fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

34. Aðalfundur SSS 7. október 2011

34. aðalfundur S.S.S. haldinn í Stapa Reykjanesbæ
föstudaginn 7. og laugardaginn 8.  október 2011

Dagskrá:

Föstudagur 7. október 2011.

Kl. 14:00  1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 14:30  2. Fundarsetning.
   3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
   4. Skýrsla stjórnar:  Gunnar Þórarinsson, formaður S.S.S.
   5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2010,
    Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, endurskoðandi.
   6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
   7. Ávörp gesta.
    Sigurður Ingi Jóhannsson, 3. þingmaður Suðurkjördæmis
    Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
Kl. 15:30  8. Skýrslur stjórna.
    Vaxtarsamningur Suðurnesja.
    Menningarsamningur Suðurnesja.
    Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja.
    Málefni fatlaðra.
Kl. 15:50  9. Sorpeyðingarstöð Suðurnesja.- Kynning á stöðu mála.
Kl. 16:00  10. Kaffihlé.

Kl. 16:10  11. Tillögur og ályktanir lagðar fram.

Kl. 16:20  12. Umræður.          
Kl. 17:00  13. Fundi frestað.

Kl. 17:15   Afhending styrkja úr Menningarsamningi Suðurnesja.


Laugardagur 8. október 2011.

AÐALFUNDUR S.S.S. – FRAMHALD

Kl.   9:30           –  Morgunkaffi  –
Kl. 10:00  14. Kynning á svæðisskipulagi Suðurnesja.
         Stefán Gunnar Thors, VSÓ verkfræðistofu.
    Umræður um svæðisskipulag Suðurnesja.
Kl.  11:00  15. Samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum
    Kynning á hugmyndum um breytt samstarf.
         Gunnar Þórarinsson formaður S.S.S.
         Ólafur Þór Ólafsson varaformaður S.S.S.
 
Kl. 12:00  16. Ávarp frá Innanríkisráðuneytinu.
     Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.

Matarhlé.

Kl. 13:30  17. Umræður um kynningu á hugmyndum um breytt samstarf.
Kl. 14:30  18. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
Kl. 15:00  19. Önnur mál.
Kl. 15:30  20. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
   21. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
  
Kl.  16:00  22. Áætluð fundarslit.

   
Kl.  19:30   Kvöldverður í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka í.
    Oddfellow salnum,  Grófinni – Reykjanesbæ.

Áskilinn er réttur til að víkja frá boðaðri dagskrá.

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls 37 sveitarstjórnarmenn (aðal og varamenn) frá Reykjanesbæ 11, frá Grindavík 7, frá Sandgerði 8, frá Sveitarfélaginu Garði 7, frá Sveitarfélaginu Vogum 4.

Gestir og frummælendur á fundinum  voru: Robert Jennings, Stækkunardeild ESB, Gunnlaugur Júlíusson, Samb. Ísl. Sveitarfélaga, Stefán G. Thors, VSÓ, Þorkell Magnússon, Kannon arkitektar, Stefanía Traustadóttir, innanríkisráðuneytið, Hjördís Árnadóttir, Reykjanesbæ, Hjörtur Zakaríasson, Reykjanesbæ, Jóhanna Reynisdóttir, Vaxtarsamningur Suðurnesja, Björk Guðjónsdóttir, Heklan,  María Lóa Friðjónsdóttir, Heklan, Dagný Gísladóttir, Heklan, Ríkharður Ibsen, Kalka, Sigurður Ingi Jóhannsson, Alþingi, Oddný Harðardóttir, Alþingi, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Alþingi, Anna Margrét Guðjónsdóttir, AM ráðgjöf, Unnur Brá Konráðsdóttir, Alþingi, Eygló Harðardóttir, Alþingi, Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, Deloitte, Magnús Guðjónsson H.E.S, Jón Guðlaugsson, B.S., Ólafur Jón Arnbjörnsson, F.S., Finnbogi Björnsson, DS, Páll Ketilsson og Hilmar B. Bárðarson  Víkurfréttir

2. Fundarsetning.
Gunnar Þórarinsson, formaður S.S.S. setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um Magneu Guðmundsdóttur og Friðjón Einarsson sem fundarstjóra og voru þau sjálfkjörin.
Uppástunga kom um Guðnýju Kristjánsdóttur og Baldur Guðmundsson sem fundarritara, voru þau sjálfkjörin. 
Lagt var til að Jóhanna M Einarsdóttir yrði sett sem skrifari fundarins.

Magnea Guðmundsdóttir  tók við fundarstjórn.

4. Skýrsla stjórnar.
Gunnar Þórarinsson,  formaður S.S.S. flutti skýrslu stjórnar:

“Á 33. aðalfundi SSS sem haldinn var í Hópsskóla í Grindavík laugardaginn 11.  september 2010 voru eftirtaldir kjörnir í stjórn Sambandsins eftir tilnefningu:

• Gunnar Þórarinsson, Reykjanesbæ, formaður
• Ólafur Þór Ólafsson, Sandgerði, varaformaður
• Inga Sigrún Atladóttir, sveitarfélagið Vogar
• Einar Jón Pálsson, sveitarfélagið Garður
• Bryndís Gunnlaugsdóttir, Grindavík.

Stjórnin hélt 15 stjórnarfundi á starfsárinu.  Fjölmörg mál komu á borð stjórnar og verða hér nefnd þau sem vega þyngst.

Í upphafi starfsárs gerði framkvæmdastjóri S.S.S. Berglind Kristinsdóttir úttekt á framlögum ríkisvaldsins til ýmissa verkefna sem það hefur á sinni könnu út í héraði. Er skemmst frá því að segja að víðast stóðum við langt að baki öðrum byggðarlögum í þessum framlögum en hvergi framar.  Á þetta m.a. við um menntamál á framhaldsskólastigi, heilbrigðismál, menningarmál, öldrunarmál og atvinnumál.  Þessu var komið á framfæri við stjórnvöld. Ljóst er að mikið verk er að vinna til að ná jöfnuði við önnur byggðarlög á Íslandi hvað þetta snertir. Heldur hefur þó þokast í rétta átt í þessum efnum.

 

Atvinnumál

Atvinnumál ber auðvitað hæst í samfélagi okkar hér á Suðurnesjum.  Hér er mest atvinnuleysi á öllu landinu og langt í að búið sé að fylla það skarð sem brotthvarf Varnarliðsins skildi eftir sig.  Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 9. nóvember 2010 sem haldinn var í Víkingaheimum í Reykjanesbæ var ákveðið að hrinda af stað 11 verkefnum á Suðurnesjum til að efla atvinnu, menntun og velferð.  Til þess að halda utan um þetta verkefni var myndaður samráðsvettvangur stjórnvalda og sveitarfélaga á svæðinu.  S.S.S. hélt utan um þennan samráðsvettvang.  Í kjölfar þessa hófst vinna við stofnun atvinnuþróunarfélags á Suðurnesjum.  Á lokafundi vettvangsins skrifuðu S.S.S. og Byggðastofnun f.h. stjórnvalda undir samning um stofnun atvinnuþróunarfélags, með veitingu 10 milljóna króna framlagi úr ríkissjóði. Stjórn S.S.S. skipaði síðan stjórn fyrir atvinnuþróunarfélagið en það hlaut síðan nafnið Heklan.  Nú hafa verið ráðnir þrír starfsmenn til félagsins í fullu starfi en framkvæmdastjóri S.S.S.  mun jafnframt því starfi sinna starfi framkvæmdastjóra Heklunnar. Þá hefur Vaxtarsamningurinn verið færður undir atvinnuþróunarfélagið. 

Þá samþykkti stjórnin ráðningu verkefnisstjóra vegna undirbúnings álvers í Helguvík til þriggja mánaða og framlengdi síðan þann samning um aðra þrjá mánuði. Var það mat stjórnar að ráðningin væri verkefninu til framdráttar.

Ráðist var  í að leita eftir styrkjum til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum til stofnana á vegum EFTA og ESB, annars vegar var umsókn um s.k. IPA styrk og hinsvegar TAIEX styrk. Umsóknirnar fólu í sér áætlun um uppbyggingu á innri starfsemi Atvinnuþróunarfélags og S.S.S.,  ásamt að reisa tilraunagróðurhús fyrir tómataræktun og að vinna að fjárfestingaráætlun.  Styrkur til að halda áfram með gróðurhúsaverkefnið fékkst  ekki. Hins vegar fól  umsóknin í sér framlag vinnu við greiningu á fýsileika mögulegra atvinnuverkefna á Suðurnesjum.
Er skemmst frá því að segja að þessa umsókn var samþykkt.  Þá var í tengslum við þetta einnig lagður grunnur að samstarfi við Tampere hérað í Finnlandi um kynningu á svæðisþróun og atvinnuuppbyggingu, en Tampere hefur reynslu af slíkri svæðisþróun í  kjölfar hruns Sovétríkjanna sem þeir voru í miklum viðskiptum við. Við þessar umsóknir og samninga við umrædda aðila naut stjórn S.S.S. atfylgis AM ráðgjafar.  Nú þegar eru fjórir sérfræðingar á vegum Evrópusamstarfsins að byrja að koma sér fyrir á starfstað Heklunnar til að hefja þessi störf og munu starfsmenn hennar taka þátt í þessari vinnu.  Rétt er að geta þess að sjóðir EFTA/ESB munu kosta alla þessa vinnu.  Þessi verkefni munu vitanlega færa Heklunni í vöggugjöf fljúgandi start.  

Ferðaþjónustan á Suðurnesjum hefur eflst til muna á síðustu misserum.  Að þeirri uppbyggingu hefur S.S.S. komið m.a. með styrk til Markaðsstofu Suðurnesja.

Þá er ótalinn sjávarútvegurinn sem hefur lengst af verið meginstoðin í atvinnulífinu hér á Suðurnesjum.  Stjórnin vill taka undir þær raddir sem vara við því að breyta fiskveiðikerfinu svo stórlega að hætta sé á verulegum skaða fyrir greinina og samfélagið okkar allt. Slík röskun má alls ekki eiga sér stað.

Á síðasta fundi samráðsvettvangsins var birt skýrsla Deloitte um kostnað við flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja.  Niðurstöður skýrslunnar vöktu mikla óánægju hjá okkur Suðurnesjamönnum og þótti í hana vanta forsendur til langs tíma litið.  Vonir standa til að hægt verði að halda möguleikunum á flutningum á Landhelgisgæslunni til Suðurnesja vakandi, en Innanríkisráðherra hefur lagt til að vinnu við greiningu á hagkvæmni þess verði haldið áfram.

Málefni fatlaðra
Eitt af fyrstu málefnum stjórnar var að fara yfir framvindu vegna flutnings á málefnum fatlaðra, með fulltrúum frá ríki, Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga og verkefnastjórn. Í lok árs var síðan gengið frá tilhögun svæðisins við flutninga verkefnisins frá ríki til sveitarfélaganna og í kjölfarið gert samkomulag milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum og S.S.S. um fyrirkomulag við stjórnun og rekstur verkefnisins. Verkefnið hefur almennt séð farið vel af stað í höndum sveitarfélaganna á Suðurnesjum   Nokkrar áhyggjur eru þó af fjárhagsstöðu verkefnisins fyrir sveitarfélögin.

Heilbrigðismál.
Í byrjun starfsárs boðuðu stjórnvöld mikinn niðurskurð fjárframlaga til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem annarra heilbrigðisstofnana á landinu.  Stjórn S.S.S. mótmælti fyrirhuguðum niðurskurði harðlega með ályktun sem hún sendi frá sér um miðjan október.  Niðurstaða fjárlaganna varð síðan sú að talsvert var dregið úr niðurskurði og vilyrði fékkst fyrir útleigu skurðstofa sem varð reyndar ekki að veruleika. Þá fékk  Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sérstök framlög til að nýta sjúkrarými fyrir hjúkrun aldraðra. Nú eru enn fyrirhugaðar talsverðar lækkanir á fjárframlögum til stofnunarinnar sem forráðamenn stofnunarinnar, yfirvöld á svæðinu öllu svo og íbúar allir hljóta að hafa áhyggjur af og veita verður andspyrnu.

Vaxtar og menningarsamningar

Úthlutað var í fyrsta skipti styrkjum samkvæmt vaxtarsamningi milli SSS og Iðnaðarráðuneytis. Markmið samningsins er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins á starfssvæði Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins. Starfsmaður hjá sambandinu hefur  sinnt verkefninu auk þess að sjá um menningarsamninginn við stjórnvöld sem var endurnýjaður á árinu til eins árs.

Öldrunarmál
Ljóst er að málefni aldraðra og þá sérstaklega hjúkrunarheimilismál standa langt að baki því sem víðast gerist annars staðar á landinu.  Bæði eru hjúkrunarrými færri en víðast annars staðar og í mörgum tilfellum allt of lítil.  Þá  er okkur ekki lengur stætt á að bjóða eldri borgurum að deila herbergi með öðrum. Áform um  uppbyggingu 60 hjúkrunarrýma að Nesvöllum sem fréttir hafa borist af í fjölmiðlum úr Velferðarráðuneytinu mun laga stöðuna mjög.
Mikilvægt er að eignaraðilar innan DS sameinist um stefnu til næstu ára eða áratuga, þar sem höfð er í huga aukin hagræðing og verkaskipting milli sveitarfélaganna með einum eða öðrum hætti höfð til hliðsjónar.
Önnur verkefni
Önnur verkefni sem rétt er að nefna er Sorpeyðingarstöð Suðurnesja. Þar hefur verið ráðist í mikla endurskipulagningu. Óskandi er að hún leiði til þeirrar miklu hagræðingar í rekstri sem nauðsynleg er til að fyrirtækið geti orðið nokkurn veginn sjálfbært í framtíðinni.

Í framhaldi af vinnu Framtíðanefndar S.S.S. sem skilaði skýrslu með tillögum um framtíð S.S.S. og samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum lagði stjórnin fram talsverða vinnu við að móta tillögur að  bæði að nýjum samþykktum og hugmyndum að breyttu samstarfi.  Starf stjórnar hvað þetta varðaði mótaðist af nefndri skýrslu, en einnig af nýjum sveitarstjórnarlögum svo og af breyttum aðstæðum í samfélaginu. Haldinn var kynningarfundur í DUUS húsum í Reykjanesbæ fyrir alla bæjarfulltrúa á starfssvæðinu þar sem talsverðar umræður urðu og komu þar ýmis sjónarmið fram.  Hugmyndir stjórnarinnar verða á dagskrá aðalfundarins á morgun þar sem nánar verður farið yfir þær.

Að síðustu. Samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á Suðurnesjum er nauðsynlegur. Í  stjórninni hefur verið eindreginn vilji til að efla samstarfið þó að sjálfsögðu sé oft skoðanaágreiningur.  Allir stjórnarmenn gera sér grein fyrir að eins og í góðu hjónabandi þá þurfa aðilar að taka tillit til hvors annars. Stjórnarmönnum vil ég þakka ánægjulegt samstarf og fyrir hönd stjórnarinnar þakka ég starfsfólki sambandsins, stofnanna þess og framkvæmdastjóra góð störf og frábært samstarf.
Lifið heil”.

5. Ársreikningar S.S.S. fyrir árið 2010.
Anna Birgitta Geirfinnsdóttir endurskoðandi  útskýrði ársreikning S.S.S. fyrir árið 2010.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning S.S.S.  Róbert Ragnarsson bar fram fyrirspurn varðandi ársreikninginn sem Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri svaraði. Ársreikningurinn var borinn undir atkvæði og var hann samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

7. Ávörp gesta.
Sigurður Ingi Jóhannsson, 3. þingmaður Suðurkjördæmis bar fundinum kveðjur frá fjarstöddum þingmönnum og ræddi ma. um að eitt af mikilvægustu verkum þingmanna er að standa  við bakið á atvinnuskapandi verkefnum í heimabyggð.

Gunnlaugur Júlíusson flutti ávarp  frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ræddi m.a. stefnumörkun sambandsins sem  er leiðarljós stjórnar og starfsmanna sambandsins, kjarasamninga og yfirfærslu málefna fatlaðra.

 

8. Skýrslur stjórna.
Jóhanna Reynisdóttir  flutti skýrslu um Vaxtarsamning til  Suðurnesja, fram kom í máli hennar að 35 umsóknir hefðu borist  að upphæð 115 milljónir en  samþykkt var að styrkja 15 verkefni að upphæð 25,3 milljónir.

Björk Þorsteinsdóttir flutti skýrslu  Menningarráðs Suðurnesja og kom fram í máli hennar m.a. að á sl. ári hefði Menningaráðið ráðið  Björk Guðjónsdóttur sem starfsmann í 50% starf til að sinna menningarmálum.  Úthlutað var til 34 verkefna á Suðurnesjum að fjárhæð 15 milljónir. 

Árni Sigfússon formaður Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, Heklunnar fór yfir starfsemi félagsins en vísaði að öðru leiti í fundargerðir Atvinnuþróunarfélagsins.

Hjördís Árnadóttir flutti skýrslu um flutning málefna fatlaðra en þau mál voru flutt til sveitarfélaganna um síðustu áramót. Í máli hennar kom fram að húsnæðismál fatlaðra er það mál sem brýnast er  að vinna bót á.

9.   Sorpeyðingarstöð Suðurnesja.
Ríkharður Ibsen formaður stjórnar  kynnti  stöðu mála og sagði  meðal annars að verkefni nýrrar stjórnar hefði verið að endurskipuleggja starfsemina með það að markmiði að bæta rekstrarafkomu og fjárhagsstöðu.  Í samræmi við stefnumótun stjórnar hefði m.a. skipuriti verið örlítið breytt og nýr framkvæmdastjóri ráðinn.

10.  Kaffihlé

11.  Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Friðjón Einarsson kynnti drög að ályktun stjórnar S.S.S.  um heilbrigðismál og drög að ályktun um atvinnumál. 

12. Umræður.
Til máls tóku Róbert Ragnarsson sem lagði fram drög að ályktun um  Fisktækniskóla Íslands, Kristinn Jakobsson sem  lagði fram drög að ályktun um verkefnalista í samræmi við 2020 svæðisáætlun fyrir Suðurnes, Böðvar Jónsson, Oddný Harðardóttir,  Berglind Kristinsdóttir, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Bryndís Gunnlaugsdóttir, Ólafur Þór  Ólafsson og Gunnar Þórarinsson.

13. Fundi frestað.

Friðjón Einarsson tók við stjórn fundarins.

14. Kynning – á svæðisskipulagi Suðurnesja.

Ásmundur Friðriksson þakkaði þeim samstarfsaðilum sem komið  hafa að vinnu við svæðisskipulagið  og sagði m.a. að  í drögunum  birtist ný nálgun.

Stefán  G. Thors  hjá Verkfræðistofunni VSÓ fjallaði um og fór yfir drög að nýju  sameiginlegu svæðisskipulagi og sagði m.a. af ein af megin forsendum þess að Suðurnesin verði áhugaverður búsetukostur eru fjölbreytt atvinnutækifæri og vel launuð störf.  Í  tillögunum er m.a. rætt  um fjögur sameiginleg atvinnusvæði á Suðurnesjum sem hafa eiga ákveðna sérhæfingu.  Þau eiga að efla þjónustu við ferðamenn og styðja við núverandi starfsemi.

Fyrirspurnir og umræður
Fundarstjóri gaf orðið laust, til máls tóku Árni Sigfússon, Einar Jón Pálsson, Sigrún Árnadóttir,  Kristinn Jakobsson,  Róbert Ragnarsson,  Eysteinn Eyjólfsson,  Ólafur Þór Ólafsson og Stefán Gunnar Thors

15. Samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum – kynning á hugmyndum um breytt samstarf.
Gunnar Þórarinsson  formaður SSS og  Ólafur Þór Ólafsson varaformaður SSS fóru  sameiginlega yfir  og  kynntu tillögur Framtíðarnefndar SSS einnig tillögur að nýjum samþykktum SSS og drög að nýju skipuriti.

16.  Ávarp frá Innanríkisráðuneytinu.  Ögmundur Jónasson,  innanríkisráðuneytinu.
Breyting var gerð á dagskrá fundarins þar sem ráðherra sveitarstjórnarmála Ögmundur Jónasson komst ekki til fundarins þar sem hann var veðurtepptur norður í landi.  Liður 16 var því felldur niður  og færðust aðrir liðir fram sem því nam.

Hádegishlé.

17. Umræður um kynningu á hugmyndum um breytt samstarf.

Fyrirspurnir og umræður.

Fundarstjóri gaf orðið laust, til máls tók Böðvar Jónsson og  lagði fram  svohljóðandi bókun bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar.

„Samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum er fjölbreytt og viðamikið og er SSS sameiginlegur vettvangur sveitarfélaganna um samstarf þó ýmis verkefni eigi sér annan samstarfsfarveg, t.d. milli tveggja eða fleiri sveitarfélaga.

Í fjölmörg ár hafa sveitastjórnarmenn á Suðurnesjum rætt um fyrirkomulag á samstarfi sveitarfélaganna, nefndir hafa verið skipaðar og skýrslur skrifaðar en ekki hafa orðið miklar breytingar á formlegu samstarfi síðastliðin 30 ár.

Lagt var til í samantekt framtíðarnefndar SSS sem kynnt var á aðalfundi sambandsins í Grindavík haustið 2010 að Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum starfi áfram sem sameiginlegur vettvangur allra sveitarfélaganna og beiti sér í hagsmunagæslu fyrir íbúa í heild.

Í sömu samantekt var einnig lagt til að samþykktir SSS skuli endurskoðaðar til að auka gegnsæi og skilvirkni en sérstaklega skuli skoða ákvæði um skipan og fjölda fulltrúa með það að markmiði að tryggja lýðræðislega breidd með þátttöku minni– og meirihluta.  Einnig var sérstaklega vikið að sameiginlegum fyrirtækjum og viðameiri samstarfsverkefnum sveitarfélaganna og lagt til að þau yrðu framvegis gerð sjálfstæð og/eða vistuð hjá einstökum sveitarfélögum, fjárhagsleg og stjórnunarleg ábyrgð fari saman.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar er sammála ofangreindum niðurstöðum og leggur því eindregið til að dagleg starfsemi SSS verði einfölduð og starfsemin verði fyrst og fremst fólgin í því að sinna hagsmunagæslu fyrir Suðurnesin í heild sinni en um leið verði öll önnur verkefni/rekstur gerð sjálfstæð og/eða vistuð hjá einstaka sveitarfélögum.  Vinnuhópar um einstök verkefni sem lúta að hagsmunum Suðurnesja í heild munu síðan sinna tímabundnum verkum ef þörf þykir.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar leggur því til við Aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum að stjórn SSS verði falið að vinna eftir ofangreindum hugmyndum sem m.a. koma fram í skýrslu framtíðarnefndar SSS.  Stefnt skuli að því að tillögur stjórnar SSS verði lagðar fram á aukafundi  SSS í mars 2012“.

Magnea Guðmundsdóttir tók við stjórn fundarins,

Til máls tóku Kristinn Jakobsson, Hörður Harðarson,  Bryndís Gunnlaugsdóttir,  Friðjón Einarsson,  Einar Jón Pálsson og  Páll  Jóhann Pálsson,  

Friðjón Einarsson tók við stjórn fundarins.

Til máls tóku Hólmfríður Skarphéðinsdóttir,  Böðvar Jónsson,   Kristinn Jakobsson, Ásmundur Friðriksson,  Gunnar Þórarinsson lagði fram tillögu fyrir hönd stjórnar SSS,

„Stjórn SSS er falið að boða til auka-aðalfundar fyrir lok mars 2012 þar sem lagðar verða fram til afgreiðslu tillögur að breytingum á samþykktum SSS ásamat nýju skipuriti fyrir sambandið“

Til máls tóku Einar Jón Pálsson,  Bryndís Gunnlaugsdóttir, Baldur Guðmundsson. 

Tillaga stjórnar SSS samþykkt samhljóða

18. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.

Ályktun um heilbrigðismál

„Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Stapa í Reykjanesbæ, 7.- 8. október 2011 varar við þeim niðurskurði til heilbrigðisþjónustu og sjúkraflutninga á Suðurnesjum sem boðaður er í framlögðu fjárlagafrumvarpi.

Aðalfundurinn lýsir áhyggjum yfir þeim alvarlegu afleiðingum sem niðurskurðurinn getur haft á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem og rekstur hjúkrunarheimila á svæðinu. Hið mikla atvinnuleysi á Suðurnesjum kallar á aukna heilbrigðisþjónustu og því ætti frekar að bæta í framlögin en að draga úr þeim.

Minnkuð fjárframlög til sjúkraflutninga á Suðurnesjum ógna öryggi íbúa svæðisins. Það er í mótsögn við þá stefnu stjórnvalda að neyða Suðurnesjamenn til þess að nýta heilbrigðisþjónustu í Reykjavík í auknum mæli um leið og dregið er úr framlögum til sjúkraflutninga.

Aðalfundurinn skorar því á stjórnvöld að draga boðaðar niðurskurðartillögur til baka og tryggja sæmandi heilbrigðisþjónustu við Suðurnesjamenn“.

Fundarstjóri gaf orðið laust, til máls tók  Finnbogi Björnsson.

Ályktunin samþykkt.

Ályktun um atvinnumál

„Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Stapa í Reykjanesbæ,  7.- 8. október 2011 telur atvinnuuppbyggingu vera mikilvægasta verkefni Suðurnesjamanna. Atvinnuleysi á landinu er mest á Suðurnesjum og því mikilvægt að allir aðilar leggist á eitt í uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Það þarf að vinna markvisst að framgangi þeirra verkefna sem eru við það að komast á framkvæmdastig s.s. í Helguvík og á Ásbrú. Ekki er síður mikilvægt að huga að þeim fjölmörgu vaxtabroddum atvinnulífsins sem víða leynast s.s. í tengslum við ferðaþjónustu og alþjóðlegan flugvöll. Þá má ekki gleyma því að sjávarútvegur er ein af undirstöðum atvinnulífs á Suðurnesjum og tryggja þarf rekstraröryggi hans til framtíðar.

Aðalfundurinn skorar á Alþingi og ríkisstjórnina að ganga enn ákveðnar til verks þegar kemur að framgangi þeirra verkefna sem snúa að Suðurnesjunum. Fundurinn tekur undir þau sjónarmið að flytja eigi verkefni á vegum ríkisins frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar og í því sambandi er rétt að benda á að Landhelgisgæslan á hvergi betur heima en á Suðurnesjum.

Öll uppbygging atvinnulífs á Suðurnesjum byggir á öruggum flutningi raforku til og frá svæðinu. Því þurfa nýjar háspennulínur að komast í gagnið hið fyrsta. Mikilvægt er að allir aðilar bæði ríkisvald, stofnanir og sveitarfélög leggist á eitt til að tryggja eðlilegan og nauðsynlegan flutning á raforku til og frá Suðurnesjum“.

Fundarstjóri gaf orðið laust, enginn tók til máls.

Ályktunin samþykkt.

Tillaga um verkefnalista

„Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Stapa 7.-8. október 2011 samþykkir að fela stjórn SSS að koma saman 5-7 atriða verkefnalista í samræmi við 2020 svæðisáætlun fyrir Suðurnes.  Öll atriðin á listanum varði heildarhagsmuni íbúa á Suðurnesjum.  Stjórn SSS beitir sér fyrir í  öllum bæjarfélögunum fimm um þessi atriði þar sem íbúum gefst kostur að koma með tillögur og að umræðunni.
Eigi síðar en í janúar 2012 verði boðað til fundar þar sem listinn verður samþykktur formlega“.

Til máls tóku  Bryndís Gunnlaugsdóttir, Kristinn Jakobsson og  Einar Jón Pálsson,

Tillagan  samþykkt samhljóða.

Ályktun um Fisktækniskóla Íslands

„Ályktun aðalfundar SSS 7.-8. október 2012 haldinn í Stapa í Reykjanesbæ um Fisktækniskóla Íslands.
Aðalfundur SSS hvetur Alþingi og menntamálaráðherra til að veita Fisktækniskóla Íslands viðeigandi stöðu sem sérskóli á framhaldsskólastigi, enda er skólinn stofnaður á grundvelli laga um framhaldsskóla og framhaldsfræðslu. Jafnframt að framlög til skólans verði eins og til annarra sambærilegra skóla á framhaldsskólastigi.
Fisktækniskólinn hefur nýlega gert samkomulag við mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna rekstur skólans til loka skólaársins 2012-2013. Sá samningur er byggður á tímabundnum átaksforsendum og fjármagnaður af lið í fjárlögum vegna aðstæðna á vinnumarkaði. Aðalfundur SSS fullyrðir að nám í sjávarútvegi á Suðurnesjum sé til frambúðar og ætti að njóta virðingar sem slíkt“.

Enginn tók til máls.

Ályktunin  samþykkt með meirihluta atkvæða

19.  Önnur mál.
Enginn óskaði eftir að taka til máls.

20. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær
  Aðalmaður: Gunnar Þórarinsson
  Varamaður: Árni Sigfússon

Grindavíkurbær:
  Aðalmaður: Bryndís Gunnlaugsdóttir
  Varamaður: Þórunn Erlingsdóttir

Sandgerðisbær:
  Aðalmaður: Ólafur Þór Ólafsson 
  Varamaður: Sigursveinn Bjarni Jónsson

Sveitarfélagið Garður:
  Aðalmaður: Einar Jón Pálsson
  Varamaður: Brynja Kristjánsdóttir

Sveitarfélagið Vogar
  Aðalmaður; Inga Sigrún Atladóttir
  Varamaður: Hörður Harðarson

21. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.

Aðalmenn Hjörtur Zakaríasson
  Jón Þórisson

Varamenn Sigurbjörg Eiríksdóttir
  Dóróthea Jónsdóttir

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum gott samstarf og fékk formanni S.S.S.  Gunnari Þórarinssyni  fundinn sem þakkaði fundarmönnum góðan fund og sagði að samhljómur hefði verið með fundarmönnum.  Þakkaði starfsmönnum fundarins

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.02
    

Jóhanna M Einarsdóttir
     fundarskrifari.