagið  á Vallarheiði
      Runólfur Ágústsson framkvæmdastjóri
      Hjálmar Árnasson forstöðumaður fagskóla
     Þróun Keflavíkurflugvallar og vaxtarmöguleikar
       Þórður Hilmarsson framkvæmdastjóri  
  Fyrirspurnir og umræður.
Kl: 14:30 13. Sveitarfélög í vexti.
     Hvað er efst á baugi hjá sveitarfélögunum fimm?
  Fyrirspurnir og umræður. 
Kl:15:30    Kaffihlé.
Kl.16:00 14. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
15. Önnur mál.
16. Tilnefning í Menningarráð Reykjaness
17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
19. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
Kl. 17:00 20. Áætluð fundarslit.
Kl. 20:00                    Kvöldverður  í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka í Golfskálanum
 

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls 34 sveitastjórnarmenn, frá  Reykjanesbæ 9, Grindavík 7, Sandgerði 6,  Sveitarfélaginu Garði 5, Sveitarfélaginu Vogum 7.

Gestir  og frummælendur á fundinum  voru Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, Björgin G Sigurðsson, viðskiptaráðherra, Kjartan Ólafsson, alþingismaður, Árni Johnsen, alþingismaður, Grétar Mar Jónsson, alþingismaður, Finnbogi Björnsson, D.S., Sigmundur Eyþórsson, B.S., Magnús H. Guðjónsson, H.E.S, Ólafur Arnbjörnsson, F.S. Guðjón Bragason, Sambandi ísl. Sveitarfélaga, Halldór Halldórsson, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, Deloitte, Þórður H. Hilmarsson, Fjárfestingastofu, Hjálmar Árnason, Keilir, Runólfur Ágústsson, Keilir , Kristinn Benediktsson, Góðir dagar Grindavík, Jón M. Björnsson, Tíðindi, Þorgils Jónsson, Víkurfréttir, Páll Ketilsson, Víkurfréttir, Oddgeir Karlsson, ljósmyndari,  

2. Fundarsetning.
Steinþór Jónsson, formaður S.S.S. setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um  Björk Guðjónsdóttur og Sveindísi Valdimarsdóttur  sem fundarstjóra og voru þær sjálfkjörnar.
Uppástunga kom um Guðbrand Einarsson  sem 1. fundarritara og  Sigríði Jónu Jóhannesdóttur sem 2. fundarritara, vararitarar Þorsteinn Erlingsson  og Guðný Kristjánsdóttir og voru þau sjálfkjörin.  Lagt var til að Jóhanna M. Einarsdóttir yrði sett sem skrifari fundarins.

Björk Guðjónsdóttir þakkaði það traust að fela henni stjórn fundarins.

4. Skýrsla stjórnar.
Steinþór Jónsson,  formaður SSS flutti skýrslu stjórnar:
“Góðir fundarmenn,
Á 29. aðalfundi SSS sem haldinn var í Tjarnarsal, Sveitarfélaginu Vogum, þann 9. september 2006, voru eftirtaldir kosnir í stjórn sambandsins:
Birgir Örn Ólafsson, Vogum, Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, Grindavík, sem verið hefur ritari stjórnar, Oddný Harðardóttir, Garði, sem gegnt hefur embætti varaformanns á þessu starfsári, Óskar Gunnarsson, Sandgerði, og sá er hér talar Steinþór Jónsson, Reykjanesbæ, sem hefur gegnt embætti formanns sambandsins þetta starfsárið.
Stjórnin hefur haldið 20 stjórnarfundi á starfsárinu sem var í lengra lagi eða rétta 14 mánuði og tekur skýrsla stjórnar mið af því. Tekin hafa verið fjölmörg mál til afgreiðslu en sum málin vega þyngra en önnur og mun ég því í skýrslu stjórnar aðeins greina frá helstu málum hennar.
Brotthvarf Varnarliðsins eftir yfir 50 ára veru á Miðnesheiði átti sér stað aðeins nokkrum dögum eftir að núverandi stjórn SSS tók til starfa. Þó formaður telji það ekki “einu” ástæðu lokunar varnarstöðvarinnar má ljóst vera að mikil umræða fór fram um málið á fyrstu fundum stjórnarinnar. Í ályktun aðalfundar frá 9. september 2006 kom meðal annars fram: “Það er grundvallaratriði að sveitarfélögin séu áhrifavaldar um þá framtíð sem hér er mótuð”. Í framhaldi sendi núverandi stjórn frá sér ályktun 28. september 2006 þar sem stóð m.a. “Stjórnin gerir ráð fyrir að fulltrúar frá sveitarfélögunum sitji í stjórn félagsins”.  Aðeins 11 dögum síðar eða 9. október 2006 barst síðan beiðni frá forsætisráðuneyti þar sem leitað var eftir því við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum að tilnefna einn aðalmann og einn til vara í stjórn hlutafélags sem stofnað yrði um eign ríkisins og um framtíðarþróun og umbreytingar á fyrrverandi varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli. Stjórn SSS tilnefndi á fundi sínum 13. október 2006 Árna Sigfússon bæjarstjóra Reykjanesbæjar sem aðalmann og Sigurð Val Ásbjarnarson bæjarstjóra Sandgerðis sem varamann í stjórn félagsins. Á því rúma ári sem liðið er frá þessum miklu tímamótum í Íslandssögunni, og þá ekki síður á okkar svæði, má með sanni segja að vel hafi til tekist í þessu mikla umbreytingarferli og allt sem bendir til bjartrar framtíðar svæðisins þó mikil vinna sé þar enn framundan. Hér eins og í svo mörgum öðrum málum hefur samstaða sveitarstjórnarmanna og kraftur íbúa á Reykjanesi skilað betri árangri en nokkur þorði að vona fyrir aðeins rúmu ári síðan. Í ljósi þessarra viðburða og nýrrar framtíðarsýnar á svæðinu öllu fannst stjórn SSS tilhlýðilegt að halda núverandi aðalfund hér í húsnæði Keilis en frekari umræður um málefnið munu fara fram hér síðar á fundinum.
Þrátt fyrir að um 900 manns hafi misst vinnuna við brotthvarf Varnaliðsins hafa atvinnumál  verið með besta móti á Suðurnesjum á síðasta ári en atvinnuráð SSS fer með þennan málaflokk. Atvinnuleysi hefur verið tiltölulega lítið eða tæp 2 % nú í október eða svipað og á sama tíma fyrir ári. Fjölmörg stórverkefni eru gangi á Suðurnesjum sem kallað hefur á aukið vinnuafl og hefur leitt af sér fjölgun íbúa og íbúða. Þó að flestir hafi fundið sér annan starfsvettvang er ljóst að laun margra lækkuðu í kjölfarið og að tölur um atvinnuleysi endurspegla því ekki það alvarlega ástand í kjölfar tekjutaps sem skapaðist hjá mörgum fjölskyldum við brotthvarf Varnarliðsins og enn eru ókomin fram áhrif af niðurskurði aflaheimilda. Stjórn SSS sendi frá sér ályktun vegna aflasamdráttar nú í júli s.l. sem og einstakar sveitarstjórnir þar sem lýst var yfir áhyggjum á þeim áhrifum sem hann hefur á byggðarlög á Suðurnesjum. Margir Suðurnesjamenn horfa því vonaraugum til álvers þar sem bent hefur verið á að menntunarstig aukist á svæðinu með tilkomu þess og 1200 ný störf skapist. Undirbúningur við álver í Helguvík er í eðlilegum farvegi eins og lög og reglur segja til um og var nýútkomin skýrsla Umhverfisstofnunar mikilvægt skref í þá átt. Umræður um línulagnir hafa þó oft verið málefninu yfirsterkari og staðreynd að tvöfalda þurfi svokallaða Suðurnesjalínu sem liggur meðfram Reykjanesbraut, hvort sem álver kemur eða ekki, fallið í skuggann hjá fjölmiðlafólki.
Háskólasamfélagið á Vallarheiði er enn eitt þeirra verkefna sem sveitarstjórnir á Suðurnesjum horfa til þegar horft er til nýrra stoða í atvinnulífinu og hærra menntunarstigs. Nú þegar búa um 700 manns á Vallarheiði og tæplega 200 nemendur stunda nám við Keili sem hlýtur að teljast mjög gott á svo skömmum tíma. Þá má ekki gleyma mikilvægi Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum og en Miðstöðin hefur verið á verkefnaskrá SSS frá stofnun stöðvarinnar.
Hugmyndir um samstarfssamning um menningarmál á Reykjanesi og/eða Suðurkjördæmi komu fyrst til umræðu hjá stjórnarmönnum á stjórnarfundi í upphafi þessa árs. Í framhaldi var ákveðið að formaður og framkvæmdarstjóri færu á fund menntamálaráðherra og gerðu henni grein fyrir óskum svæðisins um að sér samningur yrði gerður við Reykjanes.  Þann  3. maí 2007 undirrituðu síðan menntamála-, fjármála- og samgönguráðherra annars vegar og formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hinsvegar samning um samstarf ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum um menningarmál. Samhliða gerðu sveitarfélögin á Suðurnesjum með sér samstarfssamning um menningarmál. Tilgangur samningana er að efla menningarstarf á Reykjanesi og menningartengda ferðaþjónustu með því að beina stuðningi ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum við slíkt starf í einn farveg og auka um leið frumkvæði og áhrif aðila á Reykjanesi á uppbyggingu og forgangsröðun verkefna á sviði menningarmála. Samningarnir gilda frá árinu 2007 – 2009 og samkvæmt þeim greiðir ríkið 17- 24 milljónir króna árlega. Á móti skulu sveitarfélögin skv. samningnum vinna að því að auka ráðstöfunarfé Menningarráðs Reykjaness hvort heldur er með framlögum frá einkaaðilum eða með eigin framlögum. Að auki skulu sveitarfélögin greiða að lágmarki þriðjung kostnaðar vegna starfsemi Menningarráðs Reykjaness. Jafnframt munu sveitarfélögin á Suðurnesjum beita sér fyrir því að heildarframlög þeirra til menningarmála verði að lágmarki 200 milljónir króna ár hvert á samningstímanum. Menningarráðið er skipað fimm fulltrúum tilnefndum af sveitarstjórnum á svæðinu. Menningarráð Reykjaness úthlutar fjármagni til menningarverkefna. Auglýst verður opinberlega eftir umsóknum um styrki í fyrsta sinn síðar í þessum mánuði og síðan aftur í mars á næsta ári. Umsækjendur geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Reykjanesi. Bæklingur Menningarráðs Reykjaness og úthlutunarreglur vegna verkefnastyrkja hefur þegar verið útbúinn og er tilbúinn til prentunar. Í febrúar tók stjórnin vel í erindi vegna styrks til sameiginlegrar ferðamálaráðstefnu eins og gert hefur verið undanfarin ár. Ljóst er að ferðaþjónusta á Reykjanesi hefur vaxið fiskur um hrygg og mikilvægt að samstarf m.a. í menningartengdri ferðaþjónustu í tengslum við menningarsamninginn verði nýtt til fullnustu. Þá eru áform um Reykjanes – Bláa Demantinn brátt komin á framkvæmdarstig og í því felast gríðarleg tækifæri á svæðinu til lengri tíma.
Á fundi stjórnar 20 febrúar s.l. var stjórn SSS skipuð í Samgöngunefnd SSS og viku síðar eða 27. febrúar ítrekaði stjórnin til Samgöngunefndar Alþingis forgangsröðun verkefna skv. áfangaskýrslu samgöngunefndar SSS frá nóvember 2005 sem unnin var sem heildarstefnumótun allra sveitarfélaga á Suðurnesjum m.a. að undirlagi þingmanna kjördæmisins. Skýrslu þessa má nú finna á heimasíðu Sambandsins. Má með góðum rökum segja að við höfum náð góðum árangri með þau verkefni sem við sameiginlega höfum barist fyrir í gegnum árin. Flest mál eru komin í farveg sem leiða til verkloka á næstu árum og því var nauðsynlegt að skoða málin að nýju frá grunni og meta þau verkefni sem mikilvægust eru til næstu framtíðar. Á meðan barátta fyrir tvöfaldri Reykjanesbraut stóð yfir hafa litlar deilur verið um hvaða verkefni væri í forgangi meðal sveitarfélaganna á Suðurnesjum en þegar það stórverkefni var að nálgast verklok var mikilvægt að sveitarstjórnarmenn væru sammála um framhaldið. Það er öruggt mál að samstaða sveitarstjórnarmanna og íbúa á Suðurnesjum um Reykjanesbrautina hefur orðið til þess að málið hefur fengið hraðari framgang en upphaflega var gert ráð fyrir. Þá samþykktu stjórnir SSS og SASS sameiginlega ályktun vegna flýtingar framkvæmda Suðurstrandarvegar en það mál er nú fremst á verkefnalista svæðisins auk lýsinga stofnvega og tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Einnig virðist nauðsynlegt að ýta frekar á tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar en ákvörðun um að álver í Straumsvík sé víkandi liggur fyrir og því ekkert til fyrirstöðu og lagning vegarins meðfram álverinu sé sett í framkvæmd sem og framkvæmdir í gegnum bæinn sjálfan.
Á fundi stjórnar í byrjun nóvember á síðasta ári samþykkti stjórnin samning sem tekur yfir rannsóknir um “Hagi og líðan ungs fólks á Suðurnesjum” og tekur til nemenda í 1. – 10. bekk grunnskólans. Nær samningurinn nú til áranna 2006, 2008 og 2010 en slíkar kannanir hafa áður verið gerðar þriðja hvert ár og hefur SSS staðið fyrir þeim í tvígang. Þarna er könnuð t.d. vímuefnanotkun, viðhorf til skóla, íþróttaiðkun, samband við foreldra svo eitthvað sé nefnt og á að  nýtast hjá skóla- og félagsmálastarfsfólki.
Skólaakstur Fjölbrautaskóla Suðurnesja var til umræðu en framtíðarlausn um skólaaksturinn liggur enn ekki fyrir. Þá eru málefni Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja í fullum gangi þó sú umræða hafi ekki komið formlega inn á borð stjórnar SSS á þessu starfsári. Fróðlegt verður að fylgjast með þróun mála með Kölku en mikilvægt er að tekið verði á miklum taprekstri stöðvarinnar til framtíðar.
Á starfsárinu kom stjórn skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins og kynnti rekstrarúttekt vegna starfseminnar og í framhaldi var Jóna Kristín Þorvaldsdóttir skipuð í vinnuhóp til að útfæra áframhaldandi þjónustusamning milli SHB og sveitarfélaganna 12 sem að samningum standa. Fyrir liggur að skiptar skoðanir eru í sveitarfélögum um áframhaldandi samstarf.
Húsnæðismál Sambandsins og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hafa verið mikið til umræðu á starfsárinu í framhaldi af niðurrifi fyrri aðstöðu á Fitjum. Eftir mikla vinnu og skoðun framkvæmdarstjóra SSS var niðurstaðan að Iðavellir 12b yrðu fyrir valinu og er ætlað að vera þar næstu 2 árin en finna þarf starfsemi SSS og HES stað til framtíðar.
Í síðasta mánuði tók stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum á móti þingmönnum kjördæmisins og gafst okkur þar tækifæri til að koma okkar málum á framfæri og um leið að kynnast nýjum þingmönnum svæðisins. Þau mál sem stóðu upp úr á fundinum voru mikilvægi á fjölgun hjúkrunarrýma og öldrunarmál, betri löggæsla sem og umræða um atvinnumál almennt m.a. vegna brotthvarfs hersins annars vegar og niðurskurðar í aflaheimildum hins vegar. Voru fundarmenn sammála um að mikil kraftur væri í íbúum svæðisins sem mildað hafa áhrif þessara áfalla að miklu leyti en að sama skapi væri því enn mikilvægara að finna stuðning þingmanna okkar í baráttunni þannig að hún skilaði góðri niðurstöðu. Var þingmönnum á fundinum bent á að tugmilljarða tekjur sem myndast á svæðinu m.a. vegna sölu hlutar ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, tekjur vegna sölu eigna hjá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar sem og tekjur vegna flugvallargjalda á Keflavíkurflugvelli ættu eðlilega að stærstum hlut að skila sér aftur inná svæðið. Var í þeirri upptalningu m.a. nefnd hreinsun á fyrrum varnarsvæðum og eðlileg uppbygging svæðisins til vistvænnar byggðar, samgöngutengingar við Vallarheiði, hjúkrunarrými, löggæslumál og nýr framhaldsskóli en Fjölbrautaskóli Suðurnesja er þegar ofsetinn og íbúafjölgun á svæðinu hröð. Tóku þingmenn vel í margar hugmyndir sveitarstjórnarmanna og óskaði fyrsti þingmaður kjördæmisins og núverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, eftir því að sveitarstjórnir á Suðurnesjum kæmu sér nú þegar saman um staðsetningu næsta skóla svo að undirbúningur verksins gæti hafist hið allra fyrsta. Það er mat formanns að staðsetning næsta skóla eigi að taka mið af framtíðarmöguleikum og íbúaþróun á svæðinu. 
Stjórnin hefur á starfsárinu fengið fjölmörg önnur mál inn á sitt borð auk lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna til umsagnar sem ekki er unnt að nefna í stuttri skýslu. Á haustmánuðum fengum við beiðni um fjárstuðning frá Þroskahjálp á Suðurnesjum og Björginni, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir.   Báðar þessar stofnanir hafa unnið frábært starf í samfélaginu hér á Suðurnesjum og var tekið vel í erindi þeirra og því vísað til fjárhagsáætlunar næsta árs.
Mikil umræða hefur átt sér stað á Suðurnesjum um málefni Hitaveitu Suðurnesja í kjölfar sölu ríkisins á sínum eignarhluta. Málið hefur þó ekki ratað formlega inná borð stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum enda ákvarðanir teknar á öðrum vettvangi hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Ástæða er til að fagna áhuga almennings á svæðinu á málefnum Hitaveitu Suðurnesja. Stjórn SSS mun hér á eftir, á sérstökum stjórnarfundi í hádeginu, taka á móti áskorun íbúa svæðisins um málefni Hitaveitunnar.
Á þessum tímamótum þegar ég hætti sem formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og hverf um leið úr stjórn sambandsins er eðlilegt að framtíð SSS komi upp í hugann en sveitarfélögin hafa nú átt gott samstarf í um 30 ár. Ekki skal annað sagt en að formannsstarfið hafi verið mér ánægjulegt og gefandi þó að ég verði um leið að viðurkenna að ég er einn þeirra sem telja að endurskoða þurfi samstarfið frá grunni og jafnvel hætta því í núverandi mynd t.d. í kjölfar frekari sameininga sveitarfélaga. Á þessu starfsári hafa komið upp mál þar sem hagsmunir sveitarfélaganna liggja ekki saman og því eðlilegt að spurt sé hvort sé mikilvægara framtíð svæðisins eða einstakra sveitarfélaga. Þessa hugsun skil ég eftir til umræðu í næstu stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Í lokin er full ástæða að þakka samstarfsmönnum mínum í stjórninni fyrir mjög gott samstarf á árinu.  Einnig þakka ég starfsfólki á skrifstofu sambandsins og framkvæmdastjóra sambandsins, Guðjóni Guðmundssyni, fyrir einstaklega gott samstarf og vel unnin störf í þágu sambandsins. “

5. Ársreikningar SSS fyrir árið 2006.
Til máls tók Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri er fylgdi ársreikningunum úr hlaði.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning S.S.S  Til máls tóku Petrína Baldursdóttir, Sveindís Valdimarsdóttir, Böðvar Jónsson,  Steinþór Jónsson, Einar Jón Pálsson og Guðjón Guðmundsson tóku til máls.  Ársreikningurinn var borinn undir atkvæði og var hann samþykktur samhljóða.

7. Tillögur og ályktanir.
Björk Guðjónsdóttir flutti tillögur stjórnar að ályktunum um byggingu álvers í Helguvík, ályktun um þróun atvinnumála á Keflavíkurflugvelli, ályktun um verkaskiptingu og fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, ályktun um nýtingu fjármagns á Suðurnesjum, ályktun um vaxtarsamning, ályktun um samgöngumál, ályktun um Fjölbrautaskóla Suðurnesja, ályktun vegna svokallaðra mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar, ályktum um löggæslumál, ályktun um heilbrigðis- og öldrunarþjónustu á Suðurnesjum, ályktun um rekstur og fjárhagsstöðu hafna 

8. Ávörp gesta.
Árni M. Mathiesen þakkaði,  fyrir hönd þingmanna, að vera boðinn á þennan fund.  Hann sagði m.a. að það væri tímanna tákn hvar fundurinn væri haldinn, Suðurnes er svæðið þar sem hlutirnir eru að gerast.
Björgvin G. Sigursson, viðskiptaráðherra, tók undir orð fjármálaráherra og sagði m.a. að fróðlegt væri að  koma á svona fund.
Kveðja barst frá Atla V. Gíslasyni sem gat ekki komið á fundinn.

9. Menningarsamningur SSS og ríkisins.
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir kynnti menningarsamning SSS og ríkisins.

10. Kynning á stöðu sveitarfélaga gagnvart EES-samningnum.
Guðjón Bragason lögfræðingur Sambandi íslenskra sveitarfélaga kynnti m.a. grundvallarþætti EES-samningsins sem skipta sveitarfélögin máli einnig þá málaflokka sem eru utan EES-samningsins sem helst skipta sveitarfélögin máli.

11. Fyrirspurnir og umræður.
Til máls tóku Petrína Baldursdóttir, Sigmar Eðvarðsson, Sveindís Valdimarsdóttir og Björk Guðjónsdóttir.

Hádegisverðarhlé.

Sveindís Valdimarsdóttir tók við stjórn fundarins.

Fundarstjóri fékk leyfi fundarins til að breyta dagskrá fundarins.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands ísl. Sveitarfélaga ávarpaði fundinn og fór m.a. yfir fjármál sveitarfélaga en staða sveitarfélaga er mjög misjöfn hvað fjármál varðar.

12. Keflavíkurflugvöllur – spennandi tækifæri.

Skólasamfélagið á Vallarheiði.
Runólfur Ágústsson framkvæmdastjóri Keilis ræddi m.a. um  að á Suðurnesjum væri lægsta menntastig landsins, svæðið væri stjórnsýslulega sundurtætt og skortur væri á samstöðu hjá sveitarfélögunum. Styrkleikar Suðurnesja væri t.d. að hér er  eini alþjóðlegi flugvöllur landsins og staðsetning innlands mjög góð þar sem stutt væri til miðborgar Reykjavíkur.

Hjálmar Árnason forstöðumaður fagskóla Keilis ræddi m.a. um að hlutverk Keilis væri að vera í samstarfi við aðra aðila t.d. með flugakademíu, öryggisakademíu, íþróttaakademíu og  kvikmyndaakademíu.

Þróun Keflavíkurflugvallar og vaxtamöguleikar.
Þórður Hilmarsson framkvæmdastjóri  fór m.a. yfir þá vinnu sem unnin hefur verið i starfshópi um þróun og vöxt Keflavíkurflugvallar.

Fyrirspurnir  og umræður.
Enginn kvaddi sér hljóðs

13. Sveitafélög í vexti.

Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ fór yfir þau  verkefni sem eru efst á baugi hjá Reykjanesbæ.

Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri í Grindavík fór yfir það sem er efst á baugi í Grindavíkurbæ.

Oddný Harðardóttir bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Garði fór yfir helstu verkefni sveitarfélagsins.

Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri í Sandgerði fór yfir þau verkefni sem eru efst á baugi hjá Sandgerðisbæ.

Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Vogum fór yfir það sem efst er á baugi hjá sveitarfélaginu.

Kaffihlé

14. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.

Ályktun um byggingu álvers í Helguvík.

Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007 lýsir fullum stuðningi við fyrirhuguð áform um byggingu álvers í Helguvík. Í kjölfar stærstu hópuppsagna í sögu þjóðarinnar, við brotthvarf varnarliðsins á síðasta ári og skerðingu þorskkvóta í ár er brýnt að sterkar stoðir séu settar undir atvinnulíf á svæðinu.
Með álversframkvæmdunum eykst framboð vel launaðra starfa jafnt fyrir karla sem konur og stöðugleiki skapast í atvinnumálum á Suðurnesjum.
Staðsetning í Helguvík þykir henta starfsseminni einstaklega vel og orkufyrirtæki telja sig geta lagt til umhverfisvæna orku sem þarf til að knýja álverið. Skipulagsstofnun segir m.a. í áliti sínu um  mat á umhverfisáhrifum að álverið muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag.  Að því gefnu að öllum ytri skilyrðum sé fullnægt hljóta afskipti stjórnvalda fyrst og fremst að miða að því að liðka til fyrir framvindu þessa verkefnis.  Fundurinn ítrekar að allra umhverfissjónarmiða sé gætt við tilhögun verkefnisins og að álverið verði til fyrirmyndar á heimsvísu í slíku tilliti.

Til máls tóku Garðar Vignisson og Sveindís Valdimarsdóttir.
Ályktun um byggingu álvers í Helguvík samþykkt með meginþorra atkvæða og tveir móti.

Ályktun um  þróun atvinnumála á Keflavíkurflugvelli

Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007  telur brýnt að fleiri sterkar stoðir séu settar undir atvinnulíf á svæðinu í kjölfar stærstu hópuppsagna í sögu þjóðarinnar.

Fundurinn leggur áherslu á að þekking starfsmanna á sérfræði og tæknistörfum á Keflavíkurflugvelli í kringum loftvarnir, flugbrautir og almenna flugþjónustu verði áfram á svæðinu. Gríðarlegar fjárfestingar í búnaði og tækjum ber okkur að nýta og sú fjárfesting þarf að þróast og eflast til að taka á móti nýjum verkefnum í framtíðinni. Þá fagnar aðalfundurinn að sameina eigi ýmsar stofnanir sem koma til með að reka þessa starfsemi í framtíðinni.

Mikilvægt er að fjármunir vegna hreinsunar á fyrrum vallarsvæði verði tryggðir og að svæðið  verði gert vistvænt. Tryggt sé að tekjur af flugstarfsemi á Keflavíkurvelli verði nýttar til frekari uppbyggingar á svæðinu.

Til máls tóku Sigurður Valur Ásbjarnarson og Böðvar Jónsson.

Ályktun um þróun atvinnumála á Keflavíkurflugvelli samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um verkaskiptingu og fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Aðalfundur SSS, haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007, skorar á ríkisvaldið og Samband íslenskra sveitarfélaga að hefja nú þegar heildarendurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og skýra línur í þeim verkefnum þar sem málaflokkar eru á höndum beggja aðila.  Samhliða verði tekjustofnar og fjármál sveitarfélaga tekin til endurskoðunar með það að markmiði að styrkja fjárhag sveitarstjórnarstigsins í landinu þannig að sveitarfélögin geti sinnt lögbundnum skyldum um að veita öllum íbúum sínum þjónustu. Fundurinn telur að með einhliða setningu ýmissa laga og reglugerða hafi verið auknar kröfur á herðar sveitarfélaganna án þess að tekjustofnar hafi komið á móti.  Jafnframt krefst fundurinn þess að lagasetning Alþingis verði kostnaðarmetin og fjármagn fylgi með nýjum verkefnum.

Til máls tóku Böðvar Jónsson, Ólafur Örn Ólafsson og Grétar Mar Jónsson.

Ályktun um verkaskiptingu og fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga  samþykkt samhljóða með óorðnum breytingum

Ályktun um nýtingu fjármagns á Suðurnesjum

Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007 leggur ríka áherslu á  að þeir fjármunir sem urðu til vegna sölu ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja,  fjármagnstekjuskatts vegna söluandvirðis og sölu ríkisins af eignum á Keflavíkurflugvelli renni til uppbyggingar á Suðurnesjum  þar sem mörg krefjandi verkefni eru enn óunnin. Áhersla er lögð á að samráð sé haft við sveitarfélögin á Suðurnesjum við val á verkefnum og úthlutun fjármagns.
Til máls tóku Böðvar Jónsson og Garðar Vignisson.

Samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

Ályktun um vaxtarsamning.

Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007, ítrekar að ráðist verði í gerð vaxtarsamnings milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum og ríkisvaldsins. Slíkir samningar hafa í auknum mæli verið gerðir við aðra landshluta og hefur reynsla af þeim verið góð. 

Fundurinn leggur áherslu á að stjórn SSS hefji nú þegar viðræður við iðnaðarráðuneytið og vonar að gerð samnings taki skamman tíma þar sem jafnræði um gerð samninga hlýtur að ríkja milli landshluta og slíkir samningar standi þeim öllum til boða.

Samþykkt samhljóða.

Ályktun um samgöngumál.

Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007  leggur áherslu á við Alþingi að staðið verði við áður gefin loforð og að lokið verði við gerð Suðurstrandarvegar eigi síðar en 2009. Vegurinn er nauðsynleg tenging á milli atvinnusvæða og um leið mikilvæg vegtenging innan Suðurkjördæmis.

Fundurinn skorar á yfirvöld að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar auk ráðstafanna vegna reiðvega og umferðar hjólreiðafólks. Einnig að unnið verði að mislægum gatnamótum og vegtengingum við nýja byggð á Vallarheiði, áður herstöð, til að fyrirbyggja mikla slysahættu á Reykjanesbrautinni sem skapast þegar svæðið er tekið til almennings nota.

Þá leggur aðalfundurinn áherslu á að gerð Ósabotnavegar með bundnu slitlagi ljúki eigi síðar en 2008.  Fundurinn telur einnig mikilvægt að ljúka við breikkun á Grindavíkurvegi,  Sandgerðisvegi og að hafist verði handa við breikkun Garðskagavegar og Vogaafleggjara.  Mikil aukning umferðar á þessum vegum kallar á lausn hið fyrsta.  Þá vill fundurinn benda á mikilvægi þess að lýsa upp  stofnvegi á Suðurnesjum.

Aðalfundurinn skorar á yfirvöld að tryggja almenningssamgöngur á milli bæja á Suðurnesjum og til höfuðborgarsvæðisins.

Aðalfundur SSS fagnar fækkun slysa á Reykjanesbrautinni eftir að fyrsti hluti hennar var tvöfaldaður og leggur áherslu á að umferðaröryggismál hafi forgang í vegaframkvæmdum.

Til máls tóku Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, Einar Jón Pálsson, Ingþór Karlsson, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Guðjón Guðmundsson og Róbert Ragnarsson.

Ályktun um samgöngumál samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um nýjan framhaldsskóla á Suðurnesjum

Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007  telur tímabært að hugað verði að framtíðarþörf Fjölbrautaskóla Suðurnesja hvað varðar stækkunarmöguleika og að umræða vegna nýs framhaldsskóla hefjist sem alla fyrst.  Þá má í þessu samhengi minna á þá miklu fólksfjölgun sem á sér stað á svæðinu öllu.  Fundurinn telur brýnt að hefja vinnu að stofnun framhaldsskóla í Grindavík auk þess sem áfram verði staðið að uppbyggingu framhaldsskólastarfs á Vallarheiði.

Til máls tóku Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, Böðvar Jónsson, Róbert Ragnarsson, Sveindís Valdimarsdóttir, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Sigmar Eðvarðsson, Birgir Örn Ólafsson, Guðbrandur Einarsson, Árni Sigfússon, Oddný Harðardóttir.

Ályktun um nýjar framhaldsskóla á Suðurnesjum samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar.

Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007, ítrekar að vegna niðurskurðar í þorskveiði á þessu kvótaári sé mikilvægt að ríkisvaldið vinni með sveitarfélögunum á Suðurnesjum við eflingu atvinnulífs og uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra þar sem skerðing er fyrirsjáanleg.
Kvótaskerðingin á Suðurnesjum er með því mesta sem einstök landssvæði verða nú fyrir.

Fundurinn skorar á ríkistjórn Íslands og þingmenn kjördæmisins að ef farið verður út í frekari mótvægisaðgerðir en hafa verið boðaðar, munu þær ganga jafnt yfir öll sveitarfélög á landinu í hlutfalli við skerðinguna.

Til máls tóku Böðvar Jónsson, Grétar Mar Jónsson og Ólafur Örn Ólafsson

Samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

Ályktun um löggæslumál

Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 10. nóvember 2007 telur mjög mikilvægt að undirbúningur að byggingu húsnæðis fyrir aðalstöðvar lögreglunnar á Suðurnesjum verði flýtt og bygging þess verði að fullu lokið eigi síðar en árið 2009.  Þar með verði starfssemin komin undir eitt þak en húsnæðismálin nú eru í miklum ólestri. 
Verkefni lögreglunnar á Suðurnesjum eru enn að aukast með fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll og auknum umsvifum þar.  Ljóst er að treysta þarf rekstrargrundvöllinn þannig að verkefnin sem tengjast flugstöðinni hafi ekki þau áhrif að embættið hafi ekki styrk til að sinna sem skyldi þjónustu og lögregluverkefnum annars staðar.  Þá hafa verkefnin einnig stóraukist vegna fjölgunar íbúa á Suðurnesjum.  Algjört skilyrði er að rekstrargrunsvöllurinn sé þannig að lögreglan hafi a.m.k. sama fjölda lögreglumanna og var fyrir sameiningu lögreglunnar  á Keflavíkurflugvelli og lögreglunnar í Keflavík, en í dag vantar mikið upp á að svo sé. 

Til máls tók Sveindís Valdimarsdóttir.

Ályktun um löggæslumál  samþykkt samhljóða.

Ályktun um heilbrigðis- og öldrunarþjónustu á Suðurnesjum

Aðalfundur SSS, haldinn í hátíðarsal Keilis, Reykjanesbæ, 10. nóvember 2007, skorar á heilbrigðisráðherra að tryggja örugga og góða þjónustu HSS við alla íbúa Suðurnesja. Gríðarleg fjölgun íbúa hefur verið á Suðurnesjum á síðustu árum og virðist ekkert lát vera á. Opinber þjónusta á borð við heilsugæslu og sjúkrahússtarfsemi verður að taka mið af slíkum samfélagsbreytingum og auka starfsemi stofnunarinnar samhliða fjölgun íbúa bæði í aðalstöðvum í Reykjanesbæ sem og í útibúum/selum í öllum öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Í því samhengi er sólarhringsvakt á skurðstofum grundvallarkrafa sveitarstjórna á Suðurnesjum. Jafnframt er nauðsynlegt að stofnunin fái fjármagn til þess að viðhalda fasteignum sínum þannig að þær séu umhverfi sínu og samfélagi skammlausar.
Þrátt fyrir fyrirheit ríkisvaldsins um nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ hafa mál lítið sem ekkert þokast áfram á síðustu tveimur árum. Hönnun og bygging hjúkrunarheimilis er í algjörri óvissu á meðan biðlistar lengjast og vandamálin aukast. Íbúar Suðurnesja geta ekki sætt sig við ítrekaða frestun framkvæmda og skorar aðalfundur SSS á nýjan heilbrigðisráðherra að koma málum í þann farveg að framkvæmdir geti hafist strax. Sveitarstjórnir á Suðurnesjum lýsa sig tilbúnar til þess að koma að samningum við ríkisvaldið um fjármögnun og framkvæmdir þannig að uppbygging geti orðið hraðari en ella yrði. Þá leggur aðalfundurinn áherslu á áframhaldandi og vaxandi starfsemi Víðihlíðar í Grindavík og Garðvangi í Garði og að lagfæringar verði gerðar, þannig að heimilið uppfylli eðlilegar kröfur um rými og aðstöðu heimilismanna.
Aðalfundurinn ítrekar að nú liggi fyrir nægjanleg reynsla varðandi reynslusveitarfélögin um rekstur heilsugæslu og ekkert til fyrirstöðu að heimila þeim sveitarfélögum, sem þess óska, að yfirtaka rekstur heilsugæslu.

Til máls tóku Einar Jón Pálsson, Sigmar Eðvarðsson, Sveindís Valdimarsdóttir, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Árni Sigfússon og Björk Guðjónsdóttir

Ályktun um heilbrigðis-og öldrunarmál á Suðurnesjum samþykkt samhljóða.

Ályktun um rekstur og fjárhagsstöðu hafna

Aðalfundur SSS, haldinn í hátíðarsal Keilis, Reykjanesbæ, 10. nóvember 2007, skorar á ríkisvaldið að bregðast þegar við miklum fjárhagsvanda hafna landsins.  Rekstur hafnasjóða vítt og breytt um landið er óviðunandi og hafa safnast upp miklar skuldir.
Í ljósi niðurskurðar á aflaheimildum í þorski á þessu kvótaári, er nauðsynlegt að ríkisvaldið mæti miklum rekstrar og skuldavanda hafnanna með sérstöku framlagi til þeirra.  Lögð er áhersla á að í sértækum aðgerðum verði mið tekið af áhrifum vegna kvótaskerðingar á löndunarhafnir og sveitarfélög á svæðinu.

Ályktun um rekstur og fjárhagsstöðu hafna samþykkt samhljóða.

15. Önnur mál.
Sveindís Valdimarsdóttir tók til máls og  lagði fram eftirfarandi tillögu:
”Undirrituð leggur til að Náttúruverndarnefnd Suðurnesja verði vakin af værum svefni”
Tillagan samþykkt samhljóða.
Guðbrandur Einarsson tók til máls og gerði athugasemdir við að lítið hefði verið gert úr afhendingu undirskriftalista í hádeginu í dag.
Til máls tóku Steinþór Jónsson og Árni Sigfússon
Guðbrandur Einarsson lagði fram svohljóðandi tillögu:
”Nú liggur fyrir niðurstaða í undirskriftasöfnun sem gerð var meðal íbúa á starfssvæði Hitaveitu Suðurnesja.  Þessi söfnun var gerð fyrir tilstilli og að frumkvæði einstaklings héðan af Suðurnesjum og hefur skilað rúmum 5 þúsund undirskriftum kosningabærra manna á rúmri viku.
Þetta er rúmur helmingur þeirra sem neyttu atkvæðisréttar í síðustu kosningum og skýr skilaboð til kjörinna fulltrúa í viðkomandi sveitarfélögum.  Ljóst er að íbúar eru ósáttir við þá atburðarás sem átt hefur sér stað í málefnum HS undanfarna mánuði, sem m.a. hafði það í för með sér að sveitarfélög önnur en Reykjanesbær seldu nánast allan hlut sinn í HS.  Það er skýr vilji íbúa að þeir vilja að sveitarstjórnarmenn sameinist um það að snúa þessari þróun við og sjá til þess að Hitaveita Suðurnesja verði áfram í eigu sveitafélaganna. 
Aðalfundur SSS samþykkir að leggja til við þau sveitarfélög sem hlut eiga í Hitaveitu Suðurnesja að þau tilnefni tvo fulltrúa, einn frá meirihluta og einn frá minnilhluta, í nefnd sem verði falið það verkefni að leita leiða til þess að koma til móts við óskir íbúa sem birtast í þessari undirskriftarsöfnun sé þess nokkur kostur”.
Tillögu Guðbrands Einarsson vísað til stjórnar SSS.

16. Tilnefning fulltrúa í menningarráð Reykjaness:

Reykjanesbær
Aðalmaður: Steinþór Jónsson
Varamaður: Guðný Ester Aðalsteinsdóttir

Grindavíkurbær
Aðalmaður: Jóna Kristín Þorvaldsdóttir
Varamaður: Óskar Sævarsson

Sandgerðisbær 
Aðalmaður: Hólmfríður Skarphéðinsdóttir
Varamaður: Gunnlaug Finnsdóttir

Sveitarfélagið Garður 
Aðalmaður: Erna Sveinbjarnardóttir 
Varamaður: Ásgeir Hjálmarsson

Sveitarfélagið Vogar:
Aðalmaður: Birgir Örn Ólafsson
Varamaður: Róbert Ragnarsson

 

 

 

17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær:
  Aðalmaður: Garðar K. Vilhjálmsson
  Varamaður: Guðny Ester Aðalsteinsdóttir

Grindavíkurbær:
  Aðalmaður: Jóna Kristín Þorvaldsdóttir
  Varamaður: Garðar Páll Vignisson

Sandgerðisbær:
  Aðalmaður Óskar Gunnarsson
  Varamaður: Sigurður Valur Ásbjarnarson

Sveitarfélagið Garður:
  Aðalmaður: Oddný Harðardóttir
  Varamaður: Arnar Sigurjónsson

Sveitarfélagið Vogar:
  Aðalmaður: Birgir Örn Ólafsson
  Varamaður: Róbert Ragnarsson

18. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.

Aðalmenn: Hjörtur Zakaríasson
  Dóróthea Jónsdóttir

Varamenn: Sigurbjörg Eiríksdóttir
  Brynja Kristjánsdóttir

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum gott samstarf og fékk formanni S.S.S.  Steinþóri Jónssyni orðið sem þakkaði starfsfólki fundarins og fundarmönnum fundarsetuna.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.50

 

__________________________  _______________________________
Björk Guðjónsdóttir fundarstjóri   Jóhanna M. Einarsdóttir fundarskrifari