fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

36. Aðalfundur SSS 5. október 2012

36. aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Grunnskóla Sandgerðis, föstudaginn 5. október og laugardaginn 6. október 2012  

Dagskrá:

Kl. 14:00 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna
Kl. 14:30 2. Fundarsetning
3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
4. Skýrsla stjórnar: Ólafur Þór Ólafsson formaður S.S.S.
5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2011 – Anna Birgitta Geirfinnsdóttir endurskoðandi.
6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
7.  Ávörp gesta.
• Björgvin G. Sigurðsson, fyrsti þingmaður kjördæmisins
• Halldór Halldórsson, formaður Sambands ísl. Sveitarfélaga.
8.Umræður um skýrslur stjórna.
• Vaxtarsamningur Suðurnesja
• Menningarsamningur Suðurnesja
• Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja
• Málefni fatlaðs fólks
Kl. 16:00 9. Almenningssamgöngur á Suðurnesjum – Þorbergur Karlsson/Smári Ólafsson
Kl. 16:20  Kaffihlé.
Kl. 16:30 10. Stefán Haukur Jóhannesson, samningarmaður Íslands í aðildarviðræðum ESB.
Kl. 16:50 11. Fyrirspurnir vegna aðildarviðræðna.
Kl. 17:10 12. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Kl. 17:20 13. Umræður.
Kl. 17:40 14. Fundi frestað.

Laugardagur 6. október 2012 – aðalfundi framhaldið.

Kl.  9:30  Morgunkaffi.
Kl. 10:00 15. Málefni aldraðra á Suðurnesjum – Baldur Guðmundsson
– Umræður um málefni aldraðra á Suðurnesjum
Kl. 10:40 16. Kynning á Jarðvangi Reykjanes – Eggert Sólberg Jónsson verkefnastjóri.
Kl. 10:55 17. Sóknaráætlanir landshluta.
• Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnastjóri Sóknaráætlana.
• Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur.
Kl. 11:20 18. Sóknaráætlun Suðurnesja – Kristinn Tryggvi Gunnarsson og Magnús Árni Magnússon frá Expectus.
Kl. 11:40 19. Ávarp Innanríkisráðherra – Ögmundur Jónasson.
Kl. 12:00  Matarhlé.
Kl. 12:40 20. Starf vinnuhópa.
Kl. 15:30  Kaffihlé.
Kl. 15:40 21. Niðurstöður vinnuhópa kynntar.
Kl. 16:10 22. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
Kl. 16:40 23. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
24. Kosning endurskoðendafyrirtækis.
25. Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.
Kl. 17:00 26. Áætluð fundarslit

Kl.  20:00 Kvöldverður í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka í Samkomuhúsinu í Sandgerði.

Áskilinn er réttur til að víkja frá boðaðri dagskrá

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls   40   sveitarstjórnarmenn (aðal og varamenn) frá Reykjanesbæ 13, frá Grindavík  6, frá Sandgerði 8, frá Sveitarfélaginu Garði 7, frá Vogum 6.

Fundarstjóri tilkynnti að fundurinn væri löglegur og að tilskilin fjöldi sveitarstjórnar-manna væru mættir til að lögmæt kosning gæti farið fram.

Gestir og frummælendur á fundinum  voru:  Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, Halldór Halldórsson, formaður Sambands ísl. Sveitarfélaga, Ásgeir Eiríksson, Vogum, Sigrún Árnadóttir,  Sandgerði, Magnús Stefánsson, Garði , Róbert Ragnarsson, Grindavík, Þorbergur Karlsson, VSÓ,  Stefán Haukur Jóhannesson, samningamaður Íslands í aðildarviðræðum ESB,  Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, Deloitte, Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnastjóri Sóknaráætlana,  Kristinn Tryggvi Gunnarsson, Expectus, Magnús Árni Magnússon, Expectus,  Eggert Sólberg Jónsson, Heklan,  Unnur Brá Konráðsdóttir, Alþingi,  Jón Guðlaugsson, Brunavarnir Suðurnesja, Gunnlaugur Júlíusson, Samband ísl. Sveitarfélaga, Oddný G. Harðardóttir, Alþingi,  Kristín Þ. Þorsteinsdóttir, Sandgerði-Garður-Vogar, Kristján Ásmundsson, FS, Sigurður Ingi Jóhannsson, Alþingi, Finnbogi Björnsson, DS, Hjördís Árnadóttir, Reykjanesbær, Jóhannes Tómasson, innanríkisráðuneyti, Ragnhildur Hjaltadóttir, innanríkisráðuneyti, Sigurður Garðarsson, Reykjanesbær, Sigurður Jónsson, Reykjanesið, Pétur H. Pálsson, Vísir, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Alþingi, Hanna María Kristjánsdóttir, Þekkingarsetur Suðurnesja, Guðmundur Pétursson, SAR, Hilmar Bragi Bárðarson, Víkurfréttir.

2. Fundarsetning.
Ólafur Þór Ólafsson, formaður S.S.S. setti 36. aðalfund og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um Hólmfríði Skarphéðinsdóttur og Sigursvein B. Jónsson  sem fundarstjóra og voru þau sjálfkjörin.
Uppástunga kom um  Guðmund Skúlason og  Sæunni  Guðjónsdóttur   sem fundarritara, voru þau sjálfkjörin. 
Lagt var til að Björk Guðjónsdóttir yrði sett sem skrifari fundarins.

Hólmfríður Skarphéðinsdóttir tók við fundarstjórn.

4. Skýrsla stjórnar.
Ólafur Þór Ólafsson formaður S.S.S. flutti skýrslu stjórnar.
Sagði hann m.a. að í kjölfar meirihlutaskipta í Sveitarfélaginu Garði s.l. vor vék Einar Jón Pálsson úr stjórninni og tók Jónina Holm sæti hans. Þá fór fram aukaaðalfundur í Grunnskólanum í Sandgerði föstudaginn 13. apríl 2012 og telst sá fundur vera 35. aðalfundur SSS. Megin viðfangsefni þess fundar var að fjalla um tillögur að nýjum samþykktum sambandsins. Niðurstaða fundarins var að nýjar samþykktir fyrir SSS voru staðfestar og höldum við nú 36. aðalfund sambandsins og þann fyrsta samkvæmt þessum nýju samþykktum. Frá aðalfundinum í Stapanum í fyrra hefur stjórn SSS haldið 16 fundi og margvísleg verkefni verið á borði stjórnar síðasta árið. 
Suðurnesin eru enn það svæði á Íslandi þar sem ástand á atvinnumarkaði er  erfiðast og atvinnuleysstigið er óviðunandi. Áframhaldandi uppbygging  atvinnulífs er því eðlilega það verkefni sem brennur heitast á  sveitarstjórnarfólki á Suðurnesjum. Það þekkir engin betur þau fjölmörgu  tækifæri sem finnast hér á svæðinu en við heimamenn.  Atvinnuþróunarfélagið Heklan er nú á sínu öðru starfsári og er mikilvægt  verkfæri okkar Suðurnesjamanna til að ná utan um þessi tækifæri.
Vinna við svæðisskipulag á Suðurnesjum á lokastigi og á þeim vettvangi  hafa  sveitarfélögin sameinast um markmið og áhersluatriði sem efla stöðu  svæðisins og  leyfi ég mér að fullyrða að með svæðisskipulaginu séu  sveitarfélögin á Suðurnesjum að taka forystu í skipulagsmálum á Íslandi.
Það er ekki hægt að tala um atvinnumál á Suðurnesjum án þess að tala um  framkvæmdir í Helguvík, sjávarútveg og flugtengda starfesemi. Það er hagur  allra Suðurnesjamanna að aukinn kraftur komist í framkvæmdir í Helguvík  sem allra fyrst enda hafa oddvitar allra sveitarfélagnna á svæðnu lýst yfir  stuðningi við nauðsynlega atvinnuuppbygginu þar. Sjávarútvegur er  grunnatvinnuvegur á Suðurnesjum og verður það áfram. Sú staðreynd má  ekki gleymast umræðum sveitarstjórnarmanna um atvinnuuppbyggingu.  Alþjóðlegur flugvöllur á Miðnesheiði er ein af grunnstoðum atvinnulífs á  svæðinu og er mikilvægt að samstarf sveitarfélaganna við flugvallaryfirvöld  sé gott og að flugstarfseminni sé tryggt það svigrúm sem hún þarf. Þessi  samskipti hafa verið að eflast á undanförnum misserum, bæði á vettvangi  SSS og hjá einstaka sveitarfélögum.

Nýleg stöðuskýrsla Suðurnesjavaktarinnar sýnir að ýmislegt hefur verið  unnið  jákvætt á Suðurnesjum. Starf verkefnastjóra sem hafa bæði verið á  vegum  mennta- og menningamálaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins í  samstarfi við  ýmsa aðila hér á svæðninu hefur verið mikilvægt til að meta  stöðuna og greina tækifærin.
Nú er komið vel á annað ár frá því að sveitarfélögin tóku yfir málaflokk  fatlaðra af ríkinu. Sveitarfélögin vilja veita fötluðum góða þjónustu og  tryggja þeim sem best skilyrði á Suðurnesjum, sem er eitt þjónustuvæði.  Samstarf sveitarfélaganna hefur að mestu gengið vel í málaflokknum, en  vissulega er hann í mótun hér á Suðurnesjum eins og annars staðar á landinu  og því ljóst að enn er ýmis verkefni óunnin.
Í byrjun febrúar á þessu ári var undirritaður nýr samningur á milli SSS og  Vegagerðarinnar um almenningssamgöngur milli Suðurnesja og  höfuðborgarsvæðisins og þar með talið við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.  Gildir samingurinn út árið 2018. Miklar vonir eru bundnar við að þessi nýji  samingur bæti almenningssamgöngur innan svæðis sem og tengingu okkar  við Reykjavíkursvæðið auk þess sem hann ætti að lækka kostnað  sveitarfélaganna vegna málaflokksins.
Auk þess sem formaðurinn talaði í ræðu sinni um ferðamál, málefni  aldraðra, sóknaráætlun, málefni fatlaðra og samstarf ríkis og sveitarfélaga.
Að lokum vildi formaðurinn nota tækifærið og þakka samstarfsfólki sínu í  stjórn,  framkvæmdastjóra og starfsfólki SSS ánægjulegt og  árangursríkt  samstarf.
 

5. Ársreikningur S.S.S.
Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, endurskoðandi  fór yfir og skýrði ársreikning S.S.S. fyrir árið 2011.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust. Enginn óskaði eftir að taka til máls.  Fundarstjóri bar upp reikninga sambandsins og voru þeir samþykktir samhljóða.

7. Ávörp gesta.
• Björgvin G. Sigurðsson fyrsti þingmaður kjördæmisins. 
Björgvin sagði frá því að kjördæmavika var að enda, þar sem þingmenn fóru um kjördæmið og hittu sveitarstjórnarmenn.  Þingmenn heimsóttu m.a.  Suðurnesin og funduðu í Garðinum með sveitarstjórnarmönnum af svæðinu.  Þingmaðurinn talaði um menntamál og atvinnumál svæðisins og  þau fjölmörgu tækifæri í menntamálum og atvinnumálum sem heimamenn hafa unnið vel úr.  Auk þess sem hann fjallaði um nýja kjölfesta í atvinnumálum og er sannfærður um að álver verði að veruleika.
• Halldór Halldórsson, formaður Sambands ísl. Sveitarfélaga.
Halldór  fjallaði um þau mál sem eru efst á baugi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Lögin varðandi fjármálareglurnar sem sambandið mun hafa forgöngu um að verði endurskoðuð.  Nýsköpun og framþróun í stjórnsýslu og þjónustu, en þar er hægt að gera betur.  Einnig fjallaði hann um skipulags- og samgöngumál, umhverfismál, skóla- og fræðslumál, félagsþjónustu, kjaramál og lífeyrisskuldbindingar auk mála sem eru alltaf í umræðu og vinnslu hjá sambandinu.
Sóknaráætlanir landshlutanna er jákvætt verkefni sem  sambandið hefur talað mikið fyrir.  Að lokum skilaði hann bestu kveðjum til fundarins frá stjórn og starfsmönnum sambandsins og þakkir fyrir samstarfið í gegnum tíðina.

8. Umræður um skýrslur stjórna.
• Vaxtarsamningur Suðurnesja.
• Menningarsamningur Suðurnesja.
• Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja.
• Málefni fatlaðs fólks.
Skýrslurnar voru sendar út til sveitarstjórnarmanna með fundarboði 36. aðalfundar.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslurnar.
Til mál tóku Árni Sigfússon, Bryndís Gunnlaugsdóttir, Inga Sigrún Atladóttir, Einar Jón Pálsson, Jónína Hólm, Ólafur Þór Ólafsson, Sigrún Árnadóttir, Friðjón Einarsson og  Kristinn Jakobsson. Þau ræddu um Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, ímynd svæðisins, ferðamál, Markaðs-stofu Suðurnesja og IPA umsóknir.  Einnig töluðu þau um málefni fatlaðra, samstarfið í málaflokknum og þörfina á að ræða stefnumótun í málefnum fatlaðra. Fram kom að á  janúarfundi  sambandsins væri mögulegt að setja málefni fatlaðra á dagskrá.

9. Almenningssamgöngur á Suðurnesjum.
Þorbergur Karlsson frá VSÓ.
Þorbergur  fór yfir lög um almenningssamgöngur og á grundvelli þeirra hefur vegagerðin gert samninga við landshlutasamtök um að skipuleggja og annast almenningssamgöngur á sínum svæðum og til Reykjavíkur.  Ákveðin framlög frá vegagerðinni fylgja verkefninu sem nema 20 mkr. á ári.  Sérstaða svæðisins umfram önnur er sá mikli flutningur fólks á milli flugstöðvarinnar og höfuðborgarsvæðisins.  Þar eru sóknarfæri vegna vaxandi fjölda ferðamanna. Vegna eðlismunar er eðlilegt að bjóða út í tveimur hlutum annars vegar almenningssamgöngur innan Suðurnesja og til Reykjavíkur og síðan „ Flugrútuna“. Gert er ráð fyrir að akstur flugrútunnar hefjist eftir páska, en almenningssamgöngur innan Suðurnesja til Reykjavíkur hefjast í sumarbyrjun 2013.

Kaffihlé.
   
10. Stefán Haukur Jóhannesson, samningamaður Íslands í aðildarviðræðum ESB.
Fram kom hjá Stefáni að verkefnið gengur vel þrátt fyrir ákveðin óróa. Eiginlegar samningaviðræður hófust síðasta sumar í júní og hafa gengið jafnt og þétt. Í desember verður búið  að opna 24 kafla af 33.   Enn á eftir að opna stóra málaflokka. Vonir standa til að opna kaflann um landbúnaðar-  og dreifbýlisþróun í mars.  Evrópusambandið er nú að fjalla um kaflann um sjávarútvegsmálin og hefur tafist hjá þeim vegna ágreinings þeirra á milli. Samninganefndin leggur mikla áherslu á að hefja umræður um þann kafla sem fyrst.  www.Viðræður.is  er upplýsingavefur samninganefndar.

11. Fyrirspurnir vegna aðildarviðræðna.
Fundarstjóri gaf orðið laust.
Árni Sigfússon, Kristinn Jakobsson, Bryndís Gunnlaugsdóttir, Hilmar Helgason og Páll Jóhann Pálsson tóku  til máls með fyrirspurnir sem fyrst og fremst lutu að sjávarútvegsmálum. 

12. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Fundarstjóri óskaði eftir því að breytingartillögur verði lagðar fram skriflega á fundinum á morgun.
Tvær ályktanir voru lagðar fram annars vegar um atvinnu- og samgöngumál og hins vegar varðandi úthlutun opinberra fjármuna.
Fundarstjóri gaf orðið laust og óskaði eftir að ályktanir væru lagðar fram undir þessum lið.
Árni Sigfússon og Kristinn Jakobsson  tóku til máls.

13. Almennar umræður. Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tókur, Ólafur Þór Ólafsson, Bryndís Gunnlaugsdóttir, Kristinn Jakobsson, Páll Jóhann Pálsson, Einar Jón Pálsson og  Inga Sigrún Altadóttir.   Þau ræddu menntamál, fjárframlög ríkisvaldsins á Suðurnes, sóknaráætlun, skipulagsmál, verklagsreglur og veiðileyfisgjald.

14. Fundi frestað.

Sigursveinn Bj. Jónsson tók við fundarstjórn.

15. Málefni aldraðra á Suðurnesjum.
Baldur Guðmundsson, formaður stjórnar DS.
Baldur talaði um tímamót hjá DS. Nýtt hjúkrunarheimili verður tilbúið í byrjun árs 2014.   Baldur fór yfir framtíðarsýn í málefnum aldraðra. Hann fjallaði um reksturinn og benti á að DS hefur verið rekið með halla síðustu árin, halli 2012 var brúaður með framlögum eigenda.  Aðstaðan á Garðvangi uppfyllir engan vegin kröfur sem gerðar eru til slíkra heimila í dag. Hins vegar er aðstaðan á Hlévangi   viðunandi.  Rými eru fyrir 114 aldraða á Suðurnesjum.  Framtíðarþörf hjúkrunarrýma er mikil. Uppbygging á aðstöðu hefur gengið of hægt. Hann fór að lokum yfir framtíðarsýn í uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða á Suðurnesjum.
Umræður.
Fundarstjóri gaf orðið laust.
Til máls tóku, Gunnar Þórarinsson, Inga Sigrún Atladóttir, Árni Sigfússon, Bryndís Gunnlaugsdóttir, Guðmundur Pálsson, Einar Jón Pálsson, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Jónína Hólm, Ólafur Þór Ólafsson og  Böðvar Jónsson.

Hólmfríður Skarphéðinsdóttir tók við fundarstjórn og gerði breytingar á dagskrá  þ.e. að 17. og 19. liðir á dagskránni færðir fram fyrir hádegishlé. Aðrir liðir færast því aftar sem því nemur.

16. Sóknaráætlanir landshluta.
• Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnastjóri
Fram kom í máli Hólmfríðar að markmið sóknaráætlana landshluta eru: Efling sveitarstjórnarstigsins/valddreifing.  Einfalda og efla samskipti ríkisins og sveitarfélaga. Aukið samráð innan Stjórnarráðsins.  Hólmfríður sagði að mjög gott samráð hefur verið haft við Samband ísl. sveitarfélaga, Landshlutasamtök sveitarfélaga og Stjórnarráðið.   Hún fjallaði um framtíðarsýn Sóknaráætlunar og nefndi að fjármunir sem Alþingi ráðstafar hverju sinni af fjárlögum til verkefna í einstökum lanshlutum á sviði atvinnumála, byggða- og samfélagsþróunar byggi á Sóknaráætlun hvers landshluta og renni um einn farveg á grundvelli samnings, til miðlægs aðila í hverjum landshluta.  Hér er um  nýtt verklag að ræða, sem er verið að móta og það er enn í mótun.   Ábyrgðin á verkefninu er hjá landshlutasamtökum sveitarfélaga. Drög að sóknaráæltun á að vera tilbúin í desember. Hún telur að árin 2013-2015 verði  reynslu- og þróunartímabil. Nýtt fjármagn kemur með verkefninu, 400 m. kr. á ári til þriggja ára skv. fjárlagafrumvarpi.   Eitt af meginmarkmiðum Sóknaráætlunar er að hafa samráð, milli stjórnsýslustiganna, innan landshluta, innan stjórnarráðsins.  Ef vel tekst til: Eitt stærsta skref sem stigið hefur verið í byggðamálum síðustu áratugi.

Fundarstjóri gerði  breytingar á dagskrá.

17. Ávarp Innanríkisráðherra. Ögmundur Jónasson.
Ráðherrann þakkaði  gott samstarf sem ráðuneytið hefur átt við einstök sveitarfélög.  Hann talaði um sameiginlegan vanda ríkisins og sveitarfélaganna  sem er  niðurskurður á útgjöldum, og sagði að samstarfið ætti að byggja á skilningi á vanda hvors annars.   Á Ísland að verða björgunarmiðstöð fyrir norðurslóðir, aðstæður mun færa okkur þetta verkefni og við eigum að undirbúa okkur varðandi það.  Í samgöngumálum  hefur ráðuneytið og sveitarfélögin átt gott samstarf. Nýtt frumvarp er í vinnslu varðandi almenningssamgöngur. Sóknaráætlun 20/20 hugsunin er að fá góða sýn á það sem við erum að gera og auka samvinnu landshluta á sveitarstjórnarstiginu.  Verið er að skoða rafrænar kosningar, samband ísl sveitarfélaga er mjög áhugasamt um að ríkisvaldið breyti lögum þannig að hægt sé að fara út í tilraunir með rafræna kosningu.  Ráðherrann ítrekaði að lokum nauðsyn þess að eiga gott samstarf við sveitarstjórnir. Ráðherrann þakkaði fyrir að vera boðið á fundinn og óskar sveitarstjórnarmönnum alls hins best.

Matarhlé

18. Kynning á Jarðvangi Reykjanes.
Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóri.
Fram koma í kynningu Eggerts  að til þess að geta kallað okkur jarðvang þurfum við vottun frá UNESCO.  Hann nefndi að einn jarðvangur er til nú þegar á Íslandi en eru 92 í heiminum í 52 löndum.  Fleiri jarðvangar eru í undirbúningi víða um heim.   Jarðvangur er fyrst og fremst gæðastimpill á svæði sem inniheldur merkilegar eða einstakar jarðminjar og kemur þeim á framfæri. Lögð er áhersla á að koma staðbundinni menningu og hefðum á framfæri, auka úrval matvæla úr héraði í verlsunum og á veitingastöðum og koma handverki úr héraði á framfæri svo eitthvað sé nefnt.  Jarðvangur getur verið  lyftistöng fyrir svæði á sviðum ferðamála, framleiðslu og fræðslu.  Að lokum sagði Eggert að umsókn verður skilað til European Geopark Network í lok nóvember.

19. Sóknaráætlun Suðurnesja.
Magnús Árni Magnússon og  Kristinn Tryggvi Gunnarsson frá Expectus.
Magnús sagði frá því að unnið hefur verið  undanfarið  að því að draga saman stöðuna á svæðinu.  Áherslur sóknaráætlunar eru: Atvinnumál og nýsköpun, mennta og menningarmál, markaðsmál og ímynd.  En ímynd svæðisins er áhersla  sem ákveðið var að bæta við á Suðurnesjum. Magnús útskýrði verkefni fundarins og skiptingu í hópavinnuna.

20. Starf vinnuhópa.
Skipt var í 6 vinnuhópa í byrjun og hópavinnan hófst.  Eftir ákveðinn tíma varð hópum fækkað niður í 3 hópa og verkefnið klárað.

Kaffihlé

21. Niðurstaða vinnuhópa kynntar.
Hver hópur kynnti sínar niðurstöður.
Hópur 1. Atvinnumál og nýsköpun. Eggert Sólberg Jónsson, kynnti.
Hópur 2. Markaðs- og ímyndamál. Magnea Guðmundsdóttir, kynnti.
Hópur 3. Mennta- og menningarmál. Ólafur Þór Ólafsson, kynnti.

Kristinn Tryggvi Gunnarsson þakkaði fyrir mjög skellegga vinnu og sagði að það hafi  verið gaman að fylgjast með vinnunni á borðunum hvað fólk náði vel saman og gæðavinna sem út úr þessu hefur komið. 

22. Ályktanir.
Umræður  og afgreiðslur.

Ályktun um atvinnu- og samgöngumál
Atvinnuleysi er hæst á landinu á Suðurnesjum og því mikilvægt að taka atvinnumálin föstum tökum. Á Suðurnesjum eru ógrynni tækifæra bæði fyrir stór sem lítil fyrirtæki. Mikilvægt er að stjórnvöld skapi hvetjandi umgjörð fyrir atvinnuuppbyggingu og styðji þannig við atvinnusköpun í landinu, meðal annars með því að skatta- og lagaumhverfi sé stöðugt og hvetjandi.
Hluti af stuðningi við atvinnulífið er áframhaldandi uppbygging á samgöngum á svæðinu. Brýnt er að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar og uppbyggingu Suðurstrandarvegar sem og tryggja vetrarþjónustu á þeim vegi. Ferðamannaiðnaður er vaxandi atvinnugrein og fjöldi ferðamanna eykst með hverju ári. Samhliða því er mikilvægt að tryggja öryggi þeirra sem og annarra með því að byggja upp göngu- og hjólreiðastíga meðfram Reykjanesbrautinni enda mun umferð bifreiða og hjólreiðamanna aukast næstu árin.
Aðalfundur SSS telur mikilvægt að fiskihafnir komist aftur inn á samgönguáætlun enda eru þær hluti af samgöngukerfi landsins og styðja við atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Auk þess er mikilvægt að tryggja að hluti af veiðileyfagjaldinu skili sér til sveitarfélaga landsins, sérstaklega þeirra sem sjá um að þjónusta sjávarútveginn enda standa fæstar fiskihafnir landsins undir sínum rekstri. Veiðileyfagjaldið af Suðurnesjunum er um 2,2 – 2,5 milljarðar króna og því eðlilegt að hluti af því skili sér aftur til svæðisins.
Ekki hefur tekist að bregðast við því áfalli er Suðurnesin urðu fyrir er varnarliðið fór árið 2006 en þar með hurfu 1100 störf af svæðinu. Því er vandi Suðurnesjamanna dýpri og langvinnari en annarra landsvæða og krefst því kröftugri aðgerða í formi stuðnings við atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og menntun á svæðinu.
Aðalfundur SSS lýsir yfir miklum áhyggjum yfir þeim fjölda atvinnulausra sem falla munu út af atvinnuleysisskrá á næstu misserum og munu fara á framfæri sveitarfélaga ef engin önnur úrræði bjóðast. Mikilvægt er að ríkisvaldið bregðist við þessum vanda og velti honum ekki yfir á sveitarfélögin. Eina varanlega lausnin er að skapa fleiri störf.  Aðalfundur S.S.S. lýsir yfir fullum stuðningi við og hefur miklar væntingar til uppbyggingar álvers og annars iðnaðar í Helguvík.

Fundarstjóri gaf orðið laust um báðar tillögurnar sem liggja fyrir fundinum.  Til máls tóku Böðvar Jónsson og lagði fram breytingartillögu, Ólafur Þór Ólafsson, Kristín María Birgisdóttir,  lagði fram breytingartillögu, Ólafur Þór Ólafsson og lagði til  breytingartillögu, Einar Jón Pálsson, Kristinn Jakobsson, lagði til breytingartillögu.

Breytingartillaga Kristínu Maríu  borin upp – Samþykkt samhljóða
Breytingartillaga Böðvars er dregin til baka varðandi fyrirsögn.
Breytingartillaga Böðvars efnislega borinn upp. Samþykkt samhljóða.
Ályktunin með áorðnum breytingum  borin upp og samþykkt samhljóða.

Ályktun aðalfundar S.S.S.  um úthlutun opinberra fjármuna
Aðalfundur S.S.S ályktar að ríkisvaldið verði að leiðrétta það misrétti sem á sér stað í úthlutun opinberra fjármuna. Það er nánast sama hvaða málaflokkar eru skoðaðir, alls staðar eru Suðurnesin hornrekur, og þá sérstaklega í velferðar- og menntamálum. Svæðinu er gert að veita sömu þjónustu og aðrir landshlutar þrátt fyrir minna fjármagn á íbúa.
Fjármagni til málefna fatlaðra er ekki deilt niður á sanngjarnan hátt um landið og sá mismunur sem var til staðar fyrir flutning málaflokksins til sveitarfélaganna er enn til staðar. Úthlutun til heilbrigðismála er mun lægri á íbúa til Suðurnesja en annarra svæða og er slíkt ólíðandi.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja fær um 90 milljónir króna minna fjárframlag á ári en sambærilegir skólar, sama á við um Keili.  Tryggja ber fjármagn til að sá vaxtarsproti sem Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs er, fái vaxið og dafnað. Að auki styður ríkið ekki eins vel við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum í samanburði við sambærilegar stofnanir á öðrum landshlutum og Fisktækniskóli Suðurnesja er eingöngu kominn á fjárlög fyrir árið 2013 og er framtíð hans því óviss. Eins er mikilvægt að styðja við Þekkingarsetur Suðurnesja.
Mjög mikilvægt er þegar kemur að úthlutun fjármuna í tengslum við Sóknaráætlun landshluta að þeim sé skipt jafnt milli landshluta.
Suðurnesjamenn eru ekki að biðja um aukafjármuni fram yfir önnur landsvæði – aðeins að fjármunum sé úthlutað á réttlátan hátt þar sem allir landsmenn sitja við sama borð.
Breytingartillaga Ólafs Þór Ólafssonar  – samþykkt samhljóða
Breytingartillaga Kristins Jakobssonar – samþykkt samhljóða
Ályktunin borin upp með áorðnum breytingum –  samþykkt samhljóða

23. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
Reykjanesbær:
Aðalmaður: Gunnar Þórarinssson
Varamaður: Árni Sigfússon
Grindavíkurbær:
Aðalmaður: Bryndís Gunnlaugsdóttir
Varamaður: Kristín María Birgisdóttir
Sandgerðisbær:
Aðalmaður: Óalfur Þór Ólafsson
Varamaður: Sigursveinn Bjarni Jónsson
Sveitarfélagið Garður:
Aðalmaður: Jónína Hólm
Varamaður: Davíð Ásgeirsson
Sveitarfélagið Vogar:
Aðalmaður: Inga Sigrún Atladóttir
Varamaður: Jóngeir Hlinason

24. Kosning endurskoðendafyrirtækis.
Lagt til að Deloitte verði endurskoðunarfyrirtæki Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir næsta starfsár.
Samþykkt samhljóða

25. Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna S.S.S.
Lagt er til að þóknun til stjórnarmanna S.S.S. verði sem hér segir:
Formaður stjórnar 4,5% af þingfarakaupi eða kr. 24.547.- fyrir hvern fund.
Aðrir stjórnarmenn  3% af þingfarakaupi eða kr. 16.364.- fyrir hvern fund.
Þingfararkaup er í dag kr. 545.480.-
Samþykkt samhljóða.

26. Fundarslit.

Ólafur Þór Ólafsson þakkaði fundarstjórum og öðrum starfsmönnum fundarins fyrir þeirra störf, sveitarstjórnarmönnum fyrir  þátttökuna í fundinum  og sleit fundi kl. 16:45.

Björk Guðjónsdóttir
     fundarskrifari.