fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

22. fundargerð Svæðisskipulags Suðurnesja

22. fundur

22. fundur Svæðisskipulagsnefndar Suðurnesja sem haldinn var þriðjudaginn 24. mars 2020, kl. 16:00. Fundurinn er haldinn í fjarfundarbúnaði Microsoft Teams  og er það gert skv. lögum nr. https://www.althingi.is/altext/150/s/1102.html.

Mætt eru: Ólafur Þór Ólafsson, Jón Ben Einarsson, Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, Áshildur Linnet, Sveinn Valdimarsson, Gunnar K. Ottósson, Kristinn Benediktsson, Guðmundur Pálsson, Jón B. Guðnason, Ásgeir Eiríksson, Lilja Ósk Sigmarsdóttir og Berglind Kristinsdóttir sem jafnframt ritaði fundargerð.

Guðmundur Björnsson boðaði forföll.

Ólafur Þór Ólafsson formaður setti fundin og bauð fundarmenn velkomna. 

Dagskrá:

  1. Undirritun fundargerðar nr. 21, dags. 05.12.2019.

Fundargerðin hafði áður verið sent með rafrænum hætti til samþykktar og var samþykkt samhljóða. Undirritun fer fram þegar hægt verður að halda sameiginlegan fund með öllum fulltrúum viðstöddum.

  • Erindi frá Sveitarfélaginu Vogum, dags. 7.febrúar 2020. Efni: Skipulags-og matslýsing vegna aðildarskipulags Sveitarfélagsins Voga 2020-2040, ósk um umsögn.

Svæðisskipulagsnefndin gerir ekki athugasemdir við skipulags- og matslýsingu Sveitarfélagsins Voga.

  • Fundargerð starfshóps um nýtt vatnsból nr.2, dags. 21.01.2020.

Formaður gerði grein fyrir fundi starfshópsins. Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja er sammála um mikilvægi þess að H.E.S. hafi aðkomu að málinu og er ritara falið að bjóða fulltrúa Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja setu í hópnum.

  • Breytingartillaga á Svæðisskipulagi Suðurnesja.

Tillaga að breytingu á Svæðisskipulagi Suðurnesja 2008-2024 hefur verið samþykkt í samræmi við 2. mgr. 25. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt tillaga hefur verið send Skipulagsstofnun til staðfestingar skv. 3. og 4. mgr. sömu lagagreinar. Ritara er falið aðauglýsa niðurstöðu svæðisskipulagsnefndar og senda viðbrögð nefndarinnar til þeirra sem sendu inn umsagnir og athugasemdir.

  • Endurskoðun á Svæðisskipulagi Suðurnesja.

Frá staðfestingu Svæðisskipulags Suðurnesja 2008-2024 hafa orðið margvíslegar breytingar á mikilvægum forsendum sem snúa að Suðurnesjum. Vegna þessara breytinga telur svæðisskipulagsnefndin mikilvægt að endurskoða stefnu svæðisskipulagsins. Þessar breytingar eru m.a.:

• Mikil fjölgun hefur orðið á fjölda íbúa á Suðurnesjum, sem hefur m.a. áhrif á þróun byggðarkjarna, aldursdreifingu og búsetuþróun.

  • Mikilvægt er að ræða hvort setja eigi fram stefnu um íbúðabyggð s.s. um framboð, tegund húnsnæðis, verð og tímabundnar lausnir.

• Mikil uppbygging ferðaþjónustu hefur áhrif á landnýtingu, sem mikilvægt er að líta til. Samhliða því hafa sveitarfélögin unnið saman að Reykjanesi jarðvangi. Með uppbyggingu ferðaþjónustu, stækkun Keflavíkurflugvallar og breytingar á hlutdeild atvinnugreina á svæðinu er rétt að endurmeta stefnu sveitarfélaga um umfang og eðli sameiginlegra atvinnusvæða.

  • Sameiginleg atvinnusvæði skv. svæðisskipulagi. Hvernig hefur stefna um þau gengið eftir? Er þörf á að endurskoða stefnu, skerpa á stefnu, breyta afmörkun svæða og áherslum fyrir hvert svæði?
  • Skilgreina í samvinnu við Jarðvanginn þau verkefni sem mikilvægt er að falli undir landsáætlun um uppbyggingu ferðamannastaða.
  • Fara yfir og endurskoða þá nauðsynlegu innviði sem þarf til að atvinna á Suðurnesjum geti vaxið og þróast s.s. samgöngur, raforka og mannauður.

• Umsvif Keflavíkurflugvallar, sem hefur vaxið geysilega á undanförnum árum og hefur margvísleg áhrif á efnahagslega og samfélagslega þróun svæðisins.

  • Nýta fyrirliggjandi greiningar á sviðsmyndum fyrir Keflavíkurflugvöll.

• Undirbúningur er hafinn að afmörkun framtíðarvatnsbóls Suðurnesja, sem er mikilvægt að komi fram í svæðisskipulagi Suðurnesja.

  • Hluti af því að endurskoða vatnsvernd á Suðurnesjum er að fara yfir stjórnsýslu vatnsverndarmála og tryggja skilvirkni hennar.

• Landsskipulagsstefna 2015-2026 hefur tekið gildi, sem mikilvægt er að líta til við framtíðarstefnu Suðurnesja.

• Sameining Sveitarfélagsins Garðs og Sandgerðisbæjar.

Auk ofangreindra þátta þarf að taka til skoðunar eftirfarandi viðfangsefni:

• Náttúruvá og veðurvá

  • Móta stefnu um viðbrögð og aðgerðir í tengslum við náttúruvá og veðurvá á Suðurnesjum, sem tengist skipulagsmálum. Nýta góða greiningu Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Suðurnesin, og vinnu Veðurstofunnar þar sem á að meta berskjöldun svæða á vestanverðum Reykjanesskaga fyrir hraunflæði, gjóskufalli og gasmengun af völdum eldsumbrota á eldstöðvakerfum Reykjaness/Svartsengis og Krýsuvíkur m.t.t. innviða og íbúa.
  • Nýjustu skýrslur Veðurstofunnar um aftakaveður á Reykjanesi.

• Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

• Loftslagsstefna fyrir Suðurnesin

  • Skilgreina aðgerðir sem sveitarfélögin getu unnið að í sameiningu s.s. hvað varðar samgöngur og framkvæmdir, skilgreint svæði fyrir skógrækt og x.
  • Innleiða eftir þörfum aðgerðaráætlun stjórnvalda.

• Aðgerðaráætlun ríkisstjórnar

  • Fara yfir þær 39 framkvæmdir sem snúa að Suðurnesjum og tryggja að sameiginlegur skilningur sé á ávinningi og skipulagsmál séu í farvegi til að stuðla að framgangi viðkomandi framkvæmda.

• Áherslur í endurskoðun á aðalskipulagsáætlunum sveitarfélaga.

• Ný gögn Náttúrufræðistofnunar um vistgerðir, mikilvæg fuglasvæði, strandlengju o.fl.

  • Áfangastaðaáætlun fyrir Reykjanes, DMP.
  • Vottun Reykjanes sem UNESCO Geopark.
  • Áætlaður kostnaður vegna endurskoðunar.

Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja tók saman áætlaðan kostnað við endurskoðun á svæðisskipulaginu í ársbyrjun 2019. Áætlað var að kostnaður gæti numið allt að kr. 26 m.kr. og hlutur aðila í svæðisskipulaginu væri 50% á móti Skipulagsstofnun eða 13 m.kr.

Kostnaður hlutaðeigandi í Svæðisskipulagi Suðurnesja skiptist eftirfarandi á móti Skipulagsstofnun.

Endurskoðun Svæðisskipul.Heildar-kostnReykjanes- bærSuðurnb.Grindavb.Svfl.VogarSkipul.KEF.LHG.
50% á móti Skipulags.13.000.0005.785.000,-1.794.000,-2.041.000,-1.287.000,-1.053.000,-1.040.000,-

Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja samþykkir að hefja endurskoðun við Svæðisskipulag Suðurnesja. Nefndin samþykkir að fela VSÓ ráðgjöf að vinna tillögu að lýsingu fyrir endurskoðun.

  • Erindi frá Grindavíkurbæ, dags. 21.febrúar 2020 er barst 19.03.2020. vegna tillögu að breytingu á aðalsskipulagi Grindavíkur 2018-2032, ósk um umsögn.

Svæðisskipulagsnefndin gerir ekki athugasemdir við tillögu að breytingu á aðalskipulagi Grindavíkur og telur að hún falli að svæðisskipulagi Suðurnesja.

  • Önnur mál.

Guðlaugur H. Sigurjónsson lagði til að skoðað yrði að fara í sameiginlega kortasjá fyrir öll sveitarfélögin á Suðurnesjum eins og gert hefur verið fyrir Suðurland. Ritara falið að vinna verkefnið áfram og óska eftir upplýsingum um verð og nánari lýsingu á verkefninu.

Formaður Svæðisskipulagsnefndar Suðurnesja skýrði frá því að hann væri að hverfa til annarra starfa þann 1. apríl n.k. og mun taka við starfi sem sveitarstjóri á Tálknafirði.

Svæðisskipulag Suðurnesja þakkar Ólafi Þ. Ólafssyni fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum og óskar honum velfarnaðar í nýju starfi.

Varaformaður Svæðisskipulagsnefndar Suðurnesjum, Áshildur Linnet mun boða næsta funda nefndarinnar og mun það verða fyrsta mál á dagskrá stjórnar að skipta með sér verkum.

Ekki er fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 17:00.