fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

42. Aðalfundur SSS 7. – 8. september 2018

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2018

42. aðalfundur S.S.S. haldinn í Grunnskólanum í Grindavík, Ásabraut 2, 240 Grindavík, föstudaginn 7. september og laugardaginn 8. september 2018.

Dagskrá:

Föstudagurinn 7. september 2018

1.Skráning fulltrúa og afhending gagna
2. 3. 4. 5. 6. 7.   8.Fundarsetning. – Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Grindavíkur. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Skýrsla stjórnar: Guðmundur Pálsson formaður S.S.S. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2017 – Íslenskir endurskoðendur. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning. Umræður um skýrslur. Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja-HeklanMarkaðsstofa Reykjaness Tillögur og ályktanir lagðar fram.
9.Kynning á Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og samstarfsverkefnum. Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri og Eggert S. Jónsson verkefnastjóri
10.Almenningssamgöngur – staðan. Unnar Steinn Bjarndal hrl.
Kl. 17:15 Fundi frestað.

Laugardagur 8. september 2018.

Kl.  9:30Morgunkaffi.
  11.Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Grindavíkur. Ávörp gesta. Ávarp frá Ráðherra Sveitarstjórnamála – Sigurður Ingi Jóhannsson.Ávarp frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga – Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs.
12.Jarðvá á Reykjanesi –Þorvaldur Þórðarson, Eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ.
13.Ný persónuverndarlög – hvaða áhrif hafa þau á sveitarfélögin. Hrefna Gunnarsdóttir, persónuverndarfulltrúi Reykjanesbæjar.
Kl. 12:00 Matarhlé
Kl. 13:00 Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Grindavíkur.
14.Fullveldi Íslands 1918-2018 – hlutverk og verkefni afmælisnefndar- Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir.
15.HS Orka  – Hvað er fram undan? Jóhann Snorri Sigurbergsson frá HS Orku.
Kl. 14:10 Kaffihlé.
16.Flutningskerfið og raforkuöryggi á Suðurnesjum. Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
17.Ályktanir og umræða.
18.Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
19.Kosning endurskoðendafyrirtækis.
20.Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.
Kl. 17:00Áætluð fundarslit.
Kl. 20:00Kvöldverður í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka í Salthúsinu, Grindavík
  1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.

Fundinn sóttu alls 36 sveitarstjórnarmenn aðal- og varamenn.

Reykjanesbær 11 fulltrúar

Grindavík 9 fulltrúar

Vogar 7 fulltrúar

Sveitarfélagið Garður/Sandgerði 9 fulltrúar

Gestir og frummælendur á fundinum voru:

Vilhjálmur Árnason, Alþingi, Silja D. Gunnarsdóttir, Alþingi, Hrefna Gunnarsdóttir, Reykjanesbær, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, Afmælisnefnd fullveldis, Guðmundur I. Ásmundsson, Landsnet, Jóhann Sigurbergsson, HS Orka, Jón Guðlaugsson, Brunavarnir Suðurnesja bs., Magnús Stefánsson, sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis, Fannar Jónasson, Grindavík, Kjartan Már Kjartansson, Reykjanesbær, Oddný G. Harðardóttir, Alþingi, Ásmundur Friðriksson, Alþingi, Ásgeir Eiríksson, Sveitarfélagið Vogar, Guðni Þ. Gunnarsson, Íslenskir endurskoðendur, Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Reykjanesbær, Hilmar Bragi Bárðarson, Víkurfréttir, Unnar Steinn Bjarndal hrl., Lögfræðistofa Suðurnesja, Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra, Kristján Ásmundsson, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Guðjón Bragason, Samband íslenskra sveitarfélaga, Þorvaldur Þórðarson, Háskóli Íslands.

  • Fundarsetning.

Guðmundur Pálsson formaður S.S.S. setti fundinn.  Hann bauð fundarmenn og gesti velkomna á 42. aðalfund S.S.S. í Grunnskólanum í Grindavík.

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara.

Tillaga kom um Pál Val Björnsson og Birgittu Káradóttur sem fundarstjóra.  Tillagan var samþykkt.  Tillaga kom um Helgu Dís Jakobsdóttur og Hallfríði Hólmgrímsdóttur sem ritara.  Tillagan var samþykkt.  Tillaga kom um Hjálmar Hallgrímsson og Sigurð Óla Þorleifsson sem vararitara.  Tillagan var samþykkt.

Fundarskrifari er Björk Guðjónsdóttir, verkefnastjóri.

  • Skýrsla stjórnar.

Guðmundur Pálsson formaður flutti skýrslu stjórnar.

Kæru fundarmenn og  góðir gestir.

Mig langar að bjóða ykkur velkomin til Grindavíkur á þennan 42. aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Stjórnin hélt 15 reglulega stjórnarfundi á starfsárinu.  Vetrarfundur Sambandsins var haldinn í lok mars í sal Park Inn by Radisson og var áhersla fundarins á fjárframlög ríkisstofnanna á Suðurnesjum.  Var það vel til fundið, í framhaldi af úttekt Reykjanesbæjar á fjárframlögum til svæðisins.  Það er óhætt að segja að sá samanburður var Suðurnesjum mjög óhagsstæður.

Vil ég þakka bæjarstjórn  Reykjanesbæjar fyrir að hafa farið í þetta verkefni.

Stjórn S.S.S., bæjarstjórar og framkvæmdastjóri S.S.S. hittu í framhaldi af þessu, öll fagráðuneytin sem tiltekin voru í samantektinni og kynntu þeim niðurstöðuna sem ráðgjafafyrirtækið Aton vann fyrir Reykjanesbæ og S.S.S. lét uppfæra þegar ný fjárlög voru lögð fram.  Við förum fram á að Ríkisstjórnin geri bragarbót í þessum efnum fyrir komandi ár, þannig að Suðurnesin sitji við sama borð við úthlutun fjármagns og aðrir landshlutar.

Stjórnin fundaði með forstjóra HSS og Öldungaráði Suðurnesja vegna stöðu Heilbrigðisstofnunarinnar, með forstjóra Ferðamálastofu vegna Markaðsstofu Reykjaness þar sem skerða átti fjármagn til hennar um helming, en m.a. með tilstuðlan ráðuneytisins tókst að koma í veg fyrir það.  Einnig var fundað með Hildi Jakobínu Gísladóttur forstöðumanni Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum og Gissuri Péturssyni forstjóra Vinnumálastofnunar þar sem rætt var aukið atvinnuleysi á svæðinu og viðbrögð stofnunarinnar við því.

Sveitarfélögunum á Suðurnesjum fækkaði um eitt þegar sveitungar mínir í Sandgerði sameinuðust sveitarfélaginu Garði í ÓNEFNT sveitarfélag.  Með þessu verður til öflugt sveitarfélag sem tekið getur við þeim áskorunum sem framtíðin ber í skauti sér.  Ég vil óska íbúum þessa byggðarkjarna til hamingju með sameininguna.

Almenningssamgöngur á Suðurnesjum tóku drjúgan tíma á síðasta starfsári.  Í október barst bréf frá SBK, þar sem fram kom að fyrirtækið ætlaði sér ekki að standa við gerðan samning, sem gerður var að loknu útboði  árið 2014.  Varð því að hafa hraðar hendur og bjóða aksturinn út aftur.  Niðurstaða útboðs lá fyrir í desember 2017 og voru tilboðin sem við fengum í aksturinn mikil vonbrigði.  Lægsta tilboðið hafði hækkað um 62 mkr. frá því sem áður var.  Ákvað stjórnin að óska eftir fundi með Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og greina honum frá stöðunni sem upp var komin.  Stjórn S.S.S var sammála um að skila samningum til Vegagerðarinnar nema ef til kæmu frekari greiðslur frá ríkisvaldinu.  Þótti það ekki á nokkurn hátt forsvaranlegt að bæta þessum 62 mkr. við hallarekstur upp á 73 m.kr.  Ríkisvaldið ákvað að leggja 60 mkr. inn í verkefnið hjá S.S.S. en ekki hefur ekki verið gerður upp eldri halli.  Jafnframt ákvað stjórnin að segja upp samningnum við Vegagerðina frá og með 1.janúar 2019.  Ekkert hefur heyrst, hvorki frá Samgönguráðuneytinu né Vegagerðinni hvernig þeir hafi hugsað sér að haga almennings samgöngum á Suðurnesjum í framtíðinni.  Tíminn er orðinn mjög knappur til að bjóða verkið út aftur og er stjórn sambandsins ekki tilbúin til að halda áfram með þennan rekstur án þess að útistandandi skuld á honum verði gerð upp og  auknu fé varið í málaflokkinn og kerfið bætt með tíðari samgöngum.

Stjórn S.S.S. barst nýverið niðurstaða dómskvaddra matsmanna vegna skaðabótamáls sem S.S.S. höfðaði á hendur Íslenska ríkinu.  Var málið tilkomið vegna ákvörðunar þáverandi Innanríkisráðherra um að fella út einkaleyfi S.S.S. vegna aksturs á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur.  Niðurstaða matsmanna var sú að gera hefði mátt ráð fyrir 3 milljarða króna hagnaði af þessari leið. Unnar Steinn Bjarndal hrl. mun fara betur yfir málið hér á eftir.

Samningur um Sóknaráætlun á Suðurnesjum er í gildi til ársins 2019.  S.S.S. gerði þann samning við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Mennta- og menningarmálaráðuneytið.  Í honum felst að nú er menningar-, atvinnu- og nýsköpun á Suðurnesjum styrkt úr Uppbyggingarsjóði.  Á árinu 2018 voru 37 verkefni styrkt um samtals 60,5 milljónir.  Auk þessa voru settar tæpar 43 mkr. í áhersluverkefni.  Meðal áhersluverkefna eru stuðningur við fjarnám í hjúkrunarfræði, könnun á líðan eldri borgara á Suðurnesjum en sú könnun er unnin í samstarfi við Þjónustuhóp aldraðra, minnka brottfall úr námi og bjóða menntun í takt við atvinnulífið, en þar hefur Hanna María Kristjánsdóttir frá Þekkingarsetrinu leitt verkefnið.  Við höfum einnig sett fjármuni í verkefnið ímynd Suðurnesja og höfum unnið það undir merkjum „við höfum góða sögu að segja“. H:N Markaðssamkipti hefur unnið þetta verkefni með okkur og það hefur verið lögð áhersla á að fá fréttir í fjölmiðla af svæðinu, þ.e.a.s. góðar fréttir.  Það hefur vonandi ekki farið fram hjá ykkur.

Í framhaldi af nýjum persónuverndarlögum þurfa sveitarfélögin að ráða persónuverndarfulltrúa og það voru mikil vonbrigði að ekki hafi tekist sátt á milli allra sveitarfélaganna að fela S.S.S. umsjón með því.

Það er mjög ánægjulegt að samstarfið á milli sveitarfélaganna er að aukast.

Ég vil að lokum þakka stjórninni, starfsmönnum S.S.S. og þá sérstaklega framkvæmdarstjóranum fyrir gott og ánægjulegt samstarf.  Það eru mörg brýn og spennandi  verkefni sem taka þarf á á komandi vetri og treysti ég komandi stjórn fullkomlega til að leysa þau Suðurnesjum til heilla.

  • Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2017.

Guðni Þ. Gunnarsson frá Íslenskum endurskoðendum fór yfir ársreikning S.S.S.

Ársreikningur var endurskoðaður án athugasemda og samþykktur í stjórn S.S.S. þann 1. apríl sl.

  • Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.

Fundarstjóri gaf orðið  laust um skýrslu stjórnar og ársreikning.  Til máls tók Guðbrandur Einarsson með fyrirspurn varðandi fjármálin.  Til máls tóku Guðni og Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri S.S.S.  Fundarstjóri bar upp ársreikning S.S.S.

Ársreikningur samþykktur samhljóða.

  • Umræður um skýrslur
  • Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja Heklan
  • Markaðsstofa Reykjaness

Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslurnar.  Enginn óskaði eftir að taka til máls.

  • Tillögur og ályktanir lagðar fram.

Fimm tillögur og ályktanir lagðar fram. Tillaga um breytingar á 1., 4. og 6. gr. samþykkta Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, lögð fram ásamt viðbót við samþykktirnar.

  • Kynning á Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og samstarfsverkefnum.

Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri kynnti Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. 

Hún fór yfir hlutverk Sambandsins sem er m.a. að efla samvinnu sveitarfélaga og sveitarstjórnarmanna.  Að efla búsetu og atvinnulíf á Suðurnesjum. Að vinna að sameiginlegum málum.  Að koma fram sem heild í sameiginlegum málum gagnvart ríkisvaldinu og öðrum og að fylgjast með nýjungum á sviði sveitarstjórnarmála.  Hún talaði um hagsmunagæslu og samstarf landshlutasamtaka.  Síðan fór hún yfir verkefni Sambandsins og önnur samstarfsverkefni þess.

Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóri kynnti Markaðsstofu Reykjaness.  Um 80 aðilar eru í markaðsstofunni sem greiða árgjald.  Hlutverk markaðsstofunnar er að hafa þekkingu og yfirsýn.  Stuðla að aukinni samhæfingu og stuðningi.  Vera leiðandi afl í markaðssetningu áfangastaða og þróun, drifkraftur þróunar og farvegur samtarfs.  Auk þess talaði hann um markaðssetningu ferðamannastaða og markaðsmál.  Hann talaði um samstarf Markaðsstofunnar og Geopark.  Eggert fór yfir leiðarljós í markaðssetningu og kynnti miðla Markaðsstofunnar.  Hann sýndi glæru um nýtingu hótelherbergja þar sem fram kemur að nýtingin hafi verið góð á árunum 2015/2016.  Síðan kynnti hann Geopark.  Í dag eru um 140 Geoparkar í heiminum.  Hann sagði að unnið hafi verið að einhverskonar jarðminjagarði á Reykjanesi síðan 1968.  Hann fór yfir verkefni Geopark og nefndi m.a. útgáfu fræðsluefnis, uppbyggingu jarðminjastaða auk áningarstaða, gestastofur, upplýsingastanda og talningu á áningarstöðum ásamt ýmsu öðrum mikilvægum verkefnum.  Hann talaði um verðmæti UNESCO staða og ávinninginn af því að hafa slíkan stað.  Að lokum kynnti hann verkefni sem framundan eru.

  1. Almenningssamgöngur

Unnar Steinn Bjarndal hrl.

Hann sagði frá málarekstri S.S.S. gegn Vegagerðinni.  Hann fór yfir forsögu málsins varðandi útboð S.S.S. á áætlunarleiðinni (Flugrútan) milli Flugstöðvar og höfuðborgarsvæðisins.  Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum ákvað að höfða mál á hendur Vegagerðinni og var það þingfest í október 2015.  Málið snýst um meintan hagnaðarmissi S.S.S. sem til tilkominn vegna aðgerða þáverandi Innanríkisráðherra sem ákvað einhliða að taka legginn FLE–KEF úr samningum sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum gerði við Vegagerðina.  Afturköllunin leiddi til tjóns fyrir S.S.S.  Unnar sagði frá matsgerð dómkvaddra matsmanna sem var lögð fram í júlí 2018.  Einnig kynnti hann aðferðafræði matsmanna og fór yfir niðurstöður þeirra.  Að lokum fór Unnar yfir hvert framhald málsins er og stöðu þess núna.

Unnar bauð fundarmönnum að koma með spurningar.  Til máls tók Guðbrandur Einarsson, Einar Jón Pálsson, Oddný Harðardóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Fundi frestað.

Laugardagur 8. september.

  1. Ávörp gesta.

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sveitarstjórnarmála.

Hann hóf mál sitt á því að óska nýjum sveitarstjórnarmönnum til hamingju með kjörið.  Hann talaði um endurnýjun í sveitarstjórnum á fjögurra ára fresti.  Rannsóknir sýna að um 60% sveitarstjórnarmanna snúa ekki aftur í sveitarstjórnir eftir kosningar.  Þetta telur ráðherrann að þurfi að skoða, hvað megi gera til að efla sveitarstjórnarstigið.  Hann sagði frá verkefnunum sem er verið að skoða í ráðuneytinu sem snýr að sveitarstjórnum og samstarfi þeirra.  Hann talaði um byggðaáætlun og byggðamál og nauðsyn þess að halda landinu í byggð og að lífsgæði séu þau sömu um land allt.  Hann talaði um störf án staðsetningar og jöfnun tækifæra landsmanna um störf á vegum ríkisins.  Ráðherrann talaði um þann mikilvæga málaflokk sem samgöngumál eru.  Hann fór yfir markmið samgönguáætlunar sem lögð verður fram á næstu dögum.  Að lokum sagði ráðherrann að hann væri bjartsýnn fyrir hönd Íslendinga en betur megi alltaf gera og það er markmið hans og ráðuneytis hans.

Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Mikil endurnýjun sveitarstjórnarmanna varð í sveitarstjórnarkosningum 2018, var endurnýjunarhlutfallið 58%.  Fram kemur að kynjahlutfallið hefur stór batnað.  Hann fjallaði um verkefni sem liggja fyrir Landsþingi sambandsins sem haldið verður í lok september á Akureyri, þar sem 154 sveitarstjórnarmenn eiga seturétt.  Guðjón fór yfir fjölmörg verkefni sem sambandið vinnur að m.a. eflingu sveitarstjórnarstigsins og endurskoðun reglna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.  Síðan ræddi hann hagvöxt á Íslandi árin 2000-2023 og fjármál sveitarfélaga auk samstarfs við ríkið.  Guðjón fór yfir árangur í hagsmunagæslu, byggðaáætlun og ástandið í kjaramálum og horfur þar framundan.  Síðan fjallaði Guðjón um náttúrvernd og orkumál sem þarfnast umræðu en er jákvæð þróun.  Að lokum var hann með upptalningu á brýnum verkefnum Sambandsins sem unnið er að og framundan eru.

  1. Jarðvá á Reykjanesi.

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ.

Hann ræddi um eldfjalla vá á Reykjanes á sjó og á landi. Verulegar líkur eru á að við fáum hraungos á Reykjanesi í náinni framtíð. Hann fór yfir eldvirkni á Reykjanesskaga á síðastliðnum 3500 árum og svo á sögulegum tíma. Eldgosa vá getur verið að margvíslegum toga og margt sem þarf að huga að og hvernig á að bregðast við ef til eldgoss kemur. Hann kynnti VeTools verkfenið sem er gagnagrunnur og tól og tæki til að meta hættu á eldgosum. Megin áherslur verkefnisins er að setja upp og reka nettengdan forritapakka hannaðan til að meta og halda utan um eldfjalla vá. Hann fjallaði um mikilvægi innviða á Reykjanesi og staðsetningu þeirra gagnvart eldstöðvum.

Fyrirspurn kom frá Fannar Jónassyni.

  1. Ný persónuverndarlög

Hrefna Gunnarsdóttir persónuverndarfulltrú.

Hún hóf mál sitt á yfirferð yfir löggjöfina og hugtök sem upp koma í sambandi við persónuverndarlögin. Hún talaði um meginreglur um vinnslu, öryggisreglur og ábyrgðaraðila einnig talaði hún um réttindi einstaklinga. Hrefna fór yfir það  hvað þetta þýðir  fyrir sveitarfélögin og nefndi hún  m.a. fræðsluskyldu, persónuverndarstefnu, upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga og aðgang að gögnum. Hún fjallaði um öryggis bresti og hvað á að gera komi slík brot upp og viðurlögin við því, sem geta verið háar fjársektir. Fyrirspurn kom frá Áshildi Linnet.

Matarhlé

  1. Fullveldi Íslands 1918-2018

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, verkefnastjóri. Fullveldi Íslands 1918-2018.

Hún sagði frá verkefni afmælisnefndarinnar á afmælisárinu, hvað hefur verið gert og hvað er fram undan. Verkefnin sem afmælisnefndin hefur komið að eru mörg og fjölbreytt. Hún talaði um heimasíðu afmælisnefndar þar sem mikið er af gögnum og fræðsluefni  að finna fullveldi1918.is. Fjölbreytt dagskrá á afmælisárinu hefur farið fram um allt land. Fögnum saman 100 ára fullveldi eru einkunnarorð afmælisnefndarinnar. 

  1. HS Orka

Jóhann Snorri Sigurbergsson frá HS Orku.

Hvað er fram undan.  Hann byrjaðar á að fara yfir þróunarverkefni og talaði síðan um verkefni sem fyrirtækið er að vinna í núna og eru í fullum gangi. Hann talaði um framtíðarvatnsból,  bætt öryggi fyrir sveitarfélög á Suðurnesjum og rannsóknarboranir. Að lokum fjallaði hann um sýn HS Orku á vindorku og tækifæri í uppsetningu vindmylla.

Fyrirspurnir komu frá Ásgeir Eiríkssyni, Vilhjálmi Árnasyni, Friðjóni Einarssyni, Silju Dögg Gunnarsdóttur og Jóhanni Friðriki Friðrikssyni.

Kaffihlé

  1. Flutningskerfið og raforkuöryggi á Suðurnesjum.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Hann fór efnislega yfir stöðu raforkukerfisins á SV-landi, eins og hún er. Á Reykjanesi vantar hringtengingu sem er afar mikilvæg hvað varðar afhendingaröryggi. Hann talaði um framtíðina á Suðurnesjum og  ýmsa uppbyggingu stórnotenda á svæðinu. Hann talaði um veikleika í kerfinu á Reykjanesi og við hvað við búum í þeim efnum. Hann talaði um þróun á Suðurnesjum í orkuflutningum og orkunotkun vegna fjölgunar orkufrekra fyrirtækja. Guðmundur sagði að frekari afhendingarmöguleikar séu ekki fyrir hendi miðað við óbreytt ástand.  Að lokum talaði hann um Suðurnesjalínuna og áskoranir sem þurfa að ganga upp til að verkefnið getið gengið eftir.

Fundarmenn höfðu fjölmargar spurningar sem komu upp í erindi ræðumanns, sem hann svaraði jafnóðum.  

  1. Ályktanir og umræða.

Ályktun um fjárframlög til ríkisstofnana á Suðurnesjum

Lögð fram á 42. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Grindavík.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 7.-8. september 2018 leggur áherslu á að ríkisvaldið tryggi aukningu á fjárframlögum til ríkisstofnana á Suðurnesjum í takt við mannfjöldaaukningu á svæðinu.

Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg fólksfjölgun á Suðurnesjum sem skýrist að miklu leyti af verulega auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli.  Þannig voru íbúar Suðurnesja 21.560 árið 2014 en í júní 2018 voru þeir 26.268.  Í Reykjanesbæ sem er stærsta einstaka sveitarfélagið á Suðurnesjum hefur fjölgunin verið mjög mikil eða úr 14.254 íbúum árið 2014, í 18.510 júní 2018. Hlutfallslega er fjölgun íbúa á landinu langmest á Suðurnesjum.

Íbúafjöldi landsins hefur frá árinu 2000 aukist um 19% eða um 53.480 manns.  Meginhluti þessarar aukningar er á höfðaborgarsvæðinu og Suðurnesjum eða 64%.  Fjölgun íbúa á Suðurnesjum á þessum tíma er 24%.  Ef skoðuð eru árin 2013-2017 fjölgaði íbúum á Suðurnesjum um 21%, meðan íbúum á Suðurlandi fjölgaði um 11% og íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 8%.  Á árunum 2016-2017 hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað um 15%.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum var á bilinu 12-13 % á árunum 2009-2011 og því um 4-5 prósentustigum yfir landsmeðaltali.  Frá árinu 2012 hefur dregið hratt úr atvinnuleysi og var það komið niður fyrir 6% árið 2014.  Í gögnum frá Vinnumálastofnun má sjá að atvinnuleysi hafi enn verið mest á Suðurnesjum á árinu 2015 þó svo það hafi lækkað mikið síðustu misseri og var að jafnaði um 4% á árinu 2015.  Á árinu 2016 var atvinnuleysi á Suðurnesjum 2% og hefur haldist þar þannig að frekari eftirspurn eftir vinnuafli verður mætt með enn frekari fjölgun fólks inn á svæðið.

Fulltrúar sveitarstjórna á Suðurnesjum hafa lýst yfir áhyggjum vegna þessa þar sem fólksfjölgun á svæðinu hefur verið langt umfram meðaltalsfjölgun á landinu öllu en aukning fjárframlaga ríkisins til stofnana og verkefna á svæðinu hefur á engan hátt fylgt þeirri þróun.

Í áætlanagerð ríkisins virðist ekki vera tekið nægjanlegt tillit til þess ef óvenju mikil fólksfjölgun verður á einstökum svæðum. Af þeim sökum er lagt til að m.a. verði skoðað sérstaklega fjárframlög ríkisins til opinberra stofnana og annarra mikilvægra verkefna á svæðinu til þess að íbúar búi við sömu þjónustu og íbúar annarra svæða landsins. Má t.d. geta þess að fjáraukning til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var 1% á ári með 0,5% hagræðingarkröfu á meðan íbúum svæðisins fjölgaði um 15%.

Fundurinn skorar á ríkisvaldið að tryggja að framlög til ríkisstofnana á svæðinu, t.d. Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Lögreglunnar á Suðurnesjum fylgi þróun mannfjölda á svæðinu.

Fundarstjóri gaf orðið laust.  Enginn óskaði eftir að taka til máls.  Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða.

Ályktun um samgöngumál.

Lögð fram á 42. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Grindavík.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 7.-8. september 2018 leggur áherslu á að ráðist verði í nauðsynlegar samgönguframkvæmdir á Suðurnesjum og felur stjórn Sambandsins að funda með ráðherra samgöngumála við fyrsta mögulega tækifæri til að fara yfir áhersluatriði Suðurnesjamanna í samgöngumálum.  Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum eru sammála um að leggja áherslu á eftirfarandi verkefni:

  • Ljúka þarf tvöföldun Reykjanesbrautar og huga að öryggi vegtenginga.
  • Tryggja þarf öryggi á Grindavíkurvegi með því að ljúka framkvæmdum á vegi frá Reykjanesbraut að þéttbýlinu í Grindavík.
  • Nauðsynlegt er að ráðast í löngu tímabærar viðhaldsframkvæmdir á þjóðvegunum að nýsameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis auk þess sem breikka þarf veginn á milli bæjarkjarnanna.
  • Sveitarfélögin, Vegagerðin og Isavia þurfa að vinna saman að því að auka möguleika fólks til að ferðast fótgangandi og á hjólum á Suðurnesjum með uppbyggingu stígakerfis bæði á milli byggðarkjarna og að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
  • Tryggja þarf að stuðningur ríkisins til uppbyggingar hafna sé í samræmi við samþykkt Svæðisskipulag Suðurnesja þannig að hægt sé að halda áfram uppbyggingu stórskipahafnar í Helguvík og tryggja stöðu Grindavíkurhafnar og Sandgerðishafnar sem fiskihafna.
  • Auka þarf framlög til vetrarþjónustu á þjóðvegum á Suðurnesjum þannig að hún sé í samræmi við verklagsreglur Vegagerðarinnar um aukna umferð.
  • Mikilvægt er að landshlutasamtök fái nægt fjármagn til að hægt sé að reka almenningssamgöngur án halla enda eru þær grundvöllur fyrir því að Suðurnesin geti talist eitt atvinnusvæði og fólk komist til og frá vinnu á stærstu vinnustöðum svæðisins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og í Bláa lóninu.
  • Stærsta og mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar er alþjóðlegur flugvöllur á Miðnesheiði og tryggja þarf að starfsemi og nauðsynleg uppbygging þar geti verið í samræmi við þarfir íslensks samfélags.
  • Hugmyndir um nýjan innanlandsflugvöll í Hvassahrauni hafa verið settar fram án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við sveitarfélög eða aðra aðila á Suðurnesjum.  Þau vinnubrögð eru harðlega gagnrýnd og er gerð krafa um að Suðurnesjamenn fái aðkomu að vinnu við að skoða framtíð flugsamgangna á SV-horninu.  Mikilvægt er að samfélagslegir hagsmunir sem og umhverfishagsmunir séu skoðaðir og metnir og málið sé skoðað frá öllum hliðum áður en ákvörðun um framtíðarstæði nýs flugvallar verði tekin ef til þess kemur.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku Áshildur Linnet, Friðjón Einarsson og Björn Sæbjörnsson, sem lagði fram breytingartillögu.

Fundarstjóri bar upp breytingartillöguna og var hún samþykkt samhljóða. Fundarstjóri bar upp ályktunina með áorðnum breytingum og var hún samþykkt samhljóða í heild sinni.

Ályktun um almenningssamgöngur

Lögð fram á 42. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Grindavík.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 7.-8. september 2018 leggur áherslu á að tryggðar séu öruggar og hagkvæmar almenningssamgöngur á milli þéttbýliskjarnar á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðisins.

Samningur Vegargerðarinnar og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum rennur út um áramótin 2018-2019.  Ekki liggur ljóst fyrir hverjir taka við rekstri almenningssamganga um áramótin.  Almenningssamgöngur eru mikilvæg þjónusta fyrir íbúa Suðurnesja og er nauðsynlegt að tryggja að áframhald verði á þeirri þjónustu.

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur séð um skipulagningu almenningssamgangna á Suðurnesjum frá árinu 2012 samkvæmt samningi við Vegagerðina.  Ljóst er að nú þegar samningurinn er að renna út, að fjárframlög sem fylgdu með samningum duga ekki á nokkurn hátt til að reka verkefnið með sjálfbærum hætti.  Í lok árs 2017 var halli á rekstrinum upp á rúmar 73 m.kr., sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur lagt út fyrir.

Fram kemur í markmiðum Stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 að skilgreina eigi net almenningssamgangna og móta eigi reglur um niðurgreiðslu fargjalda.  Meðal verkefna Byggðaáætlunar er að styðja við áframhaldandi þróun almenningssamgangna um allt land.  Hvetur fundurinn ríkisvaldið til að fylgja þeim markmiðum sem það setti sér í Byggðaáætlun 2018-2024.

Fundurinn skorar á ríkisvaldið að bregðast við með því að gera upp hallareksturinn og að tryggja íbúum á Suðurnesjum öruggar og hagkvæmar almenningssamgöngur.

Fundarstjóri gaf orðið laust.  Enginn óskaði eftir að taka til máls.  Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða.

Ályktun um menntamál

Lögð fram á 42. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Grindavík.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 7.-8. september 2018 harmar viðvarandi skekkju á fjárframlögum til ríkisstofnana á Suðurnesjum.  Þetta birtist ekki síst í framlögum til menntastofnana á svæðinu sem mega sætta sig við mun lægri framlög en sambærilegar stofnanir.  Þannig eru framlög til Fjölbrautaskóla Suðunesja 1.456 þúsund krónur á hvern nemanda í fjárlagafrumvarpi ársins 2018 á meðan sambærilegir framhaldsskólar annars staðar á landsbyggðinni fá að jafnaði um 1.672 þúsund á hvern nemanda.  Þetta er óásættanleg mismunun.

Tryggja verður að rekstrarumhverfi Keilis verði lagfært eins og ítrekað hefur verið lofað og farið er fram á að Keilir fái afgreiddar óskir um námsbraut til tölvuleikjagerðar.

Þá er áhyggjuefni að framlög til Þekkingarsetra og símenntunar eru langlægst á Suðurnesjum.

Fjölgun íbúa á Suðurnesjum er meiri heldur en á öðrum landsvæðum, sem og er samsetning íbúa fjölbreyttari m.t.t. fjölda þjóðerna en á öðrum landssvæðum.  Það felur í sér krefjandi verkefni sem kalla á að menntastofnanir geti sinnt hlutverki sínu.  Því skorar aðalfundurinn á ríkisvaldið og þingmenn Suðurkjördæmis að tryggja að menntastofnanir á Suðurnesjum sitji við sama borð og stofnanir á öðrum landsvæðum þegar kemur að framlögum úr ríkissjóði

Fundarstjóri gaf orðið laust.  Enginn óskaði eftir að taka til máls.  Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða.

Ályktun um fjárframlög til Reykjanes Geopark.

Lögð fram á 42. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Grindavík.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 7.-8. september 2018 leggur áherslu á að ríkisvaldið tryggi fjárframlög til Reykjanes Geopark.

Reykjanes UNESCO Global Geopark er hluti af áætlun UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem nefnist International Geoscience and Geoparks Programme (IGGP).  Áætlunin er ein af þremur stóru áætlunum UNESCO ásamt World Heritage List (Heimsminjaskrá UNESCO) og Man and the Biosphere Programme (Verndarsvæði lífhvolfa).

Geopark er heiti samfelldra landfræðilegra svæða, þar sem minjar og landslag hafa alþjóðlegt jarðfræðilegt mikilvægi og er stjórnað eftir heildrænni stefnu um verndun, fræðslu og sjálfbæra þróun.

Alls eru í dag 127 geoparkar í 35 löndum viðurkenndir af UNESCO.  Tvö íslensk svæði eru á umræddum lista (Reykjanes og Katla Geopark).

Samkvæmt fjárlögum sem samþykkt voru í desember 2016 fyrir árið 2017 kemur Katla Geopark til með að fá samtals 100 milljónir króna á næstu fimm árum.  Ekki er gert ráð fyrir sambærilegu framlagi til Reykjanes Geopark.  Það er gleðilegt að ríkið viðurkenni mikilvægi geoparka með þessum hætti og framlagið á eftir að nýtast samstarfsfólki okkar í Kötlu Geopark vel á næstu árum.  Það er hins vegar erfitt að hugsa til þess að Reykjanes Geopark verður á árinu 2018 eina íslenska svæðið á áðurnefndum listum UNESCO sem ekki er á fjárlögum (hin svæðin eru Katla Geopark, Þingvellir og Surtsey).

Í dag er t.d. enginn starfsmaður á launaskrá hjá Reykjanes Geopark en helst þyrftu að vera 2-3 starfsmenn til að sinna öllum þeim verkefnum sem við vildum geta sinnt, m.a. stuðla að aukinni verndun náttúru- og menningarminja, uppbyggingu innviða, aukinni fræðslu og stefnumótun fyrir jarðvanginn.  Slíkur stuðningur mun tryggja að Reykjanes Geopark verði áfram á lista UNESCO.

Fundurinn skorar á ríkisvaldið að tryggja fjárframlög til Reykjanes UNESCO Geopark til jafnræðis við Kötlu Geopark.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tók Ólafur Þór Ólafsson.  Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða.

Samþykktir fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum

1. grein

Sveitarfélögin á Suðurnesjum, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar eiga með sér samband undir nafninu Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, skammstafað S.S.S.

Tillaga að breytingum

Sveitarfélögin á Suðurnesjum, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis og Sveitarfélagið Vogar eiga með sér samband undir nafninu Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, skammstafað S.S.S.

Heimili og varnarþing þess skal vera í því sveitarfélagi þar sem aðalskrifstofa S.S.S. er á hverjum tíma.


2. grein

Markmið sambandsins eru:

  • Að vinna að hagsmunum aðildarsveitarfélaga
  • Að efla samvinnu sveitarfélaga og sveitarstjórnarmanna
  • Að efla búsetu og atvinnulíf á Suðurnesjum
  • Að vinna að sameiginlegum málum er löggjafinn kann að fela því
  • Að koma fram sem heild í sameiginlegum málum gagnvart ríkisvaldinu og öðrum
  • Að fylgjast með nýjungum á sviði sveitarstjórnarmála, jafnt innanlands sem erlendis

Kostnaður við rekstur sambandsins skal greiddur miðað við höfðatölu 1.okt. ár hvert.

3. grein

Stefna sambandsins í einstökum málaflokkum skal ákvörðuð á aðalfundi eða sambandsfundi í samræmi við markmið sambandsins.

4. grein

Aðalfundur skal að jafnaði haldinn í októbermánuði ár hvert nema á kosningaári, þá eigi síðar en 15. september.  Til fundar skal boða með dagskrá með minnst einnar viku fyrirvara.  Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirfarandi mál:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Endurskoðaður ársreikningur síðasta árs lagður fram til samþykktar.
  3. Stjórn sambandsins tilnefnd.
  4. Kosning endurskoðanda eða endurskoðendafyrirtækis.
  5. Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.
  6. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin.

Halda skal sambandsfund í mars ár hvert.  Á þeim sambandsfundi skulu tekin fyrir þau málefni sem stjórn ákveður hverju sinni.

Tillaga að breytingu

Halda skal sambandsfund fyrri hluta hvers árs.  Á þeim sambandsfundi skulu tekin fyrir þau málefni sem stjórn ákveður hverju sinni.

Aðra sambandsfundi skal halda þegar stjórn þykir þurfa, eða ein eða fleiri sveitarstjórn eða sjö eða fleiri sveitarstjórnarmenn krefjast þess skriflega, enda sé þá greint frá hvert fundarefni skuli vera.

Allir kjörnir fulltrúar á svæðinu eiga rétt til setu á aðal- og sambandsfundum.  Enn fremur eiga bæjarstjórar og stjórnarmenn S.S.S. rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti og sama gildir um framkvæmdastjóra S.S.S.


5. grein

Aðal- og sambandsfundir eru ályktunarbærir ef löglega er til þeirra boðað.  Sambandsfundur er ályktunarbær ef 2/3 hlutar fulltrúa eru mættir en 2/3 hlutfall þeirra þarf til að samþykkja ályktanir.  Ályktanir um fjárhagsmál eru þó ætíð háðar samþykki hverrar sveitarstjórnar.  Þó er stjórn S.S.S. heimilt að samþykkja tilfærslu innan samþykktrar fjárhagsáætlunar samstarfsins.

6. grein

Stjórn sambandsins, sem annast málefni þess á milli funda, skal skipuð fimm mönnum og fimm til vara, sem tilnefndir eru af sveitarstjórnunum, einn frá hverri, og skulu tilnefningar liggja fyrir á aðalfundi.  Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund.

Tillaga að breytingu:

Stjórn sambandsins, sem annast málefni þess á milli funda, skal skipuð fjórum mönnum og fjórum til vara, sem tilnefndir eru af sveitarstjórnunum, einn frá hverri, og skulu tilnefningar liggja fyrir á aðalfundi.  Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund.

Fundarboð stjórnar ásamt fylgigögnum skal senda til allra kjörinna sveitarstjórnarmanna á starfssvæði S.S.S.  Heimilt er að senda fundarboð með rafrænum hætti með minnst fjögurra daga fyrirvara.  Þeim kjörnum fulltrúum, er ekki eiga sæti í stjórn sambandsins er heimilt að koma að athugasemdum við þau mál sem eru á dagskrá með minnst tveggja daga fyrirvara.

Framkvæmdarstjóri í umboði formanns stjórnar boðar til stjórnarfunda.  Fundarboð stjórnar ásamt fylgigögnum skal senda til allra kjörinna sveitarstjórnarmanna á starfssvæði S.S.S.  Heimilt er að senda fundarboð með rafrænum hætti með minnst fjögurra daga fyrirvara.  Þeim kjörnum fulltrúum, er ekki eiga sæti í stjórn sambandsins er heimilt að koma að athugasemdum við þau mál sem eru á dagskrá með minnst tveggja daga fyrirvara.

Fundi stjórnar má halda í rafrænu fundarkerfi þegar það á við að mati formanns stjórnar og framkvæmdarstjóra.

Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfunda.  Sama rétt á framkvæmdastjóri.

Formaður stjórnar hefur heimild til að boða til skyndifundar með skemmri fyrirvara en starfsreglurnar kveða á um, enda sé það mat hans að málefni, sem ræða skal á fundinum þoli ekki bið.

Ef stjórn S.S.S. samþykkir að taka upp samstarf um einstaka málaflokka og kostnaður við viðkomandi verkefni er hærri en 5% af heildarútgjöldum S.S.S. á ársgrundvelli, skal bera það upp til samþykktar í sveitarstjórnum allra aðildarsveitarfélaga.

Stjórn S.S.S. getur ekki bundið aðildarsveitarfélögin nokkrum fjárhagsskuldbindingum, sem eru utan staðfestrar fjárhagsáætlunar eða er umfram ráðstöfunarheimildir stjórnar, nema með formlegu samþykki allra aðildarsveitarfélaga.

Tillögum stjórnar S.S.S. um þau mál sem falla utan fjárhagsáætlunar, svæðisskipulags eða samstarfsverkefna og eru umfram ráðstöfunarheimildir stjórnar skal komið án tafar til sveitarstjórna til afgreiðslu eða umsagnar.

Samþykktir stjórnar skulu því aðeins ná fram að ganga að þær séu studdar af aðilum sem bera meirihluta kostnaðar við rekstur sambandsins og hafa meirihluta í stjórn þess.


7. grein

Stjórn sambandsins er heimilt að ráða framkvæmdastjóra til að sjá um daglegan rekstur og sér framkvæmdastjóri um að ráða annað starfsfólk.

8. grein

Sambandið skal annast samræmingu á fjárhags- og framkvæmdaáætlunum sameiginlega rekinna verkefna og stofnana sveitarfélaganna.  Stjórnir sameiginlegra verkefna og stofnanna er heyra ekki beint undir S.S.S., bera ábyrgð á gerð eigin fjárhagsáætlana sem og að framfylgja þeim.

Fyrir lok septembermánaðar ár hvert skulu stjórnir sameiginlega rekinna verkefna og stofnana sveitarfélaganna senda stjórn S.S.S. tillögur að fjárhags- og framkvæmdaáætlunum sínum fyrir næsta ár.


Samráðshópur skipaður stjórn S.S.S. og öllum bæjarstjórum á svæðinu skal yfirfara frumvörpin og gera tillögu um afgreiðslu þeirra í síðasta lagi fyrir 15. október.

Fyrir 1. nóvember skal stjórn S.S.S. afgreiða frumvörpin til sveitarstjórnanna og stjórna stofnananna.

Heimilt er stjórnum sameiginlega rekinna fyrirtækja og stofnana að leita til samráðshópsins um ráðgjöf í sambandi við undirbúning fjárhags- og framkvæmdaáætlana.

9. grein

Samþykktum þessum verður eingöngu breytt á aðalfundi, enda hljóti tillaga þar um samþykki minnst 3/4 hluta atkvæða.  Tillögur til breytinga skulu hafa borist stjórn sambandsins eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund.  Tillögur að breytingum á samþykktum skal senda út með fundardagskrá.

10. grein

Kjósi sveitarfélag að hætta þátttöku í sambandinu, skal tilkynna það stjórn eigi síðar en sex mánuðum fyrir aðalfund og tekur úrsögnin gildi um næstu áramót á eftir.  Á kosningarári skal úrsögn tilkynnast fyrir 1. júlí.  Við úrsögn skal reikna út eignarhlut eða skuld sveitarfélagsins í samtökunum.  Fjárhagslegt uppgjör skal vera í hlutfalli við íbúafjölda miðað við 1.desember það ár sem úrsögn er tilkynnt.  Hætti sveitarfélag þátttöku í sambandinu þá skal jafnframt fara fram endurskoðun á samþykktum þess.

11. grein

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum verður ekki lagt niður nema tveir löglega boðaðir aðalfundir samþykki það með 2/3 hlutum atkvæða.  Aðalfundirnir skulu haldnir með a.m.k. þriggja mánaða millibili.  Tillaga að slitum sambandsins skal fylgja fundarboði.  Áður en seinni fundurinn er haldinn skal afstaða aðildarsveitarfélaga til slitanna liggja fyrir.  Til þess að slit á sambandinu nái fram að ganga þurfa 2/3 hlutar sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga að staðfesta þau.

Fundarstjóri bar upp tillögu að breytingu við 1. gr. Fundarstjóri gaf orðið laust. Enginn óskað eftir að taka til máls.  Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar upp tillögu að breytingu við 4. gr.  Fundarstjóri gaf orðið laust.  Enginn óskað eftir að taka til máls.  Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar upp tillögu að breytingu við 6. gr.  Fundarstjóri gaf orðið laust.  Enginn óskað eftir að taka til máls.  Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar upp tillögu að viðbót við samþykktirnar.  Fundarstjóri gaf orðið laust.  Enginn óskaði eftir að taka til máls.  Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar upp samþykktirnar í heild sinni með áorðnum breytingum.  Var það samþykkt samhljóða.

  1. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær:

Aðalmaður:     Kolbrún Jóna Pétursdóttir     

Varamaður:    Jóhann Friðrik Friðriksson

Grindavíkurbær:        

Aðalmaður:     Hjálmar Hallgrímsson

Varamaður:    Guðmundur Pálsson

Sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis:          

Aðalmaður:     Einar Jón Pálsson

Varamaður:    Ólafur Þór Ólafsson

Sveitarfélagið Vogar:

Aðalmaður:     Ingþór Guðmundsson

Varamaður:    Birgir Örn Ólafsson

  1. Kosning endurskoðendafyrirtækis

Samkvæmt útboði sem gert var árið 2015 var endurskoðun bókhalds Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum boðin út til 5 ára.

Lægst bjóðandi voru Íslenskir endurskoðendur og er því lagt til að Íslenskir endurskoðendur verði kjörið endurskoðunarfyrirtæki Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Tillagan samþykkt.

  • Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.

Lagt er til að þóknun til stjórnarmanna S.S.S. verði sem hér segir;

Formaður stjórnar 6% af þingfarakaupi eða kr. 66.072 fyrir hvern fund.  Aðrir stjórnarmenn 4% af þingfarakaupi eða kr. 44.048 fyrir hvern fund. Lagt er til að þóknun fyrir aðra fundi en stjórnarfundi verði 3% eða kr. 33.036.

Tillagan samþykkt.

  • Guðmundur Pálsson formaður sleit fundi kl. 15.45.

 Björk Guðjónsdóttir, fundarritari aðalfundar.