fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Öryggiskrossinn verðlaunaður í Ræsingu Suðurnesja

Öryggiskrossinn, verkefni fyrirtækisins Mannvirki og malbik ehf. varð hlutskarpast í Ræsingu Suðurnesja þar sem keppt var um bestu viðskiptaáætlunina og hlaut eina milljón króna að launum til þróunar og markaðssetningar á vörunni.

Níu metnaðarfull verkefni tóku þátt í Ræsingu Suðurnesja, átaksverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands,  Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja.

Ræsing er samkeppni um góðar viðskiptahugmyndir, þar sem einstaklingum, hópum og fyrirtækjum er boðin þátttaka í stuttum hraðli. Þátttakendur fengu 8 vikur til þess að kortleggja viðskiptahugmynd sína með aðstoð og stuðningi frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Heklunni. Auk þess bauðst þátttakendum að sitja námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja, að þiggja einstaklingsráðgjöf og flytja fjárfestakynningu í lok verkefnisins.

Öryggiskrossinn er hagkvæmari og umhverfisvænni leið til að merkja flugbrautir sem unnið er að endurbótum á, að þannig að staðan brautanna sjáist úr lofti.

Fyrirtækið er í eigu Sigurðar Inga Kristóferssonar sem fer með rekstur þess og stjórnun ásamt eiginkonu sinni, Hönnu Maríu Kristjánsdóttur. Flugsamgöngur hafa aukist gríðarlega á síðustu áratugum og gera enn, og kallar það á stöðugar endurbætur flug- og akbrauta. Slíkar endurbætur þurfa að uppfylla ströng skilyrði sem alþjóðlegar reglugerðir kveða á um. Öryggismerkingar sem bæði uppfylla skilyrði reglugerða og virka þegar búið er að koma þeim fyrir, eru af skornum skammti. Oftast eru merkingarnar málaðar á flugbrautirnar en því fylgir sá ókostur að það þarf að mála og fjarlægja málninguna endurtekið á meðan framkvæmdum stendur. Það er bæði mengandi fyrir umhverfið og styttir endingartíma flugbrautanna. Þau hjónin Sigurður og Hanna María reka fyrirtækið saman og tóku á móti verðlaunafénu.

Aðrir frumkvöðlar sem luku þátttöku og voru verðlaunuð fyrir framúrskarandi viðskiptaáætlanir og spennandi viðskiptahugmyndir voru; Bogi Jónsson með verkefnið Mermaid – Geothermal Seaweed Spa, sem fjallar um að bjóða upp á lúxus heilsulind og þaraböð við Garðskaga á Reykjanesi. Sigurbjörg Gunnarsdóttir með verkefnið Hreyfisport, sem er fyrirtæki sem býður upp á heilsueflandi skrifstofulausnir. Þóra Björk Ottesen sem vinnur að stofnun Griðastaðar, þjónustumiðstöð fyrir börn sem orðið hafa fyrir og/eða horft upp á heimilisofbeldi og Garðar Ingi Reynisson með verkefnið Night Sky Spa sem er dekur og spa þjónusta í einstöku umhverfi sem innbláið er af íslenskum kennileitum.