Aðlögun að breyttum heimi
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og innviðaráðuneytið, standa ásamt Veðurstofu Íslands, Byggðastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg að fræðsluviðburðinum „Aðlögun að breyttum heimi – hefjum samtalið“ sem nú fer fram á Grand hótel, en er jafnframt aðgengilegt í beinu streymi hér fyrir neðan.
Umfjöllunarefni fundarins eru áhrif loftslagsbreytinga á byggðir landsins og íslenskt samfélag, sem og sú vinna sem framundan er til þess að aðlaga innviði okkar, atvinnuvegi og samfélög að þeim breytingum sem vænta má.
Þeir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra flytja ávörp á fundinum, en á viðburðinum verða einnig erindi frá Byggðastofnun, Veðurstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun og innlegg frá fulltrúum sveitarfélaga.