fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Heildarfasteignagjöld eru þriðju hæst í Reykjanesbæ

Heildarfasteignagjöld eru þriðju hæst í Reykjanesbæ og þar er lóðarleiga hæst.

Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um samanburð á fasteignagjöldum heimila árið 2020.

Í krónutölum er fasteignaskattur hæstur á Ísafirði, 210 þ.kr. á ári eða 134% hærri en á Patreksfirði sem er lægst með 88 þ.kr. á ári.

Lóðarleiga í Reykjanesbæ er 126 þ.kr. sem er 38,7% hærra en í Grundarfirði þar sem næst hæsta lóðarleigan er, 91 þ.kr. á ári. Álagningin í Reykjanesbæ er 1,75% af lóðarmati á móti 1,9% í Grundarfirði. Lægst er lóðarleigan í Kópavogi miðað við krónutölu tæpar 17 þ.kr. á ári og er því lóðarleigan í Reykjanesbæ rúmlega 600% hærri en lóðarleigan í Kópavogi.

Fráveita er lægst í Grindavík eða 27 þ.kr. á ári en hæst á Egilstöðum  119 þ.kr. sem er 234% hærra en í Grindavík. Á Egilsstöðum er álagningin 0,32% af heildarmati en í Grindavík er álagningin 0,09% af heildarmati.

Hæst er vatnsgjaldið á Neskaupsstað, Siglufirði, Hvolsvelli og Patreksfirði, um 78 þ.kr. Álagningin á Neskaupsstað er 0,294% af heildarmati. Hveragerði er með áberandi lægsta vatnsgjaldið, rúmar 9 þ.kr. Því er vatnsgjaldið á fjórum dýrustu svæðunum 760% hærra en í Hveragerði þar sem álagningin er 0,02% af heildarmati.

Sorpgjald er hæst á Selfossi 65 þ.kr. en þar miðast gjöldin við þriggja tunnu kerfi sem er ein 240 lítra tunna af óflokkanlegu sorpi, ein 240 lítra tunna af endurvinnanlegu sorpi og ein 120 lítra tunna fyrir lífrænt sorp. Allar tunnur eru losaðar á þriggja vikna fresti. Lægst er gjaldið á Seyðisfirði tæpar 29 þ.kr. Gjaldið þar miðast við eins þriggja tunnu kerfi og á Selfossi, nema losun er á fjögurra vikna fresti fyrir utan það lífræna, sem losað á tveggja vikna fresti frá páskum og fram að hausti. Gjaldið á Selfossi er 128% hærra en á Seyðisfirði.

Skýrsluna má nálgast hér