fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

33. Aðalfundur SSS 11. september 2010

33. aðalfundur S.S.S. haldinn í Hópsskóla í Grindavík
laugardaginn 11.  september 2010

Dagskrá:
Kl. 09:00 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 09:30 2. Fundarsetning: Sigmar Eðvardsson formaður SSS
3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
4. Skýrsla stjórnar: Sigmar Eðvardsson formaður SSS
5. Ársreikningur SSS fyrir árið 2009 – Anna Birgitta Geirfinnsdóttir.
6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Kl. 10:00 7. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Kl 10:15  8. Kynning á uppbyggingu atvinnusvæða í tengslum við nýtt svæðisskipulag – Ásmundur Friðriksson, Kjartan Eiríksson og Stefán G. Thors.
  Fyrirspurnir og umræður.
Kl 10:55           9. Málefni fatlaðra – yfirfærsla til sveitarfélaga – Einar Njálsson.
  Fyrirspurnir og umræður.
KL.11:25 10. Framtíð S.S.S. – Birgir Örn Ólafsson.
  Fyrirspurnir og umræður.
Kl. 12:00  Hádegisverðarhlé.
Kl. 13:00 11. Ávarp ráðherra sveitarstjórnarmála Ögmundur Jónasson.
Ávarp Guðjón Bragason – sviðsstjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.
  Ávörp gesta.
13:25 12. Undirbúningur aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins. – Stefán Haukur Jóhannesson.
13:55 13. Efling sveitarstjórnarstigsins – Sigurður Tómas Björgvinsson.
  Fyrirspurnir og umræður.
14:55  Kaffihlé
15:20 14. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
15. Önnur mál.
16. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
17. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
Kl. 17:00 18. Áætluð fundarslit.
Kl. 20:00  Kvöldverður  í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka. – Lava sal Bláa lónsins.

Réttur áskilinn til breytinga á dagskrá
1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls 42  sveitarstjórnarmenn (aðal og varamenn)  frá  Reykjanesbæ  11,    frá Grindavík  10,   frá Sandgerði  7,   frá Sveitarfélaginu Garði  7,  frá Sveitarfélaginu Vogum 7.

Gestir  og frummælendur á fundinum  voru: Ögmundur Jónsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, Kjartan Eiríksson,  Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Stefán G. Thors, VSÓ,  Einar Njálsson, Félags- og tryggingamálaráðuneytið, Guðjón Bragason, Samband íslenskra sveitarfélaga, Stefán Haukur Jóhannesson, Utanríkisráðuneytið, Sigurður Tómas Björgvinsson,  Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Oddný Harðardóttir, Alþingi, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Alþingi, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Alþingi, Unnur Brá Konráðsdóttir, Alþingi, Eygló Harðardóttir, Alþingi, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, Deloitte, Magnús Guðjónsson H.E.S,  Kristján Ásmundsson F.S.  Sigurður Skarphéðinsson, Brunavarnir Suðurnesja, Ellert Grétarsson, Víkurfréttir auk áheyrnafulltrúa í nefnd um yfirfærslu málefna fatlaðra.

2. Fundarsetning.
Sigmar Eðvardsson, formaður S.S.S. setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um Vilhjálm Árnason og  Kristínu Maríu Birgisdóttur sem fundarstjóra og voru þau sjálfkjörin.
Uppástunga kom um  Hilmar Helgason og Lovísu Hilmarsdóttur sem fundarritara, voru þau sjálfkjörin. 
Lagt var til að Björk Guðjónsdóttir yrði sett sem skrifari fundarins.

Vilhjálmur Árnason tók við fundarstjórn.

4. Skýrsla stjórnar.
Sigmar Eðvardsson,  formaður S.S.S. flutti skýrslu stjórnar:

Á 32. aðalfundur SSS sem haldinn var í Fjölbrautaskóla Suðurnesja  þann 17. október 2009 voru eftirtaldir kjörnir í stjórn sambandsins:

Birgir Ólafsson, Vogum
Laufey Erlendsdóttir, Garði
Óskar Gunnarsson, Sandgerði
Garðar K. Vilhjálmsson, Reykjanesbæ og
Petrína Baldursdóttir, Grindavík en Sigmar Eðvardsson, Grindavík, tók við af Petrínu í desember 2009 og hefur gengt embætti formanns þetta starfsárið.

Stjórnin hélt 13  stjórnarfundi á starfsárinu. Fjölmörg mál hafa verið tekin til afgreiðslu og verður nú stiklað á stóru í þeim helstu málum sem voru á borði stjórnarinnar sl. ár.

Mikil umræða hefur verið hjá okkur sveitarstjórnarmönnum um framtíð S.S.S. og hvort þetta samstarf skili þeim árangri sem til er ætlast.
Sitt sýnist hverjum eins og gengur. Sveitarfélögin taka misjafnan þátt í samstarfinu í dag, sum taka þátt í öllum verkefnum og önnur að hluta. Misjafnt er hvað hvert sveitarfélag fær út úr samstarfinu, en það er eitthvað sem tekur mið af íbúafjölda og fjarlægðum.

Á síðasta aðalfundi var lagt til að stjórn S.S.S. skipaði vinnuhóp sem kortleggði allt samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum, kynni sér mismunandi samstarfsform og leggi síðan fram hugmyndir til umræðu á málþingi um samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Hvert sveitarfélag skipaði 2 fulltrúa og  Framtíðarnefnd SSS varð til. Strax á fyrstu fundum Framtíðarnefndarinnar kom fram, að lítill áhugi væri meðal kjörinna fulltrúa að sameina sveitarfélögin á svæðinu, heldur beri að auka samstarfið og efla starfsemi S.S.S.  Gera það skilvirkara til að vera öflugra stjórntæki sveitarfélaganna og vera betur í stakk búið til að taka yfir sameiginleg verkefni frá ríkinu í framtíðinni.

Atvinnumál
Atvinna og atvinnuuppbygging er það sem skiptir mestu máli fyrir sveitarfélögin hér á svæðinu sem og annars staðar.  Vegna þessarra erfiðu tíma í atvinnumálum ákvað stjórn S.S.S. að leggja einungis fram eina ályktun hér á þessum aðalfundi. Það er gert til þess að undirstrika alvarleika atvinnuástandsins hér á svæðinu.  Ekkert skiptir eins miklu máli, að allir vinna.

Þann 1. mars 2010 barst S.S.S. bréf frá Nefndasviði Alþingis ásamt tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum lýsti yfir stuðningi við frumvarp til laga um gagnaver í Reykjanesbæ.  “Sú neikvæða umfjöllun um eignarhald félagsins, hefur leitt umræðuna frá kjarna málsins, sem er uppbygging atvinnutækifæra á Suðurnesjum og fyrir landið í heild. Mikilvægt er, að unnið sé að verðmætasköpun og öflun nýrra atvinnutækifæra, í þeim tilgangi að reisa íslenskt efnahagslíf við eftir þrengingar síðustu ára”. Enn er lítið að gerast og stjórnvöld eru að þvælast fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum.

Ef skattahækkunar áform ríkistjórnarinnar ná fram að ganga má búast við að það geri út af við fyrirtæki og störf á svæðinu og er það graf alvarlegt.

Heilbrigðismál.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja var í brennideplinum í byrjun árs og ýmis hitamál þar á ferð.  Þann 5. febrúar síðastliðinn skoraði stjórn S.S.S. á Heilbrigðisráðherra að hefja án tafar viðræður við sveitarfélögin á Suðurnesjum um framtíð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Haldnir voru tveir fundir með Heilbrigðisráðherra, ásamt íbúafundi, en því miður án mikils árangurs.  Nú síðast boðaði Heilbrigðisráðherra til fundar þann 7. sept síðastliðinn, fulltrúa stjórnsýslustofnana, sveitarfélaga og heilbrigðisstofnana til að kynna nýja heilbrigðisáætlun til ársins 2020 við íbúa landsins. En sökum breytinga í skipan ráðherramála var fundurinn blásinn af.

Málefni fatlaðra
Í upphafi kjörtímabilsins var sú stefna mótuð á landsþingi að flytja bæri málefni fatlaðra og aldraðra frá ríki til sveitarfélaga. Að því hefur verið unnið skipulega í undirnefndum ríkis og sveitarfélaga og samræmingin er í sérstakri verkefnisstjórn.
Stjórn S.S.S. óskaði eftir því við sveitarfélögin að þau tilnefni einn mann hvert í verkefnisstjórn.   Auk þess að tilnefndir verða einn aðili frá Þroskahjálp og SMFR sem fulltrúar notenda í verkefnastjórn. Fyrsti fundur þessa hóps var haldinn í vikunni.

Vaxtarsamningur
Unnið hefur veriðað gerð vaxtarsamnings frá 2009 og var hann loks undirritaður í febrúar 2010.  Samningurinn er milli SSS og Iðnaðarráðuneytis.   Markmið samningsins er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins á starfssvæði Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins.  Ráðinn var starfsmaður til sambandsins til að sinna og halda utan um verkefnið auk þess að sjá um menningarsamninginn.

Sóknaráætlun
Forsætisráðuneytið og sambandið héldu þjóðfund á Suðurnesjum, laugardaginn 13. mars 2010.  Leitast  var við að draga fram styrkleika og sóknarfæri hvers svæðis og gera tillögur og áætlanir á grunni þeirra.  Sérstaða svæðisins skv. þátttakendum var m.a. alþjóðaflugvöllurinn, Ásbrú, Suðurnes sem ferðamannaparadís og Auðlindargarður við Reykjanesvirkjun.  Forsætisráðuneytið hefur fengið þessar niðurstöður til úrvinnslu og von er á að skýrsla ráðuneytisins verði gefin út í lok september.

Öldrunarmál
Viðurkennt er að Suðurnes eru langt að baki öllum öðrum landssvæðum hvað varðar fjölda hjúkrunarrýma sem hlutfall af íbúafjölda. Í dag eru þau komin niður í 84 rými vegna þess að þær þrjár stofnanir á Suðurnesjum sem eru starfandi eru að fjölga einbýlum enda ekki vanþörf á. Okkur er ekki lengur stætt á að bjóða öllum eldri borgurum að deila herbergi með öðrum. Samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofu Íslands er íbúafjöldi 67 ára+ 1.623 á Suðurnesjum með 84 hjúkrunarrými á meðan vesturland er með 221 rými og 1.665 íbúa 67 ára+ og suðurland með 260 rými og 2.555 íbúa 67 ára+ svo dæmi séu tekin.
Uppbygging 30 hjúkrunarrýma að Nesvöllum mun laga stöðuna eitthvað, en samt er enn langt í land.
Mikilvægt er að eignaraðilar innan DS sameinist um stefnu til næstu ára eða áratuga, þar sem uppbyggingar áform eru sett niður og þeim forgangsraðað í þeim tilgangi að kraftur og eftirfylgni sveitarstjórna sé í takt, þegar rætt er við ríkisvaldið um næstu verkefni á sviði öldrunarmála.

Kalka
Ekki er hægt að ljúka þessari yfirferð hér án þess að minnast á málefni Kölku þó svo að þau mál séu ekki beint inná borði stjórnar S.S.S. en hafa engu að síður verið rædd.
Á liðnu starfsári kom upp ágreiningur sveitarfélaganna um rekstur og rekstrarform Kölku og endaði sá ágreiningur með að stjórn Kölku tók þá ákvörðun að auglýsa Kölku til sölu eða óska eftir samstarfi. Það er skylduverkefni sveitarfélaga að sinna sorphirðu og sorpeyðingu. Þó svo að þetta sé kostnaðarsamt nú, á þessi kostnaður bara eftir að hækka  í framtíðinni.

Samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins verður bannað að urða sorp árið 2014.  Einungis þrjár brennslustöðvar eru á landinu, það er Ísafirði, Húsavík og Reykjanesbæ.
Það er alveg ljóst að ekkert af sveitarfélögunum á svæðinu er tilbúið að urða að hluta eða allt sorp frá hinum og ekki getum við ætlast til að okkar sorp verði urðað í einhverjum öðrum sveitarfélögum utan svæðisins. Ég vil því eindregið beina þeim tilmælum til ykkar kjörnu fulltrúa sem tekið hafa við, að hætta nú þegar við öll sölu áform og samþykkja þess í stað hluthafasamkomulag sem lá fyrir í júní 2008 svo koma megi rekstrarformi Kölku í viðunandi horf svo allir eigendur geta vel við unað.

Að lokum vil ég segja. Samstarfsvettvangur sem þessi er okkur nauðsynlegur. Innan stjórnar er að sjálfsögðu oft skoðanaágreiningur en ávallt málefnaleg umræða og gagnkvæm virðing. Stjórnarmönnum vil ég þakka ánægjulegt samstarf og fyrir hönd stjórnarinnar þakka ég starfsfólki sambandsins og framkvæmdastjóra góð störf og frábært samstarf.

5. Ársreikningar S.S.S. fyrir árið 2008.
Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri útskýrði ársreikning S.S.S. fyrir árið 2009.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning S.S.S.  enginn óskaði eftir að taka til máls. Ársreikningurinn var borinn undir atkvæði og var hann samþykktur.

7. Tillögur og ályktanir.
Fundarstjóri kynnti drög að ályktun stjórnar S.S.S.  um atvinnumál á Suðurnesjum. Árni Sigfússon, lagði fram og kynnti ályktun um atvinnumál. Róbert Ragnarsson lagði fram og kynnti ályktun um málefni fatlaðra. Einnig lagði Róbert fram og kynnti ályktun um Fisktækniskóla Íslands í Grindavík.

8. Kynning – nýtt svæðisskipulag.

Ásmundur Friðriksson  sagði m.a. að þar sem sveitarfélög ekki sameinast væri það ný sýn á samstarf sveitarfélaga að auka samstarfið með nýrri nálgun m.a. í  samstarfi um svæðisskipulög. Hann fjallaði um mikilvægi þess fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum  að skipuleggja sameiginleg atvinnusvæði og benti á fyrirmyndir í því sambandi frá nágrannalöndum okkar þar sem klasauppbygging í skipulagi hefur tekist vel.
Kjartan Eiríksson fjallaði m.a. um stefnumótunarþátt skipulagsmála,  um klasauppbyggingu í skipulagi og atvinnuþróun í tengslum við samgöngumannvirki.
Stefán  G. Thors fjallaði um kosti þess að hafa sameiginlegt svæðisskipulag og hvernig hægt er að nota það í þágu atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Hann benti á að þessi nálgun sem kynnt hefur verið um sameiginlegt svæðisskipulag í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum er ný nálgun á Íslandi.

Fyrirspurnir og umræður
Fundarstjóri gaf orðið laust, til máls tóku,
Sigmar Eðvardsson, Sigrún Árnadóttir, Róbert Ragnarsson, Ólafur Þór Ólafsson, Inga Sigrún Atladóttir og Ásmundur Friðriksson.

9.      Málefni fatlaðra – yfirfærsla til sveitarfélaganna.

Einar Njálsson verkefnastjóri flutti fundinum kveðjur Guðbjarts Hannessonar, ráðherra félags- og tryggingamála.
Einar fór yfir framvindu verkefnisins og fjallaði m.a. um þær lagabreytingar sem þurfa að koma til  vegna yfirfærslunnar. Hann fjallaði um fjárhagsramma yfirfærslunnar, þjónustumat og búsetureglugerð, starfsmannamál og meðferð fasteigna auk endurmats sem fara á fram árið 2014 um faglegan og fjárhagslegan árangur.

Fyrirspurnir og umræður.
Fundarstjóri gaf orðið laust, til máls tóku, Kristinn Jakobsson, Böðvar Jónsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Einar Njálsson og Róbert Ragnarsson.

10. Framtíðarsýn S.S.S.
Birgir Örn Ólafsson sagði að stjórn S.S.S. væri sammála niðurstöðum framtíðarnefndar  og telur að jafnvel mætti ganga lengra. Stjórnin telur að efla þurfi S.S.S.  og nýta öll sameiginleg tækifæri til að bæta þjónustu við íbúa sveitarfélaga á Suðurnesjum. Hann lagði fram tillögu fráfarandi stjórnar.

Fyrirspurnir og umræður.
Fundarstjóri gaf orið laust, til máls tóku, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Böðvar Jónsson, Páll Jóhann Pálsson, Friðjón Einarsson og Birgir Örn Ólafsson.

Fundarstjóri geri breytingar á dagskrá sem var samþykkt.
Oddný Harðardóttir 1. þingmaður Suðurkjördæmis ávarpaði fundinn og flutti kveðjur þeirra þingmanna í Suðurkjördæmi sem ekki sáu sér fært að mæta á fundinn. Auk þess fjallaði Oddný  um sameiginleg skipulagsmál sveitarfélaga á Suðurnesjum og menntamál.

Hádegisverðarhlé.

Kristín María Birgisdóttir tekur við fundarstjórn.

11. Ávarp frá ráðuneyti sveitarstjórnarmála.
Ögmundur Jónasson ráðherra sveitarstjórnarmála ræddi  málefni tengd Suðurnesjum og almennt um  sveitarstjórnarmál. Ráðherrann kom m.a.  inn á vegamál, staðbundið lýðræði, málefni fatlaðra, fjármál sveitarfélaga og eflingu sveitarstjórnarstigsins.

Ávarp Sambands ísl. sveitarfélaga
Guðjón Bragason sviðsstjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga ávarpaði fundinn og ræddi m.a. um yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna.

12. Kynning á undirbúningi aðildarviðræðna við EES.
Aðildarviðræður Ísland og Evrópusambandið – Stefán Haukur Jóhannesson.
Stefán fór yfir málið og hvatti sveitarstjórnarmenn til að kynna sér það vel hvort sem Ísland gengi inn eða ekki m.a. vegna þess að mikið af tilskipunum sem Ísland tekur  við vegna EES samningsins, þurfa sveitarfélögin að framkvæma. Hann fór yfir tímaáætlanir varðandi viðræðurnar og skipulag þeirra, samningskafla og byggðamálin.

13.  Efling sveitarstjórnarstigsins.
Sigurður Tómas Björgvinsson fór yfir störf nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem byggir á  yfirlýsingu fyrrverandi ráðherra sveitarstjórnarmála Kristjáns Möller og Halldórs Halldórssonar formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fram koma að verið væri að leggja lokahönd á skýrslu sem verður kynnt á þingi sveitarstjórnarmanna á Akureyri í lok september. Að lokum kynnti hann hugmyndir að sameiningarmöguleikum á Suðurnesjum.

Fyrirspurnir og umræður.
Fundarstjóri gaf orðið laust, til máls tók, Einar Jón Pálsson.

Kaffihlé fellt niður.

14. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.

Þær tvær ályktanir um atvinnumál sem höfðu verið kynntar voru dregnar til baka og aðilar sameinuðust um að leggja eftirfarandi ályktun fram.

Ályktun um atvinnumál á Suðurnesjum

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Grindavík 11. september 2010, skorar á Alþingi og ríkisstjórn að tryggja eðlilegan framgang atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.
Tafir á afgreiðslu raflínulagna, virkjanaleyfa, skattabreytinga vegna gagnavera, leyfa til nýtingar skurðstofa og  fyrirgreiðslu við hafnarframkvæmdir eru alvarleg dæmi sem hafa stórskaðað uppbyggingu Suðurnesjamanna.
Aðalfundurinn beinir þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnarinnar að hún greiði leiðir til uppbyggingar nýrra atvinnutækifæra á svæðinu og að Suðurnesjamenn fái byr í seglin þegar unnið er að nýjum tækifærum í þágu íbúa.
Atvinnuleysi á Suðurnesjum er það mesta á landinu, auk þess sem meðaltekjur íbúa á svæðinu eru með því lægsta sem gerist á landinu. Þörfin fyrir uppbyggingu og ný störf er því  mjög knýjandi. Fundurinn beinir þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnar og Alþingis að þau standi vörð um störf á Suðurnesjum og leggist á árarnar með sveitarstjórnarmönnum, verkalýðsfélögum, atvinnurekendum og íbúum á svæðinu og stuðli að nýjum atvinnutækifærum.
Milljarða hagnaður bæði af sölu ríkisins á Hitaveitu Suðurnesja og sölu á eignum á fyrrum varnarsvæði hefur verið lagður inn í ríkissjóð án þess að Suðurnesjamenn fái notið hans til atvinnuuppbyggingar. Þetta gerist á sama tíma og hér er erfiðasta atvinnuástand á landinu og fjölbreytt og vel launuð atvinnutækifæri bíða afgreiðslu stjórnvalda.
Enn er minnt á að 1100 manns misstu atvinnu sína þegar varnarliðið fór í undanfara efnahagskreppu og að hér er enn mesta  atvinnuleysi á landinu. Fjármunir, sem fengust fyrir sölu eigna á varnarsvæðinu,  hafa runnið í ríkissjóð svo milljörðum skiptir í stað þess að hafa verið nýttir í skapa grunn að vel launuðum störfum fyrir atvinnulausa íbúa Suðurnesja.
Þau atvinnutækifæri sem unnið hefur verið að á undanförnum árum á Suðurnesjum s.s. álver, kísilver, gagnaver, ECA flugverkefni, einkasjúkrahús, Fiskvinnsluskólinn  og skólasamfélagið Keilir geta skapað þúsundir starfa á næstu mánuðum  og stórbætt efnahag þjóðarinnar allrar um leið og staða íbúa og sveitarfélaga á Suðurnesjum gjörbreytist til hins betra.

Fundarstjóri gaf orðið laust, til máls tóku, Eirný Valsdóttir, Sigrún Árnadóttir, Einar Jón Pálsson, Friðjón Einarsson, Árni Sigfússon, Laufey Erlendsdóttir, Hjörtur Guðbjörnsson, Inga Sigrún Altadóttir, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir og Ólafur Þór Ólafsson.
Ályktunin samþykkt.

Vilhjálmur Árnason tók við fundarstjórn.

Ályktun um málefni fatlaðra.

Ályktun aðalfundar SSS 11. september 2010  haldinn í Hópsskóla í Grindavík vegna flutnings á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um stöðu og framkvæmd á málefnum fatlaðra leggur aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum til að flutningi ábyrgðar á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga verði frestað um eitt ár og að undirbúningsvinnu verði haldið áfram af krafti og lokið tímanlega fyrir áramótin 2011-2012.

Unnið hefur verið að undirbúningi að flutningi málefna fatlaðra undanfarin 3 ár, en málið á sér lengri forsögu og hefur verið í umræðunni allt frá árinu 1992 án þess að endanleg niðurstaða hafi fengist. Í mars 2009 var undirrituð Viljayfirlýsing milli ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Í þeirri viljayfirlýsingu er lagt upp með ákveðna verk- og tímaáætlun sem felur í sér að sveitarfélögin taki við ábyrgð á verkefninu árið 2011.

Ljóst er að sú tímaáætlun hefur ekki staðist og mörg veigamikil verkefni eru enn óleyst, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Sem dæmi má nefna að ekki hafa öll lagafrumvörp verið afgreidd, svo sem um réttindagæslu fatlaðs fólks og eftirlit með þjónustu. Ný búsetureglugerð er ekki tilbúin og ekki hafa öll sveitarfélög staðfest ný þjónustusvæði.

Skýrsla ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlaða sem gefin var út í ágúst síðastliðnum gefur auk þess vísbendingar um að ekki sé farið að lögum í framkvæmd á málefnum fatlaðra í dag. Þær vísbendingar kalla á að umræða fari fram um málaflokkinn á Alþingi og innan ríkisstjórnarinnar, ekki síst m.t.t. hvort fjárframlög til málaflokksins séu nægileg. Ríkisendurskoðun bendir jafnframt á að ekki hafa verið skilgreindir mælikvarðar til að nota við endurmat árið 2014 eins og lagt er upp.

Við verkefnaflutninginn eykst ábyrgð sveitarstjórnarmanna mikið, bæði gagnvart notendum þjónustunnar og starfsmönnum. Aðalfundur SSS telur ekki ábyrgt að taka við verkefninu í þeirri óvissu sem nú ríkir. Það er hvorki notendum þjónustunnar né starfsmönnum til hagsbóta.

Fundarstjóri gaf orðið laust,  til máls tóku, Róbert Ragnarsson og Bryndís Gunnlaugsdóttir.
Samþykkt að vísa ályktuninni til stjórnar.

Ályktun um Fisktækniskóla Íslands.

Ályktun aðalfundar SSS 11. september 2010 haldinn í Hópsskóla í Grindavík um Fisktækniskóla Íslands.

Aðalfundur SSS hvetur Alþingi og menntamálaráðherra til að veita Fisktækniskóla Íslands viðeigandi stöðu sem skóli á framhaldsstigi, enda er skólinn stofnaður á grundvelli laga um framhaldsskóla og framhaldsfræðslu.

Fisktækniskóli Íslands er stofnaður af Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Grindavíkurbæ,  mennta- og fræðsluaðilum á Suðurnesjum og einstaklingum, auk fyrirtækja og stéttarfélaga á Suðurnesjum á sviði fiskeldis, veiða og vinnslu sjávarafla. Fisktækniskóli Íslands í Grindavík hefur nú þegar sannað gildi sitt, en nemdur eru nú 45 talsins af öllum Suðurnesjum.

Markmið skólans er:

• Að stuðla að fjölbreyttri fræðslu og þjálfun á sviði fiskeldis, veiða og vinnslu sjávarafla á framhaldsskólastigi auk endurmenntunar.

• Að hvetja til rannsókna og þróunarstarfs á sviði menntunar í sjávarútvegi og fiskeldi.

• Að efla fagþekkingu í greininni

• Vera ráðuneytum til aðstoðar við uppbyggingu og skipulag náms og fræðslu.

• Stuðla að samstöðu fagaðila um verkefnið

• Að auka nýliðun í greininni.

• Vinna að og styrkja námsefnisgerð

• Stuðla að öflugu kynningarstarfi

• Stuðla að öflugu þróunarstarfi

• Hvetja fyrirtæki í greinni til að taka nema

• Styðja fyritæki í fiskeldi, veiðum og vinnslu sjávarafla til að taka á mót nemum.

Samþykkt að vísa ályktuninni til stjórnar.

Tillaga um samstarf S.S.S.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Grindavík 11. september 2010 felur stjórn Sambands sveitarfélga á Suðurnesjum að hefja vinnu á breytingum  á starfsemi sambandsins í anda tillögu framtíðarnefndar og fráfarandi stjórnar S.S.S. Aðalfundurinn tekur undir og ítrekar mikilvægi samvinnu sveitarfélaga á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Nauðsynlegt er að fara í breytingar á skipulagi stjórnar S.S.S. nefnda þess, fyrirtækja og stofnana til að efla og nútímavæða sambandið. Markmið þessara breytinga er að stuðla að sjálfbærni svæðisins, hagræði og bættri þjónustu fyrir íbúa þess.

Fundarstjóri gaf orið laust. Engin óskaði eftir að taka til máls.
Tillagan samþykkt..

15. Önnur mál
Engin mál komu fram.

16. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
Reykjanesbær
  Aðalmaður: Gunnar Þórarinsson
  Varamaður: Árni Sigfússon

Grindavíkurbær:
  Aðalmaður: Bryndís Gunnlaugsdóttir
  Varamaður: Páll Jóhann Pálsson

Sandgerðisbær:
  Aðalmaður: Ólafur Þór Ólafsson 
  Varamaður: Sigursveinn Bjarni Jónsson

Sveitarfélagið Garður:
  Aðalmaður: Einar Jón Pálsson
  Varamaður: Brynja Kristjánsdóttir

Sveitarfélagið Vogar
  Aðalmaður; Inga Sigrún Atladóttir
  Varamaður: Hörður Harðarson

17. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.

Aðalmenn Hjörtur Zakaríasson
  Jón Þórisson

Varamenn Sigurbjörg Eiríksdóttir
  Dóróthea Jónsson

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum gott samstarf og fékk formanni S.S.S.  Sigmari Eðvardssyni orðið sem óskaði nýrri stjórn velfarnaðar í vandasömum störfum sínum.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.15
    

Björk Guðjónsdóttir
     fundarskrifari.